Hoppa yfir valmynd
21. júlí 2023

Græni sáttmálinn og endurheimt vistkerfa

Að þessu sinni er fjallað um:

  • endurheimt vistkerfa
  • græna vöruflutninga
  • bifreiðar og hringrásarhagkerfið
  • eflingu á starfsþróunarumhverfi rannsakenda í Evrópu
  • rafræna auðkenningu innan Evrópusambandsins (ESB)
  • sýndarveruleika og fjórðu kynslóð veraldarvefsins
  • aðgerðir til að sporna við mögulegum skorti á sýklalyfjum á komandi vetri
  • stöðu réttarríkisins

Vaktin fer nú í sumarfrí og kemur næst út um miðjan september.

Endurheimt vistkerfa

Eins og fjallað var um í Vaktinni í júní 2022 lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að nýrri reglugerð um endurheimt vistkerfa 22. júní 2022 (e. Nature Restoration Law). Verði tillagan samþykkt verður um að ræða fyrstu almennu löggjöf á sviði náttúrverndar sem sett hefur verið á vettvangi ESB. Hefur verið litið á tillöguna sem eitt af hryggjarstykkjum Græna sáttmála ESB (e. European Green deal). Tillagan gengur út á að endurheimta skemmd vistkerfi bæði á landi og í hafi, s.s. vistkerfi votlendis, fljóta, skóga, graslendis, sjávarvistkerfi og vistkerfi í þéttbýli og eru tillögurnar nátengdar áætlunum ESB um líffræðilega fjölbreytni (e. Biodiversity Strategy for 2030) og frá haga til maga (e. Farm to Fork strategies). Er tillagan sögð lykilþáttur í að afstýra hruni vistkerfa með tilheyrandi stórfelldri hnignun líffræðilegrar fjölbreytni. Tilgangurinn er m.a. að skapa nýtt jafnvægi lífríkis og mannlegra athafna án þess að ganga ætíð svo langt að fella tiltekin svæði undir náttúruvernd.

Markmiðið er endurheimta eða lagfæra 80% af náttúrulegu umhverfi búsvæða í ESB sem eru skemmd eða í slæmu ástandi. Gert er ráð fyrir að  áætlunin nái til um 20% alls landsvæðis og hafsvæðis í aðildarríkjum ESB fyrir 2030 og er lagt til að þessi markmið verði bindandi fyrir aðildarríkin. Í tillögunni er einnig lagt til að dregið verði úr notkun á óumhverfisvænu skordýraeitri um 50% fyrir árið 2030.

Tillagan hefur verið til umræðu á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB frá því að hún var lögð fram.

Þann 20. júní sl. náðist samkomulag á vettvangi ráðherraráðsins um afstöðu til efnis reglugerðarinnar og var þess vænst að Evrópuþingið myndi í framhaldi af því samþykkja afstöðu sína til málsins fyrir komandi þríhliða viðræður um málið.

Löggjafartillagan var til umfjöllunar í umhverfis-, lýðheilsu- og matvælaöryggisnefnd Evrópuþingsins (e. The Committee on Environment, Public Health and Food Safety) Til tíðinda dró í nefndinni þegar ekki tókst að mynda meirihluta við atkvæðagreiðslu um fyrirliggjandi drög að nefndaráliti heldur féllu atkvæði jöfn, þar sem 44 nefndarmenn greiddu atkvæði með nefndarálitinu en 44 nefndarmenn reyndust vera því mótfallnir. Kom það því í hlut þingheims alls í framhaldinu að taka afstöðu til þess hvort vísa ætti tillögunni aftur til framkvæmdastjórnar ESB, sem hefði þýtt að málið væri úr sögunni, a.m.k. fram yfir Evrópuþingskosningar á næsta ári, eða hvort halda ætti áfram með það á þeim grunni sem lagður hafði verið með fyrirliggjandi nefndaráliti og breytingatillögum.

Í all dramatískri atkvæðagreiðslu þann 12. júlí sl. var því hafnað af þingheimi að vísa málinu heim til framkvæmdastjórnar ESB þar sem 312 þingmenn greiddu atkvæði með frávísun en 324 voru á móti, 12 sátu hjá. Í framhaldinu voru greidd atkvæði um hvort ganga ætti til þríhliða viðræðna við ráðherraráð ESB og framkvæmdastjórn ESB á grundvelli fyrirliggjandi nefndarálits og breytingatillagna og var það þá samþykkt með 336 atkvæðum gegn 300, en 13 sátu hjá.

Vitað var í aðdraganda framangreindra atkvæðagreiðslna að töluverð andstaða við málið væri að byggjast upp innan þingsins. En andstaðan er aðallega til komin vegna áhyggna af áhrifum tillagnanna á hagsmuni og stöðu bænda sem munu þurfa, að einhverju leyti, að gefa eftir hluta af ræktuðu landi til að endurheimta votlendi, jafnvel í þeim mæli að ógnað geti fæðuöryggi, en einnig eru uppi áhyggjur af stöðu sjómanna vegna mögulegrar aukinnar verndunar hafsvæða vegna endurheimt sjávarvistkerfa.

Andstaðan í Evrópuþinginu var leidd af Manfred Weber formanni þingflokks mið og hægri flokka European People´s party (EPP) sem flokkur Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnarinnar, tilheyrir einnig. Andstaða EPP eða hluta þingflokksins var studd af öðrum þingflokkum hægri flokka á Evrópuþinginu. Auk þess hafa bændur mótmælt tillögunni sem og hagsmunasamtök þeirra og hagsmunasamtök sjómanna. Einnig greiddu nokkur aðildarríki sambandsins atkvæði gegn tillögunni þegar afstaða til málsins var afgreitt vettvangi ráðherraráðs ESB, þ.e. Holland, Pólland, Ítalía, Svíþjóð, Finnland, Austurríki og Belgía.

Helsti talsmaður tillögunnar er Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB og sá sem leiðir framgang Græna sáttmála ESB, en hann hefur verið í fremstu víglínu, með dyggum stuðningi forseta framkvæmdastjórnarinnar, Ursulu von der Leyen, við að verja tillöguna falli og nýtur hann þar stuðnings vinstri flokkanna á Evrópuþinginu.

Með samþykkt Evrópuþingsins á fyrirliggjandi nefndaráliti og breytingatillögum er ekkert því til fyrirstöðu fyrir Evrópuþingið að ganga til þríhliða viðræðna við ráðherraráðið og framkvæmdastjórnina um endanlegt efni væntanlegra laga og herma fregnir að þær viðræður séu þegar hafnar þegar þetta er ritað. Er ljóst að í þeim viðræðum verður að veita sjónarmiðum hægri flokkanna viðeigandi vægi til að koma í veg fyrir að andstaða við löggjafartillöguna aukist ekki og að tryggt sé að væntanleg samningsniðurstaða fái brautargengi við lokaafgreiðslu í ráðinu og á þinginu nú í aðdraganda Evrópuþingskosninganna sem fram munu fara næsta sumar.

Grænir vöruflutningar

Þann 11. júlí sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram þrjár löggjafartillögur ásamt orðsendingu sem ætlað er að stuðla að aukinni skilvirkni í vöruflutningastarfsemi innan ESB og um leið og dregið verður úr umhverfisáhrifum slíkra flutninga.

Í fyrsta lagi er um að ræða tillögu um breytingar á reglum um notkun járnbrautainnviða fyrir vöruflutninga innan sambandsins. Markmið hennar er að auka skilvirkni við úthlutun á ferðatíma um lestarteina, auka samhæfingu á skipulagi yfir landamæri og bæta stundvísi og áreiðanleika lestarflutninga. Reiknað er með að þessar umbætur stuðli að auknum vöruflutningum með járnbrautalestum sambandsins. 

Í öðru lagi er um að ræða tillögu að breytingu á tilskipun um hámarksstærð og þyngd flutningabifreiða á vegum. Er m.a. lagt til að hámarksþyngd kolefnislausra ökutækja verði aukin m.a. þar sem slík ökutæki eru jafnan þyngri en eldri ökutæki sem knúin eru með jarðeldsneyti. Nýju tillögunni er ætlað að hvetja til notkunar á nýrri tækni í flutningabifreiðum sem leiða til minni losunar kolefnis. Þegar fram líða stundir og ný tækni verður léttari mun hagkvæmni við notkun kolefnislausra flutningabifreiða aukast. Þá er tillögunni ætlað að skýra lagalega stöðu flutningabifreiða á ferð yfir landamæri í tilvikum þar sem einstök aðildarríki heimila flutning með stærri og þyngri vagnlestum en samræmdar reglur kveða á um. Loks er lagt til að heimilað verði að flytja þyngri farm í stöðluðum einingum s.s. gámum þegar flutningurinn fer fram með fleiri en einum samgöngukosti, s.s. með lest og flutningabifreið.

Í þriðja lagi inniheldur pakkinn tillögu að nýrri reglugerð um samræmda aðferðafræði við útreikning á losun gróðurhúsalofttegunda í flutningastarfsemi. Aðferðafræðin byggir á nýlegum ISO-stöðlum um útreikning og birtingu upplýsinga um losun gróðurhúsalofttegunda vegna fólks- og vöruflutninga. Áreiðanlegar upplýsingar um losun gera neytendum kleift að taka upplýstar ákvarðanir um val á samgönguaðila fyrir eigin ferðir og vörusendingar.

Samhliða tillögunum var birt orðsending um græna flutninga (e. Greening Freight Transport) en með henni er sett fram heilstæð stefnumörkun um græna vöruflutninga innan ESB.

Tillögurnar eru liður í stefnu sambandsins um að draga úr losun frá samgöngum um 90% fyrir árið 2050.

Tillögurnar ganga nú til meðferðar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB. Tillögurnar hafa jafnframt verið birtar í samráðsgátt ESB og er umsagnarfrestur fram í september, sjá hér, hér og hér.

Bifreiðar og hringrásarhagkerfið

Þann 13. júlí sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að nýrri reglugerð sem ætlað er að efla hringrás bifreiða og tekur tillagan til hönnunar, framleiðslu og endurnotkunar og endurvinnslu ökutækja. Auk umhverfis- og loftslagsmarkmiða er tillögunum ætlað að auka framboð hráefna sem notuð eru í bifreiðaframleiðslu innan ESB um leið og tekist er á við áskoranir í tengslum við græn umskipti bílgreinarinnar.

Á hverju ári úreltast yfir sex milljónir ökutækja í Evrópu. Ófullnægjandi meðhöndlun þessara ökutækja veldur mengun og verðmæti tapast. Nýlegt mat á núverandi ESB-löggjöf (tilskipun 2000/53/EB um úr sér gengin ökutæki og tilskipun 2005/64/EB um gerðarviðurkenningu vélknúinna ökutækja með tilliti til endurnotanleika, endurvinnanleika og endurnýtanleika) hefur sýnt að umtalsverðar úrbætur eru nauðsynlegar til að efla umskipti bílgreinarinnar yfir í hringrásahagkerfið og draga þannig úr neikvæðum umhverfisáhrifum sem tengjast framleiðslu og meðhöndlun úreldra ökutækja og efla sjálfbærni ökutækja- og endurvinnsluiðnaðar í Evrópu.

Gert er ráð fyrir að reglugerðartillagan sem ætlað er koma í stað framangreindra tilskipana muni, verði hún samþykkt, skili 1,8 milljarða evra ávinningi árið 2035, með nýjum störfum og auknu tekjustreymi fyrir úrgangsstjórnun og endurvinnslu. Þar að auki er gert ráð fyrir ráðstafanir sem tillögurnar fela í sér muni stuðla að bættu umferðaröryggi í ríkjum utan ESB sem flytja inn notuð ökutæki frá ESB með því að koma í veg fyrir útflutning á úr sér gengnum ökutækjum og einnig draga úr mengun og áhættu fyrir heilsu fólks í þeim löndum.

Fyrirhuguð reglugerð er í samræmi við markmið Græna sáttmálans og aðgerðaáætlun um hringrásarhagkerfið. Fyrirhuguð reglugerð tengist og styður við innleiðingu nokkurra annarra mikilvægra gerða, svo sem væntanlegrar reglugerðar um mikilvæg hráefni, sbr. umfjöllun í Vaktinni 24. mars sl., reglugerðar um rafhlöður, sbr. umfjöllun í Vaktinni 23. júní sl. reglugerðar um vistvæna hönnun, sbr. umfjöllun um hringrásarkerfið í Vaktinni 1. apríl 2022 og tilskipun um rétt til viðgerða á vörum, sbr. umfjöllun í Vaktinni 24. mars sl.

Gert er ráð fyrir að reglugerðin muni hafa umtalsverðan umhverfisávinning; þ. á m. er gert ráð fyrir að framfylgd hennar muni draga úr árlegri losun CO2 um 12,3 milljónir tonna fyrir árið 2035 og stuðla að betri nýtingu hráefna og auka endurheimt þeirra og þannig gera bifreiðaframleiðendur minna háða innfluttu hráefni og stuðla að sjálfbærum og hringlaga viðskiptamódelum.

Gert er ráð fyrir að ökutækjaframleiðslugeirinn verði stærsti notandi mikilvægra hráefna í framtíðinni og er aukin endurvinnsla á þessu sviði því afar mikilvæg til að auka viðnámsþol ESB gegn mögulegum truflunum á aðfangakeðjum.

Sjá nánar um tillöguna og forsendur að baki henni á sérstakri vefsíðu framkvæmdastjórnarinnar um úr sér gengin ökutæki.

Tillagan gengur til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Efling á starfsþróunarumhverfi rannsakenda í Evrópu

Framkvæmdastjórn ESB kynnti þann 13. júlí sl. aðgerðapakka sem ætlað er að styrkja rannsóknarumhverfi og rannsóknarsvæði Evrópu (e. European Research Area – ERA) sem Ísland er þátttakandi í m.a. í gegnum samstarfsáætlunina „Horizon Europe. Pakkinn samanstendur af tillögu til ráðherraráðs ESB um útgáfu tilmæla um nýja umgjörð til að laða að hæfileikafólk á sviði rannsókna og til að styðja við rannsókna- og frumkvöðlastarf í ESB, nýjum sáttmála og siðareglum fyrir rannsakendur og nýjum hæfnisramma fyrir vísindamenn sem meðal annars verður miðlað á nýrri vefsíðu sem til stendur að setja á fót (ResearchComp).

Tillaga framkvæmdastjórnarinnar hefur verið í vinnslu um nokkurt skeið og byggir hún á stefnumörkun sem sett var fram í orðsendingu framkvæmdastjórnar ESB til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar frá árinu 2020 um umbætur á evrópska rannsóknarsvæðinu (ERA), en orðsendingin fól m.a. í sér viðurkenningu á mikilvægi rammaáætlunar um rannsóknarstarfsferil vísindamanna (e. research careers) í Evrópu.

Tillagan miðar að því að takast á við áskoranir sem rannsakendur og vísindamenn standa frammi fyrir og lúta m.a. að atvinnuöryggi, skorti á tækifærum til framgangs og hreyfanleika og spekileka frá jaðarsvæðum.

Eitt meginmarkmið tillögunnar er þannig að auka möguleika og bæta starfsskilyrði ungra vísindamanna innan evrópska rannsóknarsvæðisins.

Tillagan byggir á fyrri tilmælum, svo sem sáttmála og siðareglum fyrir vísindamenn (Charter and Code for Researchers), mannauðsstefnu fyrir vísindamenn (Human Resources Strategy for Researchers) og EURAXESS og felur í sér svar við ákalli ráðsins og þingsins um að gera starfsvettvang á sviði rannsókna í Evrópu eftirsóknarverðari.

Í tillögunni má finna skilgreiningu á hvað felist í því að vera rannsakandi (e. researcher) í Evrópu og er henni ætlað að móta samræmdan skilning á rannsóknarstarfi á mismunandi fræðasviðum, í viðskiptalífi, í opinberri stjórnsýslu og hjá sjálfseignarstofnunum (e. non-profit). Skilgreiningin dregur einnig fram mikilvægi hlutverks stjórnenda rannsókna. Tillagan gerir ráð fyrir bættum starfsskilyrðum, aukinni félagslegri vernd og jafnvægi á milli vinnu og einkalífs fyrir rannsakendur, sérstaklega fyrir unga rannsakendur. Hún gerir einnig ráð fyrir þróun nýs sáttmála fyrir vísindamenn, sem geti leyst af hólmi framangreindan sáttmála og siðareglur fyrir vísindamenn frá árinu 2005.

Tillagan miðar að því að efla færniuppbyggingu vísindamanna, sér í lagi þverfræðilega, með því að nýta sér evrópska hæfnisrammann fyrir vísindamenn (European Competence Framework for Researchers - ResearchComp) og útgáfu örprófskírteina (e. micro-credential) fyrir styttri menntun og þekkingaröflun sem rannsakendur sækja sér. Markmiðið er að stuðla að hreyfanleika á milli rannsóknarsviða og svæða innan Evrópu með því að skapa hvata og umbun fyrir fjölþættan starfsferil og með því að styðja við starfsþróunarráðgjöf.

Fleiri verkfæri til starfsþróunar fyrir rannsakendur og vísindamenn eru á teikniborðinu hjá framkvæmdastjórninni, svo sem þróun hæfileikavettvangs (e. talent platform), og þróun fjárfestingarstefnu vegna rannsóknarstarfsemi þar sem m.a. verður leitað betri leiða fyrir ESB, aðildarríkin og atvinnulífið til að vinna saman að því að styðja við starfsþróunarferla hjá rannsakendum og efla tengsl á milli háskóla og atvinnulífs.

Að lokum er með tillögunni lagt til að komið verði á fót eftirlitsmiðstöð fyrir rannsóknarstarfsemi sem fái það hlutverk að fylgjast með innleiðingu og framkvæmd tilmælanna þegar þar að kemur. Eftirlitsmiðstöðinni er ætlað að leggja fram gagnreynd gögn til að styðja við starfsemi stefnumótandi aðila og haghafa á sviði rannsóknarstarfsemi innan Evrópu.

Að bæta starfsþróunarferla er eitt af forgangsverkefnum ERA og er ein af 20 aðgerðum sem upphaflega voru settar fram í stefnuskrá ERA fyrir 2022 - 2024.

Tillagan gengur nú til umfjöllunar í ráðherraráði ESB.

Rafræn auðkenning innan ESB

Framkvæmdastjórn ESB, Evrópuþingið og ráðherraráð ESB komust hinn 29. júní sl. að samkomulagi, að afloknum þríhliða viðræðum, um tillögu að breytingu á lagaramma fyrir evrópska rafræna auðkenningu (e. European Digital Identity). Með breytingunum er eins konar persónulegu rafrænu veski (e. EU Digital Identity Wallet) komið á fót innan ESB og verður það í formi smáforrits í snjallsímum.

Forritinu er ætlað að tryggja áreiðanlegan aðgang fyrir einstaklinga og fyrirtæki innan ESB að margvíslegri þjónustu hins opinbera og eftir atvikum hins einkarekna. Veskið mun koma til með að geyma rafrænt ökuskírteini og önnur sambærileg skírteini. Í gegnum forritið verður auk þess hægt að sækja um t.a.m. afrit af fæðingarvottorði, óska eftir læknisvottorði eða nota það til að breyta skráningu á heimilisfangi, opna nýjan bankareikning, skila skattframtali eða taka út pöntun á lyfseðli, svo dæmi séu tekin.

Tillagan er hluti af stafrænum umskiptum ESB fyrir árið 2030. Framkvæmdastjórnin hefur í þessu sambandi og undir formerkjum Digital Europe-áætlunarinnar farið af stað með fjögur umfangsmikil stafræn verkefni sem ætlað er að undirbúa jarðveginn fyrir notkun rafræns veskis og rafrænna skilríkja innan ESB. Fjárfesting vegna þessara verkefna nemur samanlagt um 46 milljónum evra.

Vinna við tæknilega útfærslu lagabreytinganna stendur nú yfir á grundvelli hins pólitíska samkomulags framkvæmdastjórnarinnar, þingsins og ráðsins. Tillagan gengur svo að lokum til samþykktar þingsins og ráðsins og mun í kjölfar samþykkis öðlast gildi á tuttugasta degi frá birtingu í Stjórnartíðindum ESB.

Tillagan er ekki merkt EES-tæk af hálfu framkvæmdastjórnarinnar en með henni er þó verið að gera breytingar á ESB-reglugerð nr. 910/2014 sem tekin hefur verið upp í EES-samninginn og innleidd í íslenskan rétt, sbr. lög nr. 55/2019 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti.

Sýndarveruleikar og fjórða kynslóð veraldarvefsins

Þann 11. júlí sl. birti framkvæmdastjórn ESB orðsendingu til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar og svæðanefndarinnar um fjórðu kynslóð veraldarvefsins og sýndarveruleika (e. Strategy on Web 4.0 and virtual worlds). Orðsendingin felur í sér framtíðarsýn og stefnumótun vegna þeirrar tækniumbyltingar sem fyrirséð er á þessu sviði og miðar hún að því að því að tryggja opið og öruggt vefumhverfi fyrir almenning, fyrirtæki og stofnanir. Stefnumótunin er í samræmi við stafræna starfsskrá ESB  og áætlanir um uppbyggingu öflugra fjarskiptatenginga m.a. og er áhersla lögð á eftirfarandi:

  • Að efla færi fólks til að nýta sér tæknina á eigin forsendum.
  • Að efla evrópskan tækniiðnað á þessu sviði.
  • Að leita leiða til að nýta möguleika nýrrar tækni til bæta opinbera þjónustu og stafræna stjórnsýslu.
  • Að beita sér fyrir því að mótaðir verði alþjóðlegir staðlar á þessu sviði til að mismunandi sýndarveruleikar geti starfað saman en með því er talað að unnt sé forðast markaðsyfirráð stórra aðila.

Sjá hér samantekt upplýsingaþjónustu Evrópuþingsins um málefnið.

Aðgerðir ESB til að sporna við mögulegum skorti á sýklalyfjum á komandi vetri

Framkvæmdastjórn ESB í samstarfi við samtök forstjóra lyfjastofnana Evrópu (HMA) og evrópsku lyfjastofnunina (EMA), gáfu í vikunni út tilmæli (e. recommendations) um hvernig sporna megi við skorti á lífsnauðsynlegum sýklalyfjum sem notuð eru gegn öndunarfærasýkingum fyrir næsta vetur. Tilmælin eru unnin af stýrihópi um lyfjaskort og öryggi lyfja (e. Executive Steering Group on Shortages and Safety of Medicinal Products - MSSG) og styður við vinnu um þróun lista fyrir ESB yfir mikilvæg og lífsnauðsynleg lyf. Í nánu samstarfi við aðildarríki mun framkvæmdastjórnin fylgja eftir aðgerðunum þar sem það er talið nauðsynlegt m.a. með sameiginlegum innkaupum.

Með þessum tilmælum nú er verið að bregðast við áskorunum sem þjóðir standa frammi fyrir og valda töluverðum áhyggjum. Framboðsskortur á lífsnauðsynlegum lyfjum hefur reynst vaxandi vandamál innan ESB. Auk þess sem baráttan við sýklalyfjaónæmi verður sífellt fyrirferðarmeiri. Um þetta og fleira þessu tengt má m.a. lesa í Vaktinni 26. maí sl. þar sem fjallað er um nýjar tillögur að endurskoðuðum lyfjalögum, ný tilmæli um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmi og um óformlegan fund heilbrigðisráðherra í Stokkhólmi þar sem lyfjamál og aðgengi að lyfjum voru til umfjöllunar.

Verði eftirspurn evrópskra sjúklinga eftir sýklalyfjum næsta vetur svipuð og neysla þeirra á fyrri árum, benda gögn til þess að framboð helstu sýklalyfja verði á pari við eftirspurn á tímabilinu. Engu að síður er talin ástæða til að hvetja og brýna aðila til eftirfarandi fyrirbyggjandi aðgerða sem miða að því að tryggja nægilegt framboð sýklalyfja á komandi hausti og næsta vetur:

  • Vinna að aukinni framleiðslu lífsnauðsynlegra sýklalyfja. EMA og HERA (Health Emergency Preparedness and Response) hvetja til áframhaldandi samtals við markaðsleyfishafa lyfja í þeim tilgangi að auka framleiðslu.
  • Tryggja næganlegt eftirlit með framboði og eftirspurn. EMA og framkvæmdastjórn ESB í samstarfi við aðildarríki munu halda áfram að fylgjast með eftirspurn og framboði í samvinnu við fyrirtæki á þessu sviði. Í ljósi ráðstafana sem gripið er til og tryggja eiga nægilegt framboð eru allir hagsmunaaðilar hvattir til að panta lyf eins og verið hefur án þess þó að safna birgðum enda er talið að birgðasöfnun geti gert illt verra.
  • Auka meðvitund almennings og hvetja til skynsamlegrar notkunar. Mikilvægt er að nota sýklalyf skynsamlega til að viðhalda virkni þeirra og forðast sýklalyfjaónæmi. Læknar gegna þar lykilhlutverki. Sýklalyfjum ætti einungis að ávísa til að meðhöndla bakteríusýkingar enda gagnast þau ekki gegn öðrum veikindum. Einnig er mælst til þess að auka vitund og þekkingu hins almenna borgara með fræðslu og ráðgjöf um viðfangsefnið.

Staða réttarríkisins

Þann 5. júlí sl. birti framkvæmdastjórn ESB skýrslu um stöðu réttarríkisins (e. Rule of Law Report) fyrir árið 2023, en þetta er í fjórða skiptið sem slík skýrsla er gefin út.

Skýrslan greinir frá stöðu réttarríkisins innan sambandsins í heild en einnig í sérstökum landsköflum um hvert og eitt aðildarríkjanna 27. Líkt og í fyrri skýrslum eru fjögur áherslusvið útlistuð og greint frá stöðu mála í hverju ríki fyrir sig auk þess sem gerðar eru tillögur til úrbóta þar sem tilefni þykir til. Sviðin eru eftirfarandi:

  1. Umbætur á réttarkerfinu (e. justice reforms).
  2. Umgjörð gegn spillingu (e. anti-corruption framework).
  3. Fjölmiðlafrelsi og fjölhyggja (e. media freedom and pluralism).
  4. Eftirlit með stofnunum og staða óháðra og borgaralegra samtaka (e. institutional checks and balances).

Málefni réttarríkisins hafa verið mikið í umræðunni á vettvangi ESB undanfarin misseri og hafa áhyggjur einkum beinst að stöðu mála í Póllandi og Ungverjalandi sem þykja ekki hafa brugðist nægjanlega vel við athugasemdum og tillögum til úrbóta, sbr. m.a. umfjöllun í Vaktinni 16. desember sl

***

Brussel-vaktin, fréttabréf sendinefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta