Hoppa yfir valmynd
25. október 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur birt greinargerð um framgang áætlunar um losun fjármagnshafta, en samkvæmt lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál ber honum að gera Alþingi grein fyrir framgangi áætlunar um losun takmarkana á fjármagnshreyfingum milli landa og gjaldeyrisviðskiptum á sex mánaða fresti þar til slíkum takmörkunum verður endanlega aflétt.

Í júní 2016 hélt Seðlabanki Íslands gjaldeyrisútboð þar sem aflandskrónueigendum var gert kleift að selja krónueignir sínar gegn greiðslu reiðufjár í erlendum gjaldeyri. Útboðið, sem var liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta frá júní 2015, var hið síðasta í röð útboða sem haldin hafa verið frá júní 2011, en samkvæmt áætlun um losun hafta var áformað að það ætti sér stað áður en stjórnvöld hæfu losun hafta á einstaklinga og fyrirtæki.

Hinn 11. október 2016 samþykkti Alþingi frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á lögum um gjaldeyrismál. Með lögfestingu frumvarpsins, sem er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta frá júní 2015, eru afgerandi skref stigin í átt að fullri losun fjármagnshafta. Þær takmarkanir sem gilda um einstaklinga og lögaðila, innlenda sem erlenda, verða losaðar í tveimur skrefum; annars vegar við gildistöku laganna þann 21. október og hins vegar í byrjun árs 2017. Við gildistöku laganna varð bein erlend fjárfesting innlendra aðila ótakmörkuð en háð staðfestingu Seðlabanka Íslands. Jafnframt varð fjárfesting í fjármálagerningum útgefnum í erlendum gjaldeyri og fyrirfram- og uppgreiðsla erlendra lána frjáls upp að 30 m.kr. Þá er einstaklingum nú heimilt að kaupa eina fasteign erlendis á hverju almanaksári og dregið er úr skilaskyldu innlendra aðila á erlendum gjaldeyri. Í upphafi árs 2017 verður framangreint fjárhæðarmark hækkað úr 30 m.kr. í 100 m.kr. og innstæðuflutningar frá innlendum til erlendra fjármálastofnana verður heimilaður upp að sama fjárhæðarhámarki.

Vinnu við losun fjármagnshafta miðar samkvæmt áætlunum stjórnvalda frá júní 2015 en full losun fjármagnshafta er ótímasett. Áætlanir stjórnvalda eru í samræmi við ráðleggingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um samþætta þriggja skrefa nálgun við losun hafta. Sjóðurinn leggur til að samfara þeim skrefum sem nú eru tekin í átt að fullri losun fjármagnshafta verði eftirlit og yfirsýn stjórnvalda með utanríkisviðskiptum og fjármálamarkaði styrkt. Full losun fjármagnshafta og tímasetning hennar er m.a. háð því að jafnvægi sé í hlutfallslegri samsetningu innlendra og erlendra eigna, að útflæðisþrýstingur sé viðráðanlegur og stjórnvöld hafi náð að þróa viðeigandi þjóðhagsvarúðartæki.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta