Hoppa yfir valmynd
27. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Nemendur Jafnréttisskólans kynna málefni tengd jafnréttismálum í Flensborg

Þrír nemendur Jafnréttisskólans í Flensborg/ Ljósmynd UNU-GEST - mynd

Þrír nemendur Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, þær Tereza Vujošević frá Svartfjallalandi, Mercy Chaluma frá Malaví og Carmen Keshek frá Palestínu heimsóttu nemendur í kynjafræðitíma í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og ræddu við þau um birtingarmyndir ójafnréttis kynjanna í heimalöndum sínum á dögunum.

Tereza fjallaði meðal annars um dræma þátttöku kvenna í pólitík, frumkvöðlastarf og nýsköpun tengdu atvinnulífinu í Svartfjallalandi. Hún ræddi einnig almennan skort á þekkingu á jafnréttismálum í Svartfjallalandi sem hefur áhrif á alla þætti samfélagsins, lagasetningu og stöðu kvenna.

Mercy lagði áherslu á menntun stúlkna í fyrirlestri sínum og talaði jafnframt um að uppræta þurfi skaðlegar menningarlegar venjur í litlum sveitasamfélögum í Malaví sem oftar en ekki ógna heilsu kvenna. Hún telur hins vegar að pólitískur vilji sé til staðar til að auka menntun stúlkna og vonast til að sjá framfarir í náinni framtíð.

Carmen ræddi um úrelt lög í Palestínu sem varða ofbeldi gagnvart konum og tók sem dæmi að heiðursmorð væru viðurkennd og algeng. Hún tók fram að það hefur nýlega orðið lítilsháttar breyting til batnaðar á lögunum en ennþá sé mjög langt í land í þessum málum. Carmen fjallaði einnig um stöðu palestínskra kvenna undir hernámi Ísraela. Sagði hún hernámið meðal annars vera ástæðu þess að margar stúlkur hætti í námi því feður þeirra vilja síður að þær fari daglega í gegnum eftirlitsstöðvar Ísraela þar sem margt misjafnt á sér stað.

Nemendur Jafnréttisskólans sem nú stunda nám á Íslandi hafa heimsótt nemendur í kynjafræði í nokkrum framhaldsskólum til að kynna fyrir þeim stöðu jafnréttismála í sínum heimalöndum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta