Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úrskurður í máli Isavia ohf.

Reykjavík 3. apríl 2012

Tilv.: FJR10100047/120

Efni: Stjórnsýsluúrskurður í máli Isavia ohf.

 

Vísað er til stjórnsýslukæru Logos, f.h. Isavia ohf., dags. 15. október 2010, þar sem kærð er ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra frá 24. september 2010, er varðar ógildingu á skráningu á firmaheitinu Isavia ohf. í fyrirtækjaskrá. Í kærunni er þess krafist að ráðuneytið ógildi umrædda ákvörðun og leggi það fyrir fyrirtækjaskrá að afmá skráningu á firmaheitinu Iceavia ehf.

Í kærunni áskildi Isavia ohf. sér rétt til þess að leggja fram rökstuðning fyrir kröfunni fyrir lok kærufrests. Jafnframt var þess óskað að fjármálaráðuneytið frestaði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar þar til afstaða ráðuneytisins lægi fyrir.

Með úrskurði ráðuneytisins, dags. 2. nóvember 2010, var fallist á beiðni Isavia ohf. um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu stjórnvaldsákvörðunar fyrirtækjaskrár ríkisskattastjóra á meðan kæran væri til meðferðar hjá ráðuneytinu.

Greinargerð Isavia ohf. vegna stjórnsýslukærunnar barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 7. desember 2010.

Málavextir og málsástæður

1.    Ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 24. september 2010

Í ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra greinir að hinn 7. maí 2009 bárust fyrirtækjaskrá stofngögn einkahlutafélagsins Iceavia ehf. (hér eftir Iceavia) ásamt útskrift frá Einkaleyfastofu um tilvist vörumerkisins ICEAVIA, undirrituð af stofnanda félagsins, HF. Daginn eftir var félagið skráð hjá fyrirtækjaskrá.

Fram kemur að hinn 15. febrúar 2010 var skráð í fyrirtækjaskrá opinbera hlutafélagið FLUG-KEF ohf. vegna samruna Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. Hinn 12. maí 2010 bárust fyrirtækjaskrá samrunagögn umræddra félaga og tilkynning um að nafni félagsins yrði breytt úr FLUG-KEF ohf. í Isavia ohf. (hér eftir Isavia).

Þá greinir að með bréfi, dags. 7. júní 2010, kom fyrirsvarsaðili Iceavia á framfæri andmælum við skráningu fyrirtækjaskrár á firmaheitinu Isavia. Í athugasemdum Isavia við andmæli forsvarsaðila Iceavia var greint frá því að Flugstoðir ohf., forveri Isavia, hafi hinn 19. september 2006 sótt um skráningu á vörumerkinu ICEAVIA hjá Einkaleyfastofu og hinn 13. maí 2008 á vörumerkinu ISAVIA. Skráningarferli væri hins vegar ekki verið lokið þar sem Einkaleyfastofa vildi takmarka skráninguna, sem Isavia taldi óásættanlegt. Jafnframt hafi verið greint frá því að við samruna Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. hafi verið ákveðið að hið sameinaða félag skyldi bera nafnið Isavia á grundvelli vörumerkjaskráningarinnar. Þá var vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 437/2008, frá 6. maí 2009, þar sem Flugstoðir ohf. (nú Isavia ohf.) krafðist ógildingar á vörumerkjaskráningunni ICEAVIA, í eigu HF, í vörumerkjaskrá Einkaleyfastofu. Hæstiréttur féllst á kröfur Flugstoða ohf. og dæmdi vörumerkjaskráninguna ICEAVIA ógilda.

Í kærunni greinir að með bréfi fyrirtækjaskrár, dags. 28. júlí 2010, var Isavia tilkynnt að það væri álit fyrirtækjaskrár að skráning firmaheitisins Isavia gengi gegn betri rétti félagsins Iceavia. Fyrirtækjaskrá hefði því í hyggju að breyta heiti félagsins í fyrra horf að 15 dögum liðnum. Með bréfi, dags. 6. ágúst 2010, fór Isavia fram á að fyrirtækjaskrá ógilti skráningu á firmaheitinu Iceavia á grundvelli betri réttar Isavia, auk þess sem fallið yrði frá því að breyta nafni Isavia í fyrra horf. Því var mótmælt með bréfi forsvarsaðila Iceavia hinn 30. ágúst 2010 og bárust fyrirtækjaskrá frekari mótmæli með tölvupóstum á tímabilinu 14. - 20. september s.á. Hinn 15. september 2010 barst fyrirtækjaskrá tölvupóstur frá lögmanni Isavia og með honum fylgdi afrit úr Einkaleyfatíðindum þar sem skráning vörumerkjanna ICEAVIA og ISAVIA var birt og skráð á Flugstoðir ohf., nú Isavia ohf.

Í forsendum ákvörðunar fyrirtækjaskrár greinir að frá árinu 2006 hafi fyrirtækjaskrá og vörumerkjaskrá markvisst haft hliðsjón hvor af annarri við mat á því hvort firmaheiti/vörumerki séu laus til skráningar. Fyrirtækjaskrá hafi aðeins aðgang að þeim vörumerkjum sem þegar hafa verið skráð hjá Einkaleyfastofu en ekki að umsóknum sem bíða skráningar. Er það mat fyrirtækjaskrár að ekki sé unnt að ætlast til þess að tekið sé tillit til umsókna sem liggja fyrir hjá Einkaleyfastofu, enda ekki ljóst hvort þær umsóknir verði samþykktar. Umsókn Flugstoða ohf.

(nú Isavia ohf.) um skráningu á vörumerkinu ICEAVIA hafi verið til meðferðar hjá Einkaleyfastofu frá 19. september 2006 og umsókn um skráningu á vörumerkinu ISAVIA hafi verið til meðferðar frá 13. maí 2008 og þær ekki samþykktar fyrr en 10. september 2010 og birting átt sér stað hinn 15. september 2010.

Fram kemur að þegar fyrirtækjaskrá barst tilkynning um stofnun einkahlutafélagsins Iceavia hinn 7. maí 2009 hafi ekki verið forsendur fyrir því að neita félaginu um skráningu, enda hafi eigandi félagsins verið með skráð vörumerki með sama nafni. Umsóknir Isavia fyrir vörumerkjunum ISAVIA og ICEAVIA voru ekki samþykktar fyrr en 10. september 2010 og rekja megi töf á afgreiðslu umsóknanna til ítrekaðra óska forsvarsaðila Isavia um frest. Þá bendir fyrirtækjaskrá á að það hafi fyrst verið hinn 12. maí 2010 sem sótt var um skráningu á firmaheitinu Isavia og að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við firmaheiti Iceavia fyrr en 16 mánuðum eftir skráningu þess eða þegar fyrirtækjaskrá tilkynnti að breyta ætti nafni Isavia í fyrra horf á grundvelli athugasemda frá forsvarsaðila Iceavia.

2.      Stjórnsýslukæra forsvarsaðila Isavia ohf., dags. 7. desember 2010

Í kæru til ráðuneytisins, dags. 7. desember 2010, krefst Isavia þess að ógilt verði sú ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra að hafna skráningu á firmaheiti Isavia þar sem skráningin gangi gegn betri rétti félagsins Iceavia og að lagt verði fyrir fyrirtækjaskrá að afmá skráningu á firmaheitinu Iceavia og að skrá firmaheitið Isavia.

Í kærunni greinir að daginn áður en fyrirtækjaskrá bárust stofngögn félagsins Iceavia hafi gengið dómur Hæstaréttar í máli nr. 437/2008, Flugstoðir ohf. gegn HF, þar sem ógilt var vörumerkjaskráning HF á heitinu ICEAVIA. Til grundvallar skráningu firmaheitisins Iceavia hafi því legið vörumerkjaskráning sem Hæstiréttur var búinn að ógilda og því verði að telja að skráning firmaheitisins Iceavia hafi byggst á röngum forsendum.

Fram kemur að ástæða þess að afgreiðsla Einkaleyfastofu á umsóknum Isavia um skráningu á vörumerkjunum ICEAVIA og ISAVIA dróst eins lengi og raun ber vitni hafi verið ágreiningur um hversu víðtæk vörumerkjaskráningin ætti að vera. Það var fyrst í september 2010 að Einkaleyfastofa féllst á kröfur Isavia um skráningu. Vörumerkjaskráningunum sé hins vegar mótmælt af HF og fyrir liggi að Einkaleyfastofa þurfi á ný að taka afstöðu til skráninganna. Það sé hins vegar ljóst að ef Einkaleyfastofa staðfestir ákvörðun sína um skráningu sé óumdeilt að vernd vörumerkisins ICEAVIA, á grundvelli skráningar, hafi hafist hinn 19. september 2006 í samræmi við 1. mgr. 26. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki, eða tveimur og hálfu ári áður en HF óskaði eftir skráningu á firmaheitinu Iceavia. Með vísan til sama ákvæðis hafi vörumerkjaréttur að vörumerkinu ISAVIA, á grundvelli skráningar, hafist hinn 13. maí 2008.

Þá er á því byggt að vörumerkjaréttur á grundvelli notkunar stofnast við upphaf notkunar.

Fram kemur að Isavia tók til starfa 1. janúar 2007 og hafi frá þeim tíma notað auðkennin

ISAVIA og ICEAVIA. Á meðan á ógildingarmálinu stóð hóf félagið notkun á auðkenninu Isavia sem festist vel í sessi og hafi samningar félagsins verið gerðir í nafni Isavia. Því sé ljóst að á grundvelli notkunar hafi Isavia eignast vörumerkjaréttinn á heitunum frá og með árinu 2007 og hafi átt vörumerkjarétt á heitunum ISAVIA og ICEAVIA á þeim tíma þegar sótt var um skráningu á firmaheitinu Iceavia hinn 7. maí 2009. Einnig er á því byggt að auðkennið Isavia hafi verið tekið upp vegna alþjóðlegs eðlis starfsemi Isavia ohf. Heitið hafi m.a. verið talið heppilegt til að gæta samræmis við auðkenni annarra aðila á Norðurlöndum sem starfa á sambærilegum vettvangi, en sambærilegt félag í Finnlandi ber heitið Finavia og í Svíþjóð Swedavia.

Jafnframt greinir í kærunni að á grundvelli lögjöfnunar frá 10. gr. laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð (firmalög), sé óheimilt að skrá firmaheiti sem inniheldur vörumerki annars manns. Mat á því hvort brotið sé á vörumerkjarétti þriðja aðila byggi á vörumerkjalögum. Við skráningu nýrra firmaheita ber því á grundvelli 4. gr. vörumerkjalaga að framkvæma mat á því hvort firmaheiti sem óskað sé skráningar á kunni að vera svo líkt vörumerki þriðja aðila að ruglingi geti valdið. Með vísan til þess að fyrirtækjaskrá hafi eingöngu aðgang að þeim vörumerkjum sem búið sé að skrá hjá Einkaleyfastofu geri vörumerkjalögin ekki greinarmun á því hvort vörumerkjaréttur stofnist á grundvelli notkunar eða skráningar. Þá sé ekkert sem bendi til þess að aðeins eigi að beita lögjöfnun með þeim hætti að 10. gr. firmalaga eigi aðeins að ná til skráðra vörumerkja. Jafnframt er á það bent að það sé ekkert í íslenskri löggjöf eða dómaframkvæmd sem gefur tilefni til þess að ætla að rétthafi slíks vörumerkjaréttar eigi að njóta lakari verndar heldur en þeir rétthafar sem eiga skráð vörumerki. Fram kemur að það sé skýrt í vörumerkjalögum að vörumerkjaréttur sem byggist á notkun sé jafnrétthár og vörumerkjaréttur sem byggist á skráningu. Þá sé heldur ekki hægt að líta fram hjá því að vörumerkjaréttur sem byggir á skráningu hefjist á þeim degi þegar skráningar sé óskað.

Í kærunni er í þessu sambandi vísað til dóms Hæstaréttar nr. 366/2001 frá 14. mars 2002, Domino's sf. og Rima Corporation LTD. gegn Domino's Pizza International Inc. Í forsendum héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna, er tekið fram að skv. 1. mgr. 3. gr. vörumerkjalaga geti vörumerkjaréttur stofnast með skráningu vörumerkis í samræmi við ákvæði laganna, eða notkun vörumerkis. 

Í kærunni kemur fram það mat að fyrirtækjaskrá hafi átt að hafna skráningu á firmaheitinu Iceavia á grundvelli lögjöfnunar frá 10. gr. firmalaga, sbr. 4. gr. vörumerkjalaga. Jafnframt að stofnunin hefði átt að hafna skráningu á firmaheitinu Iceavia á grundvelli 5. gr. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sbr. 15. gr. a laganna, en það ákvæði veiti rétthafa vörumerkis aukna vernd sem takmarkar heimildir annarra til að nota firmaheiti sem brýtur í bága við vörumerkjarétt rétthafans. Þá greinir að beiðni um skráningu á firmaheitinu Iceavia í fyrirtækjaskrá hafi verið gerð í vondri trú fyrirsvarsmanns félagsins, sem gerði það að verkum að fyrirtækjaskrá skráði firmaheitið á grundvelli rangra upplýsinga.

Í kærunni er loks rakin ástæða þess að Isavia hafi ekki sótt um skráningu á firmaheitinu Isavia fyrr en 12. maí 2010 og ekki gert athugasemd við skráningu firmaheiti Iceavia fyrr en 16 mánuðum eftir skráningu þess. Fram kemur að forsvarsaðilum Isavia hafi fyrst verið kunnugt um skráninguna þegar fyrirtækjaskrá hafnaði skráningu á firmaheitinu Isavia á grundvelli betri réttar Iceavia. Þá greinir að forsvarsaðilar Isavia hafi staðið í þeirri trú að ágreiningur aðila um notkun á heitinu Iceavia hefði lokið með ógildingardómi Hæstaréttar frá 6. maí 2009.

3.      Umsögn fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 24. maí 2011

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 10. desember 2010, var óskað eftir umsögn fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um framkomna stjórnsýslukæru auk allra gagna málsins. Beiðni ráðuneytisins var ítrekuð með bréfi, dags. 19. apríl 2011, og barst umsögn fyrirtækjaskrár með bréfi, dags. 24.

maí 2011.

Í umsögninni er áréttað að gögn vegna Iceavia hafi verið móttekin hinn 7. maí 2009. Stofngögnin hafi þó verið dagsett hinn 27. febrúar 2009 og teljist það vera stofndagur þess félags en ekki sá dagur sem gögnin voru móttekin hjá fyrirtækjaskrá. Þá er því hafnað að skráning firmaheitisins Iceavia hafi verið leyfð á grundvelli vörumerkjaréttar forsvarsaðila félagsins. Á það er bent að skráning firmaheitisins Iceavia hefði verið heimilað þrátt fyrir að vörumerki forsvarsaðila félagsins hafi verið afskráð sama dag og dómur féll. Ástæða þess sé sú að hinn 7. maí 2009 hafi ekki verið lokið við skráningu á vörumerkjunum ICEAVIA og ISAVIA. Hinn 7. maí 2009 hafi því ekki verið til á skrá vörumerki sem hindrað gat skráningu firmaheitisins Iceavia. Fram kemur að ef firmaheiti séu ekki á skrá hjá fyrirtækjaskrá né heldur í vörumerkjaskrá séu ekki forsendur til að hafna skráningu.

Þá er vísað til þess varðandi vörumerkjarétt Isavia að það hafi verið seinagangur forsvarsaðila félagsins sem varð þess valdandi að vörumerkin voru ekki skráð fyrr, þar sem ítrekað hafi verið sótt um frekari fresti til þess að skila inn gögnum. Fram kemur að dómur Hæstaréttar hafi eingöngu ógilt vörumerkjaskráningu HF, en í dóminum hafi ekki falist heimild fyrir Isavia að fá skráðar vörumerkjaumsóknir sínar. Þá greinir að forsvarsaðilar Isavia hafi sýnt af sér andvaraleysi með því að skila ekki inn gögnum til Einkaleyfastofu. Forsvarsaðilar Isavia hafi ekki með neinum hætti reynt að tryggja sér firmaheitið Isavia, t.d. með því að fá firmaheitið skráð eftir að dómur Hæstaréttar gekk eða með því að fá firmaheitið skráð sem erlent aukheiti og verði þeir að bera hallann af því.

4.      Umsögn forsvarsaðila Isavia ohf., dags. 6. júlí 2011.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 15. júní 2011, var forsvarsaðilum Isavia gefinn kostur á að koma að athugasemdum til ráðuneytisins vegna umsagnar fyrirtækjaskrár. Athugasemdir Isavia bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 6. júlí 2011.

Í umsögninni kemur fram að félagið Iceavia hafi verið skráð hjá fyrirtækjaskrá eftir að Hæstiréttur ógilti vörumerkjaskráningu HF. Þar sem firmaskráningin hafi verið byggð á vörumerkjarétti sem Hæstiréttur hafði ógilt sé ljóst að firmaheiti Iceavia var skráð hjá fyrirtækjaskrá á röngum forsendum.

Þá er áréttað að vörumerkjaréttur geti bæði stofnast á grundvelli skráningar og notkunar, sbr. 1. mgr. 3. gr. vörumerkjalaga. Bent er á að í athugasemdum við 3. gr. í frumvarpi sem varð að vörumerkjalögum komi fram að vernd vörumerkis sem fengin er með notkun sé efnislega hin sama og vernd skráðra merkja. Forsvarsaðilar Isavia hafi sótt um skráningu á vörumerkinu Iceavia hjá Einkaleyfastofu hinn 19. september 2006 og á vörumerkinu Isavia hinn 13. maí 2008. Umsóknirnar hafi verið samþykktar hinn 10. september 2010 og með úrskurðum Einkaleyfastofu frá 11. maí 2011, hafi skráningarnar verið staðfestar. Vörumerkjaréttur Isavia á grundvelli vörumerkjaskráningar hafi hafist á þeim degi sem umsóknir um vörumerkin voru lagðar fram, sbr. 1. mgr. 26. gr. vörumerkjalaga. Þá greinir að Isavia hafi notað auðkennin Isavia og Iceavia frá 1. janúar 2007 og því öðlast vörumerkjarétt á heitinu á grundvelli notkunar.

Þá er því hafnað að um seinagang eða andvaraleysi hafi verið að ræða í tengslum við skráningu félagsins á vörumerkjunum ISAVIA og ICEAVIA. Einkaleyfastofa hafi hafnað skráningu vörumerkjanna á grundvelli vörumerkjaréttar forsvarsaðila Iceavia. Því hafi Isavia höfðað ógildingarmál á grundvelli notkunarleysis, sem lauk með dómi Hæstaréttar í maí 2009. Í framhaldi samþykkti Einkaleyfastofa vörumerkjaskráningarnar en aðeins fyrir takmarkaða þjónustuflokka, sem Isavia sætti sig illa við. Í kjölfarið hafi hafist töluverð samskipti milli forsvarsaðila Isavia og Einkaleyfastofu vegna málsins, sem lauk með því að Einkaleyfastofa féllst á vörumerkjaskráningarnar fyrir alla þá flokka sem Isavia hafði óskað eftir.

Að lokum greinir að forsvarsaðilum Isavia hafi verið ókunnugt um skráningu á firmaheitinu Iceavia.

5.      Umsögn fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 2. nóvember 2011

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 18. ágúst 2011, var fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir forsvarsaðila Isavia. Athugsemdir fyrirtækjaskrár bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 2. nóvember 2011.

Í umsögninni kemur fram að skv. 8. gr. laga nr. 138/1997, um einkahlutafélög, skal ákvörðun um stofnun félags tekin á stofnfundi. Því verði að miða við stofndag félagsins Iceavia en ekki hvenær gögnin voru móttekin til skráningar hjá fyrirtækjaskrá.

Í umsögninni er áréttað að fyrirtækjaskrá skoði gagnagrunn Einkaleyfastofu til að kanna hvort firmaheiti brjóti gegn betri rétti annars aðila. Á þeim degi sem sótt var um skráningu á firmaheitinu Iceavia hafi ekki verið til í vörumerkjaskrá nein vörumerki sem gáfu til kynna betri rétt til firmaheitisins Iceavia. Fram kemur að það sé óframkvæmanlegt að taka tillit til umsókna sem eru í vinnslu hjá Einkaleyfastofu enda sé ekkert sem segi til um hvort þær umsóknir verði samþykktar eða ekki. Fram kemur að um sé að ræða ólíka málaflokka sem um gildir mismunandi lög sem hvorki Einkaleyfastofa né fyrirtækjaskrá geti ákvarðað um hvor lögin gangi framar. Slíkt sé aðeins á valdi dómstóla.

II. Forsendur og niðurstaða

Í máli þessu er deilt um ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra frá 24. september 2010, um að skráning á firmaheitinu Isavia ohf. gangi gegn betri rétti félagsins Iceavia ehf. til heitisins og að stofnunin hyggist breyta firmaheiti Isavia til fyrra horfs. Í stjórnsýslukæru Isavia er þess krafist að ráðuneytið ógildi ákvörðun ríkisskattstjóra um að hafna skráningu á firmaheiti Isavia og leggi fyrir ríkisskattstjóra að afmá skráningu á firmaheitinu Iceavia og að skrá firmaheitið Isavia.

Þegar einkahlutafélagi er valið nafn ber fyrst og fremst að fara eftir ákvæðum laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, sbr. 6. mgr. 1. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, en jafnframt skal höfð hliðsjón af lögum nr. 45/1997, um vörumerki, sérstaklega 4. gr. laganna, sem og 15. gr. a. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Markmiðið með lagaákvæðum um firmanöfn er að tryggja að viðskiptamaður félags geti ávallt séð við hvern hann er að semja. Lögverndun firmaheitis hefur mikla þýðingu fyrir eiganda firmaheitisins, enda stendur hún vörð um þá viðskiptavild sem hann hefur skapað firma sínu, auk þess sem firmanafn getur verið trygging almennings fyrir þeirri vöru og/eða þjónustu sem firmað býður fram. Í 10. gr. laga nr. 42/1903 kemur fram að enginn megi í firma sínu hafa nafn annars manns án hans leyfis en meginreglan er sú að teljist heitið almennt er ekki unnt að banna öðrum notkun orðsins eða heitisins, svo fremi hann aðgreini sitt firmanafn frá því sem þegar kann að vera til skráð með því heiti. Einnig er það regla að sé firmaheiti tengt við örnefni eða ákveðið staðarheiti, er ekki unnt að banna öðrum að tengja það heiti við atvinnustarfsemi sína, svo framarlega sem þeir aðgreini með einhverjum hætti sitt firmaheiti. Sé heiti til þess fallið að greina vörur og þjónustu fyrirtækis frá svipaðri vöru eða þjónustu annarra er um lögverndað heiti að ræða, sem óheimilt er að nota án leyfis skráðs rétthafa.

Í 3. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki, kemur fram að vörumerkjaréttur stofnist hvort tveggja með skráningu vörumerkis eða með notkun vörumerkis fyrir vöru eða þjónustu. Fyrirtækjaskrá hefur markvisst hliðsjón af vörumerkjaskrá áður en kveðið er á um hvort tiltekið nafn á félagi sé laust til skráningar í fyrirtækjaskrá. Vörumerkjaskrá greinist í marga þjónustu- og vöruflokka og getur sama vörumerkið verið skráð á mismunandi eigendur í mismunandi flokkum. Fyrirtækjaskrá er aftur á móti ein skrá og sama firmaheitið er aðeins skráð einu sinni í skránna. Í athugasemdum við 3. gr. í frumvarpi því sem varð að vörumerkjalögum greinir að vernd vörumerkis sem fengin er með notkun er efnislega hin sama og vernd skráðra merkja. Þar greinir jafnframt að framkvæmdin hafi verið sú að vörumerkjaréttur hefur verið talinn geta stofnast við upphaf notkunar.

Þá er í ákvæði 1. mgr. 26. gr. vörumerkjalaga kveðið á um að vernd skráðs vörumerkis hefjist á þeim degi sem umsókn er lögð inn til Einkaleyfastofu. Jafnframt leggur ákvæði 15. gr. a laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, bann við því að nota firmanafn, verslunarmerki eða annað slíkt í atvinnustarfsemi án réttinda þar um.

Samkvæmt 10. gr. firmalaga má enginn hafa í firma sínu nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis. Þótt þess sé ekki getið berum orðum í ákvæðinu hefur það verið túlkað svo í dómaframkvæmd hérlendis að einnig sé óheimilt að taka vörumerki annars manns upp í firmaheiti án leyfis viðkomandi, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 437/1999, Bakki hf. gegn Bakka söluskrifstofu hf. Við mat á því hvort brotið sé gegn vörumerkjarétti aðila verður að horfa til vörumerkjalaga. Því þarf við skráningu firmaheita að horfa til ákvæða vörumerkjalaga og vísar fyrirtækjaskrá, eftir því sem við á, til ákvæða vörumerkjalaga í ákvörðunum sínum. Ákvæði 1. mgr. 4. gr. vörumerkjalaga kveður á um að í vörumerkjarétti felist að aðrir en eigandi vörumerkis megi ekki heimildarlaust nota í atvinnustarfsemi sinni tákn sem eru eins eða lík vörumerki hans, ef notkunin tekur til eins eða svipaðrar vöru eða þjónustu og vörumerkjarétturinn nær til og hætt er við ruglingi.

Þegar fyrirtækjaskrá skráði firmaheitið Iceavia í fyrirtækjaskrá hinn 8. maí 2009, var m.a. horft til þess að ekkert félag var að finna á skrá með sama og/eða sambærilegt firmaheiti. Jafnframt var horft til þess að forsvarsaðili Iceavia lagði fram, samhliða stofngögnum um félagið, staðfestingu þess efnis að hann væri eigandi að vörumerkinu ICEAVIA í vörumerkjaskrá. Hins vegar liggur fyrir að fyrirtækjaskrá var ókunnugt um að daginn áður en óskað var skráningar á firmaheitinu Iceavia féll ógildingardómur Hæstaréttar í máli nr. 437/2008, þess efnis að vörumerkjaréttur forsvarsaðila Iceavia var dæmdur niður fallinn sökum notkunarleysis á grundvelli vörumerkjalaga. Að auki var fyrirtækjaskrá ókunnugt um að samhliða beiðni um skráningu á firmaheitinu Iceavia hefðu verið til afgreiðslu hjá Einkaleyfastofu umsóknir um skráningu á vörumerkjunum ICEAVIA og ISAVIA, en umræddan ógildingardóm Hæstaréttar má rekja til þeirra umsókna. Líkt og fram hefur komið hefur fyrirtækjaskrá eingöngu aðgang að þeim vörumerkjum sem skráð hafa verið hjá Einkaleyfastofu.

Vörumerkjaréttur forsvarsaðila Iceavia var samkvæmt ógildingardómi Hæstaréttar frá 6. maí 2009, dæmdur fallinn niður sökum þess að ekki þótti sannað að notkunarskyldu vörumerkisins væri fullnægt, en eigandi vörumerkisins gat fyrir dómi ekki lagt fram nægjanleg gögn til stuðnings notkunar á vörumerkinu. Þá er óumdeilt í máli þessu að Isavia sótti um skráningu á vörumerkinu ICEAVIA hinn 19. september 2006 og á vörumerkinu ISAVIA hinn 13. maí 2008. Einkaleyfastofa féllst á skráningu vörumerkjanna hinn 10. september 2010, m.a. að undangengnum fyrrnefndum ógildingardómi Hæstaréttar. Þá hefur komið fram að Isavia hafi allt frá árinu 2007 notað auðkennin ICEAVIA og ISAVIA. Það er mat ráðuneytisins, með vísan til framangreindra lagaheimilda, að vernd Isavia á vörumerkjunum ICEAVIA og ISAVIA hafi stofnast eigi síðan en frá þeim degi sem umsóknir um skráningu voru lagðar inn til Einkaleyfastofu, sbr. 26. gr. vörumerkjalaga, þótt Einkaleyfastofa hafi ekki fallist á skráningu þeirra fyrr en 10. september 2010.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er stjórnvaldi heimilt að endurupptaka mál ef aðilar máls fara fram á það, en Isavia taldi í bréfi, dags. 6. ágúst 2010, að formskilyrði væru uppfyllt fyrir endurupptöku fyrirtækjaskrár á skráningu firmaheitisins Iceavia og var þess krafist að fyrirtækjaskrá ógilti skráninguna með vísan til 25. gr. laganna. Stjórnvöld eru almennt talin hafa nokkuð víðtækari heimild til að endurupptaka mál en aðilar máls til að fá mál sín endurupptekin. Við skýringu ákvæðisins ber að hafa hliðsjón af meginsjónarmiðum stjórnsýsluréttarins um hver geti átt aðild að máli, en almennt er litið svo á að ef viðkomandi aðili á einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlaun máls geti hann átt aðild að því. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. á aðili rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Skilyrði er að um sé að ræða upplýsingar sem hefðu haft þýðingu við ákvörðun málsins.

Það er mat ráðuneytisins að þegar fyrirtækjaskrá varð kunnugt um að gögn þau sem forsvarsaðili Iceavia lagði inn hjá stofnunni, þegar óskað var skráningar á firmaheitinu Iceavia, voru ófullnægjandi, að fyrir lægi ógildingardómur Hæstaréttar um að réttur til vörumerkisins ICEAVIA væri niður fallinn sökum notkunarleysis og að til afgreiðslu væru hjá Einkaleyfastofu umsóknir um skráningu á vörumerkjunum ICEAVIA og ISAVIA, hefði fyrirtækjaskrá verið rétt að endurupptaka ákvörðun sína um skráningu á firmaheitinu Iceavia, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem til staðar kynni að vera betri réttur annars aðila til nafnsins, þrátt fyrir að afgreiðslu Einkaleyfastofu um skráningu vörumerkjanna væri ekki lokið. Þá verður að horfa til þess að í tilkynningu til fyrirtækjaskrár um skráningu á firmaheiti ber forsvarsaðilum firma að gangast við því að firmaheiti sé skráð með fyrirvara um að það brjóti ekki í bága við rétt annarra til nafnsins. Við ofangreint mat leggur ráðuneytið til grundvallar þá staðreynd að vernd vörumerkis telst stofnast frá þeim degi sem umsókn um skráningu er lögð inn hjá Einkaleyfastofu og fellur sú vernd niður ef Einkaleyfastofa hafnar skráningu vörumerkis. Að auki er óhjákvæmilegt að líta til þess að beiðni um skráningu á firmaheitinu Iceavia var byggð á ófullnægjandi upplýsingum.

Þá var með úrskurðum Einkaleyfastofu í málum nr. 7/2011 og 8/2011, frá 11. maí 2011, Iceavia ehf. gegn Flugstoðum ehf., ekki fallist á að fella skyldi úr gildi skráningu á annars vegar vörumerkinu ICEAVIA og hins vegar ISAVIA sökum ruglingshættu við firmaheitið Iceavia, þar sem forsvarsaðili Iceavia hafi ekki getað lagt fram frekari gögn til stuðnings notkunar hans á heitinu Iceavia en þau sem lögð voru fram í tengslum við dóm Hæstaréttar frá 6. maí 2009.

Með vísan til framanritaðs ber að fella úr gildi ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um að skráning á firmaheitinu Isavia ohf. gangi gegn betri rétti félagsins Iceavia ehf. til heitisins og að stofnunin hyggist breyta firmaheiti Isavia ohf. til fyrra horfs.

Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem hefur orðið á afgreiðslu málsins.

Úrskurðarorð

Ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra frá 24. september 2010, um að skráning á firmaheitinu Isavia ohf. gangi gegn betri rétti félagsins Iceavia ehf. til heitisins og að stofnunin hyggist breyta firmaheiti Isavia ohf. til fyrra horfs, er felld úr gildi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta