Nr. 257/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 10. júní 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 257/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU21030045
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 12. mars 2021 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. febrúar 2021, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.
Þess er aðallega krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsóknin verði tekin til efnislegrar meðferðar á Íslandi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 en að öðrum kosti með vísan til 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 42. gr. sömu laga. Til vara er gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 10. ágúst 2020. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 17. ágúst 2020, komi í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Ungverjalandi. Með umsókn framvísaði kærandi ungversku ferðaskilríki með gildistíma frá 20. febrúar 2020 til 20. febrúar 2021. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 9. september 2020, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 12. febrúar 2021 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 26. febrúar 2021 og kærði kærandi ákvörðunina þann 12. mars 2021 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 23. mars 2021, ásamt fylgiskjölum. Þá bárust frekari gögn þann 31. maí 2021.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd í Ungverjalandi. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Ungverjalands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Ungverjalands.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun greint frá því að vera slæmur í hnjám og eiga erfitt með gang vegna vinnuaðstæðna í Ungverjalandi. Þá hafi kærandi greint frá því að eldri bróðir hans hafi verið myrtur í heimaríki og að það hafi haft áhrif á andlega heilsu hans og að rekja megi flótta hans frá heimaríki til þess atviks. Þá hugsi hann stöðugt um bróður sinn og fjölskyldu sem sé stödd í heimaríki og að hann eigi erfitt með svefn. Ástæða þess að hann hafi yfirgefið Ungverjaland hafi verið sú að yfirvöld hafi ekki endurnýjað dvalarleyfi hans og hann hafi enga aðstoð fengið vegna vandamála í hnjám. Kærandi hafi greint frá aðstæðum sínum í Ungverjalandi eftir að hann hafi fengið dvalarleyfi, þ. á m. varðandi húsnæði, atvinnu og heilbrigðisþjónustu. Þá hafi kærandi reynt að sækja um fjölskyldusameiningu í Ungverjalandi en fengið þau svör að það stæði honum ekki til boða.
Í greinargerð kæranda er vísað til meðfylgjandi viðauka þar sem finna megi samantekt Rauða kross Íslands frá árinu 2018 um aðstæður flóttafólks í Ungverjalandi. Í viðaukanum megi m.a. finna umfjöllun um framfærslu, húsnæðisvanda, atvinnu, heilbrigðismál og viðhorf stjórnvalda til flóttamanna. Heimildir bendi til þess að aðstæður flóttafólks í Ungverjalandi hafi ekki breyst til batnaðar frá því að umrædd samantekt hafi verið gerð. Þá vísar kærandi til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar en þar hafi verið fjallað um helstu lagabreytingar sem tekið hafi gildi í Ungverjalandi og hafi bein áhrif á réttindi flóttafólks og séu til þess fallnar að mismuna þessum hópi.
Kærandi byggir á því að ekki sé tilefni til að víkja frá þeirri stjórnsýsluframkvæmd að mál þeirra sem hafa hlotið alþjóðlega vernd í Ungverjalandi og sæki um alþjóðlega vernd hér á landi hljóti efnismeðferð. Sú framkvæmd hafi byggt á tilteknum úrskurðum kærunefndar útlendingamála þar sem kærunefnd hafi komist að því að í ljósi uppruna kærenda og með hliðsjón af upplýsingum um þær aðstæður sem biðu þeirra í Ungverjalandi væri það mat nefndarinnar að þeir myndu eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki sökum mismununar vegna kynþáttar og aðstæðna þeirra sem einstaklinga með alþjóðlega vernd. Engar breytingar hafi orðið á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og reglugerð um útlendinga frá því að framangreindir úrskurðir kærunefndar voru kveðnir upp sem kalli á breytt mat á sérstökum ástæðum. Kærandi fjallar í greinargerð sinni um úrskurði kærunefndar í málum nr. KNU20110024 frá 7. janúar 2021 og nr. KNU20110052, KNU20110061 og KNU20120032 frá 4. febrúar 2021. Í úrskurðunum hafi kærunefnd fellt úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar er vörðuðu einstaklinga frá Ungverjalandi á þeim grundvelli að Útlendingastofnun hafi ekki rökstutt með fullnægjandi hætti hvaða breytingar hafi orðið á aðstæðum þeirra sem hlotið hafi vernd í Ungverjalandi frá því að ákvarðanir voru teknar, að því er virðist, í sambærilegum málum undir lok árs 2019. Voru málin því send til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun, þ.m.t. mál kæranda.
Kærandi gerir athugasemd við mat Útlendingastofnunar á sérstaklega viðkvæmri stöðu hans, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, og telur að stofnunin hafi litið framhjá þeirri staðreynd að hann sé eldri maður sem glími við margþættan heilsufarsbrest. Þá gerir kærandi athugsemd við einstaklingsbundið mat Útlendingastofnunar en að mati kæranda sé gert minna úr veikindum hans en tilefni sé til. Við mat Útlendingastofnunar sé litið framhjá því sem fram komi í greinargerð sérfræðilæknis og þeim aðgangshindrunum og erfiðleikum sem flóttafólk í Ungverjalandi glími við, s.s. varðandi aðgang að heilbrigðiskerfi landsins. Þá hafi kærandi hafið lyfjameðferð vegna tiltekins sjúkdóms hér á landi. Kærandi leggur áherslu á að þrátt fyrir að kærunefnd endurskoði ekki mat Útlendingastofnunar á sérstaklega viðkvæmri stöðu þá beri nefndinni að meta einstaklingsbundnar aðstæður umsækjenda. Einstaklingsbundin greining á stöðu kæranda hafi verið ófullnægjandi og því telur kærandi veigamiklar ástæður mæla með því að kærunefnd útlendingamála endurskoði mat stofnunarinnar á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda og kanni hvaða áhrif þau veikindi sem hann glími við hafi haft á líf hans og hvaða áhrif rof á meðferð kunni að hafa á heilsufar hans. Kærandi leggur áherslu á að samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um útlendinga beri kærunefnd að meta að nýju alla þætti kærumáls auk þess sem slíkt mat skuli ekki einskorðast við þann tíma er kærandi sótti um vernd, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga. Þá gerir kærandi einnig athugasemd við umfjöllun og mat Útlendingastofnunar á aðgengi að húsnæði, heilbrigðisþjónustu, félagslegum stuðningi, atvinnu og aðstoð við aðlögun að samfélaginu.
Kærandi byggir á því að hann þjáist af miklum og alvarlegum veikindum, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, og að fyrir hendi séu ástæður er varði heilsufar hans sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið. Kærandi telur að heimildir um heilbrigðiskerfið í Ungverjalandi, gögn málsins og frásögn hans af reynslu sinni þar sýni fram á að veruleg hætta sé á að rof verði á nauðsynlegri meðferð verði hann sendur aftur til Ungverjalands. Þá byggir kærandi á því að með tilliti til uppruna kæranda, frásagnar hans og upplýsingum um þær aðstæður sem bíði hans í Ungverjalandi muni hann eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar á grundvelli kynþáttar og að hann geti vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Kærandi fjallar um úrskurði kærunefndar í málum nr. KNU20110024 frá 7. janúar 2021 og nr. KNU20110052 frá 5. febrúar 2021 þar sem komist hafi verið að því að rökstuðningur Útlendingastofnunar hafi verið ábótavant, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga, hvað varðar breytta framkvæmd stofnunarinnar. Að mati kæranda verði ekki séð að nein rannsókn hafi farið fram í máli hans af hálfu Útlendingastofnunar um hvað hafi breyst til batnaðar með tilliti til aðstæðna einstaklinga með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi eða að stofnunin hafi gert grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem lágu til grundvallar hinnar breyttu framkvæmdar. Kærandi geti fallist á það sjónarmið sem kemur fram í hinni kærðu ákvörðun að því lengri tími sem flóttamenn dvelji í viðtökuríki því meiri möguleika eigi þeir almennt á að aðlagast samfélaginu. Þetta sé þó auðvitað háð þeirri meginforsendu að þeir njóti tiltekinna réttinda. Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til úrskurðar kærunefndar í máli nr. KNU17030060 frá 19. apríl 2017 þar sem viðkomandi hafi haft alþjóðlega vernd í tíu ár í Ungverjalandi. Að mati kæranda eru málsatvik og aðstæður í máli kærunefndar frá 19. apríl 2017 ólíkar aðstæðum kæranda en hann hafi dvalið í Ungverjalandi í sex ár. Þá vísar kærandi til úrskurða kærunefndar í málum nr. KNU17070049 frá 10. október 2017, KNU17070050 og KNU17080006 frá 24. október 2017 og KNU18070005 og KNU18070022 frá 27. september 2018 þar sem ákvarðanir Útlendingastofnunar voru felldar úr gildi með vísan til sérstakra ástæðna en kærendur í þeim málum höfðu allir haft alþjóðlega vernd í Ungverjalandi í skemmri tíma en kærandi í því máli sem hér er til umfjöllunar. Flóttafólk í Ungverjalandi mæti ýmsum hindrunum við að sækja réttindi sín hjá yfirvöldum og ekki verði séð að yfirvöld þar í landi hafi gripið til aðgerða til að reyna að draga úr þessum hindrunum heldur þvert á móti unnið að því að takmarka möguleika til aðlögunar. Kærandi telur ekki rétt að líta svo á, eins og Útlendingastofnun geri, að þar sem kærandi hafi dvalið í sex ár í Ungverjalandi hafi hann átt kost á að aðlagast samfélaginu. Aðlögun sé fjölþætt, flókið og vandasamt ferli sem snúi ekki einungis að dvalartíma flóttamanns. Fleiri þættir þurfi að koma til skoðunar, s.s. viðmót og viðhorf almennings og stjórnvalda. Þá fjallar kærandi um möguleika sína til fjölskyldusameiningar í Ungverjalandi. Þrátt fyrir að ungversk lög kveði á um rétt flóttafólks til fjölskyldusameiningar þá sé sá réttur fyrir marga einungis í orði en ekki á borði. Í 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sé kveðið á um að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Þá sé ljóst af lögum um útlendinga að íslenski löggjafinn hafi viljað tryggja að meginreglan um einingu fjölskyldunnar sé virt, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga og kafla laganna um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Ef kærandi verður sendur aftur til Ungverjalands sé ljóst að hann standi frammi fyrir því að geta ekki eða eiga afar erfitt um vik að sameinast fjölskyldu sinni. Þá beri að líta til áhrifa Covid-19 faraldursins í ungversku samfélagi en þar hafi smitum fjölgað gífurlega undanfarna mánuði. Í ljósi alls framangreinds sé það mat kæranda að fyrir hendi séu sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá sé ljóst að kærandi muni standa frammi fyrir ómannúðlegum aðstæðum í Ungverjalandi og að með endursendingu hans myndu íslensk stjórnvöld gerast brotleg við grundvallarregluna um bann við endursendingu (non-refoulement) auk samsvarandi ákvæða íslenskra laga og mannréttindasamninga.
Með vísan til framangreinds telur kærandi að mat Útlendingastofnunar á því hvort honum standi til boða raunverulegt aðgengi að réttindum, aðstoð og þjónustu í Ungverjalandi sé hvorki byggt á fullnægjandi upplýsingum né hafi þar farið fram einstaklingsbundið mat á stöðu kæranda í Ungverjalandi. Þá hafi stofnunin ekki lagt mat á þau gögn sem liggi fyrir í málinu en að mati kæranda sé leitast við að gera lítið úr veikindum hans frekar en að taka tillit til samlegðar áhrifa sem uppruni hans, aldur og flókin heilsufarssaga getur haft í för með sér, sem og mikilvægi órofinnar meðferðar. Kærandi telur því að Útlendingastofnun hafi ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinn, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, og vísar í því samhengi til úrskurðar kærunefndar í máli nr. KNU20120021 frá 18. febrúar 2021.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins hefur kæranda verið veitt alþjóðleg vernd í Ungverjalandi. Samkvæmt svari frá ungverskum stjórnvöldum, dags. 22. september 2020, hlaut kærandi viðbótarvernd í landinu þann 17. júní 2014. Þá kemur fram að ungversk stjórnvöld hafi endurmetið stöðu hans þar í landi og viðbótarvernd hans verið endurnýjuð þann 3. september 2020 auk þess sem að kærandi hafi síðast fengið útgefin ferðaskilríki þann 9. mars 2020.
Að mati kærunefndar telst sú vernd sem kærandi nýtur í viðtökuríki virk alþjóðleg vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Aðstæður í Ungverjalandi
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Ungverjalandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:
· 2020 Country Reports on Human Rights Practices - Hungary (U.S. Department of State, 30. mars 2021);
· Amnesty International Report 2020/21 – Hungary (Amnesty International, 7. apríl 2021);
· Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union (EASO, 1. júlí 2020);
· Asylum in Hungary: Damaged Beyond Repair? ECRE‘s call for states to end transfers to Hungary under Dublin and bilateral arrangements (European Council on Refugees and Exiles, 2017);
· Asylum Information Database National Country Report: Hungary (European Council on Refugees and Exiles, febrúar 2020);
· Asylum Information Database National Country Report: Hungary (European Council on Refugees and Exiles, 15. apríl 2021);
· ECRI conclusions on the implementation of the recommendations in respect of Hungary subject to interim follow-up (European Commission against Racism and Intolerance, 15. maí 2018);
· Freedom in the World 2021 – Hungary (Freedom House, 2021);
· Hungary: Definition of hate crime according to Hungarian law; recourse available to victims (2015-March 2017) (Immigration and Refugee Board of Canada, 29. mars 2017);
· Hungary: Legal amendments to detain all asylum-seekers a deliberate new attack on the rights of refugees and migrants (Amnesty International, 9. mars 2017);
· Hungary as a country of asylum: Observations on restrictive measures and subsequent practice implemented between July 2015 and March 2016 (UNHCR, maí 2016);
· Hungary Immigration Detention Profile (Global Detention Project, september 2016);
· Hungary‘s Government Strengthens its Anti-NGO Smear Campaign (Human Rights Watch, 20. janúar 2018);
· Integration of Refugees in Greece, Hungary and Italy: Comparative Analysis (European Parliament, 20. desember 2017);
· Migration and Asylum: Commission takes further steps in infringement procedures against Hungary (European Commission, 19. júlí 2018);
· Report by Dunja Mijatović Commissioner for Human Rights of the Council of Europe Following her Visit to Hungary from 4 to 7 February 2019 (Council of Europe, 21. maí 2019);
· Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council of Europe Following his Visit to Hungary from 1 to 4 July 2014 (Council of Europe, 16. desember 2014);
· Report on the human rights situation covering 2019 (Amnesty International, 16. apríl 2020);
· Report to the Hungarian Government on the visit to Hungary carried out by the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT) from 20 to 26 October 2017 (Council of Europe, 18. september 2018);
· Research on integration for beneficiaries of international protection in Hungary (The UN Refugee Agency, febrúar 2019);
· Response of the Hungarian Government of the report of the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT) on its visit to Hungary from 20 to 29 November 2018 (Council of Europe, 17. mars 2020);
· Ungarn: Situasjonen for personer med beskyttelse (Landinfo, 30. ágúst 2016);
· Upplýsingar af vefsíðu Hungarian Helsinki Committee (https://helsinki.hu);
· Upplýsingar af vefsíu OSCE – Office for Democratic Institutions and Human Rights (ODIHR) (https://hatecrime.osce.org/hungary):
· Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 10. júní 2021);
· Upplýsingasíða Sóttvarnarstofnunar Evrópu (https://www.ecdc.europa.eu/en/cases-2019-ncov-eueea, sótt 10. júní 2021);
· Your social security rights in Hungary (European Commission, 2020);
· World Report 2020 – European Union (Human Rights Watch, 14. janúar 2020) og
· World Report 2021 – European Union (Human Rights Watch, 13. janúar 2021).
Samkvæmt skýrslu European Council on Refugees and Exciles (ECRE) frá því í apríl 2021 fá einstaklingar sem hljóta alþjóðlega vernd í Ungverjalandi ekki útgefin dvalarleyfi heldur ungversk skilríki. Útgáfa framangreindra skilríkja taki a.m.k. einn mánuð frá því að ákvörðun um veitingu verndar hafi verið tekin og gildi skilríkin í sex ár frá útgáfu. Þá kemur fram að einstaklingar geti sótt um ótímabundið dvalarleyfi hafi þeir haft alþjóðlega vernd í landinu í að minnsta kosti þrjú ár. Í framangreindum skýrslum, m.a. skýrslu ECRE, kemur einnig fram að alþjóðleg vernd sæti kerfisbundinni endurskoðun á þriggja ára fresti þar sem útlendingastofnun Ungverjalands skoði hvort skilyrði verndar séu enn til staðar. Skuli slík endurskoðun ekki taka meira en 60 daga. Einstaklingurinn sé þá kallaður í viðtal og ef ekki sé grundvöllur fyrir afturköllun sé málsmeðferð hætt. Vernd sé ekki afturkölluð nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum, s.s. hafi viðkomandi öðlast ríkisborgararétt, snúið aftur til heimaríkis eða framið alvarlegan glæp sem brjóti í bága við ungversk lög. Einstaklingur geti borið ákvörðun um afturköllun verndar undir dómstóla, sem geti þá fellt ákvörðunina úr gildi eða gert útlendingastofnun að taka málið til meðferðar að nýju. Þeir sem hlotið hafi réttastöðu flóttamanns geti sótt um ríkisborgararétt í landinu eftir þriggja ára dvöl en handhafar viðbótarverndar eftir átta ára dvöl að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi lagst gegn endursendingum umsækjenda til Ungverjalands en ekki endursendingum þeirra sem þegar hafi hlotið vernd í landinu.
Í skýrslu ECRE kemur fram að handhafar alþjóðlegrar verndar hafi heimild til að dvelja í flóttamannabúðum í allt að 30 daga frá verndarveitingu. Frá árinu 2016 hafi flóttamenn ekki notið frekari stuðnings ríkisins varðandi húsnæði eða framfærslu en eigi þó rétt á félagslegri aðstoð og aðgengi að húsnæðismarkaði til jafns við ungverska ríkisborgara þrátt fyrir að ýmsar hindranir geti staðið því í vegi að þeir geti nýtt sér þá aðstoð. Vegna almenns húsnæðisskorts í landinu sé leiguverð almennt hátt og þá gæti mismununar á leigumarkaði en talið sé að Ungverjar kjósi fremur að leigja öðrum Ungverjum húsnæði sitt en erlendum aðilum. Frjáls félagasamtök og kirkjur hafi veitt flóttafólki aðstoð, m.a. endurgjaldslausa gistingu. Flest gistiskýlin séu staðsett í Búdapest og dvelji því flestir flóttamenn í höfuðborginni. Þá hafi handhafar alþjóðlegrar verndar aðgang að félagslega kerfi landsins, s.s. atvinnuleysisbótum, veikindarétti og fæðingarorlofi, til jafns við ungverska ríkisborgara, þó krefjist sum sveitarfélög þess að viðkomandi hafi haft lögheimili á svæðinu í vissan árafjölda. Þá séu skilyrði atvinnuleysisbóta að viðkomandi einstaklingur hafi starfað í landinu í að lágmarki 365 daga á síðustu þremur árum. Í skýrslu ECRE kemur fram að handhafar alþjóðlegrar verndar í Ungverjalandi hafi aðgang að vinnumarkaðnum þar í landi til jafns við ungverska ríkisborgara, að undanskilinni starfsemi þar sem þess sé krafist í lögum að ungverskir ríkisborgarar sinni. Handhafar alþjóðlegrar verndar í Ungverjalandi glími þó við ýmsar hindranir á vinnumarkaðnum þar í landi, m.a. vegna tungumálaörðugleika og því standi margir í reynd frammi fyrir atvinnuleysi í Ungverjalandi. Þá hafi handhafar alþjóðlegrar verndar í Ungverjalandi sama aðgang að þjónustu vinnumálastofnunar þar í landi og ungverskir ríkisborgarar þó að erfitt geti verið í sumum tilvikum að finna enskumælandi þjónustufulltrúa.
Í skýrslu ECRE kemur einnig fram að handhafar alþjóðlegrar verndar í Ungverjalandi hafi, að sex mánuðum liðnum frá veitingu verndar, aðgang að heilbrigðisþjónustu til jafns við ungverska ríkisborgara en fram að þeim tíma njóti þeir sömu réttinda og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Í framangreindum skýrslum kemur þá fram að þegar einstaklingur hafi atvinnu í Ungverjalandi sé hann sjúkratryggður og eigi rétt á allri þeirri heilbrigðisþjónustu sem hann hafi þörf á, sem að meginstefnu til sé gjaldfrjáls, t.d. almennum læknisskoðunum, sjúkrahúsdvöl, lyfjum og tannlækningum. Í einhverjum tilvikum þurfi einstaklingar þó að greiða fyrir hluta sérfræðiþjónustu eða lyfja. Sé einstaklingur af einhverjum ástæðum ekki sjúkratryggður eigi hann rétt á heilbrigðisþjónustu til jafns við umsækjendur um alþjóðlega vernd. Feli það í sér aðgang að grunnheilbrigðisþjónustu, s.s. læknisskoðunum auk sérfræðilækninga í neyðartilfellum. Ýmsar hindranir séu þó við nýtingu þjónustunnar m.a. vegna tungumálaörðugleika, þekkingarleysis á ungverskum lögum og stjórnsýslu og mismununar af hálfu opinberra starfsmanna, þ.m.t. lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks.
Af framangreindum skýrslum verður ráðið að ungversk yfirvöld hafi átt við margvíslegan vanda að etja við móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd og hefur hæliskerfið í Ungverjalandi verið harðlega gagnrýnt. Í skýrslu European Parliament frá desember 2017 kemur m.a. fram að öfugt við grísk og ítölsk yfirvöld hafi ungversk yfirvöld lagt kapp á að takmarka aðgerðir og stuðning til handa flóttafólki. Því séu frjáls félagasamtök í landinu afar mikilvæg þessum hópi. Kemur þá m.a. fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020 að í júlí 2018 hafi ungverska þingið samþykkt löggjöf sem geri það að verkum að lögmenn, ráðgjafar, sjálfboðaliðar og aðrir sem aðstoði m.a. umsækjendur um alþjóðlega vernd geti átt yfir höfði sér fangelsisrefsingu. Þá hafi ungverskum skattalögum verið breytt á þá leið að 25% skattur skuli lagður á starfsemi frjálsra félagasamtaka sem snúi að stuðningi við innflytjendur.
Í skýrslu United Nations Human Rights frá árinu 2019 kemur fram að á síðustu árum hafi umsóknum um alþjóðlega vernd í Ungverjalandi fjölgað verulega en í kjölfarið hafi orðið vart við umburðarleysi og hatursorðræðu gagnvart þessum hópi, svo og flóttafólki og innflytjendum. Hatursglæpir og hatursorðræða séu refsiverð samkvæmt ungverskum hegningarlögum en eftirfylgni með löggjöfinni skorti. Í skjóli þess refsileysis sem viðgangist í málaflokknum hafi hatursorðræða rutt sér til rúms á opinberum vettvangi og ofbeldi gegn innflytjendum, umsækjendum um alþjóðlega vernd og flóttafólki aukist til muna. Í skýrslunni kemur þó fram að í höfuðstöðvum lögreglu ríkisins hafi sérstök áhersla verið lögð á að uppfæra áætlun um hatursglæpi. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2020 kemur þá jafnframt fram að yfirvöld í Ungverjalandi hafi vísað til þess að Covid-19 faraldurinn í landinu eigi m.a. rætur að rekja til fjölda innflytjenda þar í landi sem flestir komi frá ríkjum þar sem mikill fjöldi Covid-19 tilfella hafi greinst auk þess sem þeir einstaklingar geti borið með sér aðra sjúkdóma sem ekki séu lengur algengir í landinu.
Í fyrrnefndri skýrslu ECRE kemur fram að fjölskyldur einstaklinga sem hlotið hafi réttarstöðu flóttamanna eða viðbótarvernd í Ungverjalandi geti sótt um fjölskyldusameiningu en færa þurfi sönnur fyrir sambandi þeirra við viðkomandi verndarhafa. Þeir einstaklingar sem hljóti réttarstöðu flóttamanna séu undanþegnir ýmsum ströngum skilyrðum fyrir fjölskyldusameiningu í þrjá mánuði eftir að þeir hafi hlotið réttarstöðu í landinu. Þeir sem hljóti viðbótarvernd njóti þó engra slíkra ívilnana og hafi varla burði til að standast þau ströngu skilyrði sem sett séu fyrir fjölskyldusameiningu, þ.e. m.a. að sýna fram á framfærslu, húsnæði og sjúkratryggingu.
Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga verður því aðeins beitt ef stjórnvöld telja, á grundvelli hlutlægra og trúverðugra upplýsinga sem eru nægilega nákvæmar og uppfærðar eftir því sem við á, að skilyrði þess séu uppfyllt. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. er til viðbótar þeirri vernd sem 3. mgr. 36. gr. veitir umsækjendum um alþjóðlega vernd.
Á grundvelli 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga setti ráðherra reglugerð nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, en með henni bættust tvær greinar, 32. gr. a og 32. gr. b, við reglugerðina. Í 32. gr. a reglugerðarinnar kemur fram að með sérstökum ástæðum samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan. Þá eru í ákvæðinu jafnframt talin upp viðmið í dæmaskyni sem leggja skuli til grundvallar við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi en þau viðmið varða aðallega alvarlega mismunun eða alvarleg veikindi. Þar sem tilvikin eru talin upp í dæmaskyni geta aðrar aðstæður, sambærilegar í eðli sínu og af svipuðu alvarleikastigi, haft vægi við ákvörðun um hvort sérstakar ástæður séu til að taka mál umsækjanda til efnismeðferðar hér á landi, svo framarlega sem slíkar aðstæður séu ekki sérstaklega undanskildar, sbr. 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar.
Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar skal líta til þess hvort umsækjandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, svo sem ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki. Kærunefnd telur að orðalagið „muni eiga“ feli ekki í sér kröfu um afdráttarlausa sönnun þess að umsækjandi verði fyrir alvarlegri mismunun sem leiði til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar. Orðalagið gerir þó kröfu um að tilteknar líkur verði að vera á alvarlegri mismunun, þ.e. að sýna verður fram á að kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir mismunun af þeim toga, með þeim afleiðingum, og af því alvarleikastigi sem ákvæðið lýsir en að ekki sé nægilegt að aðeins sé um að ræða möguleika á slíkri mismunun. Af því leiðir að þó svo að dæmi séu um að einstaklingar í sambærilegri stöðu og kærandi í viðtökuríki hafi orðið fyrir alvarlegri mismunun af þeim toga sem 32. gr. a reglugerðar um útlendinga mælir fyrir um telst kærandi ekki sjálfkrafa eiga slíkt á hættu heldur þarf að sýna fram á að verulegar ástæður séu til að ætla að kærandi, eða einstaklingur í sambærilegri stöðu og kærandi, verði fyrir slíkri meðferð.
Þá skal líta til þess hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Í reglugerðinni kemur fram að meðferð teljist, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur sé átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í viðtökuríkinu en umsækjanda muni ekki standa hún til boða. Við mat á því hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi lítur kærunefnd m.a. til heilsufarsgagna málsins og hlutlægra og trúverðugra gagna um hvort sú heilbrigðisþjónusta sem hann þarfnast sé honum aðgengileg í viðtökuríki.
Af 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar má jafnframt ráða að heilsufar umsækjanda hafi takmarkað vægi umfram það sem leiðir af 2. mgr. 32. gr. a, nema það teljist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði fram hjá þeim litið. Þá tekur 3. mgr. 32. gr. a af tvímæli um það að efnahagslegar ástæður geta ekki talist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Slíkar aðstæður gætu þó fallið undir 3. mgr. 36. gr. nái þær því alvarleikastigi sem við á, sbr. umfjöllun hér í framhaldinu.
Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...] ára karlmaður. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann sé almennt heilbrigður en eigi erfitt með gang vegna vandamála í fæti. Þá hafi kærandi greint frá því að andleg heilsa hans væri ekki góð vegna viðskilnaðar frá fjölskyldu sinni og hann ætti erfitt með svefn. Þá hafi kærandi greint frá tilteknum atburðum í heimaríki sem hafi haft áhrif á andlega heilsu hans. Við meðferð málsins hefur kærandi lagt fram heilsufarsgögn frá Heilsugæslunni í Keflavík og Landspítalanum. Af þeim má sjá að kærandi hafi leitað þangað m.a. vegna liðbólgna, blóðhósta og mögulegu berklasmiti og notið þjónustu ýmissa sérfræðinga í ónæmisfræðum, lyflækningum, smit- og gigtarsjúkdómum. Þá hafi verið framkvæmdar rannsóknir á heilsufari kæranda, s.s. myndgreining og vefjarannsókn. Af bréfi og greinargerð sérfræðilæknis í gigtarlækningum, dags. 25. febrúar 2021, má sjá að kærandi hafi verið greindur með iktsýki (e. theumatoid arthritis) sem valdi sársauka og bólgum í liðum. Þá sé grunur um að kærandi hafi haft berkla (e. tuberculosis) en ekki hafi verið neinar vísbendingar um virka berkla. Kærandi hafi verið settur á fyrirbyggjandi meðferð vegna berkla og þá sé hafin hefðbundin liðagigtarmeðferð með sterum en hún verði sérlega vandasöm þar sem berklar hafi ekki verið útilokaðir. Kærandi sé í reglubundnu eftirliti á göngudeild gigtardeildar og fyrirsjáanlegt sé að kærandi þurfi endurteknar liðástungur með sterainndælingu. Þá gæti kærandi þurft að fara á líftæknilyf. Í gagninu kemur fram það álit læknis að kosturinn við samfellu í eftirliti og meðferð sé ótvíræður og það að hefja allan þennan feril að nýju frá grunni sé óæskilegur og jafnvel hættulegur. Eftirlit og framhaldsmeðferð verði að vera á hátæknisjúkrahúsi eða háskólasjúkrahúsi þar sem að máli geti komið ýmsir sérfræðingar, s.s. smit-, gigtar- og lungnalæknar. Þá lagði kærandi fram gögn frá Göngudeild sóttvarna, dags. 22. mars til 4. maí 2021, þar sem m.a. kemur fram að hann hafi hitt sálfræðing.
Framangreindar skýrslur og gögn um aðstæður í Ungverjalandi bera með sér að kærandi hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu þar í landi en eins og áður hefur verið rakið eiga einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Ungverjalandi að lögum sambærilegan rétt á heilbrigðisþjónustu og ríkisborgarar Ungverjalands. Ýmsar hindranir séu þó við nýtingu þjónustunnar m.a. vegna tungumálaörðugleika, þekkingarleysis á ungverskum lögum og stjórnsýslu og mismununar af hálfu opinberra starfsmanna, þ.m.t. lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks. Þá kemur fram í skýrslu ECRE að sjúkratryggingar einstaklinga með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi geti í vissum tilvikum verið felldar niður ef þeir yfirgefi landið. Handhafi alþjóðlegrar verndar í Ungverjalandi sem séu endursendir til landsins frá öðru Evrópuríki geti því þurft að sækja að nýju um sjúkratryggingu þar í landi.
Í því máli sem hér er til meðferðar liggur fyrir bréf og greinargerð sérfræðilæknis þar sem m.a. kemur fram að kostur við samfellu í eftirliti og meðferð sé ótvíræður og það að hefja þennan feril að nýju frá grunni sé óæskilegur og jafnvel hættulegur. Þá þurfi eftirlit og framhaldsmeðferð að fara fram á hátækni- eða háskólasjúkrahúsi þar sem að máli geti komið ýmsir sérfræðingar. Kærunefnd telur sig ekki vera í þeirri stöðu að geta dregið nægilega skýrar ályktanir af þeim læknisfræðilegu gögnum sem liggja fyrir í málinu um hvaða áhrif það hafi á heilsufar kæranda ef rof verði á meðferð þeirri sem hann hafi hafið hér á landi. Þá telur kærunefnd óljóst hvers konar eftirlit og meðferð þurfi að tryggja. Kærunefnd telur jafnframt að í ljósi heilsufars kæranda hafi verið sérstakt tilefni til að afla upplýsinga um hvort kæranda standi viðeigandi þjónusta til boða sem hann hafi þörf fyrir í Ungverjalandi og hvort samfella í eftirliti og meðferð sé tryggð í ljósi framangreindra upplýsinga í skýrslu ECRE þess efnis að sjúkratryggingar einstaklinga með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi geti í vissum tilvikum verið felldar niður ef þeir yfirgefi landið. Kærunefnd telur í ljósi framangreinds að nægilega skýrar upplýsingar um þessa þætti málsins hafi þurft að liggja fyrir áður en ákvörðun hafi verið tekin í máli kæranda og telur kærunefnd að rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið áfátt að þessu leyti.
Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar.
Er það mat kærunefndar að með framangreindum annmörkum á málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.
Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda. Kærunefnd telur jafnframt í ljósi aðstæðna að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.
Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála að taka beri mál kæranda til meðferðar á ný.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.
Tómas Hrafn Sveinsson
Sandra Hlíf Ocares Bjarnveig Eiríksdóttir