Hoppa yfir valmynd
3. október 2012 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ræðir Jarðhitaskóla SÞ og samkomulag um jarðhitanýtingu í Austur-Afríku

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ávarpaði í gær haustfund Jarðhitafélags Íslands þar sem hann  ræddi starfsemi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og sagði frá tímamóta samkomulagi sem gert hefur verið milli utanríkisráðuneytisins og Alþjóðabankans um að flýta jarðhitanýtingu í Austur Afríku. Ráðherra upplýsti fyrst um þetta samkomulag í ræðu sinni á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um síðustu helgi.  

Samkvæmt samkomulaginu mun Ísland veita ríkjum sem liggja í Austur-Afríku sigdalnum aðstoð við að gera nauðsynlegar jarðvegs grunnrannsóknir og hagkvæmniathuganir á nýtingu jarðhitasvæða en um framkvæmdina mun Þróunarsamvinnustofnun Íslands sjá fyrir hönd ráðuneytisins.

Haustfundur Jarðhitafélagsins var helgaður störfum Ingvars Birgis Friðleifssonar, skólastjóra Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Utanríkisráðherra þakkaði í ræðu sinni Ingvari Birgi sérstaklega fyrir störf hans í þágu Jarðhitaskólans, en Ingvar Birgir hefur leitt skólann frá upphafi starfseminnar.

Í máli ráðherra kom fram að Ísland var eitt af fyrstu aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna sem svöruðu ákalli Háskóla Sameinuðu þjóðanna um stofnun skóla á hans vegum fljótlega eftir að hann hóf rekstur 1975. Ákvörðun um stofnun Jarðhitaskólans var tekin í árslok 1978 og hann tók til starfa 1979 en segja má að hann sé flaggskip í alþjóða þróunarsamvinnu Íslands frá þessum tíma. Skólinn væri liður í að svara þeirri brýnu þörf sem væri fyrir sérfræðinga í jarðhitamálum víðs vegar um heim.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta