Hoppa yfir valmynd
20. september 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 309/2023-Úrskrurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 309/2023

Miðvikudaginn 20. september 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 19. júní 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. maí 2023 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2022 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 269.255 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. maí 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. júní 2023. Með bréfi, dag. 21. júní 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 21. júlí 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar samdægurs. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að árið 2022 hafi kærandi verið með barn í fóstri og því fengið tekjur frá B. Tekjurnar hafi verið skráðar í reit 96 á skattframtali sem aðrar tekjur.

Tryggingastofnun telji tekjurnar ekki vera laun sem slík og reiknist því ekki sem viðbótartekjur við ellilífeyri. Kærandi sé ekki sátt við ósk stofnunarinnar um endurgreiðslu á ofgreiddum bótum til hennar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. [23. maí] 2023, um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2022. Kærandi sé ósátt við ákvörðun stofnunarinnar varðandi endurgreiðslu á ofgreiddum tekjum.

Um útreikning ellilífeyris sé fjallað í III. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum. Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta.

Samkvæmt 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, meðal annars ellilífeyris, sbr. 21. og 33. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Í 2. mgr. greinarinnar hafi komið fram að til tekna samkvæmt III. kafla teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og frádráttarliða, samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 22. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. þágildandi laga um almannatryggingar skyldi ellilífeyrir lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn falli niður, sbr. 21. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.

Með bréfi, dags. 27. maí 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022. Niðurstaðan hafi verið skuld að upphæð 269.255 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu þar sem heildargreiðslur til kæranda á árinu 2022 hafi numið hærri upphæð en kærandi hafi átt rétt á samkvæmt endanlegum upplýsingum skattyfirvalda um tekjur kæranda á árinu 2022, í skattframtali ársins 2023. Þennan mismun megi að mestu rekja til vanáætlunar „annarra tekna“. Samkvæmt tekjuáætlun hafi komið fram að kærandi myndi hafa 0 kr. í liðnum aðrar tekjur en í skattframtali ársins 2023 hafi komið fram að aðrar tekjur hafi verið 1.269.867 kr. Við það beri að miða í útreikningum og uppgjöri Tryggingastofnunar. Um sé að ræða fastar reglur við útreikning samkvæmt lögum, reglum, fordæmum og venjum stofnunarinnar. Flokkurinn „aðrar tekjur“ hafi ekki frítekjumark og því hafi myndast skuld þegar upphæð launanna hafi orðið mun hærri en áætlað hafi verið. Greiðsluþegum beri ávallt að upplýsa um þegar breyting verði á tekjum svo hægt sé að breyta tekjuáætlun í samræmi við það. Samkvæmt framtalsskrá hafi óskilgreindar skattskyldar tekjur á árinu 2022 verið 1.961.175 kr. Tekjurnar hafi áhrif á þá níu mánuði ársins, frá 1. apríl, þegar kærandi hafi starfað fyrir B.

Víða í löggjöfinni sé gert ráð fyrir því að tekjur einstaklings geti haft þýðingu fyrir réttarstöðu hans án þess að slíkar reglur teljist jafngildi tekjuskerðingar. Um sjónarmið af þessum toga sé meðal annars fjallað í athugasemdum um efni jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar með frumvarpi því sem hafi orðið að stjórnskipunarlögum nr. 97/1995. Þar sé tekið fram að skilyrðið um að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum án tillits til efnahags komi ekki í veg fyrir að til séu skattleysismörk, einkum þeim til hagsbóta sem lakast séu settir fjárhagslega og skattar geti síðan verið stighækkandi eftir því sem tekjur manna séu hærri. Af sama meiði sé regla sem byggist á þeirri forsendu að þeir sem hafi meiri tekjur sér til framfærslu, fái minni aðstoð frá ríkinu en þeir sem litar eða engar tekjur hafi.

Tekjutenging, byggð á slíkum forsendum, hafi verið í lögum um almannatryggingar í einhverju formi síðan árið 1972. Það almannatryggingakerfi sem lög um almannatryggingar fjalli um sé ætlað að veita landsmönnum fjárhagslegan stuðning í þeim tilvikum þegar aðstæður og atvik í lífi þeirra séu með þeim hætti að atbeina ríkisins sé þörf. Löggjafinn hafi þannig ákveðið að í tilteknum tilvikum skuli skatttekjur ríkisins notaðar til að styðja við bakið á þeim sem hafi orðið fyrir áfalli eða upplifi með einhverjum hætti aðstæður sem hafi áhrif á fjárhagslega afkomu þeirra sem lögin taki til. Undirliggjandi skilyrði þess að ríki geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum um almannatryggingar sé að einstaklingar geri allt sem í þeirra valdi standi til þess að nýta sér þau úrræði sem þeim standi til boða til að ná takmarkinu um viðunandi lífsskilyrði. Ætlast sé til þess að einstaklingar nýti eignir sínar eða getu til vinnu og tryggi þannig afkomu sína. Undirstaða félagslegra réttinda sé því meginreglan um eigin framfærslu. Gengið sé út frá því að hver og einn framfæri sig sjálfur en þessi hugsun endurspeglist í ýmsum lögum, meðal annars í lögum um almannatryggingar. Víða í lögum sé því rétturinn til fjárhagslegs stuðnings úr opinberum sjóðum takmarkaður á grundvelli ákveðinna viðmiða. Til að mynda hafi tekjur einstaklinga og vissar tekjur maka þeirra áhrif á greiðslu ellilífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar. Greiðsluþegar Tryggingastofnunar séu vel upplýstir um fyrirkomulag útreiknings á tekjutengdum réttindum þeirra á bótagreiðsluárinu og hvernig slík réttindi séu háð endurreikningi og uppgjöri.

Kæranda hafi ekki getað haft réttmætar væntingar um að tekjur hans hefðu ekki áhrif á greiðslur hans innan almannatryggingarkerfisins og að þeir hagsmunir njóti nytu verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Sjá megi til dæmis dóm Hæstaréttar þann 2. nóvember 2022 í málum nr. 15, 16 og 17/2022. Sérstaklega hafi ekki átt að skapast réttmætingar væntingar í ljósi langrar sögu tekjutengingar í lögum um almannatryggingar sem kærandi hafi verið upplýst um, þess valds sem löggjafinn hafi til þess að útfæra almannatryggingarkerfið, þess að meðalhófs hafi verið gætt við þær breytingar sem hafi orðið á almannatryggingarkerfinu hverju sinni síðan kærandi hafi fyrst farið út á vinnumarkað og þess að kærandi hafi átt að vera upplýst um tekjutengingu og frítekjumark og að slíkar tekjur hefðu áhrif á endurreikning og uppgjör.

Kærandi vilji meina að umdeild tekjutenging sé ósanngjörn og skyldi ekki skerða atvinnutekjur hennar frá B, eins og lög segi þó til um. Við skýringu 65. gr. stjórnarskrárinnar um það hvort um ólögmæta mismunun sé að ræða, verði að leggja mat á hvort hlutlægar og málefnalegar ástæður séu að baki mismunandi meðferð á tveimur sambærilegum tilvikum sem stefni að lögmætu markmiði. Þá verði að líta til þess hvort eðlilegt samræmi sé á milli þess markmiðs sem mismununin stefni að og þeirra aðferða sem notaðar séu til að ná því, þannig að meðalhófs sé gætt. Þegar áðurnefnd regla um útreikning ellilífeyris, sem og annarra tekjutengdra bóta, séu virt, sé augljóst að þær hvíli á málefnalegum sjónarmiðum, séu almennar og geti ekki slíkan greinarmun á einstaklingum að þær feli í sér ólögmæta mismunun andstætt fyrirmælum 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Með þeim sé stefnt að því að tryggja ákveðna heildarhagsmuni aldraðra og bæta kjör þeirra og við val á leiðum til að ná þeim markmiðum hafi ekki verið gengið of nærri réttindum kæranda.

Af öllu framangreindu virtu sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að endurreikningar og uppgjör tekjutengdra greiðslna kæranda vegna ársins 2022 hafi verið réttur, byggður á fyrirliggjandi gögnum, faglegum sjónarmiðum, sem og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt gildandi lögum og reglum.

Tryggingastofnun fari því fram á að niðurstaða endurreikninga og uppgjöra tekjutengdra greiðslna vegna ársins 2022, frá 27. maí 2023, verði staðfest fyrir nefndinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2022.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins frá apríl til desember 2022. Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar skal ellilífeyrir lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. þágildandi 16. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Þá segir að ellilífeyrisþegi skuli hafa 300.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna. Á grundvelli 3. mgr. 33. gr. laganna ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddan ellilífeyri frá apríl til desember 2022. Í tekjuáætlun kæranda frá 2. apríl 2022, var gert ráð fyrir 994.005 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 902.450 kr. í erlendan lífeyri og 1.808.724 kr. í launatekjur. Sú tekjuáætlun var samþykkt með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. maí 2022, með þeim breytingum að gert var ráð fyrir að lífeyrissjóðstekjur kæranda yrðu 1.288.806 kr. og 72.349. kr. í iðgjald í lífeyrissjóð kæmi til frádráttar. Kærandi lagði fram nýja tekjuáætlun 2. júní 2022, sem var samþykkt með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. júní 2022. Þar var gert ráð fyrir 1.288.806 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 902.450 kr. í erlendan lífeyri, 3.543.024 kr. í launatekjur, 141.721 kr. í frádrátt vegna iðgjalds í lífeyrissjóð og 18.024 kr. í vexti af innistæðum. Kærandi lagði fram nýja tekjuáætlun 1. september 2022. Þar var gert ráð fyrir 1.288.806 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 941.960 kr. í erlendan lífeyri, 3.543.024 kr. í launatekjur, 141.721 kr. í frádrátt vegna iðgjalds í lífeyrissjóð og 18.024 kr. í vexti af innistæðum. Sú tekjuáætlun var samþykkt með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 5. september 2022, þar sem kom jafnframt fram að fyrir lægi ofgreiðsla að fjárhæð 2.382 kr.

Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2022 reyndust tekjur ársins hafa verið 1.317.970 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 895.825 kr. í erlendar lífeyristekjur, 1.269.867 kr. í aðrar tekjur og 120.079 kr. í vexti og verðbætur. Samtals reyndist ofgreiðsla vera 269.255 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur verið krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Ágreiningur málsins varðar þann tekjulið í skattframtali kæranda þar sem fram koma upplýsingar um aðrar tekjur. Með kæru til úrskurðarnefndar, dags. 19. júní 2023, gerir kærandi athugasemd við að tekjur hennar vegna barns í fóstri skerði greiðslur ellilífeyris frá Tryggingastofnun.

Við mat á því hvort tekjur komi til skerðingar tekjutengdum bótum frá Tryggingastofnun ríkisins lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þar segir eins og áður hefur komið fram að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um tekjuskatt teljast skattskyldar tekjur hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að tekjur vegna barns í fóstri sé tekjustofn sem skerði tekjutengdar bætur, sbr. A-lið 1. mgr. 7. gr. laga um tekjuskatt. Tryggingastofnun er ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtast á framtali bótaþega, enda kveður þágildandi 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skýrt á um að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli stofnunin endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Úrskurðarnefnd telur þó rétt að benda kæranda á telji hún að flokkun á tekjum hennar sé röng í skattframtali geti hún kannað hjá Skattinum hvort hægt sé að fá framtalinu breytt. Að þessu virtu fellst úrskurðarnefnd velferðarmála ekki á kröfu kæranda um að tekjur vegna barns í fóstri skerði ekki tekjutengd bótaréttindi frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2022.

Að öllu framangreindu virtu er niðurstaða endurreiknings og uppgjörs Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2022 staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum A, á árinu 2022, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta