Hoppa yfir valmynd
4. júlí 2007 Utanríkisráðuneytið

Nýr verkefnisstjóri vegna framboðs Íslands til öryggisráðs S.þ.

Kristín A. Árnadóttir
Kristín A. Árnadóttir

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 77/2007

Utanríkisráðuneytið hefur ráðið Kristínu A. Árnadóttur til að stýra framboði Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna en kosningar fara fram á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna haustið 2008. Kristín hefur stýrt skrifstofu borgarstjórans í Reykjavík undanfarin ár en borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, hefur veitt henni leyfi frá störfum á meðan hún sinnir verkefninu fyrir utanríkisráðuneytið.

Ísland hefur lýst yfir framboði til sætis í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrir árin 2009-2010 en Öryggisráðið ber aðal ábyrgð á varðveislu heimsfriðar og öryggis á grundvelli sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í öryggisráðinu sitja 15 þjóðir hverju sinni frá öllum heimsálfum en Ísland er eitt fárra Evrópuríkja sem aldrei hefur átt þar sæti. Framboð Íslands nýtur eindregins stuðnings hinna Norðurlandanna.

Kristín A. Árnadóttir er með meistarapróf í opinberri stjórnsýslu og stjórnun frá Syracuse University í Bandaríkjunum. Hún hóf störf hjá Reykjavíkurborg 1994 sem aðstoðarmaður borgarstjóra, var sviðsstjóri Þróunar- og fjölskyldusviðs frá 2001- 2005 og skrifstofustjóri borgarstjóra frá þeim tíma. Hún hefur verið í forystu fyrir alþjóðasamskipti borgarstjóra, er í stjórn Evrópusamtaka borga gegn fíkniefnum og stýrir nú opinberri heimsókn borgarstjóra til Moskvu.

Á síðasta ári starfaði Kristín hjá Þúsaldarverkefni Sameinuðu þjóðanna í New York þar sem hún lagði áherslu á þátttöku borga í þróunarsamvinnu og hvernig unnt sé að einfalda aðgengi Afríkuþjóða að reynslu og sérfræðiþekkingu sem hefur orðið til á Vesturlöndum, meðal annars á sviði endurnýjanlegra orkugjafa.

Kristín hefur störf fyrir utanríkisráðuneytið um miðjan júlí.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta