Heimsókn Philippe Busquin, yfirmanns vísinda- og tæknimála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins
Philippe Busquin, vísindastjóri Evrópusambandsins og yfirmaður vísinda- og tæknimála í framkvæmdastjórn sambandsins verður staddur hér á landi dagana 12.-15. ágúst í boði menntamálaráðherra. Í för með honum verða starfsmenn framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og blaðamenn frá evrópskum blöðum. Tilgangur heimsóknarinnar er að kynnast rannsóknum sem íslenskir vísindamenn leggja stund á, en þeir hafa getið sér góðan orðstír með þátttöku í rammaáætlunum Evrópusambandsins um rannsóknir og tækniþróun á undanförnum árum.
Busquin mun eiga fund með menntamálaráðherra þar sem m.a. verður rætt um strauma og stefnur í vísinda- og tæknisamvinnu Evrópusambandsins, en Íslendingar taka ríkan þátt í þessu samstarfi á grundvelli samningsins um Evrópska Efnahagssvæðið. Meginumræðuefni fundar þeirra verður um stöðu Íslands í hagkerfi sem byggt er á þekkingu og rannsóknum og þátttöku Íslands í rannsóknaáætlunum Evrópusambandsins. Þá mun Busquin hitta iðnaðarráðherra í heimsókninni.
Dagskrá heimsóknar Busquins verður fjölþætt og tengjast heimsóknir hans á vísindastofnanir og í fyrirtæki verkefnum sem íslenskir vísindamenn taka þátt í eða stjórna, svo og viðfangsefnum sem talin eru mikilvægur þáttur í að byggja hátækni- og þekkingarþjóðfélag á Íslandi. Efnt verður til sérstakra kynninga í erfða- og heilbrigðisrannsóknum, á rannsóknum í matvælaframleiðslu, sjálfbærri orkuvinnslu - vinnslu jarðvarma og nýtingu vetnis sem orkubera, rannsóknum á áhrifum veðurfarsbreytinga á umhverfi hafsins og fiskveiðistjórnun, Þá verður sérstaklega kynnt vetnisstöð Skeljungs í Ártúnsholti, en stöðin er liður í einu stærsta verkefni ESB sem Íslendingar taka þátt í og stýrt er af Íslenskri NýOrku ehf. Busquin mun m.a. heimsækja Íslenska erfðagreiningu, Marel, Bláa Lónið, Svartsengi, rannsóknastöð Hafrannsóknastofnunarinnar á Stað við Grindavík og Rannsóknastöðina í Sandgerði.
Efnt verður til blaðamannafundar að loknum fundi ráðherranna sem haldinn verður í Þjóðmenningarhúsinu fimmtudaginn 14. ágúst. Blaðamannafundurinn hefst kl. 10:45.