Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Aðgerðaáætlun heilbrigðisstefnu kynnt í ríkisstjórn

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar í dag aðgerðaáætlun heilbrigðisstefnu til næstu fimm ára. Þar eru sett fram þau meginmarkmið að kaup á heilbrigðisþjónustu tryggi að fjármunum sé varið til þeirrar þjónustu sem mest er þörf fyrir á hverjum tíma, að nýtt þjónustutengt fjármögnunarkerfi verði tekið í notkun fyrir opinber sjúkrahús og sambærilega einkarekna þjónustu, að  nauðsynlegar kröfur séu gerðar um aðgengi, gæði og öryggi sjúklinga og að notendur heilbrigðisþjónustu hafi gott aðgengi að upplýsingum til að taka upplýstar ákvarðanir um val á heilbrigðisþjónustu.

Aðgerðaáætlunin hefur einnig verið lögð fram á Alþingi. Þetta er önnur aðgerðaáætlun heilbrigðisráðherra um framkvæmd heilbrigðisstefnu frá því að Alþingi samþykkti þingsályktun um heilbrigðisstefnu til ársins 2030, en samkvæmt henni skal uppfærð aðgerðaáætlun til fimm ára lögð fyrir þingið ár hvert. Áætlunin er tengd við fjárlagavinnu Alþingis á hverjum tíma og tekur mið af helstu áskorunum og áhersluverkefnum í heilbrigðismálum, en um fjórðungur fjárheimilda ríkissjóðs rennur til þessa málaflokks.

Í samræmi við fyrri aðgerðaáætlun heilbrigðisstefnu og markmið heilbrigðisstefnu hefur á síðustu misserum verið unnið að því að skýra ákveðna grunnþætti innan heilbrigðiskerfisins. Þegar hafa verið gerðar breytingar á löggjöf um heilbrigðisþjónustu í þessu skyni og hún gerð skýrari og afdráttarlausari um hlutverk heilbrigðisstofnana og þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu. Gerð hefur verið úttekt á mannaflaþörf heilbrigðiskerfisins með það fyrir augum að tryggja mönnun til framtíðar. Efnt var til heilbrigðisþings þar sem hófst undirbúningur að gerð þingsályktunartillögu um þau siðferðilegu gildi sem hafa skuli að leiðarljósi við forgangsröðun í íslenskri heilbrigðisþjónustu og var hún samþykkt á Alþingi í júní síðastliðnum.

Aðgerðaáætlun heilbrigðisráðherra til næstu fimm ára hefur verið send stjórnendum stofnana sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið og væntir ráðherra þess að starfsáætlanir stofnana fyrir árið 2021-2022 endurspegli hana. Markvisst starf  heilbrigðisstofnana landsins og farsæl innleiðing  embættis landlæknis á gæðaáætlun í heilbrigðisþjónustu  er lykillinn að árangursríkri innleiðingu  þessarar  fimm ára aðgerðaáætlunar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta