Hoppa yfir valmynd
22. mars 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Reglur um eignarhald í fjármálafyrirtækjum og kaup fjögurra aðila á hlutum í Arion banka hf.

Í ljósi þess að fjórir fjárfestar hafa gert kaupsamning við Kaupþing ehf. um kaup á hlutum í Arion banka hf. hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið tekið saman upplýsingar sem tengjast málinu, þar á meðal helstu reglur sem gilda um eignarhald í fjármálafyrirtækjum, tilkynningu um kaup á hlutum í Arion banka hf. og þau sérstöku skilyrði sem Kaupþingi hf. voru sett fyrir eignarhaldi á virkum eignarhlut í Arion banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 2010.

Tilkynning um kaup á hlutum í Arion banka hf.

Sunnudaginn, 19. mars 2017, tilkynntu Arion banki hf. og Kaupþing ehf. um að dótturfélag Kaupþings ehf., Kaupskil ehf., hefði tekið ákvörðun um sölu á 582.922.113 hlutum í Arion banka fyrir ríflega 48,8 milljarða íslenskra króna í lokuðu útboði. Er söluverð hlutanna talið um 0,81 af eigin fé bankans.

Kaupendur samkvæmt tilkynningu eru:

  1. Attestor Capital LLP í gegnum Trinity Investment Designated ActivityCompany (9,99% hlutur).
  2. Taconic Capital Advisors UK LLP í gegnum TCA New Sidecar III s.a.r.l. (9,99% hlutur).
  3. Sculptor Investments s.a.r.l.- félag tengt Och-Ziff Capital Managment Group (6,6% hlutur).
  4. ELQ Investors II Ltd.- félag tengt Goldman Sachs (2,6% hlutur).

Samkvæmt tilkynningu Arion banka hf. og Kaupþings ehf. veita kaupsamningarnir sömu aðilum jafnframt rétt til þess að kaupa 437.191.585 hluti til viðbótar (á hærra gengi en núverandi hlutir eru keyptir á) en sá réttur rennur út fyrir almennt útboð á hlutum í Arion banka hf. sem mögulega mun fara fram fljótlega.

Reglur sem gilda um eignarhald í fjármálafyrirtækjum

Í VI. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki er að finna reglur um eignarhluti í fjármálafyrirtækjum og meðferð þeirra. Reglurnar eru samræmdar EES-reglur og byggja nú á tilskipun 2013/36/ESB. Reglurnar taka til virkra eignarhluta en skilgreiningu á virkum eignarhlut er að finna í 21. tölul. 1. mgr. 1. gr. a sömu laga. Samkvæmt skilgreiningunni telst virkur eignarhlutur, bein eða óbein hlutdeild í félagi sem nemur 10% eða meira af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti, eða gerir aðila kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi félags.

Skilgreining á virkum eignarhlut er því ekki bundin við beint eignarhald eins aðila heldur kemur óbeint eignarhald einnig til skoðunar. Þannig gæti t.d. eignarhald í gegnum annað félag komið til skoðunar á því hvort aðili teljist ráða yfir virkum eignarhlut.

Áhrif á stjórn fjármálafyrirtækis koma einnig til skoðunar þrátt fyrir að aðili fari með hlut sem er minni en 10% af hlutafé eða stofnfé t.d. ef eignarhald í fjármálafyrirtæki er mjög dreift.

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 40. gr. laga um fjármálafyrirtæki ná reglurnar um virka eignarhluti ekki einungis til eins aðila, þ.e. aðila sem einn og sér hyggst eignast tiltekinn hlut í fjármálafyrirtæki heldur einnig aðila sem í samstarfi við aðra hyggst eignast virkan eignarhlut. Samstarf er skilgreint í 25. tölulið 1. mgr. 1. gr. a sömu laga sem samkomulag sem er formlegt eða óformlegt, skriflegt, munnlegt eða með öðrum hætti. Samstarf nær t.d. til hjóna, foreldra og barna, yfirráð annars aðila í hinum og tengsla í gegnum stjórnarmenn eða framkvæmdastjóra.

Þegar aðili, einn sér eða í samstarfi við aðra, kaupir virkan eignarhlut ber að tilkynna Fjármálaeftirlitinu (FME) um kaupin. FME ber þá að framkvæma mat á hæfi viðkomandi aðila samkvæmt reglum VI. kafla laganna, aðallega 42. gr. sömu laga.

Þau atriði sem koma til skoðunar við mat á því hvort aðili telst vera hæfur til þess að fara með virkan eignarhlut eru í grunninn fimm. Þessi atriði eru:

  1. Orðspor þess sem hyggst eignast virkan eignarhlut.
  2. Orðspor og reynsla þess sem mun veita fjármálafyrirtæki forstöðu.
  3. Fjárhagslegt heilbrigði þess sem hyggst eignast virkan eignarhlut og ber að taka tillit til þess reksturs sem viðkomandi fjármálafyrirtæki hefur.
  4. Hvort ætla megi að eignarhald muni torvelda eftirlit með fjármálafyrirtækinu eða hafa áhrif á það hvort fyrirtækið muni starfa lögum samkvæmt. Ber m.a. að horfa til fyrri samskipta við viðkomandi aðila bæði gagnvart FME og öðrum stjórnvöldum þ.á m. önnur stjórnvöld á EES-svæðinu.
  5. Hvort ætla megi að eignarhald eigandans muni leiða til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka eða eignarhaldið muni auka líkur á að slíkt muni viðgangast innan fjármálafyrirtækisins.

Rétt er að geta þess að mat á fjárhagslegu heilbrigði aðila sem vill fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. 42. gr. laganna tekur mið af því hvers konar rekstur viðkomandi fjármálafyrirtæki hefur.

Eignarhald í Arion banka hf. og sérstök skilyrði sem eignarhaldinu voru sett árið 2010

Í tilkynningu sem FME birti 20. mars 2017, í tilefni af kaupum á eignarhlutum í Arion banka kemur fram að kaupin hafi ekki áhrif á skilyrði sem FME setti árið 2010 fyrir virkum eignarhlut Kaupþings hf. í Arion banka hf. í gegnum eignarhaldsfélagið Kaupskil ehf.

Hinn 11. janúar 2010 veitti FME Kaupskilum ehf. leyfi til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka. Leyfið var veitt í kjölfar samnings á milli Kaupþings hf. og fjármálaráðuneytisins frá 3. september 2009 þess efnis að Kaupþing hf. gæti eignast 87% hlut í Arion banka hf.

Kaupþing hf. var á þessum tíma í greiðslustöðvun og slitameðferð og var afstaða FME sú að slíkt félag gæti ekki farið með virkan eignarhlut í Arion banka hf. Aðstæður í samfélaginu á þessum tíma voru hins vegar þannig að eignarhaldið var heimilað í gegnum sérstakt félag, Kaupskil ehf., samkvæmt sérstökum skilyrðum.

Eitt þeirra skilyrða sem sett voru fyrir eignarhaldinu eru þau að Kaupþingi beri að tilkynna fyrirfram um fyrirhuguð eigendaskipti hluta í Arion banka hf. eða Kaupskilum ehf. til FME. Þegar slík tilkynning berst á að fara fram endurnýjað hæfismat á væntanlegum eigendum þeirra hluta, svo fremi að eignarhaldið feli í sér áhrif á stjórn bankans. Vísað er í ákvörðun FME 11. janúar 2010 til nánari skýringa á sérstökum skilyrðum fyrir eignarhaldi Kaupþings á 87% hlut í Arion banka hf. sem fylgir tilkynningu þessari.

Viðskipti með eignarhluti í Arion banka hf. 19. mars 2017

Samkvæmt tilkynningu Arion banka hf. frá 19. mars 2017 um viðskipti á milli Kaupþings ehf. og fjögurra aðila með eignarhluti í Arion banka hf. eignast enginn þessara aðila beinan virkan eignarhlut þ.e. eignarhlut sem nær 10% af hlutafé bankans. Samkvæmt tilkynningu FME 20. mars 2017, fylgir atkvæðisréttur ekki með hlutunum að svo stöddu. Þetta á við um a.m.k. þrjá stærstu aðilana af fjórum í þessum viðskiptum en samkvæmt leiðréttri tilkynningu FME sem birt var sama dag, 20.mars, hefur FME ekki upplýsingar um hvernig þessu er háttað með aðila sem kaupir 2,6% hlut. Afstaða FME samkvæmt tilkynningu er sú að ekki myndist nýr virkur eignarhlutur í bankanum þar sem einstakir fjárfestar fara með undir 10% eignarhlut. Þá hafi kaupin ekki áhrif á sérstöku skilyrðin frá árinu 2010. FME hefur þó áskilið sér rétt til þess að taka skilyrðin frá 2010 til skoðunar og hefur sett tímamörk í því skyni.

Samkvæmt tilkynningu Arion banka hf. og Kaupþings ehf., sem áður var vísað til, veita kaupsamningarnir jafnframt rétt til þess að kaupa 437.191.585 hluti til viðbótar en sá réttur rennur út fyrir almennt útboð á hlutum í Arion banka hf. sem mögulega mun fara fram fljótlega. Þess má vænta ef aðilar nýta sér þennan kauprétt eða þegar almennt útboð sem mögulega mun fara fram á hlutum í Arion banka hf. er lokið að hæfi einstakra eigenda Arion banka hf. muni fara fram.

Aðrar reglur sem skipta máli

Í 4. mgr. 19. gr. laga um fjármálafyrirtæki er að finna reglu sem kveður á um skyldu fjármálafyrirtækja til að tilgreina á vefsíðu nöfn og hlutfallslegt eignarhald allra þeirra sem eiga umfram 1% hlutafjár eða stofnfjár í fyrirtækinu á hverjum tíma. Fjármálafyrirtæki hefur fjóra daga til að uppfæra þessar upplýsingar ef eignarhald í fyrirtækinu breytist. Sé lögaðili eigandi hlutar skal koma fram hvaða einstaklingur eða einstaklingar séu raunverulegir eigendur viðkomandi lögaðila. FME hefur heimild til þess að leggja stjórnvaldssekt á þann aðila sem brýtur gegn þessari skyldu á grundvelli 8. tölul. 1. mgr. 110. gr. sömu laga.

Tenglar:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta