Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2020 Innviðaráðuneytið

Lágmarks flugsamgöngur tryggðar með samningi við Icelandair

Frá Keflavíkurflugvelli. - myndÞórmundur Jónatansson

Stjórnvöld hafa samið við Icelandair um flug til Evrópu og Bandaríkjanna en tilgangurinn er að tryggja lágmarks flugsamgöngur til og frá landinu vegna Covid-19 faraldursins. Um er að ræða flug til Boston annars vegar og London eða Stokkhólms hins vegar. Þar eru stórir flugvellir með tengingar um heim allan. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, undirritaði samninginn fyrir hönd ríkisins með rafrænum hætti.

Millilandaflug gegnir afar mikilvægu öryggishlutverki fyrir íslenska þjóð og þessar flugtengingar eru meðal annars nauðsynlegar til að tryggja að íslenskir ríkisborgarar, sem staddir eru erlendis, geti fundið sér leið heim.

Samningurinn tók gildi föstudaginn 27. mars og gildir til og með 15. apríl nk. Ríkið mun greiða að hámarki 100 milljónir kr. vegna samningsins en mögulegar tekjur Icelandair af flugunum munu lækka greiðslur. Samningur þessi byggir á heimild í lögum um opinber innkaup til samningskaupa án útboðs vegna neyðarástands af ófyrirsjáanlegum atburðum. Við slíkar aðstæður væri ekki unnt að standa við fresti í útboðum.

Þegar er hafinn undirbúningur að því að skoða þörf fyrir að tryggja flugsamgöngur eftir 15. apríl.

  • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, undirritaði samninginn við Icelandair með rafrænum hætti í fyrsta skipti í sögu ráðuneytisins. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta