Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2020 Forsætisráðuneytið

873/2020. Úrskurður frá 14. febrúar 2020

Úrskurður

Hinn 14. febrúar 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 873/2020 í máli ÚNU 19090009.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 6. september 2019, kærði A, blaðamaður, synjun Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) á beiðni hans um aðgang að gögnum.

Í júní 2019 óskaði kærandi eftir aðgangi að lista yfir sjálfstæða framleiðendur og fjárhæðir sem RÚV greiddi þeim fyrir dagskrárefni árið 2018. Hinn 22. ágúst 2019 óskaði kærandi auk þess eftir aðgangi að skilmálum samninga sem RÚV hafi gert við sjálfstæða framleiðendur um kaup á dagskrárefni á árunum 2015 og 2018. Í svari RÚV til kæranda, dags. 6. september 2019, kemur fram að RÚV telji óheimilt að veita upplýsingar um greiðslur til sjálfstæðra framleiðenda án samþykkis framleiðendanna þar sem þær kunni að varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þeirra, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Að auki séu upplýsingarnar ekki aðgengilegar í einu skjali, heldur þyrfti að útbúa slíkt yfirlit sérstaklega.

Í kæru kemur fram að sams konar listar, yfir sjálfstæða framleiðendur og greiðslur til þeirra, fyrir árin 2016 og 2017 hafi verið birtir á vef Alþingis. Þá óski kærandi eftir aðgangi að samningsskilmálum í þeim tilgangi að kanna hvort RÚV vilji njóta ávinnings af sölu af dagskrárefni til erlendra aðila og hvernig það sé orðað í samningagerð við sjálfstæða framleiðendur.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt RÚV með bréfi, dags. 9. september 2019, og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. RÚV óskaði eftir viðbótarfresti til þess að skila umsögn um kæruna til 30. september sem úrskurðarnefndin féllst á. Þann 3. október 2019 óskaði RÚV eftir eins dags viðbótarfresti á grundvelli þess að verið væri að taka saman gögnin til þess að senda með erindinu og sá sem hafi haft aðgang að þeim gögnum hafi verið í frí. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. október, lýsti RÚV því yfir að um misskilning hefði verið að ræða varðandi það að gögnin lægju fyrir, verið væri að taka saman umbeðinn lista hjá fjármáladeild en það fæli í sér talsverða vinnu. Tekið hafi nokkrar vikur að vinna upplýsingarnar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið þegar sambærilegar upplýsingar hefðu verið birtar á sínum tíma en málið væri forgangsmál hjá fjármáladeildinni.

Hinn 15. október 2019 barst úrskurðarnefndinni umsögn RÚV vegna kærunnar og umbeðinn listi yfir greiðslur til sjálfstæðra framleiðenda árið 2018. Í umsögn RÚV segir að listinn innihaldi upplýsingar sem geti m.a. átt undir 9. gr. upplýsingalaga, þ.e. upplýsingar um fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þeirra fjölmörgu lögaðila og/eða einstaklinga sem í hlut eigi. Vísað er til þess að í athugasemdum við greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga komi fram að almennt sé óheimilt að veita upplýsingar um tekjur og fjárhagsstöðu einstaklinga nema það byggist á sérstakri lagaheimild. Þá sé óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þá segir að fjölmargir þeirra aðila sem í hlut eigi séu einstaklingar eða eftir atvikum félög utan um einstaklingsrekstur. Beiðnin lúti þannig m.a. að upplýsingum um tekjur sem samkvæmt því sem segi í lögskýringargögnum við upplýsingalög skuli jafnan ekki veita aðgang að.

Hvað stærri lögaðila varði þá sé RÚV ekki í góðri stöðu til þess að leggja mat á hvort upplýsingarnar varði mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni hvers og eins lögaðila sem í hlut eigi. RÚV telji sig þó vita að einstaka viðsemjendur telji það almennt ekki samrýmast fjárhags- og viðskiptahagsmunum sínum að upplýsingar um endurgjald vegna einstakra verka séu aðgengileg almenningi og þar með samkeppnisaðilum viðsemjenda. Verði það á hinn bóginn mat úrskurðarnefndar að hvorki viðskipta- né fjárhagshagsmunir viðsemjenda RÚV eða önnur lög standi birtingu upplýsinganna í vegi sé ekkert því til fyrirstöðu að þær verði birtar.

Í umsögninni segir einnig að varðandi birtingu upplýsinga á vef Alþingis sé þess að gæta að upplýsingarnar hafi verið veittar mennta- og menningarmálaráðuneytinu, eins og lögskylt hafi verið, í tilefni fyrirspurnar á Alþingi, sbr. ákvæði laga um þingsköp Alþingis nr. 55/1991. Ákvörðun um birtingu upplýsinganna á vef þingsins hafi því ekki verið á forræði RÚV.

Þá kemur fram að „staðlaðir skilmálar“ RÚV við sjálfstæða framleiðendur séu í raun ekki til. Beðist er velvirðingar á því að hafa ekki tiltekið það í upphaflegu svari við erindi kæranda. Við er bætt að með því að afhenda slíkar upplýsingar væri í reynd verið að upplýsa almenning, þ. á m. samkeppnisaðila einstakra viðsemjenda, um skilmála viðsemjenda RÚV, bæði afturvirkt (m.a. um gildandi samninga) og framvirkt. RÚV telji að miðlun slíkra upplýsinga geti orkað tvímælis gagnvart viðsemjendum í skilningi 9. gr. upplýsingalaga og geti raunar einnig vakið upp álitamál í skilningi samkeppnislaga.

Umsögn RÚV var kynnt kæranda með bréfi, dags. 15. október 2019, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar.

Í athugasemdum kæranda, dags. 22. október 2019, segir að um sé að ræða upplýsingar sem eigi ríkara erindi við almenning en mögulegir hagsmunir þeirra sem séu á listanum. Kærandi telji takmarkanir 6.-9. gr. upplýsingalaga ekki eiga við í málinu. Sambærilegar upplýsingar hafi verið birtar á vef Alþingis fyrir annað tímabil og að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við það af hálfu RÚV. Það gefi til kynna að stofnunin hafi metið það svo, líkt og Alþingi, að ekki væri um að ræða upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja eða annarra lögaðila. Við það megi bæta að þeim einstaklingum sem semji við RÚV sé fullkunnugt um að allt fjármagn sem RÚV sýsli með sé opinbert og að ráðstöfun hverrar einustu krónu séu opinberar upplýsingar.

Fram kemur að tilgangur kæranda með gagnabeiðninni sé að komast að því hvort RÚV uppfylli þjónustusamning við mennta- og menningarmálaráðuneytið og með hvaða hætti. Í svari ráðherra til Alþingis vegna fyrirspurnar þingmanns um sama efni komi eingöngu fram upplýsingar fyrir árin 2016 og 2017 en þar segi að upplýsingar yfir árið 2018 muni liggja fyrir við ársuppgjör félagsins, þ.e. í maí 2019. RÚV hafi svarað fyrirspurn kæranda í lok júní, meira en mánuði eftir að ársuppgjör félagsins fyrir árið 2018 hafi legið fyrir. Kærandi telur að sundurliðaðar upplýsingar um greiðslur gefi til kynna að RÚV hafi beitt blekkingum í tengslum við þjónustusamninginn með því að notast við heimatilbúna skilgreiningu á hugtakinu „sjálfstæður framleiðandi.“ Samkvæmt þjónustusamningnum hafi RÚV átt að greiða 10% af heildartekjum sínum til sjálfstæðra framleiðenda árið 2018. Það séu almannahagsmunir fólgnir í því að vita hvernig RÚV hafi túlkað þjónustusamning sinn við hið opinbera og vegi þeir margfalt þyngra en mögulegir viðskiptahagsmunir lögaðila sem í hluti eigi, hagsmunir sem ekki hafi skaðast við birtingu upplýsinganna fyrir tímabilið 2016-2017.

Í athugasemdum segir jafnframt að umfjöllunin sem RÚV sé að hindra með því að synja kæranda um aðgang að upplýsingunum sé aðkallandi. Nú standi yfir samningaviðræður ráðuneytisins og RÚV um næsta þjónustusamning. Upplýsingarnar séu nauðsynlegar almenningi til þess að setja í samhengi hvernig RÚV hafi túlkað síðasta þjónustusamning og hvort það standi til að nota áfram skilgreiningu félagsins á hugtakinu „sjálfstæður framleiðandi“. Einnig þurfi að skoða upplýsingarnar til þess að kanna hvort RÚV stundi svokallaða gerviverktöku, þar sem venjulegt launafólk taki á sig skyldur verktaka. Í tilfelli RÚV sé það ekki gert til þess að takmarka kostnað heldur til að uppfylla skilyrði þjónustusamnings við ráðuneytið.

Þá segir enn fremur að upphafleg fyrirspurn til RÚV hafi verið send í júní 2019. Kærandi hafi verið beðinn um að bíða á meðan upplýsingarnar væru teknar saman en formleg synjun hafi ekki borist fyrr en í lok ágúst. Fyrir utan að óska eftir lista yfir sjálfstæða framleiðendur hafi kærandi einnig óskað eftir tekjum RÚV af sölu sýningaréttar á efni sem framleitt hafi verið af sjálfstæðum framleiðendum árið 2018. RÚV hafi hunsað þennan hluta fyrirspurnarinnar í svari sínu til blaðamanns og í bréfi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þau gögn eigi einnig brýnt erindi við almenning þar sem um sé að ræða nýjan tekjustofn RÚV sem lögum samkvæmt eigi einungis að vera fjármagnað með framlögum ríkisins og auglýsingasölu.

Kærandi dregur í efa fullyrðingar RÚV um að engir staðlaðir samningsskilmálar séu til. Það sé ekki í samræmi við það sem starfsmaður RÚV hafi sagt við kæranda. Ekki séu samdir nýir skilmálar við hvern einasta samning við sjálfstæðan framleiðanda. Í viðtali við kæranda hafi starfsmaður RÚV viðurkennt að skilmálarnir sem félagið geri við sjálfstæða framleiðendur hafi breyst á árunum milli 2015 og 2018. Kærandi vilji sjá hvernig samningarnir séu orðaðir til þess að unnt sé að upplýsa almenning um hvernig RÚV komi á fót nýjum tekjustofni með tekjum af sölu efnis sem framleitt sé af sjálfstæðum framleiðendum. Varðandi samkeppnissjónarmiðin sem RÚV vísi til í umsögn sinni segir kærandi að RÚV sé í fullkominni yfirburðarstöðu á markaði og eigi í raun enga samkeppnisaðila þegar komi að samningum við sjálfstæða framleiðendur.

Með bréfi, dags. 22. janúar 2019, ritaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál bréf til RÚV þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort félagið notaðist við sömu skilmála í samningum við framleiðendur og hvort fyrirliggjandi væri samningur með slíkum skilmálum þar sem eftir atvikum væri unnt að afmá þá samningsskilmála sem ekki teldust staðlaðir í þessum skilningi, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Fyrirspurnin var ítrekuð þann 31. janúar 2019. Þar sem svör hafa ekki borist frá RÚV ákvað úrskurðarnefndin að skipta málinu í tvö kærumál þar sem fjallað yrði aðskilið um rétt kæranda til aðgangs að lista yfir greiðslur til sjálfstæðra framleiðenda, annars vegar og hins vegar um rétt kæranda til aðgangs að stöðluðum samningsskilmálum. Í þessu máli mun nefndin taka afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt á aðgangi að greiðslum til sjálfstæðra framleiðenda á grundvelli meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um ákvörðun Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) um að synja beiðni kæranda, sem er blaðamaður, um aðgang að lista yfir sjálfstæða framleiðendur og greiðslur félagsins til þeirra vegna kaupa á dagskrárefni árið 2018. Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. einnig 2. mgr. 18. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, gilda upplýsingalögin um starfsemi RÚV. 

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að umbeðnar upplýsingar hafi ekki verið teknar saman í eitt skjal og að taka þurfi þær saman sérstaklega til að verða við beiðni kæranda. Fyrir liggur að RÚV útbjó skjal með umbeðnum upplýsingum eftir að kæra barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Í þessu sambandi tekur úrskurðarnefnd fram að réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 nær aðeins til fyrirliggjandi gagna, sbr. orðalag ákvæða 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 14. gr. laganna. Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi til gildandi upplýsingalaga er m.a. tekið fram að orðin „fyrirliggjandi gögn“ beri m.a. að skilja sem svo að réttur til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum nái aðeins til þeirra gagna sem til séu og fyrir liggi á þeim tímapunkti þegar beiðni um aðgang er sett fram og í þeirri mynd sem þau eru á þeim tíma. Þeim sem falla undir lögin er því ekki skylt á grundvelli laganna að útbúa ný skjöl eða önnur gögn, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Ef takmarkanir 6.-10. gr. laganna á upplýsingarétti eiga aðeins við um hluta gagns skal þó veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. RÚV var því ekki skylt á grundvelli upplýsingalaga að taka saman umbeðinn lista.

Í umsögn RÚV, dags. 15. október 2019, kemur fram að í umbeðnum gögnum komi fram upplýsingar um einstaklinga og félög sem RÚV „telur sig“ vita að þau leggist gegn að verði afhent almenningi. Sé það hins vegar mat úrskurðarnefndar að ekkert standi í vegi fyrir birtingu upplýsinganna sé „að sjálfsögðu ekkert því til fyrirstöðu að þær séu birtar“. Í tilefni af þessu tekur Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fram að þegar aðilum, sem falla undir gildissvið upplýsingalaga, berst beiðni um aðgang að upplýsingum ber þeim að afmarka beiðnina við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. laganna, og taka sjálfstæða afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að gögnunum með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna.

Þegar svo háttar til að beiðnin nær samkvæmt efni sínu til upplýsinga sem nauðsynlegt er að vinna upp úr fyrirliggjandi gögnum er því ekki sjálfgefið að unnt sé að synja beiðninni á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. heldur ber stjórnvaldi að kanna hvort beiðandi óski aðgangs að gögnunum þar sem umbeðnar upplýsingar eru að finna svo hann geti tekið afstöðu til þess hvort hann vilji fá þau afhent, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 738/2018, 804/2019 og 833/2019. Þar sem listi með umbeðnum upplýsingum var tekinn saman og RÚV hefur tekið afstöðu til þess hvort kærandi hafi átt rétt til aðgangs að upplýsingunum mun úrskurðarnefndin taka til umfjöllunar hvort RÚV hafi leyst réttilega úr beiðni kæranda á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings.

RÚV vísar til þess að óheimilt sé að veita kæranda aðgang að upplýsingunum þar sem þær varði mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni viðsemjenda félagsins, bæði fyrirtækja og einstaklinga, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Ákvæði 9. gr. upplýsingalaga hljóðar svo:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga segir:

„Ákvæði 9. gr. frumvarpsins felur í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“

Þá er enn fremur tiltekið í athugasemdunum:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um fjárhagsmálefni einstaklinga. Þannig er t.d. almennt óheimilt að veita upplýsingar um tekjur og fjárhagsstöðu einstaklinga nema það byggist á sérstakri lagaheimild. Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptarleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir máli að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“

RÚV er opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins en um skyldur, hlutverk og markmið félagsins er fjallað í lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu nr. 23/2013. Félagið er m.a. rekið með framlögum af fjárlögum, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna. Samkvæmt 4. tölul. 3. mgr. laganna skal Ríkisútvarpið sinna menningarlegu hlutverki sínu m.a. með því að framleiða sjálft og í samstarfi við aðra lista- og menningarefni, með sérstakri áherslu á leikið efni, auk þess að endurspegla samtímamenningu þjóðarinnar. Ríkisútvarpið skal vera virkur þátttakandi í íslenskri kvikmyndagerð, m.a. með kaupum frá sjálfstæðum framleiðendum.

Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. laganna gerir ráðherra samning við Ríkisútvarpið til fjögurra ára í senn. Í samningnum skal nánar kveðið á um markmið, hlutverk, skyldur og umfang starfseminnar samkvæmt 1. og 3. gr. laganna. Í samningi mennta- og menningarmálaráðherra og RÚV um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu 2016-2019, dags. 5. apríl 2016, er sérstaklega kveðið á um kaup af sjálfstæðum framleiðendum. Segir þar að Ríkisútvarpið skuli styrkja og efla sjálfstæða sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildarmyndagerð með því að gerast kaupandi eða meðframleiðandi að slíku efni. Á samningstímabilinu skuli Ríkisútvarpið kaupa eða vera meðframleiðandi að leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimildarmyndum eða öðru dagskrársefni í miðlum Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið skuli verja til þess að lágmarki 8% af heildartekjum á árinu 2016, 9% árið 2017, 10% árið 2018 og 11% árið 2019. Komi til sérstök fjárframlög frá Alþingi, sbr. 4. tl. 1. mgr. 14. gr. laganna, skuli þau ekki teljast til heildartekna skv. greininni og koma til viðbótar við það framlag sem greinin nefni. Þá segir að verði um frekari slík fjárframlög að ræða skuli þeim varið til kaupa og meðframleiðslu á efni samkvæmt greininni, nema Alþingi ákveði annað.

Af framangreindum ákvæðum er ljóst að samningar við sjálfstæða framleiðendur er hluti af lögbundnu hlutverki RÚV sem fjármagnað er af opinberu fé. Almenningur hefur af því hagsmuni að geta kynnt sér hvernig RÚV rækir lögbundið hlutverk sitt og hvernig félagið ráðstafar opinberum fjármunum.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér umbeðinn lista yfir sjálfstæða framleiðendur og greiðslur til þeirra. Í skjalinu koma fram nöfn framleiðenda, ýmist fyrirtækja eða einstaklinga, fjárhæðir greiðslna til þeirra, nöfn keypts dagskrárefnis og tegund þess. Að mati úrskurðarnefndarinnar er þar hvorki að finna upplýsingar um mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, né einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Er hér litið til þess að ekki er um neinar þær upplýsingar að ræða sem nefndar eru í dæmaskyni í tilvitnuðum athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga, né upplýsingar sambærilegar þeim viðkvæmu upplýsingum sem þar eru nefndar. Úrskurðarnefndin tekur fram að þótt upplýsingarnar varði greiðslur til einstaklinga og lögaðila og þar með fjárhagsmálefna þeirra verður ekki talið að einstaka greiðsla til framleiðenda gefi slíka innsýn í fjármál viðkomandi að rétt sé að takmarka aðgang að upplýsingum um þær og víkja þannig til hliðar upplýsingarétti almennings um ráðstöfun opinberra fjármuna. Með vísan til framangreinds verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir RÚV að veita kæranda aðgang að listanum.

Úrskurðarorð:

Ríkisútvarpinu ohf. er skylt að veita kæranda, A, aðgang að lista yfir sjálfstæða framleiðendur og greiðslur til þeirra vegna kaupa á dagskrárefni árið 2018.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta