Hoppa yfir valmynd
9. september 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Góð staða Íslands þrátt fyrir alþjóðlegan ólgusjó

Flest stærstu hagkerfi heims standa frammi fyrir verulegum áskorunum, með lakari hagvaxtarhorfum en nokkru sinni frá fjármálakreppunni 2008, að undanskildum heimsfaraldrinum 2020-2021. Þrátt fyrir þessa stöðu má vænta þess að íslenska hagkerfið standi áfram vel að vígi með kröftugum 5-6% hagvexti á þessu ári og 2-3% á því næsta. Þetta kemur fram í samantekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í ríkisstjórn í dag.

 

Helstu alþjóðlegu áskoranir fram undan:

  • Orkukrísa í Evrópu. Orkukostnaður sligar nú evrusvæðið og Bretland. Verði ekkert að gert mun hækkun orkukostnaðar nema jafnvel tugum prósenta af ráðstöfunartekjum fyrir þau heimili sem eru útsettust. Svo gæti farið að ýmis iðnaðarstarfsemi leggist af á meðan orkuverð helst í hæstu hæðum, en þegar er byrjað að loka álverum í Evrópu. Þrátt fyrir tilraunir stjórnvalda til að milda áhrifin gæti landsframleiðsla dregist saman í stærstu hagkerfum Evrópu í vetur, þótt að svo stöddu sé hvorki búist við því að niðursveiflan verði djúp né langvarandi. Þegar við bætist að vextir hækka vegna hárrar verðbólgu er þó óttast að efnahagsbatinn gæti reynst brokkgengur.

  • Vaxtahækkanir í Bandaríkjunum. Meiri þróttur er í bandaríska hagkerfinu en því evrópska og það er ekki jafn útsett fyrir orkuverðshækkunum. Engu að síður er útlit fyrir að verulega hægi á hagvexti og jafnvel möguleiki á samdrætti vegna vaxtahækkana sem eru nauðsynlegt viðbragð við mikilli hækkun verðbólgu. Hlutabréfaverð vestanhafs hefur lækkað um 20% frá upphafi árs sem endurspeglar hækkun vaxta og verri hagvaxtarhorfur í Bandaríkjunum og alþjóðlega.

  • Fjölþættur vandi í Kína. Talið er að hagvöxtur í Kína verði aðeins 3% í ár, helmingi minni en á árunum fyrir heimsfaraldurinn. Enginn endir er í sjónmáli á víðtækum sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda sem draga mjög úr eftirspurn heimila. Mikið ójafnvægi er á fasteignamarkaði; fasteignaverð hefur lækkað undanfarið ár, mikið húsnæði liggur ónotað og skuldavandi hrjáir ýmsar fjármálastofnanir. Ólíkt öðrum seðlabönkum lækkaði kínverski seðlabankinn stýrivexti á dögunum til þess að örva hagkerfið en það virðist ekki enn hafa borið tilskilinn árangur.

  • Fjölmörg þróunar- og nýmarkaðsríki eru í vanda vegna sviptinga í hrávöruverðum, styrkingar dollara og hækkandi vaxtastigs samhliða mikilli fjármögnunarþörf í erlendri mynt. Mest hefur farið fyrir Sri Lanka þar sem ríkissjóður er nú í greiðsluþroti og lífskjör fara hríðversnandi. Fleiri lönd virðast vera á sömu vegferð.

  • Langtímaáskoranir vegna minni framleiðnivaxtar, öldrunar og loftslagsbreytinga. Þróunin undanfarna mánuði leiðir það í ljós hvernig þessir langtímaþættir ýkja áhrif hinna ýmsu tímabundnu áskorana. Augljóst dæmi eru miklir þurrkar í Evrópu og Kína sem hafa enn ýtt undir hækkun raforkuverðs og torveldað flutninga um skipaskurði. Við aðstæður lítils framleiðnivaxtar þarf minna til þess að velta hagkerfum úr vexti í samdrátt. Að sama skapi gerir lítill vöxtur framleiðni og öldrun þjóða sjálfbærni opinberra skulda erfiðari en annars.

Tekið tillit til alþjóðlegra áskorana í spám um hagvöxt

Í nýjustu innlendu hagspám – sem gera ráð fyrir kröftugum 5-6% hagvexti í ár og 2-3% vexti á því næsta – er að miklu leyti tekið tillit til þeirra alþjóðlegu áskorana sem hér hafa verið nefndar. Þær áskoranir hafa þó breyst og að sumu leyti ágerst frá því spárnar voru gerðar. Þó er ekki að vænta annars en að íslenska hagkerfið standi vel gagnvart vendingum næstu missera, að því gefnu að þau sem stýra stærstu hagkerfum heims missi ekki að fullu stjórn á framvindu mála.

Minni áhrif þar sem Ísland notar lítið af jarðgasi

Hingað til hefur hækkun hrávöruverðs og alþjóðleg verðbólga haft mest áhrif á Ísland af þeim atriðum sem vísað er til hér að framan. Vegna þess að jarðgas er ekki notað í neinum verulegum mæli á Íslandi verður Ísland þó fyrir mun minni áhrifum en önnur Evrópulönd en þar er það ekki síst margföldun á verði jarðgass sem sligar hagkerfin. Hækkun hrávöruverðs hefur raunar haft jákvæð áhrif á íslenska hagkerfið í heild þar sem verðhækkun útfluttra sjávarafurða og áls hefur vegið þyngra en innfluttrar vöru.

Áhrifin á íslensk heimili eru meiri. Þau hafa hingað til einkum fundið fyrir 30% hækkun bensínverðs sem hefur alls aukið verðbólgu um 1 prósentustig. Áhrif álverðshækkana á þjóðarbúið eru einkum í gegnum betri afkomu orkufyrirtækja, þ.m.t. Landsvirkjunar sem hagnaðist um 19 ma. kr. á fyrri helmingi ársins, þrefalt meira en á sama tíma í fyrra. Hluti af hækkun bæði olíuverðs og álverðs hefur gengið til baka undanfarnar vikur vegna minni heimseftirspurnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta