Hoppa yfir valmynd
8. ágúst 2014 Utanríkisráðuneytið

Ákvörðun ríkisstjórnar um móttöku 13 sýrlenskra flóttamanna

Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um móttöku 13 sýrlenskra flóttamanna í neyð og að undirbúningur vegna móttöku þeirra hefjist þegar í stað. Ákvörðunin er í samræmi við tillögu flóttamannanefndar og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Ákvörðunin er tekin í framhaldi af samþykkt ríkisstjórnarinnar 23. maí síðastliðinn þar sem brugðist var við ákalli Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna til aðildarríkja sinna um að koma til aðstoðar og taka á móti flóttafólki frá Sýrlandi sem leitað hefur til nágrannaríkjanna. Flóttamannanefnd var þá falið að leggja fram tillögu um einstaklinga sem tekið skyldi á móti, að höfðu samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Áhersla var lögð á að bjóða hingað flóttafólki sem hefur slasast eða stríðir við veikindi og hefur því brýna þörf fyrir heilbrigðisþjónustu. 

Sýrlenska flóttafólkið, sem boðið verður að koma til Íslands, dvelur nú í Tyrklandi. Um er að ræða fjórar fjölskyldur, þar af sex börn. Ríkisstjórnin hefur falið flóttamannanefnd að undirbúa móttöku fólksins og leitast eftir samstarfi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, auk Rauða krossins á Íslandi sem annast ýmsa þætti sem tengjast móttöku flóttafólks samkvæmt samningi við velferðarráðuneytið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta