Fjármagnshöft afnumin
- Fjármagnshöft afnumin á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði
- Verulega dregið úr hættu á óstöðugleika gengis vegna útflæðis
- Seðlabankinn kaupir stóran hluta aflandskrónueigna
Öll fjármagnshöft á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði verða afnumin með nýjum reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál.
Þótt höftin hafi verið nauðsynleg hefur hlotist talsverður kostnaður af þeim, sérstaklega til lengri tíma litið. Fyrst um sinn höfðu þau töluverð áhrif á daglegt líf fólks. Atvinnulífið hefur einnig þurft að glíma við takmarkanir á fjárfestingu í erlendri mynt og skilaskyldu gjaldeyris. Einkum hefur það komið sér illa fyrir fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum og sprotafyrirtæki. Þá hefur höftunum fylgt umsýslukostnaður og ýmis óbeinn kostnaður.
Þrátt fyrir þetta hefur íslenskt efnahagslíf tekið við sér á síðustu árum. Greitt hefur verið úr stórum hluta vandans sem hrunið olli. Samhliða hefur verið losað um höftin í nokkrum skrefum. Árið 2015 var áætlun um losun hafta sett fram, sem meðal annars fólst í aðgerðum til lausnar á uppgjöri slitabúa með stöðugleikaframlögum og uppboði á krónum sumarið 2016. Aðgerðirnar nú eru næsti stóri áfanginn í þeirri áætlun.
Fjármagnsflæði að og frá landinu verður nú gefið frjálst og einstaklingar, fyrirtæki og lífeyrissjóðir geta fjárfest erlendis án takmarkana. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir lífeyrissjóði sem þurfa að dreifa áhættu af fjárfestingum sínum. Eftir afnám haftanna standa þó eftir varúðarreglur vegna vaxtamunarviðskipta og takmarkanir á afleiðuviðskipti með íslenskar krónur, sem eru þær tegundir spákaupmennsku sem urðu til þess að snjóhengja aflandskróna myndaðist.
Afnámið felst í því að Seðlabankinn nýtir heimild í lögum um gjaldeyrismál til að veita undanþágur frá þeim takmörkunum á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum sem nú gilda. Það gerir hann með útgáfu á nýjum reglum um gjaldeyrismál. Samhliða verða gerðar smávægilegar breytingar á reglum nr. 490/2016 um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris.
Dregið úr hættu á óstöðugleika
Samhliða afnámi hafta á innlenda aðila hefur stærsti hluti vanda sem stafað hefur af svokallaðri snjóhengju aflandskróna verið leystur með samkomulagi Seðlabanka Íslands við eigendur krónanna.
Samkomulagið snýst um að Seðlabankinn kaupir aflandskrónueignir fyrir erlendan gjaldeyri. Viðmiðunargengi í viðskiptunum er 137,5 krónur fyrir evruna, sem er um 20% yfir skráðu gengi evru síðastliðinn föstudag. Kaup Seðlabankans hafa í för með sér bókhaldslegan hagnað sem kemur á móti kostnaði vegna uppbyggingar gjaldeyrisvaraforða.
Gjaldeyrisforðinn er nú í sögulegu hámarki. Í lok febrúar nam hann um 809 milljörðum króna og hafði þá vaxið um rúmlega 220 milljarða frá því í júní 2015, þegar áætlun um losun fjármagnshafta var kynnt. Þessi styrka staða hefur náðst þrátt fyrir talsverðar endurgreiðslur erlendra lána, hækkun krónunnar og gjaldeyrisútboð í júní 2016 og gerir hún Seðlabankanum kleift að hleypa aflandskrónueignum út.
Aflandskrónueignir nema um 195 ma.kr., en munu við kaup Seðlabankans nú á eignunum verða um 105 ma.kr. Öllum aflandskrónueigendum verður boðið að eiga viðskipti við Seðlabankann á sama gengi og samkomulagið hljóðar upp á næstu tvær vikurnar. Væntingar standa því til þess að eftirstæð fjárhæð aflandskrónueigna geti lækkað enn frekar á næstu vikum.
Þær aflandskrónur sem ekki verða seldar Seðlabankanum verða áfram háðar takmörkunum þangað til lögin sem gilda um þær hafa verið endurskoðuð.