Hoppa yfir valmynd
4. ágúst 2004 Forsætisráðuneytið

A-179/2004 Úrskurður frá 4. ágúst 2004

ÚRSKURÐUR

Hinn 4. ágúst 2004 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-179/2004:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 4. maí sl., kærði [ …] , til heimilis að [ …] í [ …] , meðferð sýslumannsins í Vestmannaeyjum á beiðni hans, dagsettri 21. apríl sl., um að veita honum aðgang að upplýsingum um tilboð sem borist hefðu í auglýsingar sýslumanns í bæjarblöðunum.

Með bréfi, dagsettu 12. maí sl., var kæran kynnt sýslumanni og beint til hans tilmælum um að taka ákvörðun um afgreiðslu á beiðni kæranda eins fljótt og við yrði komið og eigi síðar en 21. maí sl. Var þess óskað að ákvörðun sýslumanns yrði birt kæranda og nefndinni eigi síðar en kl. 16.00 þann dag. Færi svo að kæranda yrði synjað um aðgang að þeim gögnum, sem beiðni hans laut að, var þess jafnframt óskað að nefndinni yrðu látin afrit þeirra í té, í trúnaði, innan sama frests. Í því tilviki var sýslumanni ennfremur gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæruna og frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun innan sömu tímamarka.

Umsögn sýslumanns um kæruna, dagsett 18. maí sl., barst innan tilskilins frests. Henni fylgdu afrit af fyrri bréfaskiptum sýslumanns við kæranda vegna sama máls. Þar eð úrskurðarnefnd taldi ekki sýnt að hann hefði í þessum bréfaskiptum við kæranda tekið afstöðu til aðgangs að hinum umbeðnu upplýsingum, beindi úrskurðarnefnd því til sýslumanns með bréfi, dagsettu 5. júlí sl., að gera það sem fyrst og gera jafnframt úrskurðarnefnd og kæranda grein fyrir ákvörðun sinni eigi síðar en 20. júlí sl. Ef sýslumaður væri þeirrar skoðunar að takmarka beri aðgang kæranda að þessum upplýsingum var því jafnframt beint til hans að gera úrskurðarnefnd grein fyrir ástæðum þess og láta henni í té afrit af gögnum málsins. Með bréfi til nefndarinnar, dagsettu 20. júlí sl., fylgdi afrit af erindi sýslumanns til kæranda, dagsettu sama dag, og afrit af tveimur tölvubréfum, dagsettum 13. og 16. febrúar sl., þar sem fram koma tilboð í birtingu auglýsinga frá embætti hans frá tveimur af þeim blöðum sem gefin eru út í Vestmannaeyjum.

Í fjarveru Elínar Hirst tók Ólafur E. Friðriksson, varamaður, sæti hennar við meðferð og úrlausn kærumáls þessa.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi til sýslumannsins í Vestmannaeyjum, dagsettu 21. apríl sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að upplýsingum um þau tilboð eða verðhugmyndir sem sýslumanni hefðu borist í auglýsingar frá embætti hans í bæjarblöðum.

Í umsögn sýslumanns til úrskurðarnefndar, dagsettri 18. maí sl., kemur fram að hann hafi með bréfum, dagsettum 15. og 21. mars sl., svarað tveimur fyrirspurnum frá kæranda, þar sem hann hafi efnislega farið fram á sömu upplýsingar og í bréfi sínu frá 21. apríl sl. Sýslumaður telur því að hann hafi þegar tekið afstöðu til beiðni kæranda og birt honum hana, jafnvel þótt dráttur hafi orðið á að svara síðastgreindu erindi kæranda, en honum var sent afrit af umsögninni til úrskurðarnefndar.

Umsögninni fylgdi afrit af erindi kæranda til sýslumanns, dagsettu 10. mars sl., þar sem farið var fram á að fá aðgang að yfirlýsingu frá honum, sem vitnað hefði verið til í vikublaðinu Vaktinni, um að auglýsingar um nauðungaruppboð myndu framvegis birtast í vikublaðinu Fréttum. Sýslumaður svaraði kæranda með bréfi, dagsettu 15. mars sl., þar sem fram kemur að embætti hans hafi ekki gefið frá sér neina yfirlýsingu varðandi þetta málefni nýverið og geti því ekki orðið við beiðni hans.

Umsögn sýslumanns fylgdi ennfremur afrit af öðru erindi frá kæranda, dagsettu 17. mars sl., um sama mál, svo og af svari sýslumanns, dagsettu 18. mars sl. Þar er tekið fram að sýslumaður láti þar með lokið bréfaskiptum við kæranda um þetta mál.

Eftir að kærandi bar fram kæru sína á hendur sýslumanni 4. maí sl. hafa úrskurðarnefnd borist erindi frá honum, dagsett 21. maí sl. og 16. júní sl., þar sem áréttuð er ósk hans um að fá aðgang að umbeðnum upplýsingum um tilboð eða verðhugmyndir fyrir birtingu auglýsinga frá embætti sýslumanns í bæjarblöðunum í Vestmannaeyjum.

Með bréfi úrskurðarnefndar til sýslumanns, dagsettu 5. júlí sl., var því sem fyrr segir beint til hans að taka afstöðu til beiðni kæranda sem fyrst og gera honum og nefndinni grein fyrir ákvörðun sinni eigi síðar en 20. júlí sl.

Með bréfi sýslumanns til kæranda, dagsettu 20. júlí sl., var beiðni hans synjað á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga. Í bréfi þessu segir orðrétt: „Gögn þau sem óskað var eftir eru tölvupóstur tveggja bæjarblaða í Vestmannaeyjum til undirritaðs og fjalla svörin um það hvaða verð þau eru tilbúin til þess að veita embættinu ef embættið tæki ákvörðun um að skipta við þau vegna nauðungarsöluauglýsinga embættisins. – Uppljóstrun embættisins um þessar verðhugmyndir blaðanna hljóta að varða mikilvæga hagsmuni þeirra, þar sem þau eru að hluta eða jafnvel að öllu leyti rekin fyrir auglýsingatekjur og mikilvægt fyrir fyrirtæki á þessu sviði að verðhugmyndir þeirra til einstakra viðskiptavina séu ekki öllum kunn og gæti slíkt auðveldlega skaðað samkeppnisstöðu þeirra og stöðu gagnvart öðrum viðskiptavinum."

Niðurstaða

Með skírskotun til 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. og 1. mgr. 11. gr. þeirra, verður að líta svo á að synjun sýslumannsins í Vestmannaeyjum um að veita kæranda aðgang að tveimur tölvubréfum, sem hafa að geyma tilboð í birtingu auglýsinga frá embætti hans í tveimur bæjarblöðum í Vestmannaeyjum, hafi verið réttilega kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Í 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4. – 6. gr." Með hliðsjón af markmiði laganna ber að skýra undantekningar frá þessari meginreglu þröngt, þ. á m. ákvæði 5. gr. þeirra.


Í 5. gr. upplýsingalaga er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi „aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila . . . sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á". Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni."

Vissulega má við því búast að almenn vitneskja um tilboð fyrirtækja í þjónustu við hið opinbera á borð við birtingu auglýsinga geti skaðað samkeppnisstöðu fyrirtækjanna og kunni jafnvel að skaða samkeppnisstöðu hins opinbera, hvort sem er ríkis eða sveitarfélaga. Það sjónarmið verður þó að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Í því sambandi er m.a. rétt að líta til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verða hverju sinni að vera undir það búnir að mæta samkeppni frá öðrum aðilum, sbr. meginreglu þá sem fram kemur í 1. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.

Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur einvörðungu stutt synjun sína um að veita kæranda aðgang að hinum umbeðnu upplýsingum þeim rökum að slíkt geti almennt séð skaðað fjárhags- og viðskiptahagsmuni þeirra tveggja bæjarblaða sem í hlut eiga. Með vísun til þess, sem að framan segir, lítur úrskurðarnefnd svo á að þessir hagsmunir séu ekki þess eðlis að þeir réttlæti að umræddum upplýsingum sé haldið leyndum fyrir almenningi á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt því ber sýslumanni að veita kæranda aðgang að áðurgreindum tveimur tölvubréfum sem dagsett eru 13. og 16. febrúar sl.

Úrskurðarorð:

Sýslumanninum í Vestmannaeyjum ber að veita kæranda, [ …] , aðgang að tveimur tölvubréfum, dagsettum 13. og 16. febrúar sl., þar sem fram koma tilboð í birtingu auglýsinga frá embætti hans í tveimur bæjarblöðum í Vestmannaeyjum.

Eiríkur Tómasson, formaður

Ólafur E. Friðriksson

Valtýr Sigurðsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta