Ákvörðun ríkisstjórnar um móttöku 13 sýrlenskra flóttamanna
Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um móttöku 13 sýrlenskra flóttamanna í neyð og að undirbúningur vegna móttöku þeirra hefjist þegar í stað. Ákvörðunin er í samræmi við tillögu flóttamannanefndar og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Sýrlenska flóttafólkið, sem boðið verður að koma til Íslands, dvelur nú í Tyrklandi. Um er að ræða fjórar fjölskyldur, þar af sex börn. Ríkisstjórnin hefur falið flóttamannanefnd að undirbúa móttöku fólksins og leitast eftir samstarfi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, auk Rauða krossins á Íslandi sem annast ýmsa þætti sem tengjast móttöku flóttafólks samkvæmt samningi við velferðarráðuneytið.