Mál nr. 31/2014
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA
í máli nr. 31/2014
Aðgangur að reikningi. Ljósrit.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með bréfi, dags. 8. maí 2014, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnt gagnaðili.
Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, en greinargerð barst ekki frá gagnaðila.
Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 8. september 2014.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls 31 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar að D. Ágreiningur er um aðgengi að reikningum gagnaðila.
Kröfur álitsbeiðanda eru:
I. Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að veita álitsbeiðanda aðgengi að tilteknum reikningi og fái að vita hvaða vinna tengist þeim reikningi.
II. Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi hafi heimild til að fá ljósrit af reikningnum.
III. Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi skuli fá endurgreidda hlutdeild sína og föður síns í reikningnum hafi hann verið tilefnislaus.
Í álitsbeiðni kemur fram að faðir álitsbeiðanda hafi átt íbúð þá sem hann býr í frá árinu 2005. Fyrst hafi faðir hans verið látinn greiða hlutdeild í reikningum til tiltekins einstaklings í gegnum húsfélagssjóð og síðan hafi álitsbeiðandi verið látinn greiða einstaklingnum virðisaukaskatt af reikningum í gegnum húsfélagssjóðinn. Þegar álitsbeiðandi hafi keypt íbúðina hafi hann tekið við öllum réttindum og skyldum sem faðir hans og fyrri eigendur höfðu.
III. Forsendur
Álitsbeiðandi hefur farið fram á að viðurkennt verði að hann fái að sjá frumrit tiltekins reiknings sem hann segir gagnaðila hafa greitt og nánari upplýsingar um vinnu tengda þeim reikningi. Samkvæmt álitsbeiðni er um að ræða reikning frá árinu 2006 en álitsbeiðandi hefur verið eigandi íbúðar í fjöleignarhúsinu frá árinu 2005. Gagnaðila var gefinn kostur að koma á framfæri greinargerð í málinu en engin andsvör bárust frá gagnaðila.
Í 6. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að stjórn og framkvæmdastjóra sé skylt að veita eigendum upplýsingar og skýringar um öll atriði er varða málefni húsfélagsins, rekstur þess, sameiginlegt viðhald, efnahag og fjárhagsstöðu. Skulu eigendur hafa rétt til að skoða bækur félagsins, reikninga og fylgiskjöl með hæfilegum fyrirvara en þó jafnan að viðstöddum stjórnarmanni. Gagnaðili hefur ekki mótmælt tilvist þess reiknings sem álitsbeiðandi vísar til og verður því við það miðað í máli þessu að ekki sé ágreiningur um tilvist hans. Með hliðsjón af framangreindu lagaákvæði telur kærunefnd að gagnaðili beri lögbundna skyldu til að heimila álitsbeiðanda að skoða nefndan reikning og veita upplýsingar um vinnu tengda honum.
Álitsbeiðandi hefur einnig farið fram á að viðurkennt verið að hann hafi heimild til að fá ljósrit af áðurnefndum reikningi. Í 6. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús er einungis kveðið á um heimild eigenda til að skoða gögn sem varða málefni húsfélags, jafnan að viðstöddum stjórnarmanni. Kærunefnd telur að í því felist að stjórninni beri ekki skylda til að veita afrit af gögnunum eða heimila frekari aðgang en skoðun. Það er því álit kærunefndar að gagnaðili hafi heimild til að hafna beiðni álitsbeiðanda um ljósrit af reikningnum.
Þá hefur álitsbeiðandi farið fram á að viðurkennt verði að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda hlutdeild hans og föður hans í reikningum komi í ljós að reikningurinn hafi verið tilefnislaus. Kærunefnd telur ekki unnt að taka afstöðu til þessarar kröfu álitsbeiðanda þar sem hún er byggð á óljósum forsendum og ekki ljóst hvort um raunverulegan ágreining sé að ræða. Þegar af þeirri ástæðu er þessari kröfu vísað frá kærunefnd.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að álitsbeiðandi skuli fá að skoða reikning gagnaðila og fá upplýsingar um vinnu tengda honum.
Það er álit kærunefndar að gagnaðili beri ekki lögbundna skyldu til að veita álitsbeiðanda ljósrit af reikningnum.
Kröfu álitsbeiðanda um mögulega endurgreiðslu reikningsins er vísað frá.
Reykjavík, 8. september 2014
Auður Björg Jónsdóttir
Karl Axelsson
Eyþór Rafn Þórhallsson