Hoppa yfir valmynd
16. desember 2004 Forsætisráðuneytið

A-193/2004 Úrskurður frá 16. desember 2004

ÚRSKURÐUR


Hinn 16. desember 2004 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-193/2004:


Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 22. október sl., kærði […] hrl. synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsetta 12. s.m., um að veita honum aðgang að bréfi sem því hefði borist frá [A] í tengslum við umsókn hans um embætti hæstaréttardómara.

Með bréfi, dagsettu 18. nóvember sl., var kæran kynnt dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og því veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 29. nóvember sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrði í trúnaði látin í té afrit af bréfi því, er kæran lýtur að, innan sama frests. Umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsett 25. nóvember sl., barst innan tilskilins frests ásamt afriti af bréfi [A], dagsettu 24. september sl., til Geirs H. Haarde fjármálaráðherra, sem settur hafði verið til að veita nefnt dómaraembætti.

Formaður úrskurðarnefndar um upplýsingamál, Eiríkur Tómasson, vék sæti í máli þessu og varaformaður nefndarinnar, Valtýr Sigurðsson, var fjarstaddur við afgreiðslu þess. Í þeirra stað var varamaður formanns, Steinunn Guðbjartsdóttir, sett til að stýra meðferð máls þessa og uppkvaðningu úrskurðar í því. Jafnframt tók varamaður varaformanns, Arnfríður Einarsdóttir, sæti hans við meðferð og úrskurð í málinu.


Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að kærandi fór með bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettu 5. október sl., fram á að fá aðgang að bréfi, sem [A] hefði sem umsækjandi um embætti hæstaréttardómara sent veitingarvaldinu eftir að umsóknarfrestur rann út og gögn málsins send ráðherra þeim, sem settur hafði verið til að fara með málið og taka ákvörðun í því.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið svaraði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 12. október sl., og synjaði henni með vísan til 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í kæru til nefndarinnar er því haldið fram að umrætt bréf falli ekki undir 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga þar eð aðrir umsækjendur hafi ekki sent ráðuneytinu sambærileg gögn eða gefinn kostur á því.

Í umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til úrskurðarnefndar, dagsettu 25. nóvember sl., kemur fram að umbeðið bréf hafi haft að geyma viðbrögð eins umsækjanda um embætti hæstaréttardómara við umsögn réttarins um umsækjendur, sem ráðuneytið hafði sent þeim öllum. Að mati ráðuneytisins sé því hafið yfir allan vafa að bréfið teljist til þeirra gagna, sem undanþegin eru aðgangi á grundvelli 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.


Niðurstaða

Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til umsókn um störf hjá ríki eða sveitarfélögum og allra gagna sem þær varða. Í athugasemdum við frumvarp það, er varð að upplýsingalögum, er ákvæði þetta skýrt á þann hátt, að með því sé tekið af skarið um að öll gögn máls, sem snerta skipun, setningu eða ráðningu í opinber störf, séu undanþegin aðgangi almennings. Umsóknir, einkunnir, meðmæli, umsagnir um umsækjendur og öll önnur gögn í slíkum málum séu því undanþegin aðgangi almennings. Frá þessari reglu er lögfest eitt frávik, sem felst í því, að skylt er að veita upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn. Eru þá tæmandi talin þau frávik sem heimiluð eru frá þessari undanþágu.

Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér bréf það, sem er andlag kærumáls þessa, og staðreynt að efni þess ber með sér að vera ritað í tilefni af umsögn hæstaréttar um umsækjendur um embætti dómara við réttinn. Að þessu athuguðu er ljóst að bréfið telst til þeirra gagna sem 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga tekur til og ber því að staðfesta ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að synja um aðgang að því.


Úrskurðarorð:

Staðfest er sú ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að synja kæranda, [A] hrl., um aðgang að bréfi [A], dagsettu 24. september 2004, til Geirs H. Haarde fjármálaráðherra, sem settur var til að fara með og taka ákvörðun um veitingu þess embættis hæstaréttardómara, sem [A] hafði sótt um.


Steinunn Guðbjartsdóttir formaður
Arnfríður Einarsdóttir
Elín Hirst



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta