Greinargerð starfshóps um kaup og sölu á vöru og þjónustu milli landa
Stýrihópur sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði hefur nú skilað ráðherra greinargerð frá starfshópi sem falið var að endurskoða reglur um kaup og sölu á vöru og þjónustu milli landa. Greinargerðin inniheldur m.a. drög að lagafrumvarpi með breytingum á lögum um virðisaukaskatt og tollalögum.
Vinna starfshópsins er liður í heildarendurskoðun virðisaukaskatts- og vörugjaldakerfisins sem hófst árið 2014 um einföldun og aukna skilvirkni kerfisins að leiðarljósi.
Stýrihópurinn hefur jafnframt skilað ráðherra skilagrein þar sem greint er frá þeim laga- og reglugerðarbreytingum sem litið hafa dagsins ljós frá skipun hans ásamt næstu áföngum vinnunnar.
Fyrsta áfanga endurskoðunarinnar lauk með lagabreytingum sem samþykktar voru í lok árs 2014. Í þeim fólst að bilið milli almenns og lægra skattþreps virðisaukaskatts var minnkað til muna samhliða niðurfellingu almenns vörugjalds. Auk þess var virðisaukaskattstofninn breikkaður, einkum hvað varðar fólksflutninga og ferðaþjónustu en breikkunin kom til framkvæmda 1. janúar 2016.
Annar áfangi endurskoðunarinnar fólst í nánari útfærslu ákvæða um virðisaukaskattsskyldu ferðaþjónustu og fólksflutninga. Í þeim áfanga var sala áfengis einnig færð í neðra þrep virðisaukaskatts og áfengisgjald hækkað á móti til að takmarka tekjutap ríkissjóðs. Laga- og reglugerðarbreytingar vegna áfangans voru samþykktar í lok síðasta árs og tóku gildi 1. janúar 2016.
Þær tillögur sem nú liggja fyrir varða þriðja áfanga endurskoðunarinnar og snerta m.a. kaup og sölu á þjónustu milli landa og netverslun. Þá er lagt til að lögfest verði svokölluð ,,gjaldmörk aðflutningsgjalda“ vegna innflutnings á vörum með lágt verðgildi.
Þeir sem óska eftir því að koma á framfæri umsögn um tillögurnar geta gert það með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected], með orðunum ,,virðisaukaskattur 2016“ í fyrirsögn. Einnig er hægt að koma athugasemdum á framfæri við ráðuneytið með hefðbundnum bréfpósti.
Síðasti dagur til að skila inn umsögn er mánudagurinn 5. desember 2016.