Nr. 113/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 1. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 113/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU22120002
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 30. nóvember 2022 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Kína (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. nóvember 2022, um að synja kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 22. desember 2019. Þar sem kærandi hafði fengið útgefna vegabréfsáritun hjá frönskum stjórnvöldum sendi Útlendingastofnun beiðni hinn 7. janúar 2020 til franskra stjórnvalda um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd, sbr. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá frönskum yfirvöldum, dags. 6. mars 2020, samþykktu þau viðtöku kæranda. Útlendingastofnun ákvað þann 2. júní 2020 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 278/2020, dags. 20. ágúst 2020. Hinn 15. september 2020 kom kærandi á Bæjarhraun 18 og óskaði eftir vegabréfi sínu en fékk ekki. Kærandi var skráður horfinn hjá Útlendingastofnun frá 12. október 2020 og bentu gögn til þess að kærandi hefði flogið til Kaupmannahafnar 13. október 2020. Hinn 25. mars 2022 óskuðu dönsk stjórnvöld eftir gögnum vegna málsmeðferðar kæranda á Íslandi og voru gögn send samdægurs. Hinn 31. mars 2022 kom kærandi á Bæjarhraun 18 og óskaði eftir því að fá vegabréf sitt afhent, bókaður var fundur með kæranda til þess að fjalla um stöðuna á máli hans ásamt túlki. Hinn 7. apríl 2022 var óskað eftir gögnum frá Danmörku og þann sama dag var mál kæranda tekið til efnislegrar meðferðar hér á landi sökum þess að frestur til flutnings var fallinn niður. Hinn 23. maí 2022 bárust Útlendingastofnun gögn frá Danmörku. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 10. maí 2022 og framhaldsviðtöl 27. júní og 18. nóvember 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 28. nóvember 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var framangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 30. nóvember 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 12. desember 2022. Kærunefnd óskaði eftir nánari upplýsingum frá kæranda og bárust svör 23. og 24. febrúar 2023.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og að honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra myndi fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Um málsatvik og málsástæður kæranda er vísað til greinargerðar til Útlendingastofnunar. Þar kemur fram að kærandi sé fæddur og uppalinn í borginni [...] í Kína. Hann hafi misst móður sína sem ungbarn og alist upp hjá föður sínum og ömmu og afa. Upphafið að raunum hans megi rekja til þess að kínversk stjórnvöld hafi rifið niður hús fjölskyldu hans. Telji hann að eignarnám landsins og niðurrif heimilis þeirra hafi verið ólögmætt. Þann 5. mars 2014 hafi kærandi mótmælt ásamt fjölskyldu sinni og nágrönnum. Stjórnvöld hafi beitt föður hans og ömmu ofbeldi með þeim afleiðingum að þau hafi látist. Kærandi hafi í kjölfarið mótmælt margoft og verið handtekinn í hvert skipti. Kærandi hafi reynt að leita réttar síns fyrir stjórnvöldum 13. mars 2017 og verið færður í gæsluvarðhald í sjö daga. Kærandi hafi áfrýjað máli sínu 16. júlí 2018 til Hæstaréttar og farið til Peking að mótmæla þar fyrir utan. Lögreglan hafi handtekið hann og haldið í tvo mánuði. Hann hafi verið pyndaður og sveltur í varðhaldi. Þegar kæranda hafi verið sleppt úr haldi hafi hann mótmælt fyrir framan saksóknarrétt Kína. Hann hafi verið handtekinn og fluttur til [...]. Þá hafi honum verið haldið í tvo mánuði og verið neyddur til að taka lyf. Í kjölfarið hafi verið ákveðið að senda kæranda til Xinjiang héraðs. Ríkisstjórn Kína sé að reyna stöðva sjálfstæðishreyfingu Úígúra á svæðinu, sem séu múslimar. Kærandi hafi verið þvingaður til að búa með konu og verið ætlað að giftast henni og eignast með henni börn. Kærandi hafi m.a. verið látinn þvinga konuna til að borða svínakjöt. Þá hafi hann einnig átt að gegna herskyldu og ganga í heimavarnarlið á svæðinu. Kærandi hafi í kjölfarið ekki séð annarra kosta völ en að flýja heimaríki sitt.
Kærandi byggir aðalkröfu sína um að honum verði veitt alþjóðleg vernd á því að hann hafi orðið fyrir ofsóknum vegna stjórnmálaskoðana í kjölfar ólögmæts eignarnáms stjórnvalda á heimili hans og fjölskyldu hans. Hann hafi mótmælt margoft og verið handtekinn í tengslum við þetta og leitað réttar síns en ekki haft erindi sem erfiði. Þá sé kærandi á móti þjóðernishreinsunum í Xinjiang og á móti þvinguðum hjónaböndum og barneignum. Kærandi hafi verið pyndaður í varðhaldi og frelsissviptur vegna mótmæla. Þá verði að líta á þvingaða vist hans í Xinjiang sem ólögmæta frelsissviptingu. Hann sé mótfallinn herþjónustu í Xinjiang enda myndi slík herþjónusta að mati kæranda fela í sér glæpi gegn mannkyninu.
Til stuðnings varakröfu kæranda um að honum verði veitt viðbótarvernd byggir kærandi á því að honum verði refsað við endurkomu vegna umsóknar um vernd í öðru landi. Þar sem hann eigi ekki fjölskyldu myndi vera auðvelt fyrir stjórnvöld að láta hann hverfa. Kærandi hafi þegar verið pyndaður og sætt ómannlegri meðferð og því sé rökstudd ástæða til að óttast að slíkt verði gert aftur verði hann sendur til heimaríkis. Ástand mannréttindamála sé slæmt í Kína en kerfisbundnar ofsóknir Kínverja í Xinjiang beinist sérstaklega að Úígúrum og öðrum múslimum í Xinjiang. Um sé að ræða glæpi gegn mannkyni í héraðinu.
Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Hann hafi þurft að horfa uppá andlát föður síns og ömmu sinnar og verið þolandi pyndinga og þvingaðrar lyfjagjafar.
Kærandi vísar til þess að hann hafi ekki mikið af skjalfestum sönnunargögnum máli sínu til stuðnings. Taka verði mið af því að stjórnvöld í Kína vinni að því að takmarka upplýsingar um starfsemi ríkisins og að kærandi hafi flúið í flýti og ekki haft tækifæri til að safna gögnum.
Í greinargerð kæranda til kærunefndar eru gerðar athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar. Þar kemur fram að ósamræmi í frásögn kæranda, sem stofnunin vísi til, eigi sér eðlilegar skýringar. Í fyrsta lagi hafi Útlendingastofnun gert athugasemd við það að kærandi hafi ekki fjallað um að hann hafi verið sendur til Xinjiang fyrr en í efnisviðtali hjá Útlendingastofnun en ekki í Danmörku. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi ekki viljað fá vernd í Danmörku heldur viljað koma aftur til Íslands. Í framhaldsviðtali, dags. 18. nóvember 2022, hafi hann verið spurður hvers vegna hann hafi ekki greint frá umræddri málsástæðu fyrr og hafi hann svarað að hann hafi ekki verið spurður fyrr. Þá hafi Útlendingastofnun vísað til misræmis í frásögn kæranda varðandi tilkynningarskyldu sem hann hafi greint frá eftir að hann hafi losnað úr haldi hinn 14. ágúst 2019, þar sem komi annars vegar fram að hann hafi haft tilkynningaskyldu einu sinni í viku en hins vegar daglega. Þá hafi verið misræmi varðandi tímalengd hans í Xinjiang, annars vegar hafi hann sagt að hann hafi dvalið þar í þrjá mánuði en hins vegar í þrjár vikur. Þetta misræmi sé vegna túlkunarvanda en kærandi tali mandarín kínversku en ekki ensku eða íslensku. Þá hafi í ákvörðun Útlendingastofnunar komið fram að kærandi hefði verið margsaga varðandi flótta sinn frá Xinjiang. Í einu viðtali hafi kærandi greint frá því að hafa þurft að múta starfsmanni á svæðinu til að komast af svæðinu. Í öðru viðtali að hann hafi sagst hafa fengið leyfi hjá lögreglu til að fara til Sjanghæ til að sækja um áritun til Frakklands. Kærandi byggir á því að þessi atriði útiloki ekki hvert annað enda um aðskilda atburði að ræða. Þá megi rekja mismunandi lýsingar kæranda á húsi sem hann hafi búið í í Xinjiang til misskilnings, enda hafi túlkurinn ekki skilið muninn á ,,hæð“ og „húsi“ á kínversku. Kærandi mótmælir því mati Útlendingastofnunar að frásögn kæranda af því að hann hafi verið sendur til Xinjiang sé ótrúverðug.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað kínversku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé kínverskur ríkisborgari.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Kína m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- 2021 Country Reports on Human Rights Practices: China (U.S. Department of State, 12. apríl 2022);
- 2021 Report on International Religious Freedom: China (Includes Tibet, Xinjiang, Hong Kong, and Macau) (U.S. Department of State, 2. júní 2022);
- Country of origin information report China (The Ministry of Foreign Affairs of the Netherlands, maí 2020);
- China and Hong Kong: Situation of political dissidents, particularly students, and treatment by People´s Republic of China (PRC) authorities (2020-September 2022) (Immigration and Refugee Board of Canada, 23. september 2022);
- Country Policy and Information Note. China: Background information, including actors of protection and internal relocation, version 2.0 (U.K. Home Office, mars 2018);
- Country Policy and Information Note. China: Opposition to the state, version 3.0 (U.K. Home Office, nóvember 2018);
- Country Policy and Information Note. China: Muslims (including Uyghurs in Xinjiang) version 2.0 (U.K. Home Office, júlí 2022);
- DFAT Country Information Report: People´s Republic of China (Australian Department of Foreign Affairs and Trade, 22. desember 2021);
- Families of Activists Who Flee Xinjiang Pay a Heavy Price (Human Rights Watch, 9. júní 2021);
- Forced Marriage of Uyghur Women: State Policies for Interethnic Marriages in East Turkistan (Uyghur Human Rights Project, 16. nóvember 2022):
- Freedom in the World 2022: China (Freedom House, 2022);
- Query response on Türkiye: Treatment of Uighurs and ethnic Chinese persons by society and authorities (2020 – November 2022)(treatment by authorities; detention, deportation and extradition; extradition treaty between Türkiye; and China; Chinese spies and surveillance) (Immigration and Refugee Board of Canada, 23. nóvember 2022);
- The Chinese policy that makes Uyghurs feel like hostages in their own homes (CNN, 8. maí 2021);
- The World Factbook (CIA, uppfært 3. febrúar 2023);
- „Tom Make Us Slowly Disappear“: The Chinese Government´s Assault on the Uyghurs (U.S. Holocaust Memorial Museum, nóvember 2021);
- World Report 2023 – China (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).
- Xinjiang region: Car industry linked to forced labour of Uyghurs (Human Rights Watch, 6. desember 2022) og
- Xinjiang report: China must address grave human rights violations and the world must not turn a blind eye, say UN experts (UNHRC, 7. september 2022).
Alþýðulýðveldið Kína er einræðisríki undir forystu kommúnistaflokksins og er fjölmennasta ríki heims með yfir 1.4 milljarð íbúa. Flokksmeðlimir gegna næstum öllum æðstu stöðum stjórnvalda. Endanlegt vald er hjá 25 manna stjórnmálaskrifstofu kommúnistaflokksins (e. Politburo) og sjö manna fastanefnd hennar. Xi Jinping gegni þremur valdamestu embættunum sem aðalritari Kommúnistaflokksins, forseti og formaður herstjórnarinnar (e. Central Military Comission). Kína gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1945 og er eitt af fimm fastaríkjum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 2001. Þá fullgilti ríkið alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1981 og alþjóðasamning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1988. Samkvæmt framangreindum heimildum er stofnun nýrra stjórnmálaflokka óheimil og ekki til staðar virkir stjórnarandstöðuhópar.
Helstu öryggisstofnanir innanlands séu meðal annars ríkisöryggisráðuneytið (e. Ministry of State Security) og alþýðulögreglan (e. People´s Armed Police). Alþýðulögreglan heyri undir tvöfalt valdsvið miðstjórnar kommúnistaflokksins (e. the Central Committee of the Communist Party) og miðherstjórnarinnar (e. the Central Military Commission). Frelsisher fólksins (e. The People´s Liberation Army) beri fyrst og fremst ábyrgð á ytra öryggi en hafi einnig ákveðna öryggisskyldu innanlands. Staðbundin umdæmi noti einnig borgaralegar öryggissveitir sveitarfélaga til að framfylgja stjórnsýsluráðstöfunum. Samkvæmt heimildum hafi borgaraleg yfirvöld haldið uppi virku eftirliti með öryggissveitum.
Í skýrslu utanríkisráðuneytis Ástralíu um Kína kemur fram að spilling sé vandamál í Kína og að um 28% embættismanna hafi tekið við mútum árið 2020. Það sem gæti kallast spilling á Vesturlöndum sé stundum kallað Guanxi í Kína. Guanxi þýði „tenging“ og sé kerfi þar sem velgengni í viðskiptum eða í stjórnmálum byggi á tengslum og því að skiptast á greiðum eða gjöfum. Góð tengsl geti leitt til hagstæðra viðskipta, félagslegra og lagalegra niðurstaðna. Hins vegar líti ríkisstjórnin spillingu alvarlegum augum og sé spilling talin ógn við trúverðugleika ríkisins. Viðurlög við spillingu geti varðað dauðarefsingu í alvarlegustu tilvikum. Þegar Xi Jinping forseti hafi tekið við embætti árið 2013 hafi hann hleypt af stokkunum herör á landsvísu gegn spilltum embættismönnum, jafnt hátt sem lágt settum. Brot embættismanna séu rannsökuð af sérstakri spillingarnefnd innan flokksins. Þá hafi komið upp dæmi þar sem að embættismenn sem séu álitnir gagnrýnir á flokkinn og leiðtoga hans hafi verið sætt varðhaldi og öðrum viðurlögum á grundvelli ásakana um spillingu.
Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um mannréttindi í Kína fyrir árið 2021 kemur fram að helstu mannréttindabrot sem eigi sér stað í ríkinu séu handahófskennd morð og pyndingar af hálfu stjórnvalda, þvinguð mannshvörf, erfiðar og lífshættulegar aðstæður í fangelsum og varðhaldi. Í landinu séu pólitískir fangar og stjórnvöld beiti stjórnarandstæðinga utan Kína hefndaraðgerðum. Skortur sé á sjálfstæðu dómskerfi og kommúnistaflokkurinn hafi tögl og hagldir í dóms og réttarkerfi. Þá hafi stjórnvöld afskipti af friðhelgi einkalífs, þ.m.t. tæknilegt eftirlit og vöktun. Opinberir embættismenn og öryggisþjónustan fremji mannréttindabrot í skjóli refsileysis. Þá beri gögn með sér að þjóðarmorð og glæpir gegn mannkyni eigi sér stað í landinu, aðallega gegn múslimskum Úígúrum og meðlimum annarra þjóðernis- og trúarminnihlutahópa í héraðinu Xinjiang. Þar sé við lýði m.a. handahófskennd og alvarleg frelsissvipting borgara, verulegar takmarkanir á trú- og skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi og ferðafrelsi. Þá séu stundaðar þvingaðar ófrjósemisaðgerðir, þvingaðar fóstureyðingar og pyndingar í varðhaldi og nauðungarvinna. Talið sé að um þrjár milljónir manna úr minnihlutahópum múslima, sæti svokallaðri ,,endurmenntun“ (e. re-education“ training).
Í sömu skýrslu kemur fram að varðhald umfram 37 daga krefjist formlegrar handtöku, en sé grunur um brot gegn „þjóðaröryggi, hryðjuverk og meiri háttar spillingu“ sé heimilt að hafa einstakling í einangrun í sex mánuði án formlegrar handtöku. Yfirvöld noti svokallað stjórnsýslufangelsi til að ógna talsmönnum pólitískra hreyfinga eða trúarbragða og til að koma í veg fyrir almenn mótmæli. Sem dæmi um slík úrræði séu lögboðin lyfjaendurhæfingarmeðferð fyrir fíkniefnaneytendur, svokallað „varðhald og þjálfun“ fyrir minniháttar glæpamenn og „endurmenntun“ fyrir pólitíska aðgerðarsinna og trúariðkendur.
Stjórnarskráin kveði á um tjáningarfrelsi og funda- og fjölmiðlafrelsi. Í framangreindri skýrslu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu kemur fram að stjórnvöld takmarki og virði þessi réttindi að vettugi, sérstaklega þegar um sé að ræða gagnrýni á stjórnvöld. Alvarlegar takmarkanir séu á tjáningar- og fjölmiðlafrelsi. Stjórnvöld viðhafi eftirlit með öllum prentmiðlum og tjáningu á alnetinu, s.s. samfélagsmiðlum. Stjórnvöld ritskoði og hagræði upplýsingum, einkum varðandi viðkvæm málefni, s.s. lýðheilsu og mannréttindamál. Borgarar forðist að fjalla um „viðkvæm“ málefni, pólitísk málefni og umtal um leiðtoga af ótta við refsingu. Yfirvöld grípi reglulega til harkalegra aðgerða gegn borgurum sem gagnrýni kommúnistaflokkinn eða forsetann. Lög í ríkinu geri stjórnvöldum kleift að fylgjast með og bregðast við netöryggisáhættu og ógn sem eigi upptök sín innan lands eða erlendis og refsing sé lögð við því að nota vefmiðla til að búa til eða dreifa röngum upplýsingum sem trufli „efnahagslega eða félagslega skipan“. Ríkisstjórnin hafi lokað fyrir aðgang að efni á alnetinu frá aðilum sem ræði málefni sem talin séu viðkvæm, svo sem mótmælin í Hong Kong 2019-2020, Taívan, Dalai Lama, Tíbet, Xinjiang og fjöldamorðið á Torgi hins himneska friðar árið 1989.
Í skýrslu utanríkisráðuneytis Ástralíu kemur fram að einstaklingar sem fjalli um málefni sem talin séu viðkvæm geti átt á hættu refsiaðgerðir. Viðkvæm málefni séu til að mynda pólitísk málefni og atburðir, efnahags-, trúar- eða þjóðernisleg málefni, eignar- og umhverfismál, lands- og vinnuréttindi. Heimildir beri með sér að refsingar pólitískra aðgerðarsinna geti falið í sér sviptingar á réttindum, svo sem takmarkanir á tjáningar- og fundafrelsi sem leiði til vandræða þegar einstaklingur ferðist eða leiti sér að atvinnu eða húsnæði. Stjórnvöld beiti fræðasamfélagið einnig takmörkunum varðandi tjáningu og miðlun upplýsinga. Háskólanemar þurfi að ljúka námskeiðum um hugmyndafræði stjórnvalda s.s. um marxisma, maóisma og Deng Xuaoping. Nýjasta menntaáætlun ríkisstjórnarinnar, Áætlun um nútímavæðingu menntunar, tilgreini tíu stefnumótandi verkefni, hið fyrsta að læra Xi Jinping „hugsun“ og innleiða hana í grunnskólum og framhaldsskólum og styrkja pólitíska afstöðu nemenda.
Lögin kveði á um ferðafrelsi en stjórnvöld virði ekki þau réttindi í raun. Stjórnvöld áreiti og ógni einstaklingum með því að neita þeim um leyfi til að ferðast, bæði milli landa og innanlands. Úígúrar standi frammi fyrir verulegum takmörkunum á ferðafrelsi, innan Xinjiang og utan héraðsins. Í Xinjiang starfi öryggisverðir eftirlitsstöðva sem stjórni komu inn á og milli svæða í héraðinu.
Í skýrslum bandarísku og áströlsku utanríkisráðuneytanna kemur fram að stjórnarskráin kveði á um funda- og félagafrelsi en stjórnvöld takmarki verulega þann rétt. Stefna kommúnistaflokksins og reglugerðir stjórnvalda krefjist þess að hverskyns samtök skrái sig og fái samþykki hjá opinberum stjórnvöldum. Reglugerðir komi í veg fyrir myndun sjálfstæðra, pólitískra og frjálsa félagasamtaka. Ríkisstjórnin viðhafi strangt eftirlit með borgaralegum samtökum og í sumum tilvikum séu starfsmenn frjálsra félagasamtaka áreittir og handteknir. Áróðri hafi verið beitt gegn samtökum og þeim gefið að sök að starfa á vegum erlendra stjórnvalda. Lögin kveði á um ferðafrelsi en stjórnvöld virði ekki þau réttindi í raun. Stjórnvöld áreiti og ógni einstaklingum með því að neita þeim um leyfi til að ferðast, bæði milli landa og innanlands. Úígúrar standi frammi fyrir verulegum takmörkunum á ferðafrelsi, innan Xinjiang og utan héraðsins. Í Xinjiang starfi öryggisverðir eftirlitsstöðva sem stjórni komu inn á og milli svæða í héraðinu.
Þá þurfi samþykki frá stjórnvöldum fyrir samkomum í landinu þar sem fleiri en tvö hundruð manns komi saman en opinber mótmæli séu afar sjaldan samþykkt. Þrátt fyrir það komi stundum upp mótmæli og oft á tíðum tengist þau vinnu- eða landdeilum, umhverfismálum eða staðbundinni spillingu. Mótmæli séu fátíðari í forsetatíð Xi Jinping en áður hafi verið. Í skýrslu ástralska utanríkisráðuneytisins komi fram að landadeilur séu algeng ástæða mótmæla í Kína. Hröð þróun og miklir fólksflutningar hafi leitt til aukinnar þróunar og breytinga á innviðum í landinu. Ferlið við að eignast land sé breytilegt frá einum stað til annars en þvert á Kína er land í þéttbýli í eigu ríkisins og dreifbýli sameiginlega rekin af þorpum. Ágreiningur rísi þegar sveitastjórnarmenn reyna að selja landið og bera út leigjendur með lágum bótum. Ný lög kveða á um sanngjarnar bætur séu greiddar vegna eignarnáms á landi. Þeir sem taki þátt í mótmælum vegna spillingar og landadeilna, geti mætt hindrunum í stjórnsýslu. Þá beri heimildir með sér að einstaklingar sem taki þátt í að skipuleggja mótmæli eða taki þátt í mótmælum vegna landadeilna, spillingar eða annarrar gagnrýni yfirvalda geti átt á hættu að verða fyrir opinberri mismunun. Það geti t.a.m. falið í sér að einstaklingar eigi í erfiðleikum með tilteknar skráningar, að fá útgefin persónuskilríki eða fá skjöl viðurkennd. Þá hafi komið upp tilvik þar sem yfirvöld hafi handtekið og frelsissvipt einstaklinga af handahófi.
Í skýrslu ástralska utanríkisráðuneytisins kemur fram að rúmlega 90% borgara Kína tilheyri þjóðernishópi Han Kínverja. Sá hópur sé félagslega, pólitískt og efnahagslega ríkjandi. Ríkisstjórnin viðurkenni 55 aðra þjóðernishópa sem sumir búi á sjálfstjórnarsvæðum. Úígúrar séu þjóðernishópur í Mið-Asíu og séu aðallega súnní-múslimar. Áætlað sé að um 11 milljónir Úígúra búi í Xinjiang héraði í Kína. Mannréttindasamtök og ríkisstjórnir á Vesturlöndum og fræðimenn staðhæfi að kínversk yfirvöld kúgi Úígúra, takmarki ferðafrelsi þeirra, svipti þau réttindum og beiti þau margskonar ofsóknum. Þá sé þeim neitað um menningarlega og trúarlega tjáningu og iðkun, svo sem varðandi klæðnað, tungumál og matarvenjur. Heilagar bækur og tilbeiðsla í moskum eða föstur séu bannaðar. Öryggisgæsla í Xinjiang sé ströng og fylgst sé náið með lífi, venjum og samböndum fólks. Í skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna um stöðu mannréttindamála í Kína frá árinu 2021 kemur fram að stjórnvöld í Kína hafi haldið áfram herferð sinni gegn múslimum í Xinjiang. Yfirvöld hafi handtekið mikinn fjölda Úígúra, Kasaka, Kirgisa og aðra múslima, af handahófi. Samkvæmt heimildum frá alþjóðlegum fréttaveitum, mannréttindasamtökum og frásögnum fyrrum fanga eigi fangar á hættu að vera beittir illri meðferð, pyndingum og lífláti. Fjöldi ríkja hafi lýst ástandinu og aðgerðum Kínverja í Xinjiang sem þjóðarmorðum og glæpum gegn mannkyninu. Í skýrslu Freedom House kemur fram að stjórnvöld haldi áfram að kúga andvígismenn stjórnvalda og handtaki og ákæri blaðamenn, aðgerðarsinna og mannréttindalögfræðinga sem gagnrýni aðgerðir eða stefnu stjórnvalda. Þrátt fyrir að þrengt sé að þeim þá haldi aðgerðarsinnar og lögfræðingar áfram að gagnrýna og vekja athygli á kúgandi stjórnarháttum ríkisstjórnarinnar.
Í skýrslu utanríkisráðuneytis Ástralíu kemur fram að kínversk stjórnvöld hafi hert öryggisviðbúnað og eftirlit í Xinjiang héraði. Ríkisstjórnin fullyrði að tengsl séu á milli aðskilnaðarsinna og erlendra vígasveita, svo sem Al-Qaeda og íslamska ríkisins. Úígúrar hafi meðal annars verið látnir sæta eftirliti á heimilum sínum. Fulltrúar yfirvalda af þjóðarbroti Han hafi verið fengnir til að dvelja á heimilum Úígúra til þess að fylgjast með og aðstoða við takmörkun á menningarlegum siðum. Þá benda heimildir til þess að Úígúrar hafi til að mynda verið neyddir til að borða svínakjöt og drekka áfengi. Þá hafi kínversk stjórnvöld stuðst við fjöldavöktun á hegðun Úígúra með rafrænum hætti. Það sé mat utanríkisráðuneytis Ástralíu að Úígúrar í Xinjiang og öðrum hlutum Kína standi frammi fyrir mikilli hættu á opinberri mismunun stjórnvalda vegna þjóðernis, sérstaklega ef yfirvöld telji þá vera virka í stjórnmála- eða trúarstarfsemi. Þá sé það einnig mat utanríkisráðuneytisins að Úígúrar geti átt á hættu mismunun á samfélagslegum grundvelli.
Í framangreindri skýrslu frá utanríkisráðuneyti Ástralíu kemur fram að kínversk stjórnvöld viðhafi strangt eftirlit með komum og brottförum fólks og viti hvenær borgarar koma eða fara um hafnir í lofti eða á sjó. Stjórnvöld notist við gervigreind, andlitsgreiningarhugbúnað (e. facial recognition software) og tölfræðigagnagrunn sem kanni auðkenni farþega. Þá færi ýmsar ríkisstofnanir gögn í gagnagrunna, þ.m.t frá skattayfirvöld, tollgæsla, löggæsla eða aðrar stofnanir og stjórnvöld haldi útgöngueftirlitslista (e. exit control list) með aðilum sem meinað er að yfirgefa landið. Í skýrslunni kemur fram að þeir sem grunaðir séu um glæpi eða sem sæti eftirliti stjórnvalda kunni að vera synjað um útgáfu vegabréfa með vísan til ,,þjóðaröryggis”. Ef einstaklingur er á framangreindum lista sé mjög ólíklegt, líklega ómögulegt að hann geti yfirgefið Kína. Þá kemur fram að það sé nánast ómögulegt að yfirgefa Kína án vitundar stjórnvalda. Í sömu skýrslu kemur fram að heimildir beri ekki með sér yfirvöld beini sjónum sínum að einstaklingum við endurkomu til Kína, eingöngu fyrir að hafa sótt um alþjóðlega vernd. Kínversk stjórnvöld kunna þó að hafa upplýsingar um að viðkomandi hafi sótt um alþjóðlega vernd utan Kína.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi kveðst fæddur og uppalinn í [...] í Kína. Kærandi byggir umsókn sína á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna áreitis og ofsókna stjórnvalda gagnvart honum vegna mótmæla. Kærandi kveður stjórnvöld hafa eyðilagt hús fjölskyldu hans og hann hafi mótmælt stjórnvöldum í nokkur skipti síðan. Í mótmælum hinn 5. mars 2014 hafi faðir hans og amma verið drepin. Kærandi hafi mótmælt, verið handtekinn 23. maí 2014 og verið í varðhaldi í viku. Hann hafi mótmælt aftur og verið handtekinn 7. júlí 2014 og verið í haldi í 15 daga. Þá hafi hann verið handtekinn vegna mótmæla 8. júní 2015. Hann hafi reynt að leita réttar síns hjá stjórnvöldum en verið handtekinn 13. mars 2017 og settur í gæsluvarðhald ásamt öðrum mótmælendum í sjö daga. Kærandi hafi hinn 16. júlí 2018 farið til Peking til að mótmæla og verið handtekinn og verið í haldi í tvo mánuði við slæmar aðstæður. Hann hafi síðan aftur farið að mótmæla fyrir framan saksóknarrétt í Kína og verið handtekinn á ný og settur í varðhald í tvo mánuði. Þá hafi hann verið sendur til [...] frá Peking og þvingaður til að taka inn lyf og dvelja á geðsjúkrahúsi. Kærandi byggir á því að heimili fjölskyldu hans hafi verið eyðilagt og hann hafi mótmælt aðgerðum stjórnvalda ítrekað á árunum 2014 til 2019 og verið handtekinn og settur í varðhald af þeim sökum. Í dvöl sinni í fangelsi og varðhaldi hafi hann ítrekað verið beittur pyndingum og ómannúðlegri meðferð.
Kærandi ber einnig fyrir sig að stjórnvöld hafi ákveðið að senda hann til Xinjiang í ágúst 2019, þar sem hann hafi átt að giftast múslimskri konu sem tilheyri þjóðarbrotinu Úígúr og eignast með henni barn. Kærandi kvað í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 10. maí 2022 að sumir Han Kínverjar séu þvingaðir til að fara til Xinjiang til að taka þátt í aðgerðum stjórnvalda þar. Kærandi hafi sagt að hann vildi ekki fara og hafi því verið undir smásjá auk þess sem hann yrði að ganga í heimavarnarliðið eftir sex mánuði, sem allir af þjóðarbroti Han sem dveldu í Xianjiang þyrftu að gera. Þá verði hann í hættu við endurkomu til heimaríkis þar sem hann hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að ákveðið ósamræmi hafi verið í frásögn kæranda. Þá hafi ennfremur verið ósamræmi á milli frásagnar kæranda hér á landi og frásagnar hans er hann gaf við meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd hjá dönskum útlendingayfirvöldum. Í gögnum frá dönskum yfirvöldum kom fram að misræmi hafi verið í frásögn hans annarsvegar í viðtali og hins vegar í skriflegri frásögn hvernig tilhögun tilkynningarskyldu, sem hann kvaðst hafa sætt eftir að hafa losnað úr haldi stjórnvalda 14. ágúst 2019, hafi verið. Í greinargerð kæranda kemur fram að framangreint misræmi megi rekja til túlkunarvandræða og misskilnings. Hafi kærandi fengið tækifæri í framhaldsviðtali til þess að útskýra það ósamræmi ásamt tilteknum atriðum sem hafi þótt óljós. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að af gögnum frá dönskum yfirvöldum sé ljóst að kærandi hafi ekki greint frá því að hafa verið sendur til Xinjiang við málsmeðferðina þar í landi. Þegar kærandi var beðinn um skýringu á því kvaðst hann ekki hafa viljað fá vernd í Danmörku og þar af leiðandi hafi hann ekki greint frá þessu atriði. Þá vísar Útlendingastofnun til þess að kærandi hafi ekki greint frá því að hann hafi verið sendur til Xinjiang í viðtölum hjá stofnuninni 7. eða 13. janúar 2020. Í efnisviðtali hinn 10. maí 2022 hafi sú málsástæða komið fyrst fram. Í skýringum kæranda kvaðst hann ekki hafa verið spurður út í það atriði í fyrri viðtölum og ekki hafi verið fjallað efnislega um málsástæður hans í þeim viðtölum.
Frásögn kæranda af ástæðu flótta frá heimaríki hefur í stórum dráttum verið nokkuð samræmd bæði hér á landi og hjá dönskum stjórnvöldum. Einkum hvað varðar þátttöku hans í mótmælum í Kína eftir að stjórnvöld hafi tekið hús fjölskyldu hans eignarnámi og jafnað það við jörðu. Þá hefur samræmis gætt í frásögn hans af þeim afskiptum sem stjórnvöld hafi haft af honum í þau skipti sem hann hafi leitað réttar síns fyrir dómstólum og tekið þátt í mótmælum í tengslum við þann málarekstur. Það litla misræmi sem finna má varðandi þennan hluta frásagnar kæranda er ekki slíkt að það sé til þess fallið að draga úr trúverðugleika frásagnarinnar. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki lagt fram gögn máli sínu til stuðnings, er að mati kærunefndar ekki ástæða til að vefengja að stjórnvöld hafi tekið húsnæði fjölskyldunnar eignarhaldi og hann mótmælt vegna þessa og sætt afskiptum stjórnvalda enda fær sú frásögn kæranda stuðning í gögnum um heimaríki hans. Verður því lagt til grundvallar að kærandi hafi tekið þátt í mótmælum í nokkur skipti í heimaríki og hafi verið handtekinn og haldið í varðhaldi af þeim sökum af yfirvöldum.
Öðru máli gegnir hvað varðar frásögn kæranda af atvikum er tengjast Xinjiang. Þrátt fyrir að fallast megi á að eðlilegar skýringar geti verið á því að kærandi greindi ekki frá því strax í viðtali hjá lögreglu eða í svokölluðu Dyflinnarviðtali að hann hafi verið sendur af stjórnvöldum til Xinjiang er það mat kærunefndar að skýring kæranda á því að hann hafi ekki greint frá dvölinni í Xinjiang hjá dönskum yfirvöldum sé ótrúverðug. Kærandi hafi að öðru leyti greint frá ástæðum flótta síns í smáatriðum hjá dönskum stjórnvöldum og hafi sú frásögn að mestu leyti verið í samræmi við frásögn hans í viðtölum hér á landi. Kærandi hafi t.a.m. greint ítarlega frá mótmælum og smáatriðum svo sem dagssetningum og öðrum atriðum en algjörlega látið hjá líða að greina frá atvikum er hann kveður hafa átt sér stað í Xinjiang. Í efnisviðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 10. maí 2022 greindi kærandi frá því að hann hafi verið í haldi í þrjár vikur Xinjiang og að hann hafi flúið með því að múta tilteknum starfsmanni á svæðinu til að komast í burtu, hann hafi því farið þaðan í september. Í framhaldsviðtali kvaðst kærandi hafa verið í Xinjiang í þrjá mánuði en fengið leyfi frá lögreglu til að fara til Sjanghæ í tiltekinn tíma til þess að sækja um áritun til Frakklands. Hann hafi síðar farið aftur til Xinjiang og verið þar þar til hann hafi flúið í desember 2019. Þegar hann hafi farið frá Xinjiang í desember hafi hann fengið leyfi til að yfirgefa svæðið undir því yfirskyni að hann væri að fara til læknis vegna þunglyndis. Kærandi kvaðst aðspurður í framhaldsviðtali hafa verið undir sérstöku eftirliti stjórnvalda í heimaríki en engin bein afskipti hafi verið höfð af honum nema þegar hann hafi tekið þátt í mótmælum og síðan þann 14. ágúst 2019 þegar hann hafi verið sendur til Xinjiang. Kærandi kvaðst ekki geta lagt fram gögn um ferðalög sín til og frá Xinjiang eða hafa í höndum önnur gögn sem gætu stutt við frásögn hans af framangreindu s.s. varðandi búsetu hans á svæðinu, ferðalög til og frá Sjanghæ eða kvaðningu í heimavarnarlið í Xinjiang.
Í framhaldsviðtali kvaðst kærandi hafa verið á ferðalagi í Tælandi frá 31. maí til 5. júní 2019. Kvaðst kærandi ekki hafa upplifað hindranir á ferðalögum og getað fengið áritanir án vandkvæða á tímabilinu. Kærandi hafi, skv. upplýsingum í vegabréfi og frásögn í viðtali, farið til Mongólíu 30. september 2018, stuttu eftir að hann hafi verið leystur úr haldi vegna mótmæla, farið til Tælands 8. október 2018 í stutt ferðalag og síðast til Tælands í júní 2019. Að mati kærunefndar gefa þessar upplýsingar til kynna að kærandi hafi verið frjáls ferða sinna í heimaríki. Af þeim upplýsingum sem kærunefnd hefur skoðað varðandi takmarkanir og eftirlit kínverskra stjórnvalda, er afar ótrúverðugt að kæranda hafi verið kleift að fá vegabréfsáritun til Frakklands og getað yfirgefið Kína, ef hann hafi sætt eftirliti af hálfu stjórnvalda líkt og hann hefur greint frá. Að mati kærunefndar hefur kærandi því ekki sýnt fram á að hann hafi verið eða sé undir sérstöku eftirliti stjórnvalda í heimaríki.
Þá fær frásögn kæranda af því að hann hafi verið fluttur nauðugur til Xinjiang þar sem átt hafi að neyða hann til að giftast múslimskri konu ekki stuðning í þeim gögnum um heimaríki kæranda sem kærunefnd hefur yfirfarið við meðferð málsins. Þrátt fyrir að kínversk stjórnvöld hafi gerst sek um illa meðferð á múslimum, sérstaklega af þjóðarbrotinu Úígúr, þá bendi heimildir ekki til þess að karlmenn af Han þjóðarbrotinu séu neyddir til þess að flytja á svæðið og giftast konum þar og eiga með þeim börn í refsingarskyni. Stjórnvöld hafi vissulega hvatt einstaklinga af Han þjóðarbrotinu til þess að flytjast til Xinjiang með loforðum um styrki og aðstoð við að koma sér fyrir á svæðinu en ekkert bendir til þvingaðs flutnings fólks til svæðisins í refsingarskyni. Verður því ekki fallist á að kærandi muni eiga á hættu að verða handtekinn af stjórnvöldum við komu hans til heimaríkis og hann annað hvort neyddur til þess að búa í Xinjiang og giftast konu af Úígúr þjóðarbrotinu eða gert að sæta fangelsisrefsingu vegna mótmæla sinna vegna aðgerða stjórnvalda.
Þá benda gögn ennfremur ekki til þess að einstaklingar sem snúi til baka til Kína eftir að hafa óskað eftir alþjóðlegri vernd í öðru landi sæti sérstöku eftirliti í Kína, en stjórnvöld fylgist almennt vel með för borgara sinna til og frá ríkinu.
Með vísan til framangreinds og gagna málsins er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna. Verði þar sérstaklega litið til þess að gögn málsins beri með sér að kærandi hafi getað ferðast án vandkvæða um heimaríki sitt og utan þess og yfirvöld veitt honum heimildir til að yfirgefa landið óhindrað.
Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalds. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Eins og fram hefur komið þá eru talsverðar takmarkanir á mótmælum í heimaríki kæranda, þá sé tjáningar- og fundafrelsi settar verulegar skorður, og stjórnvöld viðhafi ritskoðun í ríkum mæli. Borgurum séu skorður settar varðandi tjáningu, sérstaklega varðandi viðkvæm málefni, s.s. pólitíska viðburði o.fl. Þó kemur fram að kínverskir borgarar mótmæli aðgerðum stjórnvalda í nokkuð ríkum mæli, svo sem varðandi landadeilur. Er það mat kærunefndar að ástandið í Kína sé ekki slíkt að það sé nægjanlegt eitt og sér til þess að veita beri einstaklingum þaðan alþjóðlega vernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Að virtum framburði kæranda, gögnum málsins og landaupplýsingum er það mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir varanlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður kæranda þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Kærandi byggir á því að hann muni búa við erfiðar félagslegar aðstæður verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Kærandi hefur greint frá því að hann eigi ekki fjölskyldu né vini í heimaríki. Hann óttist að stjórnvöld hafi fylgst með honum og muni bregðast illa við því að hann hafi sótt um alþjóðlega vernd í öðru landi.
Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir má ráða að þrátt fyrir að ótryggt ástand ríki á ákveðnum landsvæðum í heimaríki kæranda þá teljast svæðið þar sem kærandi hafði búsetu öruggt svæði. Kærunefnd óskaði eftir nákvæmari upplýsingum um hvar kærandi hafi búið og starfað á árunum eftir að hann missti heimili sitt og þar til hann yfirgaf heimaríki sitt. Kærandi kvaðst í tölvubréfi, dags. 24. febrúar 2023, hafa hafist við í einn mánuð í tjaldi en síðan leigt herbergi í [...] og búið þar. Hann hafi starfað sem bílstjóri hjá fyrirtækinu [...]. frá 2014 til apríl 2017 og síðan hjá fyrirtækinu [...]frá maí 2017 til 13. júní 2019. Í kjölfarið kveðst kærandi hafa verið settur í varðhald vegna mótmæla og sendur til Xinjiang 14. ágúst 2019. Með vísan til þess að frásögn kæranda um að hann hafi verið látinn búa í Xinjiang var ekki lögð til grundvallar í máli hans. og til fyrri umfjöllunar um aðstæður kæranda er það niðurstaða kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að almennar og félagslegar aðstæður sem bíða kæranda í heimaríki nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um.
Kærandi kveður sig vera við góða heilsu. Eins og fram hefur komið hefur hann greint frá því að hann hafi verið starfandi og búið í leiguhúsnæði í heimaríki. Ekkert hefur komið fram sem bendir til annars en að hann sé vinnufær og fær um að framfleyta sér í heimaríki.
Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði 38. gr. og 39. gr. laganna. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 22. desember 2019. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 2. mars 2023, eru liðnir 38 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Í a-til d-lið 3. mgr. 74. gr. laganna koma fram til skilyrði sem standa í vegi fyrir veitingu dvalarleyfis á samkvæmt 2. mgr. 74. laganna. Í b-lið ákvæðisins kemur fram að ef útlendingur hefur dvalist á ókunnum stað í meira en tvær vikur eða hefur yfirgefið landið án leyfis skuli ákvæði 2. mgr. ekki eiga við. Þá kemur fram í d-lið ákvæðið eigi ekki við ef útlendingur á sjálfur þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.
Útlendingastofnun ákvað þann 2. júní 2020 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 278/2020, dags. 20. ágúst 2020. Kærandi var skráður horfinn hjá Útlendingastofnun frá 12. október 2020 og bentu gögn til þess að kærandi hefði flogið til Kaupmannahafnar 13. október 2020. Hinn 25. mars 2022 óskuðu dönsk stjórnvöld eftir gögnum vegna málsmeðferðar kæranda á Íslandi og voru gögn send samdægurs. Hinn 31. mars 2022 kom kærandi á Bæjarhraun 18 og óskaði eftir því að fá vegabréf sitt afhent. Hinn 7. apríl 2022 var óskað eftir gögnum frá Danmörku og þann sama dag var mál kæranda tekið til efnislegrar meðferðar hér á landi sökum þess að frestur til flutnings var fallinn niður. Með ákvörðun, dags. 28. nóvember 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Af framangreindu er ljóst að kærandi fór af landinu án heimildar og leiddi það til þess að ekki var hægt að flytja hann til Frakklands á grundvelli framangreinds úrskurðar kærunefndar. Eiga því b- og d- liðir 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga við um kæranda og ekki eru ástæður til þess að víkja frá þeim ákvæðum á grundvelli 4. mgr. 74. gr. laganna. Uppfyllir kærandi því ekki skilyrði 2. mgr. 74. gr. laganna og verður ekki veitt dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar
Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. við mat stofnunarinnar á trúverðugleika frásagnar hans og umfjöllun stofnunarinnar um aðstæður kæranda í heimaríki.
Eins og fram hefur komið hefur kærunefnd fjallað ítarlega um trúverðugleika frásagnar kæranda og hvernig hún kemur saman við upplýsingar um heimaríki hans. Er það mat kærunefndar að umfjöllun um trúverðugleika frásagnar hans hafi verið metin með fullnægjandi hætti. Eins og fram hefur komið sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi 22. desember 2019 og voru því liðnir 35 mánuðir frá því kærandi lagði fram umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi þegar Útlendingastofnun kvað upp úrskurð sinn hinn 28. nóvember 2022. Að mati kærunefndar hefði Útlendingastofnun borið að gera grein fyrir því hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir að fá dvalarleyfi með vísan til 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd hefur bætt úr þeim annmarka á æðra stjórnsýslustigi og er ljóst að atvik í máli kæranda séu slík að þessi annmarki á ákvörðun Útlendingastofnunar hafði ekki áhrif á efnislega niðurstöðu í máli kæranda.
Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun að öðru leyti og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana. Hefur kærunefnd skoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 22. desember 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda bendi allt til þess að hann hafi verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.
Kærandi er við góða heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decision of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.
Tómas Hrafn Sveinsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir