Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 44/2012

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 12. febrúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 44/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 12. desember 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar hafi hann verið staddur erlendis frá 28. mars til 13. ágúst 2011 og hafi því ekki uppfyllt skilyrði þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur á því tímabili skv. c-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Í lagaákvæðinu kemur fram að almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna sé að vera búsettur og staddur hér á landi. Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda jafnframt, með vísan til 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að þar sem hann hafi látið hjá líða að veita upplýsingar skv. h-lið 1. mgr. 14. gr., eða um annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, skuli hann ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Kæranda var enn fremur tilkynnt að ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem hann fékk á framangreindu tímabili á meðan hann var erlendis yrðu innheimtar skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðuninni og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 17. janúar 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 2. febrúar 2011.

 

Samkvæmt upplýsingum frá tollyfirvöldum var kærandi staddur erlendis á tímabilinu 28. mars til 13. ágúst 2011. Jafnframt liggur fyrir að kærandi fór úr landi 25. október 2011. Í kjölfarið var kæranda sent bréf 15. nóvember 2011 frá eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar þar sem óskað var eftir skýringum á dvöl hans erlendis.

 

Engar skýringar bárust innan tilskilins frests frá kæranda og á fundi Vinnumálastofnunar þann 1. desember 2011 var sú ákvörðun tekin að fella niður bótarétt kæranda frá og með 12. desember 2011 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðun þessi var tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Þann 5. desember 2011 bárust stofnuninni skriflegar skýringar frá kæranda á dvöl sinni erlendis. Þar kemur fram að í fyrra skiptið hafi kærandi farið erlendis í flýti til að aðstoða systur sína við að komast undir læknishendur og í seinna skiptið fór kærandi út til að vera viðstaddur útför hennar og til að veita fjölskyldu sinni aðstoð í kjölfar andlátsins.

 

Á grundvelli nýrra gagna var mál kæranda tekið upp aftur í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Með bréfi, dags. 15. desember 2011, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun í máli hans yrði staðfest þar sem ekki hafi komið fram nýjar upplýsingar sem gæfu tilefni til nýrrar ákvörðunar í máli hans. Var kæranda í sama bréfi leiðbeint um rétt sinn til endurupptöku á málinu, heimild sinni til að óska eftir rökstuðningi stofnunarinnar á ákvörðun þessari sem og um kæruheimild sína til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 17. janúar 2012.

 

Í bréfi kæranda, dags. 17. janúar 2012, kveðst hann á umræddu tímabili hafa tvisvar þurft að fara erlendis með mjög skömmum fyrirvara. Í fyrra skiptið til að koma systur sinni sem bjó á B undir læknishendur í C þar sem hún hafi greinst með krabbamein og þurft samstundis að komast í meðferð. Í síðara skiptið hafi hann þurft að undirbúa útför hennar og aðstoða fjölskylduna á erfiðri stundu.

 

Kærandi krefst þess að Vinnumálastofnun sjái sóma sinn í því að fella niður úrskurð um endurgreiðslu atvinnuleysistrygginga yfir umrætt tímabil. Í framhaldinu greiði kæranda þær aftur út þar sem kærandi hafi ekki séð annan kost í stöðunni en að taka yfirdráttarlán til að komast hjá dráttarvöxtum og innheimtukostnaði frá Vinnumálastofnun vegna þessarar ákvörðunar hennar.

 

Rökstuðning sinn kveður kærandi vera þann að hann hafi þurft að fara út að aðstoða systur sína. Þann tíma sem hann hafi verið erlendis hafi farið í að undirbúa og flytja hana til C þar sem hún hafi undirgengist meðferð við meininu. Á því tímabili hafi hann haldið áfram að vera virkur í atvinnuleit og tekið þá ákvörðun að afla sér meiri menntunar og réttinda. Þegar kærandi kom aftur heim um sumarið hafi hann hafið nám við ökuskóla og klárað um haustið meiraprófið með réttindi á vörubíl, leigubíl og hópferðabíl.

 

Næsta skref hafi verið að nýta réttindin og fá atvinnu við akstur, en þá hafi honum borist sú frétt að systur hans hefði hrakað hratt og áður en hann náði til hennar hafi hún látist. Ásamt því að sjá um og vera viðstaddur útför hennar þá hafi kærandi aðstoðað fjölskylduna með næstu skref en þar sem systir hans hafði verið einstæð móðir sé það hægara sagt en gert.

 

Síðustu 30 árin hafi kærandi búið á Íslandi, stofnað og komið upp fjölskyldu og liðið mjög vel. Ætlun kæranda hafi verið að vera þar áfram en í ljósi atburða síðustu missera og stöðu ættingja sinna þá gæti hann þurft að vera þeim innan handar eitthvað lengur.

 

Kærandi kveðst skilja fullkomlega að á meðan staðan sé sú að hann dveljist erlendis um stund til að aðstoða ættingja sína þá geti hann ekki verið skráður á atvinnuleysisbætur heima á Íslandi. En kærandi vonast eftir að mæta skilningi þegar hann komi heim aftur ef þurfa þyki á aðstoð við atvinnuleit.

 

Að lokum vonast kærandi til þess að fyrrgreindri niðurstöðu Vinnumálastofnunar verði hnekkt og dregin til baka ósk um endurgreiðslu á útborguðum atvinnuleysisbótum því hann trúir því ekki að „við viljum lifa í þjóðfélagi þar sem svona er komið fram við þegna landsins“. Kærandi kveðst hafa endurgreitt þá fjárhæð sem Vinnumálastofnun hafi falist eftir til að komast hjá innheimtukostnaði og óhjákvæmilegum óþægindum vegna þess með því að taka yfirdrátt hjá viðskiptabanka sínum. Því sé augljóst að kæranda sé það mjög í mun að fá jákvæða niðurstöðu í þetta mál annars gæti hann átt von á því að lenda í erfiðleikum með að gera upp þennan yfirdrátt algjörlega tekjulaus.

 

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 23. maí 2012, vísar Vinnumálastofnun til c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysisbóta þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Vinnumálastofnun vísar einnig til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar, en atvinnuleitanda beri skylda til þess að upplýsa Vinnumálstofnun um allar þær breytingar sem kunni að verða á högum hans eða annað sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Stofnunin bendir á að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar, komi meðal annars fram að láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálstofnun þessar upplýsingar komi til álita að beita viðurlögum skv. 1. mgr. 59. gr. laganna.

 

Vinnumálastofnun áréttar að í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Á vef Vinnumálastofnunar sé að finna þessar upplýsingar undir liðnum „réttindi og skyldur“. Þar komi fram að ekki sé heimilt að dvelja erlendis ásama tíma og umsækjandi þiggur atvinnuleysisbætur nema hafa sótt um E-303 vottorð.

 

Í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög við brotum á þessari upplýsingaskyldu hins tryggða. Í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistrygginga sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjanda um atvinnuleysisbætur að vera í virkri atvinnuleit. Sé það jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Það sé óumdeilt að kærandi hafi verið staddur erlendis á sama tíma og hann hafi verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun. Samkvæmt upplýsingum frá tollyfirvöldum hafi kærandi verið staddur erlendis á tímabilinu 28. mars til 13. ágúst 2011.

 

Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrirfram um utanlandsferð sína, líkt og honum hafi borið að gera skv. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun tekur fram að margsinnis hafi verið vakin athygli á því að eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi og að ótilkynntar ferðir til útlanda séu óheimilar meðfram töku atvinnuleysistrygginga. Einu undanþágurnar frá skilyrðum c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna í VIII. kafla laganna. Sérstaklega sé vakin athygli á framangreindum atriðum á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þá vekur Vinnumálastofnun athygli á því að í þeim tilvikum sem stofnuninni sé tilkynnt um slíkar ferðir fyrirfram sé atvinnuleitanda gerð grein fyrir því að, nema fyrir liggi E-303 vottorð hjá stofnuninni, fái hann ekki greiddar atvinnuleysisbætur á meðan hann dvelst erlendis.

 

Það sé mat Vinnumálastofnunarinnar að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er hafi haft bein áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysisbóta.

 

Af framangreindu leiði að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistrygginga á umræddu tímabili. Hafi því kæranda borið að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 599.109 kr. að viðbættu 15% álagi í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laganna.

 

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, sbr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laganna.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. maí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 13. júní 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 


 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

 

Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

 

Þetta ákvæði þarf meðal annars að túlka með hliðsjón af því að eitt af skilyrðum þess að geta haldið rétti sínum í atvinnuleysistryggingakerfinu er að vera búsettur og staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Fram hefur komið í máli Vinnumálastofnunar að veittar séu upplýsingar um framangreind atriði meðal annars á heimasíðu stofnunarinnar. Þar segir meðal annars að atvinnuleitandi skuli upplýsa Vinnumálastofnun tafarlaust um allar breytingar sem verða á högum sínum og kunna að hafa áhrif á rétt hans á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur. Einnig verður til þess að líta að tíðkanlegt er að launþegar upplýsi vinnuveitendur sínar um fjarvistir vegna dvalar erlendis en réttarsamband atvinnuleitanda og Vinnumálastofnunar er um sumt eðlislíkt því sem er á milli launþega og vinnuveitanda.

 

Kærandi hefur staðfest að hann var staddur erlendis frá 28. mars til 13. ágúst 2011, en hann tilkynnti Vinnumálastofnun ekki fyrirfram að hann yrði ekki staddur á landinu á umræddu tímabili. Kærandi hefur fært fram þau rök að honum hafi láðst að tilkynna um fjarveru sína vegna alvarlegra fjölskylduaðstæðna erlendis. Engum gögnum er til að dreifa sem varpa rýrð á frásögn kæranda á sínum aðstæðum og upp að vissu marki er skiljanlegt að hann hafi ekki látið Vinnumálastofnun vita af þessum breyttu högum sínum. Eigi að síður er það svo að framangreindar lagareglur mæla fyrir um skipulag þar sem atvinnuleitenda ber ávallt að veita Vinnumálastofnun upplýsingar sem hafa verulega þýðingu við mat á því hvort atvinnuleitandi uppfylli skilyrði þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Þannig má öllum atvinnuleitendum vera ljóst að það samrýmist ekki skyldum þeirra að fara af landi brott svo mánuðum skiptir án þess að upplýsa Vinnumálastofnun fyrir fram um slíkar breytingar á högum sínum. Auðsýnt er að kæranda stóð til boða að upplýsa Vinnumálastofnun um sínar aðstæður, hvort sem það væri gert fyrir fram eða skömmu eftir að hann fór af landi brott.

 

Í ljósi framangreinds verður fallist á að rétt hafi verið af Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 59. gr. laganna.

 

Að auki bar kæranda að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hann þáði meðan hann var staddur erlendis og uppfyllti ekki skilyrði um greiðslu atvinnuleysisbóta, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi þegar endurgreitt umkrafðar ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

 

Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

 


 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um að hann skuli sæta biðtíma í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, 12. desember 2011, er staðfest. Einnig er staðfest sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að kæranda hafi borið að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 599.109 kr. með viðbættu 15% álagi.

 

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta