Hoppa yfir valmynd
13. júní 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Hlutfall karlkyns umsækjenda í HÍ hækkar um 13% milli ára

Hlutfall karlkyns umsækjenda í HÍ hækkar um 13% milli ára  - myndHáskóli Íslands

Hlutfall karlkyns umsækjenda um nám í Háskóla Íslands hækkar um 13% á milli ára samkvæmt fyrstu tölum um skráningu nýnema sem borist hafa háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Samhliða umsóknatímabili í háskóla landsins nú í vor stóð ráðuneytið fyrir átaki undir yfirskriftinni Heimurinn stækkar í háskóla. Markmið átaksins var að hvetja ungt fólk, sérstaklega stráka, til að skrá sig í háskóla og sjá tækifærin sem felast í því að mennta sig til fjölbreyttra starfa í samfélaginu. Fjölmargar leiðir voru notaðar til að ná til þessa markhóps og ýmsir miðlar nýttir frá byrjun maí og þar til umsóknarfrestur í flesta háskóla landsins rann út 5. júní sl.

,,Það er ótrúlega ánægjulegt að loksins sjáum við aukningu meðal karlkyns nemenda sem sækja um í Háskóla Íslands, þetta er framar vonum og gaman að sjá að átakið og umræðan sem hefur skapast skili þessum niðurstöðum,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Ólík áform kynjanna þegar kemur að háskólanámi

Kynningarátakið var sett af stað sem viðbrögð við því að einungis um þriðjungur íslenskra karla á aldrinum 25-34 ára hafa lokið háskólanámi sem er töluvert undir meðaltali OECD ríkja. Jafnframt sýndi ný könnun á framvindu nemenda í framhaldsskólum landsins og viðhorf þeirra til háskólanáms áberandi mun á áformum kynjanna þegar kemur að háskólanámi. Þau viðhorf eru í samræmi við tölfræði um nemendafjölda í háskólum landsins þar sem konur hafa að meðaltali verið yfir 60% nemenda frá því fyrir aldamótin og um 65% síðustu fimm ár. Kynjahlutföll eru þó mismunandi eftir skólum. Þannig eru aðeins um 20% nemenda við Háskólann á Akureyri karlkyns, rúm 30% við Háskólann á Bifröst, Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands, um 37% í Listaháskóla Íslands og 58% í Háskólanum í Reykjavík sem jafnframt eini háskóla landsins þar sem karlar eru í meirihluta nemendahóps.

Karlkyns umsækjendum fjölgar í fjölbreyttum námsgreinum

Í Háskóla Íslands, þar sem um 65% skráðra háskólanema á landinu stunda nám, hefur hlutfall stráka meðal umsækjenda aukist um 13% milli áranna 2022 og 2023 eins og áður hefur komið fram. Þannig voru strákar um 38% umsækjenda á þessu ári. Hlutfall kvenkyns umsækjenda eykst á sama tíma um 2%. Mest fjölgar strákum í hópi umsækjenda í verkfræði og náttúruvísindum, en einnig þónokkuð í mála- og menningardeild, heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði.

Upplýsingar um kynjahlutföll umsækjenda um nám í öðrum háskólum landsins hafa ekki borist. Ljóst er að greiningu þarf að fylgja eftir þegar fyrir liggur hversu margir nemendur hefja nám í raun á haustmánuðum. Þær tölur sem fyrir liggja sýna þó mikilvægi jákvæðrar og hvetjandi umræðu um þau tækifæri sem bjóðast í og að loknu háskólanámi og að Heimurinn stækkar í háskóla átakið hafi hreyft við þeim markmiði sem ætlað var að ná til.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta