Lækkun lyfjakostnaðar
Breytingar sem gerðar hafa verið á greiðsluþátttöku ríkisins í lyfjakostnaði og fleiri aðgerðir hafa sparað þjóðarbúinu hátt á þriðja milljarð króna á ársgrundvelli. Áhrif breytinganna eru tvíþættar. Notkun hagkvæmari lyfja hefur aukist og verð á mörgum lyfjum hefur lækkað. Nemur lækkunin allt að 60–70% á sumum lyfjum. Tekist hefur að beina lyfjanotkun í ódýrustu lyfin í mörgum stórum lyfjaflokkum, þ.e. blóðfitulyf, magalyf, blóðþrýstingslyf, astmalyf, beinþéttnilyf og þunglyndislyf.
Fyrstu breytingarnar í þessu skyni voru gerðar í mars á síðasta ári. Sett var reglugerð sem takmarkaði almenna greiðsluþátttöku sjúkratrygginga við ódýrustu lyfin í tveimur stórum lyfjaflokkum og síðar bættust fleiri lyfjaflokkar við. Með þessu móti er gert ráð fyrir því að læknar vísi fremur á hagkvæmustu lyfin fyrir sjúklinga sína þegar um er að ræða sömu verkan þeirra og dýrari lyfja. Ef meðferð með þessum lyfjum er talin ófullnægjandi eða ef aukaverkanir koma fram við notkun þeirra getur læknir sótt um lyfjaskírteini sem tryggir sjúklingnum niðurgreiðslu vegna dýrara lyfs sem honum er nauðsynlegt.
Auknar niðurgreiðslur fyrir börn og fólk án atvinnu
Samhliða umræddum breytingum sem gerðar voru í mars 2009 var meðal annars ráðist í aðgerðir til að lækka lyfjakostnað hjá börnum og fólki án atvinnu. Greiðsluþátttaka þeirra er nú hin sama og hjá elli- og örorkulífeyrisþegum.
Sparnaður mun meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir
Upphaflega var reiknað með að sparnaður Sjúkratrygginga Íslands vegna breytinga á greiðsluþátttöku í einstökum lyfjaflokkum yrði tæplega 1,4 milljarðar króna á ársgrundvelli. Sparnaðurinn er hins vegar mun meiri, eða um 2 milljarðar króna. Af einstökum lyfjaflokkum er sparnaðurinn mestur vegna þunglyndislyfja, um 410 milljónir króna á ársgrundvelli. Ekki er vitað til þess að aukin notkun ódýrari lyfja hafi leitt til neinna heilsufarsvandamála hjá sjúklingum.
Breyting á álagningu í apótekum og verðlækkanir
Hinn 1. janúar 2009 tók gildi ákvörðun lyfjagreiðslunefndar um lækkun álagningar hjá apótekum, sett var fast gjald fyrir afgreiðslu apóteka á lyfseðilsskyldum lyfjum og verð á lyfjum var lækkað til samanburðar við meðaltalsverð á Norðurlöndunum. Sparnaður vegna þessara aðgerða nemur um 3–400 milljónum króna á ársgrundvelli.
Aðgerðir stjórnvalda vekja athygli hjá öðrum þjóðum
Sparnaður sem náðst hefur með framantöldum aðgerðum nemur hátt á þriðja milljarð króna á ársgrundvelli. Þessi árangur hefur vakið athygli meðal annarra þjóða og horfa nú Danir til þess að grípa til sambærilegra aðgerða til að lækka lyfjaútgjöld hins opinbera.