Styrkir til sveitarfélaga vegna þjónustu við börn
Auglýst er eftir umsóknum frá sveitarfélögum um styrki til verkefna sem ætlað er að efla stuðnings- og nærþjónustu við langveik börn og börn með ofvirkni og athyglisbrest. Styrkir verða veittir á grundvelli samstarfssamnings félags- og tryggingamálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Sveitarfélög geta sótt um styrki vegna verkefna á eigin vegum eða sem unnin eru í samstarfi við einstaklinga eða félagasamtök.
Styrkhæf verkefni eru:
- Verkefni sem fela í sér félagslega stuðningsþjónustu, svo sem liðveislu og skammtímavistun til samræmis við það sem fötluð börn eiga kosta á samkvæmt lögum um málefni fatlaðra.
- Verkefni sem hafa það markmið að gera langveikum börnum á leik- og grunnskólaaldri kleift að fá sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, þroskaþjálfun og/eða talþjálfun í skólum sínum þegar fagleg rök mæla með því.
- Verkefni sem fela í sér faglega leiðsögn sérfræðinga fyrir langveik börn á leik- og grunnskólaaldri sem ekki geta sótt skóla heilsu sinnar vegna.
- Verkefni sem fela í sér fræðslu og/eða stuðning fyrir kennara og annað starfsfólk skóla vegna nemenda með ADHD.
- Verkefni sem miða að bættri þjónustu leik- og grunnskóla við börn með ADHD.
- Önnur verkefni sem lögð er áhersla á í skýrslum tveggja starfshópa frá febrúar og apríl 2008 um þjónustu við langveik börn og börn með ofvirkni og athyglisbrest.
Styrkveiting er ákveðin á grundvelli umsóknar og verður við mat á umsóknum lögð megináhersla á að viðkomandi verkefni feli í sér, með beinum hætti, þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra.
Sveitarfélög sem hljóta styrk skulu leggja fram vinnu við skipulagningu og framkvæmd verkefnis. Í því felst almennur stjórnunarkostnaður, svo sem kostnaður við skrifstofuaðstöðu, kostnaður við ráðningu og verkstjórn og kostnaður við skipulagningu og samþættingu við starfsemi í grunnskólum, leikskólum eða öðrum stofnunum á vegum sveitarfélagsins. Enn fremur er innifalinn kostnaður við eftirlit og eftirfylgni verkefnis, uppgjör og skýrslugerð auk kostnaðar vegna húsnæðis þar sem það á við.
Gert er ráð fyrir að þeim verkefnum sem hljóta styrk að þessu sinni ljúki fyrir fyrir 31. desember 2011.
Frestur sveitarfélaga til að sækja um styrki rennur út 25. nóvember 2010.
Umsóknareyðublöð fást í afgreiðslu félags- og tryggingamálaráðuneytisins en hér er einnig hægt að sækja rafrænt eyðublað.