Sameining landlæknis og Lýðheilsustöðvar
Lýðheilsustöð og landlæknisembættið verða sameinuð í eitt embætti um næstu áramót, samkvæmt frumvarpi sem heilbrigðisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi. Verkefni þessara stofnana falla vel saman og eru samlegðaráhrif sameiningarinnar talin margvísleg.
Í núverandi mynd sinna bæði Lýðheilsustöð og landlæknisembættið ráðgjöf um heilbrigðismál til stjórnvalda og almennings, gefa út leiðbeiningar um vinnulag og framkvæmd verkefna og sinna rannsóknum. Því þykja margir kostir felast í því að sameina störf stofnananna, enda skapist með því tækifæri til að styrkja og efla starf þeirra enn frekar en nú er. Samhliða verður unnt að auka hagkvæmni í rekstri, draga úr yfirbyggingu og samnýta mannafla betur en hingað til og koma í veg fyrir skörun verkefna sérstaklega í verkefnum sem snúa að forvörnum.
Ekki er gert ráð fyrir neinum grundvallarbreytingum á hlutverkum nýrrar stofnunar, heldur mun hún taka við öllum verkefnum sem landlæknisembættið sinnir nú og sömuleiðis þeim verkefnum sem Lýðheilsustöð annast. Nýtt embætti landlæknis og lýðheilsu mun því annast leyfisveitingar, sóttvarnir, ráðgjöf, eftirlit, upplýsingasöfnun, gæðamál og skýrslugerð, auk verkefna á sviði forvarna, heilsueflingar og lýðheilsu.
Helstu breytingar
Í frumvarpinu er lagt til að dánarmeinaskrá flytjist frá Hagstofu Íslands til embættis landlæknis og lýðheilsu. Þykir eðlilegt að rekstur skrárinnar sé í höndum embættisins þar sem hún er ein af meginuppsprettum upplýsinga um heilsufar landsmanna og mikilvægur þáttur í vöktun og eftirliti með tíðni sjúkdóma og heilbrigðisupplýsinga. Einnig er lagt til að umsýsla og eftirlit með lögum um lækningatæki verði flutt frá landlæknisembættinu til Lyfjastofnunar. Þetta verkefni fellur vel að sérþekkingu Lyfjastofnunar varðandi vinnuaðferðir við eftirlit og beitingu verkferla við tæknieftirlit.
Verkefni á sviði forvarna og lýðheilsu
Lýðheilsustarf nýrrar stofnunar mun felast í fjölbreyttum verkefnum sem snerta meðal annars hreyfingu, mataræði og vaxandi offitu landsmanna, slysavarnir, tannvernd, geðvernd, sóttvarnir, kynheilbrigði, uppeldi og þroska barna, varnir gegn margs konar birtingarmyndum ofbeldis og forvarnarstarf gegn notkun áfengis, tóbaks og annarra vímuefna. Sérstaklega þarf að huga að aðstæðum verðandi mæðra, barna og ungmenna, atvinnulausra, öryrkja og aldraðra og tryggja jöfnuð borgaranna. Embættið mun jafnframt standa vörð um gæði heilbrigðisþjónustunnar á öllum stigum hennar, þ.e. í forvarnastarfi, hjá heilsugæslu og hjá heilbrigðisstofnunum. Samhliða þessu mun embættið jafnframt bera ábyrgð á framkvæmd sóttvarna og hafa umsjón með gagnasöfnum á landsvísu um heilbrigðisþjónustuna og heilbrigði landsmanna.