Hoppa yfir valmynd
10. júní 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 305/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 20. júní 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 305/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19040089

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. apríl 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. mars 2019, um að synja henni um dvalarleyfi.

Af kæru kæranda verður ráðið að hún krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 29. júní 2017 sótti kærandi um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Var umsóknin byggð á því að kærandi ætti uppkomna dóttur hér á landi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. mars 2019, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 28. mars sl. og þann 12. apríl sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Þann 10. maí sl. bárust athugasemdir frá kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að við vinnslu umsóknar kæranda hafi komið í ljós að fylgigögn með umsókninni voru ófullnægjandi. Hafi stofnunin af því tilefni sent kæranda bréf, dags. 1. nóvember 2017, þar sem óskað hafi verið eftir greinargerð ásamt gögnum til stuðnings greinargerð, m.a. fæðingarvottorði ættmennis, gögnum þess efnis að kærandi hafi verið á framfæri dóttur sinnar og sakavottorði. Hafi kæranda verið veittur 30 daga frestur til að leggja fram umbeðin gögn. Þann 15. janúar 2018 hafi kærandi lagt fram sakavottorð. Hafi stofnunin sent kæranda annað bréf, dags. 25. janúar s.á., og óskað eftir sömu gögnum og áður fyrir utan sakavottorðið. Hafi kærandi ekki lagt fram umbeðin gögn og hafi stofnunin því sent henni ítrekunarbréf, dags. 24. maí 2018, og óskað eftir sömu gögnum og áður. Þann 23. júlí 2018 hafi umboðsmaður kæranda lagt fram vegabréf kæranda, greinargerð, færsluyfirlit, staðfestingu frá banka og fæðingarvottorð. Þann 10. ágúst s.á. hafi umboðsmaður kæranda komið í afgreiðslu Útlendingastofnunar og hafi leyfafulltrúi stofnunarinnar farið yfir með henni hvaða gögn vantaði, t.d. framfærslugögn, greinargerð varðandi umönnunarsjónarmið auk fæðingarvottorðs sem væri undirritað og stimplað. Hefði umboðsmaður kæranda komið í afgreiðslu Útlendingastofnunar þann 28. nóvember s.á. og lagt fram útskýringu varðandi fæðingarvottorð. Hins vegar hafi kærandi við vinnslu málsins hjá Útlendingastofnun ekki lagt fram greinargerð varðandi umönnunarsjónarmið, frekari framfærslugögn eða fæðingarvottorð sem væri undirritað og stimplað.

Vísaði Útlendingastofnun til þess að í 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga kæmi fram að með umsókn um dvalarleyfi skyldu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun gerði kröfu um til staðfestingar á því að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um. Tók stofnunin fram að þau gögn sem hún hefði óskað eftir frá kæranda hefðu ekki enn borist. Væru fylgigögn umsóknar því enn ófullnægjandi og væri ákvörðun stofnunarinnar því byggð á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Miðað við þau gögn sem kærandi hefði lagt fram og þau gögn sem ekki hefðu borist stofnuninni, þrátt fyrir beiðni þar um, væri ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga um fullnægjandi fylgigögn með umsókn. Var umsókn kæranda um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru tekur kærandi fram að hún hafi farið í aðgerð vegna [...] og vilji koma hingað til lands til að dvelja hjá einkabarni sínu. Gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar og tekur fram að hún hafi margoft haft samband við stofnunina í síma og farið í afgreiðslu stofnunarinnar til að fá frekari upplýsingar um þau gögn sem hafi vantað. Byggir kærandi á því að Útlendingastofnun sé þegar búin að fá þau gögn sem skorti í málinu. Þá tekur kærandi fram að hún óski eftir því að leggja fram frekari gögn til kærunefndar, verði talin þörf á því. Í athugasemdum kæranda, sem bárust þann 10. maí 2019, er ferill málsins rakinn og samskipti umboðsmanns hennar við Útlendingastofnun vegna þeirra gagna sem stofnunin óskaði eftir að yrðu lögð fram.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga tekur Útlendingastofnun ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Þá skulu fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun gera kröfu um til staðfestingar að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 52. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins setur ráðherra reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins, m.a. hvaða gögn og vottorð umsækjandi skuli leggja fram, hvaða kröfur skuli gerðar til framlagðra gagna, hver skuli leggja mat á gildi skjala og um undanþágu frá kröfu um gögn.

Í 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært nánar reglur um fylgigögn með umsókn um dvalarleyfi. Í 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar segir að Útlendingastofnun geti krafist þeirra gagna sem nauðsynleg eru við vinnslu umsóknar, m.a. fæðingarvottorðs, hjúskaparstöðuvottorðs, forsjár- eða umgengnisgagna, heilbrigðisvottorðs, dánarvottorðs, og staðfestingu á dvalarstað hér landi. Þá geti stofnunin krafist ljósmynda, greinargerða, gagna um framfærslu og sakavottorðs í þeim tilvikum sem stofnunin meti það nauðsynlegt. Í 3. mgr. 10. gr. segir m.a. að umsækjandi afli sjálfur nauðsynlegra fylgigagna með dvalarleyfisumsókn. Þá skuli fylgigögn vera á því formi sem stofnunin geri kröfu um og staðfest með þeim hætti sem stofnunin telji nauðsynlegan. Í 5. mgr. 10. gr. er m.a. kveðið á um að Útlendingastofnun geti veitt undanþágu frá framlagningu gagna þegar lög krefjist ekki framlagningar og málefnalegar ástæður mæli með því, t.d. ef umsækjanda er ómögulegt að afla þeirra, svo sem vegna stríðsástands í heimaríki.

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun óskaði stofnunin eftir því, með bréfum til kæranda í nóvember 2017 og janúar og maí 2018, að hún legði fram nánar tilgreind gögn vegna umsóknar hennar um dvalarleyfi, þ. á m. greinargerð, fæðingarvottorð ættmennis og framfærslugögn. Fyrir liggur að umboðsmaður kæranda lagði fram ýmis gögn í því skyni að verða við beiðnum Útlendingastofnunar. Meðal gagna málsins eru bréf um fjölskyldu- og félagslegar aðstæður kæranda í heimaríki, upplýsingar um fjárhagslega stöðu hennar auk skjals sem kærandi kveður útgefið af spítala í heimaríki hennar. Í skjalinu segir m.a. að spítalinn hafi ekki hafið útgáfu á [...] fyrr en árið [...]. Því sé aðeins hægt að staðfesta fæðingu umboðsmanns kæranda, sem kveðst vera dóttir hennar, og upplýsingar um foreldra hennar með vísan til skrár um fæðingu kæranda.

Með vísan til þeirra gagna sem lögð hafa verið fram í málinu og skýringa kæranda þar að lútandi er það mat kærunefndar að ekki sé unnt að fullyrða að þau gögn sem kærandi hefur lagt fram séu ófullnægjandi á þann hátt að synja beri umsókn kæranda um dvalarleyfi á þeim grundvelli einum að tilskilin fylgigögn með umsókninni skorti.

Að mati kærunefndar er umsókn kæranda því tæk til þess að hljóta efnislega úrlausn um hvort hún uppfylli skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Í hinni kærðu ákvörðun var umsókn kæranda um dvalarleyfi eins og áður greinir synjað með vísan til 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga án þess að stofnunin hafi tekið afstöðu til þess hvort hún uppfyllti skilyrði 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 20. gr. reglugerðar um útlendinga, fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Þar sem Útlendingastofnun hefur ekki lagt mat á umsókn kæranda með hliðsjón af síðastnefndum ákvæðum verður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

Kærunefnd tekur þó fram að með þessari niðurstöðu hefur nefndin ekki tekið afstöðu til sönnunargildis þeirra gagna sem kærandi hefur lagt fram.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                           Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta