Af aðalfundi ICEPRO 25. febrúar 2016
Aðalfundur ICEPRO var haldinn í Snæfelli á 2. hæð Hótel Sögu, fimmtudaginn 25. febrúar 2016.
Dagskráin var á þessa leið:
- Iðnaðar- og viðskiptaráðherra flytur ávarp.
- Ráðherra afhendir EDI-bikarinn.
- Fulltrúi Reykjavíkurborgar fjallar um rafræn innkaup borgarinnar.
- Fulltrúi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins fjallar um traust í rafrænum viðskiptum.
- Hefðbundin aðalfundarstörf.
Smávegis hálka úti fyrir hafði engin áhrif á fundarsókn, en aðsóknarmet var slegið að þessu sinni. Alls mættu 38 manns, sem er hið mesta á aðalfund ICEPRO til þessa Fundamenn voru frá 20 fyrirtækjum, sveitarfélögum og stofnunum:
Admon, Advania, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Fjársýslan, Hugsjá, ICEPRO, InExchange, Landspítali, Midran, Reiknistofa Bankanna, Reykjavíkurborg, Ríkiskaup, Sendill, Sláturfélag Suðurlands, Staðlaráð Íslands, Staki, Talenta, Veritas, Wise, Þjóðskrá.
Klukkan 12:05 var borinn inn ljúffengur laxaréttur, þjóðlegur og bragðgóður. Um hálftíma síðar sté formaður ICEPRO, Hjörtur Þorgilsson, í pontu, bauð menn velkomna og bauð svo ráðherra að ávarpa fundinn.
Ragnheiður Elín Árnadóttir fagnaði nýslegnu aðsóknarmeti, fannst kominn tími til, enda rafræn viðskipti mikilvægur málaflokkur. Henni fannst stutt síðan hún var hérna seinast, en "tíminn líður hratt á gervihnattaöld".
Ráðherra sagði ótrúlega mikla hluti gerast í rafrænum viðskiptum þessa dagana. Á hverjum degi sjáum við lausnir frá rannsóknum, þróun, hugviti og nýsköpun. Hún nefndi einkageirann, þar sem mikilvæg skref hafi verið stigin á undanförnum mánuðum, misserum og árum.
Frumvarp um innleiðingu rafrænna þinglýsinga verður lagt fram í haust, sagði ráðherra. Einnig má búast við rafrænum íbúakosningum, en varaði við að of flókið fyrirkomulag gæti leitt til dræmrar kjörsóknar.
Ráðherra sagði "mikilvægt að það hefur orðið mikil aukning í skeytamiðlun, þar sem fjöldi skeytamiðlara tengja viðskiptaaðila saman á samræmdan hátt. Í innleiðingu rafrænna reikninga á Íslandi hafa þrír aðilar haslað sér völl." Hún sagði miðlun reikninga hafa aukist og að "ICEPRO birti á síðasta ári upplýsingar frá tveim þessara aðila, sem sýndu að fjöldi reikninga hefði átjánfaldast á árunum 2011 til 2015".
Þá var komið að afhendingu EDI bikarsins, en það urðu einmitt skeytamiðlararnir þrír, sem hlutu hann sameiginlega. Þeir eru Advania, InExchange og Sendill. Ágúst Valgeirsson, Guðmundur Ármann Guðmundsson og Markús Guðmundsson tóku við viðurkenningarskjölum úr hendi ráðherra. Einn þeirra greip svo bikarinn góða, sem verður varðveittur hjá skeytamiðlurunum þrem eftir samkomulagi.
Jóhanna Eirný Hlimarsdóttir tók næst til máls. Hún minnti á að borgin fékk EDI bikarinn árið 2012 fyrir þátttöku í rafrænum reikningum.
(Þá sagði Steingrímur Efnahags- og viðskiptaráðherra að borgin hefði verið í fremstu röð á liðnum árum og náð miklum árangri í þjónustu við íbúa. Borgin hefði tekið “græn skref” í rafrænum viðskiptum, sem hefðu leitt til lækkunar kostnaðar og minni notkunar á pappír. - Innskot fundarritara)
Jóhanna fjallaði um ráðgjöf, rammasamninga og eftirlit og sagði að eftirlit og ráðgjjöf styðji hvort annað. Borgin gerir nú tilraun með útboðsvef, en fyrsta útboð fer fram í næstu viku.
Ástæðan væri tilskipun ESB frá 2014 um skyldu opinberra aðila í Evrópu til notkunar útboðskerfis við opinber innkaup. Það ætti að vera gangsett í síðasta lagi árið 2016 og er frumvarp í smíðum í þá veru. Borgin valdi kerfið "EU supply", sem er notað af 6 þúsund aðilum í Evrópu fyrir 50 þúsund útboð á ári. Kerfið uppfyllir kröfur ESB um t.d. "PEPPOL online validation for digital signatures" og CEN/BII staðal og fleira.
Sjá skyggnur Jóhönnu .
Ólafur Egill Jónsson fjallaði um traust í rafrænum viðskiptum út frá lagalegu sjónarmiði. Hann varpaði fram spurningunni um hvort fullgild rafræn undirskrift jafngildi venjulegum undirskriftum í öllum tilvikum. Ólafur sagði meginregluna vera þá að fullgild rafræn undirskrift sé jafngild nema löggjöf hindri það sérstaklega. Þessa túlkun leiddi Ólafur af 4. gr. laga um rafrænar undirskriftir nr. 28/2001 og greinargerð með lögunum. Þá tók Ólafur dæmi um fasteignakaup þar sem lagaástandið hvað þetta varðar er óskýrt vegna samspils laga um fasteignakaup, laga um rafrænar undirskriftir og laga um rafræn viðskipti og rafæna þjónustu.
Ólafur sagðist ekki vita um nein fordæmi þess í dómaframkvæmd að tekist sé á um heimild aðila til að nota fullgilda rafræna undirskrift. Varðandi aðrar rafrænar undirskriftir er ástandið óskýrt en gert er ráð fyrir að hægt sé að nota aðrar rafrænar undirskriftir en fullgildar rafrænar undirskriftir í lögum um rafrænar undirskriftir nr. 28/2001 en þeim er ekki veit sérstakt vægi í lögunum og því fer það eftir því hvort sérstaklega sé mælt fyrir um slíka undirskrift.
Löggjafinn undirbýr nú rafrænar þinglýsingar, en Ólafur er í lagahópi, sem óskaði eftir umsögn um þinglýsingarfrumvarp, sem er í smíðum. Hann er jafnframt formaður nefndar sem vinnur að innleiðingu reglugerðarinnar. Ólafur gaf ítarlegar skýringar með tilvísun í lög og reglugerðir, sem má finna á skyggnum hans.
Hefðbundin aðalfundarstörf voru næst á dagskrá
Hjörtur gaf yfirlit yfir skýrslu framkvæmdastjórnar frá 2015 og kynnti lítillega nýtt verkefni, sem nefnist "Landsumgjörð um samvirkni". Arnaldur Axfjörð, gjaldkeri félagsins útskýrði reikninga félagsins fyrir liðið ár. Ársskýrsla og reikningur 2015 voru samþykkt samhljóða. Þá var einnig samþykkt að árgjald skyldi vera óbreytt nú, en það hækkaði í fyrra.
Stjórnarkjör fór þannig að Hjörtur Þorgilsson var kjörinn formaður til eins árs, aðalmenn voru kjörnir Friðbjörn Hólm Ólafsson og Rebekka Helga Aðalsteinsdóttir til tveggja ára og varamaður til tveggja ára var kjörin Sigrún Gunnarsdóttir.
Þá fékk stjórn heimild til að velja endurskoðendur eða skoðunarmenn, með tilliti til aukinna umsvifa félagsins. Engin önnur mál voru á dagskrá og fundi slitið um kl. 14:15.