Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vegna umfjöllunar í Fréttablaðinu um rekstur Lyfjastofnunar

Í tilefni af umfjöllun Fréttablaðsins mánudaginn 20. janúar 2014, um rekstur Lyfjastofnunar, er rétt að vekja athygli á því að á árunum fyrir hrun réðst stofnunin í aukin verkefni.

Gjaldskrá Lyfjastofnunar var lág sem leiddi til aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu hennar en jafnframt mikils halla á rekstrinum. Reynslan af auknu umfangi hefur því ekki verið að öllu leyti jákvæð og hefur rík áhersla verið lögð á að farið sé í ýtarlega áætlanagerð áður en auknar fjárheimildir eru veittar.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur á síðustu misserum átt fundi með fulltrúum velferðarráðuneytisins og fulltrúum Lyfjastofnunar um málefni stofnunarinnar. Þar hefur meðal annars komið skýrt fram að velferðarráðuneytið beri ábyrgð á því að yfirfara rekstraráætlanir stofnunarinnar og meta hvort þær séu raunhæfar.

Við 2. umr. fjárlaga 2014 lauk velferðarráðuneytið yfirferð á áætlunum stofnunarinnar og voru í kjölfarið lagðar fram tillögur um aukin framlög til hennar. Við slíka yfirferð er  m.a. horft til þess hver þróun í fjölda verkefna verður og hvort sú tekjuöflun sem af þeim hlýst sé raunhæf. Fallist var á að veita Lyfjastofnun 42,9 m.kr. aukið framlag á árinu 2014 til að vinna að nýjum verkefnum á móti samsvarandi hækkun á ríkistekjum. Ætla má að það framlag dugi til að ráða 3-4 nýja sérfræðinga til stofnunarinnar á árinu 2014.  Þess má einnig geta að árið 2010 voru fjárheimildir Lyfjastofnunar auknar um 226,5 m.kr. en með því var verið að færa fjárheimildir fjárlaga að raunverulegri veltu stofnunarinnar.
 
„Það er mjög spennandi að kanna hvort Lyfjastofnun hafi möguleika á að veita fyrirtækjum í lyfjaiðnaði frekari þjónustu, en tryggja verður að til grundvallar auknum umsvifum liggi traustar rekstraráætlanir til næstu ára," segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta