Hoppa yfir valmynd
4. mars 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 3/2010

Fimmtudaginn 4. mars 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 13. janúar 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 11. janúar 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 18. desember 2009, um að synja kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi, dags. 13. janúar 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 20. janúar 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 25. janúar 2010, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að vinnusamningur hennar hafi runnið út í janúar 2009 og hún hafi ekki getað fengið hann endurnýjaðan, því hafi hún misst vinnuna. Kærandi hafi í kjölfarið farið á atvinnuleysisbætur en á meðan atvinnuleit stóð hafi hún orðið ófrísk og því hafi atvinnuleitin orðið erfiðari.

Kærandi og eiginmaður hennar eru af erlendu bergi brotin og á hvorugt þeirra fjölskyldu á Íslandi. Í kæru er greint frá því að tengdafaðir kæranda hafi dáið fyrir ári síðan og það hafi leitt til mikils þunglyndis hjá eiginmanni kæranda og nánustu fjölskyldu hans erlendis. Tengdamóðir kæranda hafi fengið veikindaleyfi vegna þessa og þar sem atvinnuleit kæranda skilaði engum árangri hafi tengdamóðir hennar boðið henni út til sín svo hún gæti séð sitt eina barnabarn, en kærandi á annað barn fyrir. Kærandi hafi ákveðið að þar sem atvinnuleit hennar færi hvort eð er eingöngu fram á Netinu gæti það ekki skaðað að hún færi út til tengdamóður sinnar og hjálpaði henni að vinna á þunglyndinu, einnig væri gott fyrir barnið hennar að kynnast ættingjum sínum. Eftir heimkomu kæranda hafi henni borist sú tilkynning að hún hafi misst atvinnuleysisbæturnar sökum ferðarinnar til útlanda. Hún hafi skrifað Vinnumálastofnun bréf og útskýrt mál sitt. Kærandi hafi ekki vitað að hún gæti ekki farið til útlanda vegna veikinda í fjölskyldu og þegið bætur á sama tíma, og bendir á að hafi hún átt fjölskyldu úti á landi hefði ferð þangað ekki valdið vandræðum. Vinnumálastofnun hafi tekið mál hennar fyrir og ákveðið að hún fengi bæturnar aftur en myndi samt sem áður missa greiðslur fyrir þann tíma sem hún hafi dvalist í útlöndum. Kærandi hafi í kjölfarið rætt við þjónusturáðgjafa hjá Fæðingarorlofssjóði, þar sem hún hafi útskýrt málið og viljað vita hvort hún myndi missa greiðslur í fæðingarorlofinu sökum þess að hún hafi misst atvinnuleysisbæturnar tímabundið. Hún hafi fengið þau svör hjá Fæðingarorlofssjóði að hún myndi alls ekki missa bæturnar heldur yrði litið á þetta tímabil sem hún missti bæturnar sem launalaust leyfi, en hins vegar yrðu bæturnar skertar eilítið. Einnig hafi ráðgjafinn nefnt að hægt væri að fá vottorð fyrir þessu frá Vinnumálastofnun ef til þess kæmi.

Kærandi kveðst hafa sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og fengið svar þess efnis að samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra uppfyllti hún ekki þau skilyrði sem þurfi þar sem engar tekjur séu skráðar á hana á því tímabili sem hún hafi misst atvinnuleysisbæturnar. Í bréfi sjóðsins hafi einnig verið tekið fram að ef hún gæti sýnt fram á launalaust leyfi þá gæti hún átt rétt á að fá skert fæðingarorlof. Kærandi kveðst í kjölfarið hafa farið til yfirmanns Vinnumálastofnunar sem hafi munað eftir málinu hennar og skrifað vottorð fyrir hana um að hún hafi verið í launalausu leyfi sökum veikinda í fjölskyldu. Í framhaldi af því hafi kærandi fengið bréf frá Fæðingarorlofssjóði þar sem segi að umrætt vottorð staðfesti að kærandi hafi ekki fengið neinar tekjur á umræddu tímabili og þar af leiðandi ætti hún ekki rétt á greiðslum í fæðingarorlofi. Kærandi gagnrýnir þessa niðurstöðu og kveðst hafa fengið rangar upplýsingar frá ráðgjafa Fæðingarorlofssjóðs þar sem ráðgjafinn hafi staðfest við hana að hún myndi fá eilítið skert fæðingarorlof en ekki missa það fyrir fullt og allt. Kærandi segir einnig að ef hún hefði verið í vinnu og tekið sér launalaust leyfi þá hefði hún fengið greitt fæðingarorlof, en þar sem hún sé í mjög erfiðri fjárhagslegri stöðu á atvinnuleysisbótum þá sé ekki tekið tillit til þess að hún hafi tekið sér launalaust leyfi vegna fjölskylduveikinda, þó svo að hún hafi komið með vottorð til sönnunar. Staðan sé sú að fái hún ekki greiðslur í fæðingarorlofi muni þau ekki getað staðið lengur í skilum með greiðslur af húsnæði og muni þar af leiðandi missa það, þar sem fæðingarstyrkurinn sem hún fái sé langt í frá að vera nægilega hár til þess að greiða reikninga.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með umsókn, dags. 26. nóvember 2009, vegna væntanlegrar barnsfæðingar 21. desember 2009.

Með umsókn kæranda hafi fylgt tilkynning um fæðingarorlof, dags. 26. nóvember 2009, vottorð um væntanlega barnsfæðingu, dags. 28. ágúst 2009, og greiðslusaga frá Vinnumálastofnun-Greiðslustofu. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og Þjóðskrá.

Þann 10. desember 2009 hafi Fæðingarorlofssjóður sent kæranda bréf þar sem henni hafi verið bent á að samkvæmt upplýsingum úr skrám ríkisskattstjóra væri ráðið að hún hefði ekki verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli tímabilið 18. júlí – 23. ágúst 2009 þar sem engar tekjur væru skráðar á hana í skrám ríkisskattstjóra þann tíma. Kæranda hafi verið bent á í bréfinu hvað teldist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði og ef hún teldi að hún hefði verið þátttakandi á vinnumarkaði á tímabilinu þá þyrfti hún að leggja fram viðeigandi gögn því til staðfestingar.

Þann 16. desember 2009 hafi Fæðingarorlofssjóði borist bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 14. desember 2009, þar sem fram komi að kærandi hafi ekki verið á atvinnuleysisskrá á tímabilinu 18. júlí – 23. ágúst 2009.

Þá greinir sjóðurinn frá því að þann 18. desember 2009 hafi kæranda verið sent bréf og henni synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem ekki væri ráðið af framlögðum gögnum og fyrirliggjandi upplýsingum að kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu 18. júlí – 23. ágúst 2009.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að í 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 7. gr. laga nr. 74/2008, sé kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í 1. mgr. komi fram að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil.

Jafnframt vísar Fæðingarorlofssjóður til þess að í 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna séu skilgreiningar á því hverjir teljist starfsmenn og sjálfstætt starfandi en samkvæmt ákvæðunum teljist starfsmaður samkvæmt lögunum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Sjálfstætt starfandi einstaklingur sé aftur á móti sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Þá bendir Fæðingarorlofssjóður á að í 1. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008, sé skilgreint hvað felist í þátttöku á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 2. mgr. sé síðan talið upp í eftirfarandi fimm stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Í 3. mgr. komi svo fram að Vinnumálastofnun meti á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar hvort foreldri hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði það skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. b-lið 2. mgr.

Jafnframt bendir sjóðurinn á að barn kæranda sé fætt Y. desember 2009. Sex mánaða ávinnslutímabil samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. ffl. sé því frá Y. júní 2009 fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hefði kærandi þurft, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði á tímabilinu, sbr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 9. gr. laga 74/2008. Samkvæmt skrám ríkisskattstjóra séu einu tekjur kæranda á tímabilinu greiðsla atvinnuleysisbóta. Samkvæmt greiðslusögu frá Vinnumálastofnun-Greiðslustofu hafi kærandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 23. júní – 17. júlí 2009 og aftur frá 24. ágúst og fram að fæðingu barnsins. Eftir standi þá tímabilið 18. júlí – 23. ágúst 2009 sem ágreiningurinn í þessu máli snúist um.

Á staðfestingu frá Vinnumálastofnun, dags. 14. desember 2009, komi fram að kærandi hafi verið skráð hjá Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu sem umsækjandi um atvinnu. Hún hafi verið á skrá fram til 17. júlí 2009 en þá farið utan í frí. Hún hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá þeim tíma til 23. ágúst 2009. Hún hafi skráð sig aftur þann 24. ágúst. Í staðfestingunni komi fram að kærandi hafi farið utan vegna veikinda í fjölskyldu. Í kæru komi fram að kærandi hafi farið erlendis og hún hafi ekki fengið atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun þann tíma sem hún dvaldist erlendis.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að við meðferð málsins á kærustigi hafi verið óskað eftir því við Vinnumálastofnun að stofnunin myndi meta hvort kærandi hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði hún skráð sig án atvinnu tímabilið 18. júlí – 23. ágúst 2009.

Þann 20. janúar 2010 hafi borist svarbréf Vinnumálastofnunar. Í bréfinu komi meðal annars fram að eitt af meginskilyrðum 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sé að einstaklingur sem þiggi atvinnuleysisbætur sé í virkri atvinnuleit. Nánar sé kveðið á um það í a–h-liðum 1. mgr. 14. gr. laganna hvað teljist vera virk atvinnuleit. Sé meðal annars gert ráð fyrir því að sá sem þiggur atvinnuleysisbætur hafi vilja og getu til að taka við starfi án sérstaks fyrirvara og sé reiðubúinn að taka við starfi hvar sem er á Íslandi, sbr. c- og d-lið 1. mgr. 14. gr. Þau ákvæði er lúta að virkri atvinnuleit hafi verið túlkuð svo að þeim sem þiggja atvinnuleysisbætur sé ekki heimilt að dveljast erlendis í lengri eða skemmri tíma enda komi það í veg fyrir að þeir fullnægi skilyrðum laganna. Sé það í samræmi við áralanga framkvæmd stofnunarinnar á þessu sviði.

Samkvæmt 42. og 43. gr. VIII. kafla um atvinnuleit erlendis sé Vinnumálastofnun þó heimilt að greiða atvinnuleysisbætur í allt að þrjá mánuði skv. VII. kafla til þess sem telst tryggður og er í atvinnuleit í öðru aðildarríki að uppfylltum þeim skilyrðum að umsækjandi hafi sótt um og fengið samþykkt E303 vottorð til atvinnuleitar erlendis.

Síðan komi fram í svarbréfinu að kærandi hafi verið skráð í orlof 18. júlí – 21. ágúst 2009. Því til stuðnings hafi hún staðfest atvinnuleit sína erlendis frá þann 21. júlí 2009 og á fundi Vinnumálastofnunar þann 7. september 2009, þar sem fjallað hafi verið um mál kæranda og fyrir legið flugfarseðlar sem staðfestu dvöl kæranda erlendis tímabilið 20. júlí – 21. ágúst 2009.

Síðan segir í svarbréfinu að kærandi hafi hvorki sótt um né fengið samþykkt E303 vottorð til atvinnuleitar erlendis fyrir þetta tímabil og sé það því mat Vinnumálastofnunar á grundvelli 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að kærandi hafi ekki getað talist í virkri atvinnuleit á þessum tíma og því ekki átt rétt á atvinnuleysistryggingum tímabilið 18. júlí – 23. ágúst 2009.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að hvorki sé að finna heimild í lögum um fæðingar- og foreldraorlof né reglugerð sem sett hafi verið með stoð í lögunum til að víkja frá ákvæðum 1. og 11. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. við mat á því hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar foreldri hefur töku fæðingarorlofs fyrir fæðingardag barns, sbr. 2. mgr. 8. gr., 11. gr. og 4. mgr. 17. gr. ffl.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en hún eigi þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi dags. 18. desember 2009 um að synja kæranda um greiðslur úr sjóðnum vegna fæðingar barns hinn Y. desember 2009

Í 1. mgr. 1. gr. ffl. segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Í 2. mgr. 7. gr. ffl. er síðan nánar skilgreint hverjir teljast starfsmenn og hverjir sjálfstætt starfandi.

Í 1. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, segir að foreldri, sbr. 1. mgr. 1. gr., öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Í 1. mgr. 13. gr. a. ffl., sbr. 9. gr. laga nr. 74/2008, segir að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeigandi er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Til atvinnuþátttöku skv. 2. mgr. 13. gr. a. ffl. telst jafnframt:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Fæðingardagur barns kæranda er Y. desember 2009. Samkvæmt því er sex mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 13. gr. ffl. tímabilið frá Y. júní 2009 fram að fæðingardegi barnsins. Óumdeilt er að kærandi var á innlendum vinnumarkaði í skilningi ffl. á tímabilinu frá 23. júní til 17. júlí 2009 og á tímabilinu frá 24. ágúst 2009 fram að fæðingu barnsins, þar sem hún þáði atvinnuleysisbætur á þessum tímabilum. Ágreiningur málsins lýtur hins vegar að tímabilinu frá 18. júlí til og með 23. ágúst 2009.

Samkvæmt vottorði, dags. 14. desember 2009, frá Vinnumálastofnun á höfuðborgarsvæðinu er staðfest að kærandi hafi verið skráð hjá stofnuninni sem umsækjandi um atvinnu. Hún hafi verið á skrá fram til 17. júlí 2009 en þá hafi hún farið utan í frí vegna veikinda í fjölskyldu. Þá segir að kærandi hafi ekki fengið atvinnuleysisbætur frá þeim tíma til 23. ágúst 2009 en hún hafi skráð sig aftur 24. ágúst 2009.

Í 3. mgr. 13. gr. a. ffl. kemur fram að Vinnumálastofnun meti á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, hvort foreldri hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði það skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. b-lið 2. mgr. laga nr. 54/2006. Í gögnum málsins er að finna vottorð frá Vinnumálastofnun-Greiðslustofu, dags. 20. janúar 2010, en vottorðið var útbúið að beiðni Fæðingarorlofssjóðs sbr. 3. mgr. 13. gr. a. ffl. Í vottorðinu segir meðal annars:

„Eitt af meginskilyrðum 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, er að einstaklingur sem þiggur atvinnuleysisbætur sé í virkri atvinnuleit. Nánar er kveðið á um það í a–h-liðum 1. mgr. 14. gr. hvað teljist vera virk atvinnuleit. Er meðal annars gert ráð fyrir því að sá sem þiggur atvinnuleysisbætur hafi vilja og getu til að taka við starfi án sérstaks fyrirvara og sé reiðubúinn að taka við starfi hvar sem er á Íslandi, sbr. c- og d-lið 1. mgr. 14. gr. Þau ákvæði er lúta að virkri atvinnuleit hafa verið túlkuð svo að þeim sem þiggja atvinnuleysisbætur sé ekki heimilt að dveljast erlendis í lengri eða skemmri tíma enda komi það í veg fyrir að þeir fullnægi skilyrðum laganna. Er það í samræmi við áralanga framkvæmd stofnunarinnar á þessu sviði.

Samkvæmt 42. og 43. gr. VIII. kafla um atvinnuleit erlendis er Vinnumálastofnun þó heimilt að greiða atvinnuleysisbætur í allt að 3 mánuði skv. VII. kafla til þess sem telst tryggður og er í atvinnuleit í öðru aðildarríki að uppfylltum þeim skilyrðum að umsækjandi hafi sótt um og fengið samþykkt E303 vottorð til atvinnuleitar erlendis.

Samkvæmt upplýsingum úr gagnagrunni Vinnumálastofnunar er A skráð í orlof 18. júlí 2009 - 21. ágúst 2009. Því til stuðnings staðfesti hún atvinnuleit sína erlendis frá, þann 21. júlí 2009 og á fundi Vinnumálastofnunar þann 7. september 2009 þar sem fjallað var um mál A lágu fyrir flugfarseðlar sem staðfestu dvöl A erlendis tímabilið 20. júlí - 21. ágúst 2009.

A hafði hvorki sótt um né fengið samþykkt E303 vottorð til atvinnuleitar erlendis fyrir þetta tímabil og er það því mat Vinnumálastofnunar á grundvelli 13. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar að A hafi ekki getað talist í virkri atvinnuleit á þessum tíma og því ekki átt rétt til atvinnuleysistrygginga tímabilið 18. júlí - 23. ágúst 2009.“

Hafi kærandi ekki starfað í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða starfað við eigin rekstur á tímabilinu frá Y. júní til Y. desember 2009 í skilningi 1. mgr. 13. gr. a. ffl. getur hún einungis átt rétt til greiðslna í fæðingarorlofi að einhver stafliða 2. mgr. 13. gr. ffl. eigi við. Samkvæmt b-lið ákvæðisins telst jafnframt til atvinnuþátttöku sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. a. ffl. metur Vinnumálastofnun það á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, hvort foreldri hefði átt rétt á atvinnuleysisbótum hefði það skráð sig án atvinnu á þeim tíma sem um er að ræða, sbr. fyrrnefndan b-lið 2. mgr. Það hefur Vinnumálastofnun nú gert, sbr. svar stofnunarinnar hér að framan.

Með hliðsjón af framangreindu er óhjákvæmilegt að líta svo á að b-liður 2. mgr. 13. gr. a. ffl. geti ekki átt við um kæranda. Þá verður ekki talið að aðrir liðir ákvæðisins geti átt við um hana.

Enga heimild er að finna í ffl. né reglugerð sem sett hefur verið með stoð í lögunum til að víkja frá ákvæðum 1. og 11. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl. við mat á því hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Þá hefur fullyrðing kæranda um að hún hafi fengið röng svör hjá Fæðingarorlofssjóði við fyrirspurnum sínum um áhrif þess að hún hafi farið erlendis á rétt hennar til greiðslna í fæðingarorlofi enga þýðingu, annars vegar þar sem ekkert liggur fyrir um þau svör eða ráðgjöf Fæðingarorlofssjóðs, og hins vegar vegna þess sem fram kemur í kæru um að hin ætluðu röngu svör sjóðsins hafi borist eftir að kærandi hafði tekið hið umþrætta orlof erlendis. Auk þess fellur það ekki undir valdsvið nefndarinnar að úrskurða um slíkan ágreining, sbr. 2. mgr. 5. gr. ffl. Með vísan til alls þessa verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A, um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta