Hoppa yfir valmynd
12. desember 2006 Innviðaráðuneytið

Rannsóknarnefnd umferðarlysa efld

Rannsóknarnefnd umferðarslysa verður á næsta ári gert mögulegt að leggja aukna áherslu á rannsóknir alvarlegra slysa en til þessa hefur nefndin svo til eingöngu getað sinnt rannsóknum banaslysa. Hefur nýr starfsmaður, Sævar Helgi Lárusson, verkfræðingur og löggiltur bifreiðaskoðunarmaður, verið ráðinn til nefndarinnar og hefur hann hefur störf strax eftir áramót.

Sævar Helgi hefur auk þess sveinspróf í bifvélavirkjun. MS ritgerð hans frá bílaverkfræðiskor Chalmers tækniháskólanum í Gautaborg fjallaði um samverkan ökutækja í alvarlegum árekstrum á Íslandi. Sævar Helgi starfaði áður sem bifreiðaskoðunarmaður hjá Frumherja, stundakennari í stærðfræði við Háskólann í Reykjavík og á þessu ári hefur hann starfað sem sérfræðingur í tæknimálum ökutækja hjá Umferðarstofu.

Ágúst Mogensen, forstöðumaður Rannsóknarnefndar umferðarslysa, hefur til þessa einn sinnt rannsóknum á vettvangi og tekið saman skýrslur nefndarinnar í samstarfi við nefndarmenn. Hefur hann því verið á sífelldri bakvakt síðustu 7 árin. Í Rannsóknarnefnd umferðarslysa sitja Ásdís J. Rafnar, hæstaréttarlögmaður, sem er formaður, Jón Baldursson læknir og Inga Hersteinsdóttir verkfræðingur.

Hlutverk Rannsóknarnefndar umferðarslysa er að leiða í ljós orsakir umferðarslysa til að koma í veg fyrir að sams konar slys verði aftur og draga úr afleiðingum sambærilegra slysa. Rannsóknir umferðaslysa skulu samkvæmt lögum um nefndina ná til allra einstakra slysa og flokka slysa.

Eins og fyrr segir hefur Rannsóknarnefnd umferðarslysa einkum sinnt rannsóknum á alvarlegum slysum. Einnig hefur nefndin gefið út skýrslur um ýmis svið slysarannsókna ýmist ein eða í samstarfi við aðra.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur beitt sér fyrir því að nefndin fengi viðbótarfjármagn og verður unnt að bæta við starfsmanni á næsta ári. Er stefnt að því að rannsóknarnefndin geti þá tekið fleiri alvarleg slys og flokka umferðarslysa til rannsóknar og aukið enn útgáfu á efni um slysarannsóknir í forvarnaskyni.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta