Stoðir Hugarafls verði styrktar með samningi
Stefnt er að gerð langtímasamnings um aukin framlög til Hugarafls til að styrkja starf samtakanna í þágu fólks með geðraskanir. Þetta var niðurstaða fundar sem félags- og jafnréttismálaráðherra og forsvarsmenn Hugarafls áttu í morgun.
Fundinn sátu af hálfu Hugarafls stjórnarmennirnir Auður Axelsdóttir, Sigurborg Sveinsdóttir og Árni Steingrímsson auk Halldórs Más Sæmundssonar aðstandanda. Af hálfu ráðuneytisins sátu, auk félags- og jafnréttismálaráðherra, aðstoðarmenn hans og aðstoðarmenn heilbrigðisráðherra.
Á fundinum var farið yfir þá vinnu sem farið hefur fram í ráðuneytinu að undanförnu, sameiginlega af hálfu heilbrigðis- og félagshluta þess, til að greina stöðu Hugarafls og finna leiðir til að styðja við félagið þannig að það nýtist sem best fólki með geðræn vandamál.
Ráðherra lýsti vilja sínum til að efla starf Hugarafls, einkum virkni og endurhæfingarúrræði samtakanna sem hafa reynst vel fjölda fólks sem glímt hefur við geðraskanir af ýmsum toga: „Hugarafl hefur unnið mikilvægt brautryðjandastarf og um árangurinn af starfi samtakanna verður ekki deilt. Það er mikilvægt að starfsemin nái að þróast áfram og eflast og það erum við sammála um að takist best með vönduðum langtímasamningi um starfsemina þar sem fjallað er um markmið og árangursmælingar“ sagði Þorsteinn Víglundsson meðal annars á fundinum.
Auður Axelsdóttir sagðist á fundinum ánægð með þá stefnu sem málefni Hugarafls hafi tekið. Gerð langtímasamning sé æskileg niðurstaða og hún treysti því einnig að farsæl lausn náist fljótt sem tryggi starfsemi samtakanna á næstu mánuðum: „Við finnum að það er fullur skilningur á því hvað starfsemi Hugarafls er mikilvæg í íslensku samfélagi og erum afar ánægð með þá viðurkenningu“ sagði Auður meðal annars. Undir þetta tóku aðrir fulltrúa Hugarafls á fundinum og sögðust hafa miklar væntingar til þeirrar vinnu sem framundan er við gerð langtímasamnings og binda vonir við að niðurstaða náist fljótt til að eyða óvissu.
Hugarafl hefur frá árinu 2011 notið styrkja frá velferðarráðuneytinu sem nema samtals 18,6 milljónum króna, að mestu frá heilbrigðishluta ráðuneytisins. Samtökin fengu einnig 5 milljóna króna styrk frá fjárlaganefnd Alþingis árið 2016. Auk þessa er í gildi samningur milli Hugarafls og Vinnumálastofnunar sem kveður á um þjónustukaup stofnunarinnar af Hugarafli fyrir 10 milljónir króna árlega.