Hoppa yfir valmynd
28. maí 2004 Forsætisráðuneytið

A-177/2004 Úrskurður frá 28. maí 2004

ÚRSKURÐUR

Hinn 28. maí 2004 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-177/2004:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 27. febrúar sl., kærði [ …] , til heimilis að [ …] í [ …] , synjun Vestmannaeyjabæjar um að veita honum aðgang að lána-, gjaldmiðla- og vaxtaskiptaamningum, vegna uppgjörs á gjaldeyrisskiptasamningi frá árinu 2001.

Með bréfi, dagsettu 12. maí sl., var kæran kynnt Vestmannaeyjabæ og bænum veittur frestur til að gera við hana athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun til kl. 16.00 hinn 21. maí sl. Jafnframt var þess óskað að nefndinni yrðu látin í té í trúnaði afrit af þeim gögnum, sem kæran lýtur að, innan sama frests. Umsögn Vestmannaeyjabæjar, dagsett 18. maí sl., barst innan tilskilins frests ásamt afriti af gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningi Vestmannaeyjabæjar og [ …] hf., dagsettum 23. janúar 2004, svo og afriti af lánssamningi milli sömu aðila, dagsettum sama dag.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi til bæjarráðs Vestmannaeyja, dagsettu 23. febrúar sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að lána-, gjaldmiðla- og vaxtasamningum, vegna uppgjörs á gjaldeyrisskiptasamningi frá 2001. Beiðni þessi var árituð um synjun af hálfu bæjarins með vísun til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í umsögn Vestmannaeyjabæjar til úrskurðarnefndar, dagsettri 18. maí sl., kemur fram að í umbeðnum gögnum sé að finna ákvæði um viðskiptakjör, þ.m.t. vaxtakjör, sem [ …] hafi ákveðið að veita Vestmannaeyjabæ og óskað hafi verið eftir að trúnaður ríki um. Það sé mat bæjarins að þessi gögn varði í ljósi þess það mikilvæga hagsmuni viðsemjanda hans, [ …] , að rétt sé að takmarka aðgang að þeim á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga, enda gæti aðgangur valdið bankanum tjóni, einkum með hliðsjón af stöðu hans gagnvart öðrum viðsemjendum sínum.

Niðurstaða

Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr." Með hliðsjón af markmiði laganna ber að skýra undantekningar frá þessari meginreglu þröngt, þ. á m. reglurnar í 5. gr. þeirra.


Í 5. gr. upplýsingalaga er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi „aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila ... sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á". Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni."

Vissulega má við því búast að almenn vitneskja um kjör í viðskiptum fyrirtækja við hið opinbera geti skaðað samkeppnisstöðu þeirra og kunni jafnvel að skaða samkeppnisstöðu hins opinbera, hvort sem er ríkis eða sveitarfélaga. Það sjónarmið verður þó að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Í því sambandi er m.a. rétt að líta til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verða hverju sinni að vera undir það búnir að mæta samkeppni frá öðrum aðilum, sbr. meginreglu þá sem fram kemur í 1. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.

Í umsögn sinni til úrskurðarnefndar hefur Vestmannaeyjabær einvörðungu stutt synjun sína um að veita kæranda aðgang að hinum umbeðnu samningnum þeim rökum að slíkt geti skaðað hagsmuni viðsemjanda hans, [ …] hf. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki eru stjórnendur og starfsmenn slíks fyrirtækis, þ. á m. viðskiptabanka, „bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum." Þótt þetta ákvæði sé sérstakt þagnarskylduákvæði í skilningi 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga og geti þar af leiðandi staðið í vegi fyrir almennum aðgangi að upplýsingum á grundvelli laganna, verður að telja að svo sé ekki í því máli, sem hér er til úrlausnar, enda er ákvæðinu ætlað, eins og orðalag þess ber með sér, að vernda hagsmuni viðskiptamanna banka og annarra fjármálafyrirtækja, en ekki hagsmuni fyrirtækjanna sjálfra.

Séu þeir samningar, sem kærandi hefur óskað eftir að fá aðgang að, virtir í heild sinni í ljósi þess, sem að framan segir, er það álit úrskurðarnefndar að kærandi eigi rétt á því að fá aðgang að þeim, að undanskildum ákvæðum um umsamda vexti í þeim viðskiptum sem um er að ræða. Nefndin lítur svo að slíkar upplýsingar séu svo viðkvæmar, með tilliti til samkeppnisstöðu [ …] , að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær skuli fara leynt skv. 5. gr. upplýsingalaga.

Í öðrum samningnum er kveðið á um að efni hans skuli vera trúnaðarmál á milli aðila. Slíkt ákvæði getur ekki, eitt og sér, komið í veg fyrir aðgang kæranda að samningnum á grundvelli upplýsingalaga, eins og skýrt er tekið fram í athugasemdum með 3. gr. frumvarps til þeirra.

Samkvæmt því, sem að framan greinir, ber Vestmannaeyjabæ að veita kæranda aðgang að gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningi milli bæjarins og [ …] , sem dagsettur er 21. janúar sl., svo og að lánssamningi milli sömu aðila sem dagsettur er sama dag. Með vísun til 7. gr. upplýsingalaga er, eins og að framan greinir, óheimilt að veita honum aðgang að ákvæðum um vaxtafót, að því er varðar skuldbindingar beggja samningsaðila samkvæmt gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningnum, og grein 3.1. í lánssamningnum, þar sem fjallað er um upphæð vaxta.

Úrskurðarorð:

Vestmannaeyjabæ er skylt að veita kæranda, [ …] , aðgang að gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningi milli bæjarins og [ …] hf., sem dagsettur er 21. janúar sl., svo og að lánssamningi milli sömu aðila, sem dagsettur er sama dag, að undanskildum ákvæðum um umsamda vexti, eins og nánar greinir hér að framan.

Eiríkur Tómasson, formaður

Elín Hirst

Valtýr Sigurðsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta