Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 31/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 23. janúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 31/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18100051

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. október 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Georgíu (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. október 2018, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.

Kærandi krefst þess að ákvörðunin verði ógild.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 27. júní 2017. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. janúar 2018, var kæranda synjað um alþjóðlega vernd og með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 12. apríl 2018, var sú ákvörðun staðfest. Kæranda var birtur úrskurðurinn þann 30. apríl 2018 og var henni gert að yfirgefa landið innan 7 daga frá þeim degi. Þá kom fram í úrskurðinum að yfirgæfi kærandi ekki landið innan 7 daga þá kynni henni að verða brottvísað með endurkomubanni. Þann 24. október 2018 var kæranda tilkynnt af Útlendingastofnun að til stæði að brottvísa henni þar sem hún hefði ekki yfirgefið landið innan veitts frests. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. október 2018, var kæranda brottvísað og gert endurkomubann til Íslands í tvö ár. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 19. nóvember 2018, ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda þann 11. desember 2018. Samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra var kæranda fylgt úr landi þann 30. nóvember 2018 til heimaríkis.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að kærandi hafi verið handtekin 24. október 2018 vegna ólöglegra starfa hér á landi og framvísun á fölsuðum skilríkjum. Hafi henni verið tilkynnt í viðtali hjá Útlendingastofnun sama dag að til stæði að brottvísa henni þar sem hún hefði ekki yfirgefið landið innan veitts frests og hafi henni verið veitt færi á að mótmæla ákvörðun um brottvísun og endurkomubann inn á Schengen-svæðið. Hafi kærandi mótmælt þessari framkvæmd og óskað eftir því að stofnunin endurskoðaði ákvörðun sína.

Vísaði stofnunin því næst til þess að kæranda hefði verið veittur frestur til sjálfviljugrar heimfarar í úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 12. apríl 2018. Ljóst væri að kærandi hefði ekki yfirgefið landið innan veitts frests og bæri stofnunin því, að teknu tilliti til ákvæða 102. gr. laga um útlendinga, að vísa henni úr landi, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laganna. Þá væri ekkert í gögnum málsins sem leiddi til þess sú ráðstöfun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn ráðstöfun gagnvart henni eða nánustu aðstandendum hennar, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Að framansögðu var ákvörðun Útlendingastofnunar að brottvísa kæranda og með hliðsjón af 2. mgr. 101. gr. þótti lengd endurkomubanns hæfilega ákveðin tvö ár.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi talið að sér væri heimilt að dvelja áfram á Íslandi á meðan hún væri í atvinnuleit jafnvel þótt henni hafi verið veittur sjö daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 12. apríl 2018. Byggir kærandi aðallega á því að tungumálaörðugleikar hafi gert það að verkum að henni hafi ekki verið ljós réttarstaða sín hér á landi. Þá væri kærandi búin að vera í sambúð með íslenskum ríkisborgara í um eitt ár og hygðist hann fara til heimalands kæranda og ætluðu þau að ganga í hjúskap þar. Fyrirhugað væri að því loknu að hún myndi sækja um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar hér á landi. Telur kærandi að það sé verulega ósanngjörn ráðstöfun gagnvart henni og maka hennar að lagt sé endurkomubann á hana til tveggja ára. Vísar kærandi í þessu sambandi til 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Bæði hafi hún nú sérstök tengsl við landið og þá hyggist hún yfirgefa landið í samvinnu við stoðdeild embættis ríkislögreglustjóra.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er útlendingi, sem ekki þarf vegabréfsáritun til landgöngu, heimilt að dveljast hér í 90 daga frá komu til landsins. Þá segir í 1. mgr. 50. gr. laganna að útlendingur sem hyggist dvelja hér á landi lengur en honum sé heimilt skv. 49. gr. þurfi að hafa dvalarleyfi. Heimildir til brottvísunar einstaklings sem ekki er með dvalarleyfi hér á landi er að finna í 98. gr. laganna.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann dvelst ólöglega í landinu. Þá segir í a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að, svo framarlega sem 102. gr. eigi ekki við, skuli vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna.

Með úrskurði kærunefndar þann 12. apríl 2018 var kæranda synjað um alþjóðlega vernd hér á landi og henni gert að yfirgefa landið innan sjö daga frá birtingu úrskurðarins. Var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda þann 30. apríl 2018. Þá kom jafnframt fram að yfirgæfi hún ekki landið innan tilskilins frests kynni henni að verða brottvísað með endurkomubanni. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi yfirgaf ekki landið innan fyrrgreinds frests en þann 24. október sl. var hún handtekin vegna ólöglegra starfa hér á landi. Eins og fram er komið fór kærandi úr landi þann 30. nóvember 2018 í samvinnu við stoðdeild embættis ríkislögreglustjóra. Er skilyrðum a-liðar 1. mgr. 98. gr. og a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga því fullnægt.

Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans.

Fyrir kærunefnd lagði kærandi fram gögn um að hún hafi gengið í hjúskap með íslenskum ríkisborgara í heimaríki sínu þann 6. desember 2018. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun lagði kærandi inn umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þann 18. desember sl.

Þrátt fyrir að kærandi hafi gengið í hjúskap með íslenskum ríkisborgara er það mat kærunefndar að brottvísun kæranda feli ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart henni eða nánustu aðstandendum hennar í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Við það mat hefur kærunefnd litið til þess að kærandi gekk í hjúskap í heimaríki eftir að Útlendingastofnun tók ákvörðun um brottvísun hennar og mátti kæranda og eiginmanni hennar því vera ljóst að kærandi hefði ekki heimild til dvalar hér á landi og hefði verið vísað brott. Að mati kærunefndar leiðir vanþekking kæranda á reglum um dvöl hér á landi jafnframt ekki til þess að brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart henni. Horfir kærunefnd einnig til þess að þegar kæranda var tilkynnt um fyrirhugaða brottvísun, þann 24. október sl., var hún búin að dvelja hér á landi án heimildar í tæplega 5 mánuði.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til a-liðar 1. mgr. og a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, enda dvaldi hún ólöglega í landinu og yfirgaf landið ekki innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laganna. Þá verður ákvörðun Útlendingastofnunar um tveggja ára endurkomubann, sbr. 2. mgr. 101. gr. jafnframt staðfest, en samkvæmt ákvæðinu skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár og ljóst er að endurkomubanni er m.a. ætlað að hafa almenn varnaðaráhrif gegn brotum útlendings m.a. á ákvæðum laga um útlendinga.

Gögn málsins bera með sér að kærandi hafi yfirgefið landið þann 30. nóvember 2018 og verður því litið svo á að tveggja ára endurkomubann hafi hafist þá þeim degi, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga skal óafgreiddum umsóknum um dvalarleyfi vísað frá við endanlega ákvörðun um brottvísun.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 2. mgr. 96. gr. laga um útlendinga er heimilt að fella endurkomubann úr gildi ef nýjar ástæður mæla með því og rökstutt er að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                              Anna Valbjörg Ólafsdóttir

 


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta