RetinaRisk hlýtur styrk úr Heimsmarkmiðasjóði til að koma í veg fyrir blindu á meðal fólks með sykursýki á Indlandi
Heilbrigðistæknifyrirtækið RetinaRisk hlýtur 10 milljóna króna styrk úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu vegna verkefnisins Bylting í augnskimun til að koma í veg fyrir blindu á meðal fólks með sykursýki á Indlandi. Styrkurinn mun gera fyrirtækinu kleift að veita um tvö hundruð þúsund efnalitlum sjúklingum á Indlandi aðgang að augnskimun á næsta ári en RetinaRisk áhættureiknirinn, sem er sá fyrsti sinnar tegundar á alþjóðavísu, getur tvöfaldað skimunargetu á Indlandi með einstaklingsmiðaðri nálgun.
Sykursýki er í dag ein helsta orsök blindu í fólki á vinnualdri um heim allan en koma má í veg fyrir sjónskerðingu í yfir 90% tilvika með snemmgreiningu á augnbotnaskemmdum og viðeigandi meðferð. Til mikils er að vinna þar sem Alþjóðasykursýkissamtökin (IDF) gera ráð fyrir að í dag séu í kringum hálfur milljarður manna með sykursýki og að sú tala eigi eftir að fara yfir 700 milljónir árið 2045. Á Indlandi eru yfir 70 milljónir einstaklinga með sykursýki og gert er ráð fyrir sá fjöldi muni nærri tvöfaldist á næstu tveimur áratugum. Eins og staðan er í dag hafa fáir aðgang að reglulegri augnskimun og það er því til mikils að vinna fyrir sjúklinga og heilbrigðisyfirvöld að bæta skimunargetuna og auka skilvirkni.
RetinaRisk gerir ráð fyrir að um tvö hundruð þúsund manns undir tekjumörkum fái aðgang að augnskimun á styrktímabilinu í gegnum aukna skilvirkni sjúkrahúsa sem gefa um þriðjung sinnar þjónustu að jafnaði til þessa markhóps. Styrkurinn gerir fyrirtækinu kleift að koma á fót innleiðingarteymi sem starfar innan og í samstarfi við góðgerðaspítalann Sankara Nethralaya í Chennai á Indlandi. Spítalinn er sérhæfður í augnlækningum og veitir um 35% af allri þjónustu sinni ókeypis til fólks sem hefur ekki efni á henni. Vísindalega nákvæmt áhættumat, eins og RetinaRisk býður upp á, gerir heilbrigðisstarfsfólki kleift að finna þá sjúklinga sem eru í mestri áhættu og koma þannig í veg fyrir sjónskerðingu og blindu. Áhættureiknirinn gerir einnig einstaklingsmiðaða upplýsingagjöf til sjúklinga og snjallari forgangsröðun mögulega.
Verkefnið styður við Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna, einkum SDG 3 um að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu en einnig með því að gera augnskimun skilvirkari og hagkvæmari (SDG 12), koma í veg fyrir að fólk detti út af vinnumarkaði vegna sjónskerðingar (SDG 8), minnka kolefnissporið (SDG 13) á sama tíma og auka klínískt öryggi og valdefla sjúklinga.
Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs um þróunarsamvinnu styður við fyrirtæki sem vilja vinna að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með því að ráðast í samstarfsverkefni í þróunarlöndum. Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna á www.utn.is/atvinnulifogthroun.