Hoppa yfir valmynd
11. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 4/2013.

 

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                              

 

Miðvikudaginn 11. september 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 4/2013:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 15. janúar 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 26. nóvember 2012, á umsókn hans um þjónustuíbúð. Synjunin byggðist á því að kærandi væri yfir eignaviðmiðum skv. c-lið 4. gr. reglna um þjónustuíbúðir fyrir aldraða. Kærandi gerir kröfu um að umsókn hans um þjónustuíbúð verði samþykkt.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi er á tíræðisaldri og varð ekkill árið 2011. Kærandi á 100 m2 skuldlausa íbúð og sparifé umfram það en treystir sér ekki að standa í fasteignaviðskiptum. Kærandi er með skert jafnvægi og fær svimaköst auk þess sem hann hefur misst styrk í fótum. Göngugeta kæranda hefur minnkað sem hefur áhrif á möguleika hans til samvista og félagsskapar. Við íbúðarhúsnæði kæranda eru útitröppur sem erfitt er fyrir hann að fara um auk þess sem stigagangur liggur upp í íbúð kæranda. Af þeim sökum sótti kærandi um þjónustuíbúð hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 12. janúar 2012. Umsókn kæranda var synjað með bréfi, dags. 30. janúar 2012, þar sem skilyrðum var ekki talið fullnægt. Kæranda var þó tilkynnt um að umsókn hans væri komin í tölvugrunninn og hann skyldi upplýsa um það ef breytingar yrðu á högum eða heilsu hans. Þann 8. ágúst 2012 hafði kærandi samband við þjónustumiðstöð og óskaði eftir því að fá endurmat á þörf sinni fyrir þjónustuíbúð. Umsókn kæranda, frá 12. janúar 2012, var látin gilda og var málið lagt fyrir teymisfund. Umsókn kæranda var synjað með bréfi, dags. 4. október 2012, með þeim rökum að skv. c-lið 4. gr. reglna um þjónustuíbúðir fyrir aldraða væri kærandi yfir eignamörkum. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs Reykjavíkurborgar með bréfi, dags. 29. október 2012. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum, þann 14. nóvember 2012, og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

„Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um undanþágu frá skilyrði c.liðar 4. gr. reglna um þjónustuíbúðir.“

 

Niðurstaða velferðarráðs Reykjavíkurborgar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 26. nóvember 2012. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 15. janúar 2013. Með bréfi, dags. 18. janúar 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um þjónustuíbúð. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda, þar með talið sundurliðað yfirlitsblað gjalda og tekna. Greinargerð velferðarráðs Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 4. febrúar 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 7. febrúar 2013, var bréf velferðarráðs Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með símtali þann 21. ágúst 2013 var óskað eftir skýringum á töfum málsins hjá þjónustumiðstöð, frá umsókn, dags. 12. janúar 2012, til synjunar, dags. 4. október 2012. Með tölvupósti dags, 21. ágúst 2013, bárust nefndinni frekari gögn sem gáfu skýringar á meðferð málsins hjá þjónustumiðstöð.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Í kæru kemur fram að kærandi sé níræður, eigi skuldlausa íbúð og hafi ekki hug á að fjárfesta í annarri íbúð á þessum aldri. Kærandi kveður göngugetu sína hafa minnkað snarlega frá árinu 2012 og þar sem hann búi einn eftir andlát eiginkonu sinnar hafi það áhrif á möguleika hans til samvista og félagsskapar við aðra einstaklinga. Að sögn kæranda eru útitröppur við húsið sem hann býr í sem geti reynst honum erfiðar auk þess sem stigangur liggi upp í íbúðina hans. Kærandi kveðst hafa búið í eigin húsnæði alla ævi og séð um sig sjálfur og hafi ekki þurft á þjónustu frá Reykjavíkurborg að halda fyrr en nú. Honum hafi verið bent á að hann gæti keypt sér íbúð í blokk fyrir aldraða en hann hafi ekki í hug á að standa í íbúðarkaupum á tíræðisaldri. Kærandi kveðst ekki hafa verið gefinn kostur á að komast á biðlista eftir þjónustuíbúð og að honum hafi einnig verið tjáð að það gæti tekið allt að tvö ár að bíða eftir úthlutun. Að sögn kæranda sé búið að athuga fyrir hann hvar hægt sé að leigja íbúðir en eins og staðan hafi verið þá væri eingöngu laust á Eir en hvorki Hrafnista né Mörkin, sem sé nær hans búsetustað, hafi staðið til boða. Hugsanlega gæti hann fengið íbúð í Boðaþingi vorið 2013. Kærandi óski svara við því hvort lagt sé til að hann kaupi aðra fasteign áður en hann selji en vegna lágra tekna fari hann ekki í gegnum greiðslumat til að fjármagna nýja fasteign. Þá óski hann svara við því hvort lagt sé til að hann selji áður en hann kaupi aðra fasteign og hvað hann beri að gera finni hann ekki hentuga íbúð. Að mati kæranda eigi maður sem kominn sé yfir nírætt ekki að þurfa að standa í fasteignaviðskiptum með tilheyrandi umsýslu þrátt fyrir að hann fengi aðstoð við það. Hann hafi borgað það sem honum hafi borið til samfélagsins alla sína tíð og finnist því lágmark að hann eigi möguleika á því að komast á biðlista fyrir þjónustuíbúðir þar sem hann treysti sér ekki til fasteignaviðskipta á þessum tímapunkti í lífi sínu. Fari kærandi því fram á endurskoðun málsins með tilliti til aldurs hans.

 

 


 

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

 

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar vegna kærunnar kemur fram að synjun á umsókn kæranda hafi byggst á reglum um þjónustuíbúðir fyrir aldraða sem samþykktar voru í velferðarráði 12. mars 2008 og borgarráði 27. mars. 2008. Í 4. gr. reglnanna sé að finna nánar tiltekin skilyrði um það hverjir geti sótt um þjónustuíbúðir og þurfi umsækjandi að uppfylla öll þau skilyrði sem ákvæðið áskilji. Samkvæmt c-lið sé það skilyrði að umsækjandi hafi að mati félagsráðgjafa eða ráðgjafa ekki möguleika á því að kaupa eigið húsnæði eða eigi búseturétt í húsnæði sem henti. Við mat skv. c-lið 4. gr. sé horft til eignastöðu umsækjanda þegar metið sé hvort hann hafi möguleika á því kaupa eigið húsnæði eða eigi búseturétt í húsnæði sem henti. Í verklagsreglum með reglum um þjónustuíbúðir fyrir aldraða komi fram að við mat á því hvort umsækjandi hafi möguleika á að kaupa eða leigja húsnæði sem henti skuli ávallt skoða skattframtal umsækjanda. Við skoðun á getu umsækjanda til að kaupa skuli miða við meðalverð á tveggja herbergja íbúðum á höfuðborgarsvæðinu eins og það birtist í verðsjá Þjóðskrár Íslands fyrir fjölbýli á tólf mánaða tímabili í desember ár hvert. Viðmiðið sem í gildi hafi verið við afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið fyrir desember 2011 og verið 15,5 milljónir króna. Þá kveði verklagið á um að eigi umsækjandi hreina eign samkvæmt skattframtali yfir þeim mörkum skuli umsækjanda synjað. Samkvæmt skattframtali hafi kærandi átt fasteign að verðmæti 27.500.000 kr. og engar skuldir hafi verið áhvílandi á eigninni. Í skattframtalinu hafi einnig komið fram að kærandi hafi átt innistæðu í banka að fjárhæð 6.199.914 kr. Hafi kærandi því átt eignir að verðmæti 33.699.914 kr. Miðað við eignastöðu kæranda hafi það verið mat velferðarráðs að hann hafi haft möguleika á því að kaupa eigið húsnæði eða búseturétt í húsnæði sem hentaði honum.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 8. ágúst 2012, um þjónustuíbúð.

 

Í IV. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Í VI. kafla laganna er fjallað um fjárhagsaðstoð til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára. Þar segir í 21. gr. að sveitarstjórn skuli setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

 


 

 

Um málefni aldraðra er fjallað í lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Samkvæmt 1. gr. laganna er markmið þeirra að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem sé eðlilegast miðað við þörf og ástand hins aldraða. Einnig er markmið laganna að aldraðir geti, eins lengi og unnt er, búið við eðlilegt heimilislíf en að jafnframt sé tryggð nauðsynleg stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf. Við framkvæmd laganna skal þess gætt að aldraðir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagsþegna og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur. Um öldrunarþjónustu er síðan fjallað í IV. kafla laganna. Þjónustuíbúðir fyrir aldraða falla undir opna öldrunarþjónustu, sbr. 13. gr. laganna en þar segir í 4. tölul. 1. mgr. að þjónustuíbúðir aldraðra geti verið sjálfseignar-, leigu- og búseturéttaríbúðir. Í V. kafla laganna er fjallað um kostnað við öldrunarþjónustu en þar segir í 20. gr. að íbúar í þjónustuíbúðum, sbr. 4. tölul. 13. gr., greiði sjálfir þá þjónustu sem þar sé veitt, aðra en heimaþjónustu, sbr. 24. gr., samkvæmt ákvörðun rekstraraðila.

 

Fyrir nefndinni liggja reglur Reykjavíkurborgar um þjónustuíbúðir fyrir aldraða frá 1. maí 2008, sem samþykktar voru í velferðarráði 12. mars 2008 og borgarráði 27. mars 2008. Í 1. gr. reglnanna er að finna skilgreiningu á þjónustuíbúð en þar segir að með þjónustuíbúð sé átt við hverja þá leiguíbúð sem séu sérstaklega ætlaðar öldruðum, sbr. 4. tölul. 13. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, og leigðar séu út í samvinnu og samráði við Velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Þjónustuíbúðir fyrir aldraða séu ætlaðar þeim sem þurfa aðstoð og stuðning til að geta búið á eigin heimili, sbr. 1. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Í 2. gr. reglnanna er að finna ákvæði um markmið þjónustuíbúða en þar segir að markmið með rekstri þjónustuíbúða sé að mæta þörfum íbúa sem þar búa, stuðla að sjálfstæði þeirra, svo sem hvað varðar fjármál og heimilishald, og stuðla að sem mestri sjálfsbjargargetu hvers og eins. Þjónustuíbúðum er ætlað að vera íbúum hentugur bústaður þar sem þeir geti haldið eigið heimili sem lengst við ákjósanlegar aðstæður. Með því móti er leitast við að fresta eða koma í veg fyrir stofnanadvöl. Eru þjónustuíbúðir úrræði í þeim tilvikum þegar tilboð heilbrigðis- og félagsþjónustu í heimahús fullnægja ekki þjónustuþörf lengur og/eða þegar einstaklingur kýs að búa ekki lengur á heimili sínu. Í 4. gr. reglnanna er síðan fjallað um það hverjir geta sótt um þjónustuíbúðir. Þar segir að forsenda þess að geta sótt um þjónustuíbúð sé að umsækjandi uppfylli öll eftirfarandi skilyrði:

 

a) Eigi lögheimili í Reykjavík og hafi átt lögheimili í Reykjavík að minnsta kosti samfellt í þrjú ár fyrir umsóknardag.

b) Umsækjandi sé í þörf fyrir aðstoð og stuðning til að geta búið á eigin heimili sbr. matsviðmið skv. 7. gr. reglna þessara. Umsækjandi sé að mati félagsráðgjafa/ráðgjafa sem og annarra sérfræðinga sem málið þekkja í þörf fyrir þjónustu og stuðning sem ekki er unnt að veita í núverandi húsnæði umsækjanda.

c) Umsækjandi hafi að mati félagsráðgjafa/ráðgjafa ekki möguleika á því að kaupa eigið húsnæði/búseturétt í húsnæði sem hentar.

 


 

Umsókn kæranda um þjónustuíbúð var synjað hjá þjónustumiðstöð, þar sem hann hafi verið yfir eignaviðmiðum skv. c-lið 4. gr. reglnanna. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs og fór fram á undanþágu frá skilyrði c-liðar 4. gr. á grundvelli þess að hann væri of aldraður til að standa í fasteignaviðskiptum en var synjað. Í greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar var vísað til verklagsreglna með reglum um þjónustuíbúðir fyrir aldraða. Verklagsreglur með reglum um þjónustuíbúðir fyrir aldraða voru samþykktar í febrúar 2012. Þar segir að við mat á því hvort umsækjandi hafi möguleika á því að kaupa/leigja húsnæði sem hentar, skuli ávallt skoða skattframtal umsækjanda. Við skoðun á getu umsækjanda til að kaupa húsnæði skuli miða við meðalverð á tveggja herbergja íbúða á höfuðborgarsvæðinu eins og það birtist í verðsjá Þjóðskrár Íslands fyrir fjölbýli á tólf mánaða tímabili í desember ár hvert. Eigi umsækjandi hreina eign samkvæmt skattframtali yfir þeim mörkum skal umsækjanda synjað og honum leiðbeint um áfrýjun til velferðarráðs.

 

Samkvæmt verðsjá Þjóðskrá Íslands var meðalverð tveggja herbergja íbúða á höfuðborgarsvæðinu fyrir tólf mánaða tímabil í desember 2011, 15,5 milljónir króna. Samkvæmt útprentun úr álagningarskrá og staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra frá 25. september 2012 sem fyrirliggjandi er í gögnum málsins átti kærandi fasteign að verðmæti 27.500.000 kr. án áhvílandi skulda. Átti kærandi því hreina eign samkvæmt skattframtali yfir mörkum úr verðsjá Þjóðskrár Íslands. Úrskurðarnefndin telur því ljóst að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði c-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um þjónustuíbúðir.

 

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Reykjavíkurborgar.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 26. nóvember 2012, um synjun á umsókn A, um þjónustuíbúð er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta