Hoppa yfir valmynd
14. desember 2020 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Verkefni Efnagreininga flytjast til Hafrannsóknastofnunar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar, og nýsköpunarráðherra hefur undirritað samkomulag við Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna, um að flytja verkefni og tækjabúnað Efnagreininga Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands til stofnunarinnar. Starfsmönnum Efnagreininga voru boðin störf hjá Hafrannsóknastofnun og áætlað er að formlegri sameiningu verði lokið um áramót.

 

„Við gerum þessar breytingar að undangengnu mati á samlegðaráhrifum þess að Hafrannsóknastofnun taki við starfsemi Efnagreininga. Með þessu viljum við ná fram aukinni samþættingu og samvinnu hvað varðar söfnun sýna, nýtingu tækja og aðstöðu, innleiðingu gæðastjórnunarferla, auk rekstrarlegs ávinnings. Þetta er góð niðurstaða sem mun styrkja rannsóknir og prófanir á sviði efnamælinga umtalsvert, ekki síst mælinga á sviði umhverfisvöktunar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar, og nýsköpunarráðherra. 

 

Með sameiningunni mun Hafrannsóknastofnun taka við framkvæmd þeirra þjónustumælinga sem Efnagreiningar bjóða upp á í dag, taka við tækjabúnaði Efnagreininga og vinna að því að þær mælingar og prófanir sem færast til stofnunarinnar verði aðlagaðar að alþjóðlegum gæðastöðlum og ferlum. 

 

„Við á Hafrannsóknastofnun fögnum því að fá góðan liðsauka frá Efnagreiningum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Sú starfsemi fer vel saman með okkar og styrkir okkur mjög á sviði efnagreininga en Hafrannsóknastofnun stundar mælingar á ýmsum efnum í sjó og í ferskvatni. Þannig fæst ákveðin samlegð og býr einnig til nýja möguleika á frekari verkefnum. Við hlökkum til að fá að taka á móti því góða fólki sem nú starfar í Efnagreiningum og að fá að starfa með því,” segir Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
15. Líf á landi
14. Líf í vatni
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta