Mál nr. 11/2009: Dómur frá 10. mars 2010
Ár 2010, miðvikudaginn 10. mars, var í Félagsdómi í málinu nr. 11/2009.
Alþýðusamband Íslands f.h.
Flugfreyjufélags Íslands
gegn
Samtökum atvinnulífsins f.h.
Samtaka ferðaþjónustunnar vegna
Icelandair ehf.
kveðinn upp svofelldur
D Ó M U R:
Mál þetta var dómtekið 1. mars sl. að loknum munnlegum málflutningi
Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.
Stefnandi er Alþýðusamband Íslands, Sætúni 1, Reykjavík fyrir hönd Flugfreyjufélags Íslands, Borgartúni 22, 105 Reykjavík.
Stefndi er Samtök atvinnulífsins, Borgartúni 35, Reykjavík f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar, s.st. vegna Icelandir ehf., Reykjavíkurflugvelli.
Dómkröfur stefnanda
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi:
Að Icelandair ehf. hafi brotið gegn ákvæðum í grein 12-1 í kjarasamningi milli Flugfreyjufélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna Icelandair ehf. með því að virða ekki forgangsrétt félaga FFÍ að leiguflugsverkefni sem Loftleiðir-Icelandic ehf. hefur á hendi í pílagrímaflugi í Afríku.
Að Icelandair ehf. hafi brotið gegn ákvæðum greina 12-2 til 12-4 í kjarasamningi milli Flugfreyjufélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna Icelandair ehf. með því að virða ekki þau kjör gagnvart félagsmönnum FFÍ sem þar er kveðið á um.
Að Icelandair ehf. hafi brotið gegn ákvæði í grein 12-9 í kjarasamningi milli Flugfreyjufélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna Icelandair ehf. með því að hafa ekki samráð við FFÍ um niðurröðun flugfreyja og flugliða í viðkomandi verkefni í pílagrímaflugi í Afríku.
Að Icelandair ehf. hafi brotið gegn ákvæðum greina 12-10 til 12-17 í kjarasamningi milli Flugfreyjufélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna Icelandair ehf. með því að virða ekki ákvæði þessara greina við framkvæmd leiguflugs í pílagrímaflugi.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi, Samtök atvinnulífsins, eða eftir atvikum Icelandair ehf. verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.
Þá er gerð krafa um að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins hvernig sem málið fer.
Málavextir
Mál þetta er höfðað af stefnanda, Alþýðusambandi Íslands, vegna Flugfreyjufélags Íslands, sem er eitt af aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands með beina aðild. Málið er höfðað á hendur Samtökum atvinnulífsins fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Icelandair ehf.
Um málavexti er fram komið að Loftleiðir Icelandic, systurfélag Icelandair, hafi yfir að ráða tveimur 757-200 og einni Boeing 767-300 flugvél sem félagið leigi til skemmri eða lengri verkefna. Eru vélarnar reknar af Icelandair samkvæmt flugrekstrarleyfi og flugrekendaskírteini þess félags.
Aðdragandi málsins er sá að annað systurfélag Icelandair, Smartlynx gerði samning við Kabo Air í Nígeríu um leigu flugvélar með flugmönnum, svokallaðan þjónustuleigusamning (Wet lease) 6. febrúar 2009. Sú flugvél sem Smartlynx hafði notaði til að sinna þessu verkefni var síðan nýtt til annarra verkefna félagsins og bauðst Loftleiðum Icelandic þá að taka við verkefninu fyrir hönd Smartlynx.
Hinn 9. september 2009 var gerður samningur milli Loftleiða Icelandic og Kabo Air sem verkkaupa án aðkomu Smartlynx. Samningur milli sömu aðila um aðra flugvél til viðbótar, til að jafna út aukna þörf Kabo Air vegna pílagrímaflugs, mun hafa verið gerður 8. október 2009.
Stefndi kveður báðar þessar flugvélar hafa verið leigðar án öryggis- og þjónustuliða, hér nefnd flugfreyjur/þjónar.
Í 12. kafla leigusamnings frá 9. september 2009 er svofellt ákvæði:
Verkkaupi skal útvega og bera kostnað af nægum fjölda flugfreyja/þjóna til að sinna áætlun samkvæmt viðauka 1. Í hverri áhöfn skal vera ein fyrsta flugfreyja/þjónn og ekki færri en fimm flugfreyjur/þjónar. Flugfreyjur/þjónar verkkaupa munu fá þjálfun á kostnað verkkaupa samkvæmt þjálfunaráætlun leigusala og rækja starfsskyldur sínar í samræmi við kröfur hans á sérhverri flugvakt sem samningurinn tekur til.
Stefndi heldur því fram að á fundi sem starfsmaður Loftleiða Icelandic, sem stýrt hafi Kabo verkefninu, hafi átt með Kabo Air um miðjan október 2009 hafi komið fram að Kabo Air hefði þá ekki yfir að ráða nægum fjölda þjálfaðra flugfreyja/þjóna til að sinna pílagrímafluginu sem fyrstu freyjur.
Í kjölfar þessara upplýsinga hafi komið upp sú hugmynd hjá starfsmönnum Icelandair hvort þarna gæti verið atvinnutækifæri fyrir íslenskar flugfreyjur/þjóna sem misst höfðu störf sín hjá Icelandair þá um haustið Hægt væri að koma því á framfæri við Kabo Air að kostur væri á íslenskum flugfreyjum/þjónum.
Það hafi verið gert og hafi Kabo Air lýst sig reiðubúið til að ráða íslenska verktaka í stað þess að fjölga þeim verktökum, sem sinnt hafi störfum sem fyrstu freyjur hjá félaginu og hafi aðallega verið frá Túnis og Nígeríu, enda umræddar flugfreyjur þjálfaðar af Icelandair og hafi því getað hafið störf með stuttum fyrirvara.
Stefndi heldur því fram að flugfreyjufélagið hafi, eftir uppsagnir Icelandair haustið 2008, vakið athygli flugfreyja á lausum störfum í pílagrímaflugi. Flugrekstrarstjóri Icelandair hafi því haft samband við formann flugfreyjufélagsins símleiðis og skýrt frá því að Kabo væri að leita að fólki í fyrrgreind leiguverkefni í Túnis og spurt hvort flugfreyjufélagið væri ekki tilbúið til að auglýsa þau störf á vef sínum. Þeirri beiðni hafi verið hafnað.
Loftleiðir Icelandic hafi í framhaldi af því haft samband við Sigurlaugu Sverrisdóttur, sem búsett sé í Sviss, en fyrirtæki hennar SEP ehf. hafi annast verkefni fyrir flugfélög. Hún hafi tekið að sér að hafa samband við flugfreyjur/þjóna sem áður höfðu sótt þjálfun hjá henni og væru reiðubúnir til að taka að sér slíkt verkefni.
Stefnandi heldur því hins vegar fram að í samtölum Hilmars Baldurssonar, flugrekstrarstjóra Icelandair ehf., og formanns stefnanda, Sigrúnar Jónsdóttur, fyrri hluta októbermánaðar 2009, hafi Hilmar greint Sigrúnu frá fyrirhuguðu pílagrímaflugi í Afríku og óskað eftir því að FFÍ myndi ekki gera athugasemdir við mannaráðningar áhafna, en flugfreyjur í farþegarými aðrar en fyrstu freyjur, svokallaðar SCCM, sem sé skammstöfun fyrir Senior Cabin Crew Member, yrðu frá Kabo Air. Á þetta hafi formaður stefnanda ekki fallist þar sem hún leit svo á að það væri ekki í samræmi við ákvæði kjarasamninga aðila.
Hinn 20. október 2009 hafi forráðamenn flugfreyjufélagsins síðan fengið vitneskju um að Sigurlaug Sverrisdóttir, sem sé fyrrum yfirflugfreyja hjá Atlanta og hafi unnið hjá Keili við fræðslumál flugfreyja og taki gjarnan að sér sérverkefni fyrir Loftleiði, væri að smala saman fyrstu freyjum úr áhöfnum sem hefðu áhuga á að fara í pílagrímaflug. Flugin væru milli Kano í Nígeríu og Jeddah í Saudi Arabíu og hafi verkefnið verið sagt vera samstarfsverkefni Kabo Air og Loftleiða. Hafi Sigurlaug sent út tölvupóst til þeirra sem hafi verið að missa vinnuna hjá Icelandair í lok september og október, þar sem greint hafi verið frá því að þá vantaði 9xSCCM, en ef einhver hefði ekki áður unnið í þeirri stöðu yrði boðið upp á námskeið sem haldið yrði í Kano. Launin hafi verið sögð vera $ 150 á dag en verkefnið væri til 15. desember með hugsanlegri framlengingu til 23. desember. Þetta væri þannig 8-9 vikna verkefni. Stuttur fyrirvari væri, en þeir sem hefðu áhuga þyrftu að ferðast til Budapest 21. október, þar sem Loftleiðavélin væri stödd og færi þaðan til Kano í Nígeríu.
Stefnandi heldur því jafnfram fram að forsvarsmenn FFÍ hafi spurst fyrir um hver það væri sem væri að ráða flugfreyjur í þetta flug. Óljósar upplýsingar hafi komið fram um þetta. Í tölvupósti hafi komið fram að Sigurlaug Sverrisdóttir hefði vísað einhverjum flugfreyjum á skrifstofu Loftleiða vegna „manual, uniform items, ID“ og hún hefði vísað á Björn Ingimundarson, starfsmann Loftleiða, og Egil Reynisson, stöðvarstjóra, eftir að til Nígeríu væri komið. Telur stefnandi að af ofangreindu megi sjá að vélarnar hafi verið vélar Icelandair ehf.
Þegar forsvarsmenn FFÍ hafi gert athugsemdir við að ekki væri verið að virða kjarasamninga vegna leiguflugsins hafi þau svör komið frá forsvarsmönnum Icelandair ehf. að þetta flug væri ekki á þeirra vegum. Stefnandi kveður það vera þvert á þær upplýsingar sem hafi fengist þegar formaður FFÍ hafi haft samband við Smartlynx 28. október. Þá hafi hann fengið þau svör að Smartlynx væri hætt öllum afskiptum af Kabo frá 1. október. Henni hafi jafnframt verið bent á að tala við Wings recruitment eða Loftleiði.
Stefnandi kveður ítrekaðar tilraunir forsvarsmanna FFÍ til að leita eftir sérstöku samkomulagi við Icelandair ehf. um kjör flugfreyja og flugliða í umrætt pílagrímaflug ekki hafa borið árangur og hafi því verið borið við að umrætt flug væri ekki á vegum þeirra aðila. Stefnandi líti svo á að Icelandair ehf. sé handhafi flugrekstrarleyfis og geti því eitt ráðið til sín flugáhafnir
Í greinargerð stefnda kemur fram að flugfreyjurnar hafi, eftir því sem Icelandair komist næst, verið ráðnar til áhafnaleigu eins og aðrar flugfreyjur/þjónar Kabo Air. Um hafi verið að ræða 6 Íslendinga en heildarfjöldi þeirra flugfreyja/þjóna sem störfuðu við verkefnið hjá Kabo Air hafi verið 36.
Flugfreyjufélagið brást illa við þessum ráðningum og var málið tekið upp af hálfu Icelandair í samstarfsnefnd flugfreyjufélagsins og Icelandair þann 3. nóvember 2009. Í fundargerð var bókað af hálfu Icelandair að þau viðbrögð hefðu vakið undrun félagsins og að formaður flugfreyjufélagsins hefði hafnað öllu samstarfi í þessu sambandi. Aðkoma Icelandair hefði ekki verið önnur en að benda á að á Íslandi væri mjög hæft fólk sem vegna samdráttar væri atvinnulaust.
Stefnandi telur að með umræddum ráðningum hafi ákvæði kjarasamnings aðila verið brotin og hefur því höfðað mál þetta.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi kveður mál þetta höfðað á grundvelli 2. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Stefndi máls þessa sé Samtök atvinnulífsins, f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar, vegna Icelandair ehf. Um aðild málsins sé vísað til 45. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Vísað sé til þess að sá kjarasamningur, sem talinn er hafa verið brotinn, sé kjarasamningur milli stefnanda og Icelandair ehf. Samningurinn gildi fyrir allar vélar sem skráðar séu á Icelandair ehf. sem sé handhafi flugrekstrarleyfis og sá aðili sem ráði til sín flugáhafnir. Kjarasamningurinn gildi þannig um þau flug sem Loftleiðir-Icelandic ehf. standi að.
Byggt sé á því að stefndi hafi gerst brotlegur við ýmis ákvæði í gildandi kjarasamningi aðila.
a.
b. Um brot gegn grein 12-1 í kjarasamningi
Með því að ráða ekki alfarið félagsmenn í FFÍ í verkefni stefnda í pílagrímaflugi í Afríku hafi Icelandair ehf. brotið gegn ákvæðum í grein 12-1 í kjarasamningi milli Flugfreyjufélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna Icelandair ehf. þar sem fjallað sé um forgangsrétt félaga FFÍ að leiguflugsverkefnum. Í greininni segi eftirfarandi:
„Félagar FFÍ skulu hafa forgang að leiguflugsverkefnum enda brjóti slíkt ekki í bága við lög og reglur, samning við verkkaupa eða aðrar þær kvaðir sem Icelandair er gert að starfa eftir.“
Fyrir liggi í málinu að stefndi hafi leitað eftir og ráðið einungis fyrstu freyjur í umrætt pílagrímaflug. Með því að ráða ekki félagsmenn FFÍ hafi umrætt ákvæði kjarasamningsins verið brotið.
c. Um brot gegn greinum 12-2 til 12-4 í kjarasamningi
Með því að virða ekki þau kjör gagnvart félagsmönnum FFÍ sem kveðið sé á um í greinum 12-2 til 12-4 í kjarasamningi aðila hafi Icelandair ehf. brotið gegn ákvæðum þeirra greina.
Greinarnar séu eftirfarandi:
12-2
„Dagpeningar í leiguflugi erlendis og í leiguflugi þar sem vakt- og hvíldartímaákvæði leiguflugskafla þess nýtast skulu vera USD 135,5 og 1. janúar 2006 140,5 USD á sólarhring. Frá 1. júní 2008 er þessi fjárhæð 160 USD á sólarhring.“
12-3
„F/f sem eru í vinnumánuði hverju sinni njóta forgangs umfram aðrar f/f félagsins að þeim leiguverkefnum Icelandair sem til falla.“
12-4
„Ferðatími í flugvél eftir flug er undanþeginn vakttímahámarki. Þessi tími að viðbættum vakttíma skal þó ekki vera lengri en 6 klst. fram yfir vakttímahámark samkvæmt samningi þessum. Allur flugtími skal teljast til blokktíma gagnvart greiðslu.“
Eins og fram komi í tölvupósti frá Sigurlaugu Sverrisdóttur séu launin sem greidd séu 150 USD á dag. Ekki verði tölvupósturinn skilinn með öðrum hætti en að hér sé um að ræða heildargreiðslu fyrir störf viðkomandi starfsmanns á meðan á ráðningu standi. Þar sem kjarasamningur kveði á um dagpeninga 160 USD á sólarhring séu þau laun sem í boði séu 10 USD á dag lægri en bara dagpeningarnir. Þetta séu því kjör sem séu langt undir gildandi kjarasamningi aðila og augljóslega verið að brjóta hér rétt á félagsmönnum stefnanda.
Ákvæði kjarasamnings um forgang þeirra f/f sem séu í vinnumánuði séu að engu virt.
Ekkert sé fjallað um fyrirkomulag vinnunnar og því megi leiða að því líkur að flest ákvæði kjarasamninganna séu brotin, þar á meðal ákvæði í gr. 12-4.
d. Um brot gegn grein 12-9 í kjarasamningi
Með því að hafa ekki samráð við FFÍ um niðurröðun flugfreyja og flugliða í viðkomandi verkefni í pílagrímaflugi í Afríku, hafi Icelandair ehf. brotið gegn ákvæði í grein 12-9 í kjarasamningi milli Flugfreyjufélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna Icelandair ehf.
Í greininni segi eftirfarandi:
12-9
„Við skipulag á lengri tíma leiguverkefnum verður haft samráð við FFÍ um niðurröðun f/f í viðkomandi verkefni með tilliti til þess að fastráðin f/f njóti forgangs.“
Stefndi hafi aldrei haft neitt samband við stefnanda vegna pílagrímaflugsins ef frá séu talin símtöl Hilmars Baldurssonar við Sigrúnu Jónsdóttur fyrri hluta októbermánaðar, og hafi félagið komist á snoðir um þetta flug þegar það spurðist út að verið væri að leita eftir fyrstu freyjum, (SCCM) í flugið. Forsvarsmenn stefnanda hafi ítrekað óskað eftir upplýsingum og samstarfi við stefnda um málið.
e. Um málskostnað
Þá kveðst stefnandi krefjast þess að stefndi, Samtök atvinnulífsins, eða eftir atvikum Icelandair ehf. verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar fyrst og fremst á gildandi kjarasamningi aðila, sbr. kjarasamning milli Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair ehf. um kaup og kjör flugfreyja/flugþjóna frá 6. desember 2004, eins og hann hafi verið endurútgefinn í heild sinni í mars 2005 ásamt breytingum á samningnum sem gerðar voru 20. maí 2008. Vísað sé til þess að Icelandair ehf. geti einir ráðið til sín flugáhafnir þar sem þeir hafi einir flugrekstrarleyfi. Einkum sé vísað til ákvæða um forgangsrétt félagsmanna stefnanda að störfum hjá stefnda, en einnig sé vísað til annarra ákvæða um kaup og kjör félagsmanna í leiguflugi.
Enn fremur sé vísað til þess að umræddur kjarasamningur sé lágmarkssamningur í starfsgreininni og beri því að virða hann með vísan til 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
Stefnandi vísi einnig til almennra reglna um skuldbindingargildi samninga og meginreglna vinnuréttar. Þá sé vísað til laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, IV. kafla um Félagsdóm, þ.m.t. 44. gr. að því er varðar lögsögu dómsins í máli þessu.
Kröfu um málskostnað styðji stefnandi við XXI. kafla 1aga nr. 91/1991, aðallega 129. og 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði byggi á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og til að tryggja skaðleysi sitt sé honum nauðsynlegt að fá skattinn dæmdan úr hendi stefnda eða eftir atvikum Icelandair ehf. sbr. málskostnaðarkröfu.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi kveður sýknukröfu sína byggjast á því að fyrrgreindir samningar við Kabo Air Ltd. og framkvæmd þeirra hafi á engan hátt brotið gegn kjarasamningi aðila.
Um meint brot gegn grein 12-1 í kjarasamningi
Óumdeilt sé að um umrædd leiguflugsverkefni fari samkvæmt 12. kafla kjarasamnings aðila. Þar segi í grein 12-1 að félagar FFÍ skuli hafa forgang að leiguflugsverkefnum enda brjóti slíkt ekki í bága við samning við verkkaupa. Forgangur félaga FFÍ að leiguflugsverkefnum sæti því þeim takmörkunum.
Kabo Air, sem sé verkkaupi, hafi falast eftir því við Loftleiði að fá flugvélar þær, sem félagið hafi yfir að ráða, leigðar án flugfreyja/flugþjóna enda hafi félagið talið sig hafa yfir að ráð nægum fjölda flugfreyja/flugþjóna.
Í leigusamningnum, sem gerður sé í nafni Icelandair, sé því kveðið á um að verkkaupi útvegi á sinn kostnað flugfreyjur/þjóna og að í hverri áhöfn skuli vera ein fyrsta flugfreyja/þjónn og ekki færri en fimm flugfreyjur/þjónar.
Forgangsréttur félagsmanna FFÍ taki samkvæmt skíru ákvæði gr. 12-1 ekki til þeirra verkefna sem þar sé samið um og um sé deilt í máli þessu. Icelandair hafi því verið frjálst að semja um að Kabo Air mannaði þessi flug með flugfreyjum/þjónum sem það félag útvegaði með þeim hætti sem gert var.
Af framangreindu sé ljóst að stefndi hafi ekki brotið gegn ákvæðum greinar 12-1 í kjarasamningi aðila.
Um meint brot gegn öðrum greinum kjarasamningsins
Um formhlið þessa þáttar málsins
Stefndi veki athygli dómsins á því að kröfur stefnanda lúti að því að stefndi hafi almennt brotið gegn nefndum kjarasamningsákvæðum en lúti ekki að nánar tilgreindum brotatilvikum. Málatilbúnaður stefnda og reifun málsástæða sé það óljós að erfitt sé að taka afstöðu til þessara krafna og því hæpið að efnisdómur verði lagður á þær.
Um sýknukröfu stefnda
Sýknukrafa stefnda sé byggð á því að þar sem forgangur félaga FFÍ samkvæmt gr. 12-1 í kjarasamningnum nái ekki til umrædds verkefnis geti stefnandi, eða félagsmenn hans, ekki byggt rétt á öðrum ákvæðum samningsins.
Stefndi byggi sýknukröfur sínar einnig á því að engin þeirra flugfreyja/þjóna sem fóru til starfa hjá Kabo Air hafi verið ráðin hjá Icelandair, hvorki beint né óbeint, og njóti því ekki réttarstöðu sem launþegar hjá félaginu og kjara samkvæmt kjarasamningi aðila.
Aðkoma Icelandair að ráðningu þeirra hafi takmarkast við að benda á að á Íslandi væri mjög hæft fólk sem væri atvinnulaust eða um það bil að missa vinnuna. Auk þess sem félagið hafi haft samband við stefnanda sem hafi hafnað samstarfi.
Stefndi mótmæli því sem röngu og ósönnuðu að hann, eða Loftleiðir í umboði hans, hafi ráðið flugfreyjur/þjóna í umrædd verkefni eins og stefnandi virðist gefa í skyn.
Kjarasamningur aðila gildi eftir efni sínu um kaup og kjör þeirra flugfreyja/þjóna sem séu launþegar hjá Icelandair ehf auk samskipta félagsins við stefnda vegna þeirra og taki hvorki til systurfélaga þess né annarra. Með vísan til þess sé því mótmælt að kjarasamningurinn gildi hvort heldur er fyrir allar flugvélar sem skráðar séu á Icelandair eða þau flug sem Loftleiðir standi að.
Stefndi mótmæli því einnig að félagið sé, sem handhafi flugrekstrarleyfis, sá aðili sem ráði eða geti ráðið til sín flugáhafnir. Flugrekstrarleyfi sé ekki skilyrði ráðningar flugfreyja/þjóna, sbr. Iceland Express sem ekki hafi slíkt leyfi.
Sýknukröfum sínum til stuðnings bendi stefndi einnig á að flugið hafi verið samkvæmt íslenskum flugreglum og á flugrekendaskírteini og ábyrgð Icelandair, sbr. reglugerð um flutningaflug, nr. 1263/2008, B-kafla, OPS 1.165, lið a. og skipaðar áhöfn í samræmi við fyrirmæli íslenskra stjórnvalda, sbr. 29. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir. Auk þess sem Icelandair hafi borið að sjá til þess að allt flug færi fram í samræmi við ákvæði flugrekstrarhandbókar félagsins og hafa eftirlit með því, sbr. reglugerð nr. 1263/2008 C-Kafla, OPS 1.175, lið l. og 2. viðbætir við OPS 1.175, svo og O-Kafla, OPS 1.988 og OPS 1.989. Ákvæði leigusamninganna um þjálfun samkvæmt þjálfunaráætlun leigusala og að flugfreyjur/þjónar skuli rækja starfsskyldur sínar í samræmi við kröfur Icelandair skýrist af því. Félaginu sé því beinlínis skylt að fylgjast með því að flugrekstrahandbók félagsins sé fylgt og hafa til þess eftirlitsaðila. Stefndi þurfi því að hafa starfsmann til staðar til að hafa umsjón með áhöfnum.
Allir áhafnarmeðlimir, bæði flugliðar og öryggis-og þjónustuliðar, það er flugmenn og flugfreyjur/þjónar, starfandi um borð í loftfari á ábyrgð Icelandair fái, án tillits til vinnuveitanda, persónuskilríki hjá Icelandair eins og 13. gr. reglugerðar um flugvernd nr. 361/2005 geri ráð fyrir. Svo sé einnig um fyrrgreindar áhafnir Kabo Air.
Persónuskilríki þessi séu því ekki á nokkurn hátt til marks um að umræddar flugfreyjur/þjónar hafi verið starfsmenn Icelandair. Sama gildi um aflagða búninga sem Icelandair hafi látið í té en flugrekandi skuli sem auðkenni sjá til þess að allar flugfreyjur/þjónar klæðist einkennisbúningi sem flugrekandi láti í té, sbr. reglugerð nr. 1263, O-Kafla, OPS 1.989, a lið.
Hvað varði meint brot gegn greinum 12-2 til 12-4 og 12-10 til 12-17 bendi stefndi auk þess á það að stefndi hafi hvorki tilgreint né sýnt fram á á hvern hátt, hvenær og gagnvart hverjum þessi brot hafi átt sér stað eða hvernig vinnu hafi verið háttað. Auk þess sem engin grein sé gerð fyrir kröfu stefnanda varðandi greinar 12-10 til 12-17.
Þá vísar stefndi því á bug að hann hafi broið gegn grein 12-9 þar sem stefnandi hafi hafnað öllu samstarfi.
Auk þessa geri stefndi athugasemdir við tilvísun stefnanda til álits Samkeppniseftirlitsins frá 2007 þar sem það gefi ekki rétta mynd af Icelandair Group í dag.
Niðurstaða
Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
Samkvæmt fyrsta lið í dómkröfum stefnanda er þess krafist að viðurkennt verði að stefndi, Icelandair ehf., hafi brotið gegn grein 12-1 í kjarasamningi aðila með því að virða ekki forgangsrétt félagsmanna stefnanda að tilgreindu leiguflugsverkefni sem Loftleiðir-Icelandair ehf. hafði með höndum í pílagrímaflugi í Afríku. Telur stefnandi að kjarasamningur aðila gildi um þetta flugverkefni, enda gildi kjarasamningurinn um allar vélar, skráðar á Icelandair ehf., er sé handhafi flugrekstrarleyfis og sá aðili sem ráði flugáhafnir í þjónustu sína. Flugverkefni þessu og tildrögum þess er lýst í málinu. Um var að ræða samstarfsverkefni Kabo Air Ltd., og Lofteiða-Icelandair ehf. er lauk hinn 31. desember 2009 eftir því sem fram er komið í málinu. Þá er upplýst að fimm félagsmenn stefnanda, flugfreyjur og flugþjónar, tóku þátt í verkefninu. Flugfreyjur frá Kabo Air Ltd., störfuðu í farþegarými flugvéla í verkefninu, að undanskildum svonefndum fyrstu flugfreyjum (Senior Cabin Crew Members). Telur stefnandi að með því að ráða ekki alfarið félagsmenn stéttarfélagsins í verkefnið hafi stefndi brotið gegn greindu ákvæði kjarasamningsins.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að forgangur félagsmanna stefnanda nái ekki til umrædds flugverkefnis, enda hafi svo samist við Kabo Air Ltd., sem verkkaupa, að flugvélar yrðu leigðar án flugfreyja/flugþjóna, sbr. fyrirliggjandi tvo samninga með yfirskriftinni „Aircraft Wet Lease Agreement“, dags. 9. september og 8. október 2009, milli Icelandair ehf. sem leigusala og Kabo Air Ltd., sem leigutaka. Í grein 12-1 í kjarasamningnum sé svo kveðið á um að félagar í stefnanda skuli hafa forgang að leiguflugsverkefnum, enda brjóti slíkt ekki í bága við samning við verkkaupa. Í umræddum leigusamningum sé tekið fram að verkkaupi útvegi á sinn kostnað flugfreyjur/flugþjóna og að í hverri áhöfn skuli vera ein fyrsta flugfreyja/þjónn og ekki færri en fimm flugfreyjur/þjónar. Þar sem forgangsréttur félagsmanna stefnanda taki þannig samkvæmt skýru ákvæði greinar 12-1 ekki til umrædds verkefnis hafi stefnda verið frjálst að semja um að Kabo Air Ltd., mannaði þessi flug með þeim hætt sem gert var.
Í 12. kafla umræddra leigusamninga er fjallað um „Flight and Cabin Crew“. Í grein 12.1 í samningnum frá 9. september 2009 segir svo samkvæmt þýðingu sem tilgreind er í greinargerð stefnda og er óumdeild:
„Verkkaupi skal útvega og bera kostnað af nægum fjölda flugfreyja/þjóna til að sinna áætlun samkvæmt viðauka 1. Í hverri áhöfn skal vera ein fyrsta flugfreyja og ekki færri en fimm flugfreyjur/þjónar. Flugfreyjur/þjónar verkkaupa munu fá þjálfun á kostnað verkkaupa samkvæmt þjálfunaráætlun leigusala og rækja starfsskyldur sínar í samræmi við kröfur hans á sérhverri flugvakt sem samningurinn tekur til.“
Ákvæði samningsins frá 8. október 2009 eru samhljóða að þessu leyti að því undanskildu að samkvæmt þeim samningi skulu ekki færri en þrjár flugfreyjur/þjónar vera í hverri áhöfn.
Grein 12-1 í kjarasamningi aðila er svohljóðandi:
Félagar FFÍ skulu hafa forgang að leiguflugsverkefnum enda brjóti slíkt ekki í bága við lög og reglur, samning við verkkaupa eða aðrar þær kvaðir sem Icelandair er gert að starfa eftir.
Miðað við fyrrnefnd ákvæði leigusamninganna verður ekki annað séð en að hendur stefnda hafi verið bundnar varðandi ráðningu félagsmanna stefnanda í störf við umrætt flugverkefni hvað sem líður skyldum stefnda sem flugrekanda samkvæmt viðaukum við reglugerð nr. 1263, frá 19. desember 2008, um flutningaflug flugvéla, er sett var á grundvelli loftferðalaga nr. 60/1998, einkum 1.tölul. c liðar 2. viðbætis viðaukans, sem stefnandi vísaði til við munnlegan flutning málsins. Að svo vöxnu máli verður þó ekki talið að stefndi hafi brotið gegn umræddu ákvæði kjarasamningsins vegna ráðningarmála í tengslum við umrætt flugverkefni. Það þykir aukinheldur styðja þessa niðurstöðu að með kjarasamningi aðila frá 4. janúar 2010 var forgangsréttur þeirra starfsmanna stefnda, sem eru félagsmenn í stefnanda, til starfa við leiguflugsverkefni, þar á meðal slíkt verkefni, sem hér um ræðir, styrktur með nýju ákvæði, er varð 2. mgr. greinar 12-1 í kjarasamningnum, sbr. og meðfylgjandi bókun um skilning, en breytingar þessar áttu rætur að rekja til kröfugerðar stefnanda. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, ber að sýkna stefnda af þessum lið í dómkröfum stefnanda.
Samkvæmt öðrum lið í dómkröfum stefnanda er þess krafist að viðurkennt verði að stefndi, Icelandair ehf., hafi brotið gegn greinum 12-2, 12-3 og 12-4 í kjarasamningi aðila með því að virða ekki kjör gagnvart félagsmönnum stefnanda, sem þar er kveðið á um. Engin grein er gerð fyrir þessum meintu brotum og ekki hefur verið sýnt fram á hvernig, hvenær eða á hverjum var brotið. Þá liggur fyrir í málinu að þeir félagsmenn stefnanda, sem hér eiga hlut að máli, voru ráðnir til starfa hjá Kabo Air Ltd., í samræmi við leigusamninga félaganna, en ekki stefnda, Icelandair ehf. Ráðningarsamningar hafa ekki verið lagðir fram í málinu og ekki hefur verið sýnt fram á að þessir félagsmenn stefnanda hafi átt að njóta kjara samkvæmt kjarasamningi aðila í þessu sérstaka flugverkefni. Ber því einnig að sýkna stefnda af þessum lið í dómkröfum stefnanda.
Samkvæmt þriðja lið í dómkröfum stefnanda er þess krafist að viðurkennt verði að stefndi, Icelandair ehf., hafi brotið gegn grein 12-9 í kjarasamningi aðila með því að hafa ekki samráð við stefnanda um niðurröðun flugfreyja og flugliða í viðkomandi verkefni í pílagrímaflugi í Afríku. Af framangreindum niðurstöðum um fyrri tvo liði í dómkröfum stefnanda leiðir að stefnda bar ekki skylda til að hafa það samráð við stefnanda, sem hér er krafist. Ber því einnig að sýkna stefnda af þessum lið í dómkröfum stefnanda.
Samkvæmt fjórða lið í dómkröfum stefnanda er þess krafist að viðurkennt verði að stefndi, Icelandair ehf., hafi brotið gegn greinum 12-10 til 12-17 í kjarasamningi aðila með því að virða ekki ákvæði þessara greina við framkvæmd leiguflugs í pílagrímaflugi. Engin grein er gerð fyrir kröfu þessari í stefnu og er hún órökstudd með öllu. Þá leiða niðurstöður um aðra liði í dómkröfum stefnanda einnig til þess að sýkna ber stefnda af þessum lið.
Samkvæmt framansögðu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Samtök atvinnulífsins f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Icelandair ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Alþýðusambands Íslands f.h. Flugfreyjufélags Íslands, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Eggert Óskarsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Valgeir Pálsson
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson