Hoppa yfir valmynd
27. september 2004 Forsætisráðuneytið

A-188/2004 Úrskurður frá 27. september 2004

ÚRSKURÐUR


Hinn 27. september 2004 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-188/2004:


Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 3. september sl., kærði […], til heimilis að […], synjun skrifstofustjóra Hæstaréttar Íslands, dagsetta 25. ágúst sl., um að veita honum aðgang að nöfnum meðmælenda frambjóðenda við kjör forseta Íslands sem fram fór 26. júní sl.

Eins og málið er vaxið, þótti ekki ástæða til að leita eftir umsögn Hæstaréttar um kæruna.

Í fjarveru Elínar Hirst tók Ólafur E. Friðriksson varamaður sæti hennar við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.


Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með tölvubréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 24. maí sl. fór kærandi fram á að fá aðgang að lista yfir meðmælendur með forsetaframboði Ástþórs Magnússonar. Ráðuneytið svaraði kæranda samdægurs á þá leið að meðmælendalistar allra frambjóðenda hefðu lögum samkvæmt verið sendir Hæstarétti.

Með tölvubréfi, dagsettu 26. maí sl., beindi kærandi sama erindi til Hæstaréttar. Skrifstofustjóri réttarins svaraði kæranda samdægurs á þann veg að ekki yrði tekin efnisleg afstaða til erindis hans nema réttinum bærist formlegt undirritað erindi, þar sem hann gerði ítarlega grein fyrir því á hvaða lagagrundvelli hann teldi sig eiga rétt á aðgangi að umbeðnum gögnum.

Með bréfi til skrifstofustjóra Hæstaréttar, dagsettu 16. júní sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að undirrituðu samþykki forsetaefna, sem í kjöri væru, listum með nöfnum meðmælenda forsetaefnanna og vottorðum yfirkjörstjórna um að allir meðmælendur væru kosningabærir. Með bréfi skrifstofustjórans, dagsettu 23. júní sl., voru kæranda látin í té afrit af samþykki forsetaefnanna og vottorðum yfirkjörstjórna, en synjað um aðgang að nöfnum meðmælenda þeirra. Með bréfi til skrifstofustjórans, dagsettu 28. júní sl., áréttaði kærandi beiðni sína um aðgang að umbeðnum listum, en fór ella fram á ítarlegan rökstuðning fyrir synjun við þeirri beiðni. Með bréfi skrifstofustjórans, dagsettu 25. ágúst sl., var kæranda gerð grein fyrir því að Hæstiréttur telji að um sé að ræða viðkvæmar upplýsingar um einkamálefni einstaklinga, sem óheimilt sé að veita aðgang að, sbr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Kærandi hefur fært frekari rök fyrir kærunni. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.


Niðurstaða

Í 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Lög þessi taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.“

Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga, er þetta ákvæði m.a. skýrt með eftirgreindum hætti: „Í þessari grein er kveðið á um gildissvið laganna. Gert er ráð fyrir að þau taki til allrar stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga með sama hætti og stjórnsýslulög. Þannig taka lögin til þeirrar starfsemi sem heyrir undir framkvæmdarvaldið samkvæmt þrískiptingu ríkisvaldsins. Utan gildissviðs þeirra fellur hins vegar Alþingi og stofnanir þess, svo sem umboðsmaður Alþingis og ríkisendurskoðun. Sömuleiðis dómstólarnir, þ.e. Hæstiréttur, héraðsdómstólar og sérdómstólar.“

Samkvæmt þessu verður að líta svo á að dómstólar landsins, þ. á m. Hæstiréttur, falli utan gildissviðs upplýsingalaga, án tillits til þess hvort um sé að ræða eiginlega dómsýslu eða önnur störf sem dómstólunum eru falin. Sú ákvörðun Hæstaréttar að synja kæranda um aðgang að hinum umbeðnu gögnum er því ekki reist á upplýsinga-lögum og verður þar af leiðandi ekki kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál skv. 1. mgr. 14. gr. laganna. Ber því að vísa kærunni frá nefndinni.


Úrskurðarorð:

Kæru […] á hendur Hæstarétti Íslands er vísað frá úrskurðarnefnd.


Eiríkur Tómasson formaður
Ólafur E. Friðriksson
Valtýr Sigurðsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta