Hoppa yfir valmynd
4. júlí 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs HÍ skapar tækifæri til fjölgunar nemenda

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Jón Atli Benediktsson við undirritun samningsins. - mynd

Nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands verður reist á lóð Landspítalans við hlið Læknagarðs. Samningur um uppsteypu og frágang hússins var nýlega undirritaður af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, og Þorvaldi H. Gissurarsyni, forstjóra ÞG verks. Áætlað er framkvæmdir taki um fimm ár og að nýtt hús og endurbættur Læknagarður muni hýsa stærsta hluta af starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs.

„Sameining heilbrigðisgreina undir einu þaki stuðlar að betri samvinnu við kennslu og rannsóknir. Forsenda þess að hægt sé að fjölga nemendum er að innviðir séu með besta móti. Það er óhætt að segja að nýbyggingin eigi eftir að stórbæta aðstöðu heilbrigðisvísinda,“ segir Áslaug Arna. „Ég vona að nýtt húsnæði veki athygli á fjölbreyttum greinum  heilbrigðisvísinda og að við getum mannað þær vel.“

Úr níu byggingum í eina

Starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs HÍ dreifist í dag á milli níu staða víðs vegar um borgina. Með tilkomu nýrrar byggingar og endurbóta á Læknagarði verður unnt að nýta nálægð til að ýta undir samstarf milli ólíkra deilda á sviðinu. Eirberg, sem frá upphafi hefur hýst Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild skólans og er staðsett á sömu lóð, verður áfram nýtt eftir þörfum.

Skóflustunga að húsinu var tekin sumarið 2023 og hefur jarðvinnu miðað vel. Nokkrar breytingar hafa orðið á hönnunarforsendum og verður heildarstærð hins nýja og breytta húss Heilbrigðisvísindasviðs alls rúmir 20.000 fermetrar, en þar af er nýbyggingin rúmir 11.000 fermetrar. Áætlað er að uppsteypu og frágangi ljúki árið 2026 og hún verði tekin í notkun árið 2028. Stefnt er að verklokum við endurbætur í Læknagarði ári síðar.

Áætlaður kostnaður við framkvæmdina nemur 11,4 ma.kr. og dreifist hann á árin 2024-2028. Fjárheimildir vegna verkefnisins eru í nýsamþykktri fjármálaáætlun og kemur fjármagnið frá Happdrætti Háskóla Íslands.

Sjá einnig:

  • Nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs HÍ skapar tækifæri til fjölgunar nemenda - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum