Hoppa yfir valmynd
5. september 2019 Dómsmálaráðuneytið

FATF birtir eftirfylgnisskýrslu um Ísland

Financial Action Task Force (FATF), alþjóðlegur vinnuhópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, hefur birt eftirfylgnisskýrslu um Ísland.

Í apríl 2018 birti FATF skýrslu um úttekt sína á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Leiddi úttektin í ljós talsverða veikleika á íslenskri löggjöf og framkvæmd á þessu sviði. Síðan þá hefur verið unnið hörðum höndum að úrbótum.

Lúta þær aðgerðir annars vegar að laga og regluverki og  hins vegar að framkvæmd og eftirfylgni regluverksins.

Skýrsla FATF nú lýtur að laga og regluverki og er niðurstaða hennar sú að af þeim 40 tilmælum, sem FATF gerir kröfu um að löggjöf ríkja þurfi að uppfylla, hafi Ísland uppfyllt 28 að öllu eða mestu leyti og 11 að hluta. Ein tilmæli, sem lúta að starfsemi almannaheillafélaga teljast enn óuppfyllt, en stefnt er að því að uppfylla þau að fullu á komandi vetri.

Stýrihópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hefur verið starfandi frá árinu 2015, en hlutverk hans var endurskilgreint í upphafi 2018 og fulltrúum í honum fjölgað. Stjórnvöld hafa að undanförnu lagt mikla áherslu á að hraða sem kostur er úrbótum á þessu sviði til að bregðast við tilmælum FATF.

Hér má finna nánari upplýsingar um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Um FATF:
FATF er alþjóðlegur vinnuhópur sem var stofnaður að frumkvæði G7-ríkjanna í París árið 1989. Tilgangurinn með stofnun hópsins var að samræma aðgerðir gegn peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og öðrum tengdum ógnum við alþjóðlegt fjármálakerfi. Ísland gekk til samstarfs við FATF í september 1991 og með inngöngu skuldbatt Ísland sig til að samræma löggjöf, starfsreglur og verklag að tilmælum FATF. Alþjóðleg samvinna á þessu sviði er mikil og talin mikilvæg í ljósi alþjóðlegs samspils fjármálakerfa.

Hér má nálgast skýrslu FATF 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta