Verulegar hækkanir hámarksábyrgða hjá Ábyrgðarsjóði launa
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur sett reglugerð sem kveður á um 64% hækkun hámarksgreiðslu vegna kröfu launamanns um um vinnulaun og bætur vegna launamissis og vangreidds orlofs. Hækkunin er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í þágu félagsleg stöðugleika í tengslum við mat á kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.
„Þessi hækkun felur í sér mikla bót fyrir launafólk komi til gjaldþrots atvinnurekanda. Það er fólki jafnan mikið áfall að missa vinnuna, hvað þá ef afkoma þess er í uppnámi, nánast á fyrsta degi eftir atvinnumissinn. Þessi aðgerð og sömuleiðis tæplega 19% hækkun atvinnuleysisbóta sem tók gildi 1. maí síðastliðinn hefur mikla þýðingu fyrir fólk sem lendir í erfiðri stöðu á vinnumarkaði og missir vinnuna af einhverjum ástæðum“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.
Ábyrgðasjóður launa ábyrgist greiðslu á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrisiðgjöld sem gerðar eru í bú vinnuveitenda sem orðið hafa gjaldþrota. Hámarksábyrgð er á kröfum launamanna um vinnulaun og bætur vegna launamissis í allt að þrjá mánuði og einnig á greiðslum vegna vangreidds orlofs.
Með reglugerðinni hækka hámarksgreiðslur vegna kröfu launamanna um vinnulaun og bætur vegna launamissis í allt að þrjá mánuði úr Ábyrgðasjóði launa úr 385 þúsund krónum í 633 þúsund krónur á mánuði. Hámarksábyrgð sjóðsins vegna tryggingar á greiðslu orlofs hækkar úr 617 þúsund krónum í 1.014 þúsund krónur.
Hækkuninn tekur gildi 1. júlí næstkomandi.