Hoppa yfir valmynd
11. mars 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2010

Fimmtudaginn 11. mars 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 6. janúar 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. sama dag. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 18. desember 2010, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni í fullu námi.

Með bréfi, dags. 8. janúar 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 13. janúar 2010.

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 15. janúar 2010, og henni gefin kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún hafi eignast barn árið 2007. Hún hafi verið í fullri vinnu þar til tveimur mánuðum fyrir fæðingu barnsins en þá hafi hún hætt störfum vegna veikinda á meðgöngu, þ.e. grindargliðnunar. Hún hafi farið í nám stuttu eftir fæðingarorlof og skilað góðum námsárangri á meðan hún hafi getað verið heima og í fjarnámi. Vegna veikinda barnsins fyrsta árið hafi kærandi þurft að fara í staðnám 2008–2009 en síðan hafi barn hennar veikst ítrekað og hún hafi ekki náð 60% námsárangri. Hún hafi orðið ófrísk aftur í maí 2009 og aftur orðið veik en veikindi hennar á síðari meðgöngu hafi verið mun meiri en á þeirri fyrri. Hún hafi þjáðst af uppköstum alla meðgönguna sem enn hafi ekki dregið úr þegar kæran er rituð þrátt fyrir að þá sé kærandi komin á 34. viku meðgöngu. Kærandi kveðst ekkert þyngjast, vera með slæmt grindarlos, nýrna- og hjartavandamál, lágþrýsting og prótein í þvagi. Læknir hafi fyrirskipað henni að taka veikindaleyfi í október 2009 þannig að hún hafi ekki getað lokið námi á þeirri önn. Kærandi segist ekki fá greidd námslán vegna annarinnar en hún fái einhverja sjúkradagpeninga.

Kærandi segir jafnframt að synjunin sé óásættanleg og krefst þess að málið verði skoðað betur, jafnvel að árangur hennar verði metinn í skóla fyrir veikindi barns eða atvinnusaga fyrir fæðingu árið 2007 verði skoðuð.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 9. nóvember 2009, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður í fullu námi í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar 5. febrúar 2010.

Með umsókn kæranda hafi fylgt vottorð frá B-háskóla, dags. 4. nóvember 2009, og læknisvottorð, dags. 4. nóvember 2009. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá. Kæranda hafi verið sent bréf þann 16. nóvember 2009 þar sem óskað hafi verið eftir vottorði um áætlaðan fæðingardag og ítarlegri námsframvindu síðustu tólf mánuði fyrir fæðingardag barnsins.

Þann 17. nóvember 2009 hafi Fæðingarorlofssjóði borist vottorð um áætlaðan fæðingardag og þann 18. nóvember hafi kærandi hringt í Fæðingarorlofssjóð. Í símtalinu hafi komið fram að námsframvinda hennar á vorönn 2009 hafi ekki verið nægjanleg þar sem hún hafi verið veik á því tímabili. Kærandi hafi ætlað að senda læknisvottorð vegna þess og þann 14. desember 2009 hafi læknisvottorðið borist frá kæranda.

Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að kæranda hafi verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni í fullu námi með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. desember 2009. Í bréfinu hafi verið tiltekið að kærandi teldist ekki hafa uppfyllt skilyrðið um að hafa stundað fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barns þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrðið á vorönn 2009. Kæranda hafi verið bent á að hún ætti rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eigi foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Sjóðurinn vísar jafnframt til þess að skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Sjóðurinn bendir á að áætlaður fæðingardagur barns kæranda sé 5. febrúar 2010 og því verði við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins að horfa til tímabilsins frá 5. febrúar 2009 fram að fæðingardegi barnsins.

Þá segir sjóðurinn að samkvæmt vottorði frá B-háskóla, dags. 4. nóvember 2009, komi fram að kærandi hafi verið skráð stúdent við skólann háskólaárið 2008–2009 í fullt nám og hún sé skráð í skólann háskólaárið 2009–2010, þar af í fullt nám á haustmisseri 2009. Jafnframt bendir sjóðurinn á að ekki hafi borist ítarlegri námsframvinda frá kæranda eins og óskað hafi verið eftir með bréfi, dags. 16. nóvember 2009, en í símtali við kæranda þann 18. nóvember 2009 hafi komið fram eins og fyrr sé rakið að námsframvinda kæranda á vorönn 2009 hafi ekki verið nægjanleg vegna veikinda. Í kæru hafi komið fram að kærandi hafi verið í staðnámi skólaárið 2008–2009 en lent í því að barn hennar sem fæddist árið 2007 hafi veikst ítrekað þannig að námsárangur hafi ekki náð 60%.

Fæðingarorlofssjóður bendir á að í ffl. sé að finna undanþágu fyrir mæður þegar þær uppfylla ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun vegna meðgöngutengdra heilsufarsástæðna en enga undanþágu sé aftur á móti að finna vegna veikinda annarra fjölskyldumeðlima, svo sem barna.

Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, komi fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk skv. 1. mgr. þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Í athugasemdum við 16. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 74/2008 komi fram að átt sé við sambærilegar heilsufarsástæður og eigi við um veikindi móður sem valdi óvinnufærni hennar á meðgöngu skv. 4. mgr. 17. gr. laganna. Með heilsufarsástæðum sé átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valda óvinnufærni og sjúkdóma, tímabundna eða langvarandi, sem versni á meðgöngu og valda óvinnufærni. Jafnframt sé átt við fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs enda valdi meðferðin óvinnufærni.

Sjóðurinn greinir frá því að tvö læknisvottorð hafi borist frá kæranda. Í læknisvottorði, dags. 8. desember 2009, sem hafi borist í kjölfar símtals kæranda við Fæðingarorlofssjóð þann 18. nóvember 2009, komi fram að barn kæranda sem fætt sé árið 2007 hafi átt við mjög tíð sjúkdómaköst að stríða á tímabilinu frá ágúst 2008 til september 2009. Læknisvottorðið taki því til veikinda barns kæranda en ekki til veikinda móður í skilningi 13. mgr. 19. gr. ffl. Þegar af þeirri ástæðu og samkvæmt upplýsingum sem hafi komið fram í fyrrnefndu símtali við kæranda um að námsárangur 2008–2009 hafi ekki náð 60% vegna veikinda barns og samkvæmt vottorði frá B-háskóla, dags. 4. nóvember 2009, verði ekki annað séð en að kærandi hafi hvorki uppfyllt almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barns né heldur að undanþáguákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl. geti tekið til vorannar 2009.

Þá greinir sjóðurinn frá því að í læknisvottorði, dags. 4. nóvember 2009, komi fram að móðir hafi verið skoðuð 4. nóvember 2009 og sjúkdómseinkenna hafi fyrst orðið vart 9. október 2009. Í lýsingu á sjúkdómi komi orðrétt fram: „Viðvarandi verkir í grind ásamt svima ógleði vegna lágs blóðþrýstings.“ Í dálk fyrir niðurstöðu skoðunar og sjúkrasögu og áhrif á námsárangur og/eða ástundunar náms sé hins vegar ekkert skráð. Loks greinir sjóðurinn frá því að eins og fyrr greinir hafi sjúkdómseinkenna í skilningi 13. mgr. 19. gr. ffl. fyrst orðið vart 9. október 2009 og geti læknisvottorðið því einungis tekið til veikinda móður sem kunni að hafa haft áhrif á námsárangur og/eða ástundun náms frá þeim tíma.

Með vísan til framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 18. desember 2009. Að lokum bendir sjóðurinn á að kærandi eigi þess í stað rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfshlutfalli.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni hinn 18. desember 2009.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008, segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá fæddist barn kæranda hinn Y. febrúar 2010. Tólf mánaða viðmiðunartímabil skv. 1. mgr. 19. gr. ffl. er því tímabilið frá Y. febrúar 2009 fram að fæðingu barnsins. Samkvæmt vottorði frá B-háskóla, dags. 4. nóvember 2009, var kærandi skráð í fullt nám við skólann háskólaárið 2008-2009. Þá kemur jafnframt fram að hún sé einnig skráð í skólann háskólaárið 2009-2010 og sé skráð í fullt nám á haustmisseri 2009.

Í yfirliti frá B-háskóla, dags. 3. mars 2010, kemur fram að kærandi hafi ekki lokið neinum einingum á vor- eða haustönn 2009. Fullt nám við B-háskóla er 30 einingar á önn. Fullt nám í skilningi ffl. er samkvæmt því 22–30 einingar, sbr. 4. mgr. 7. gr. ffl. Samkvæmt því uppfyllir kærandi ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um að hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, kemur fram að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að hún uppfylli ekki skilyrði um viðunandi námsárangur og eða ástundun hafi hún ekki getað stundað nám vegna heilsufarsástæðna. Við þær aðstæður skal móðir leggja fram vottorð sérfræðilæknis sem annast hefur hana á meðgöngu því til staðfestingar ásamt staðfestingu frá skóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám.

Kærandi hefur lagt fram staðfestingu frá B-háskóla um að hún hafi verið skráð í fullt nám á viðmiðunartímabilinu, bæði á vor- og haustönn 2009. Þá hefur hún lagt fram tvö læknisvottorð. Í læknisvottorði C, dags. 4. nóvember 2009, kemur fram að sjúkdómsheiti kæranda séu annars vegar réttstöðu próteinmiga, kóði N39.2, og hins vegar grindarlos á meðgöngu, kóði O26.7. Sjúkdómi móður er lýst á þann hátt að hún hafi viðvarandi verki í grind ásamt svima og ógleði vegna lágs blóðþrýstings. Ekkert er hins vegar ritað í dálkinn um niðurstöðu skoðunar og sjúkrasögu og áhrif á námsárangur og / eða ástundun náms. Í vottorðinu kemur fram að sjúklingur hafi verið skoðaður 4. nóvember 2009 og staðreynt að um greindan sjúkdóm væri að ræða, auk þess sem fram kemur að sjúkdómseinkenna hafi fyrst orðið vart 9. október 2009.

Þannig kemur fram í vottorðinu að kærandi hafi verið veik á meðgöngu frá 9. október 2009 að telja. Hins vegar kemur ekkert fram um að hún hafi vegna veikinda sinna á meðgöngu ekki getað stundað nám á vorönn 2009 enda var upphaf meðgöngu kæranda ekki fyrr en undir lok þeirrar annar en eins og fram hefur komið lauk kærandi engum einingum á þeirri önn. Þá kemur ekkert fram í framangreindu vottorði um áhrif veikindanna á námsárangur og / eða ástundun náms kæranda, svo sem áskilið er í 13. mgr. 19. gr. ffl. og gert er ráð fyrir í stöðluðu vottorði.

Auk þess liggur fyrir læknisvottorð sama læknis, dags. 8. desember 2009. Þar kemur fram að eldra barn kæranda, stúlka fædd 2007, hafi átt við mjög tíð sjúkdómaköst að stríða á tímabilinu frá ágúst 2008 til september 2009.

Þetta síðarnefnda læknisvottorð, dags. 8. desember 2009, tekur eðli málsins samkvæmt eingöngu til veikinda barns kæranda en ekki hennar sjálfrar og þegar af þeirri ástæðu er ekki unnt að beita undanþáguákvæði 13. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, um það tímabil sem það læknisvottorð tekur til.

Í kæru kemur fram beiðni kæranda um að líta til árangurs hennar í skóla fyrir veikindi barns eða að atvinnusaga fyrir fæðingu barns hennar árið 2007 verði skoðuð. Hvorki í ffl. né reglugerð nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er að finna undanþágu þess efnis að hægt sé að líta til annars viðmiðunartímabils en síðustu tólf mánaða fyrir fæðingu barns við mat á hvort foreldri eigi tilkall til fæðingarstyrks sem námsmaður. Þá er heldur ekki að finna undanþágu sem heimilar að unnt sé að líta til atvinnusögu kæranda fyrir fæðingu barns hennar árið 2007.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A, um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta