Hoppa yfir valmynd
23. desember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Aukin áhersla á tölfræði í ferðaþjónustu

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherrahefur endurnýjað þjónustusamning við Hagstofu Íslands um gerð ferðaþjónustureikninga til næstu þriggja ára.

Markmið samningsins er að tryggja að áhrif ferðaþjónustu, sem undirstöðuatvinnugreinar í íslensku efnahagslífi, verði metin með tímanlegum hætti þannig að áætlanir stjórnvalda geti tekið mið af þeim og samanburður fáist á vægi atvinnugreinarinnar milli landa, samkvæmt aðferðafræði ferðaþjónustureikninga.

Ferðaþjónustureikningar eru hliðarreikningar við þjóðhagsreikninga og birtir Hagstofa Íslands niðurstöður ferðaþjónustureikninga árlega.

Samkvæmt samningnum skulu niðurstöður ferðaþjónustureikninga birtar almenningi á aðgengilegan hátt, þannig að unnt verði að nýta þær tölfræðilegu upplýsingar sem fram koma í þeim.

Ferðaþjónustureikningar taka m.a. til útgjalda erlendra og innlendra ferðamanna, framleiðsluvirðis, neyslu, fjölda starfandi, starfa og vinnustunda.

Á fundi ráðherra með Hagstofustjóra, Hrafnhildi Arnkelsdóttur, var farið yfir mikilvægi áreiðanlegrar og uppfærðrar tölfræði og tölulegra gagna fyrir ferðaþjónustu, m.a. í ljósi þjóðhagslegrar stærðar greinarinnar og þeirrar stefnumótunar sem framundan er.

"Áreiðanlegar og skýrar tölfræðilegar upplýsingar eru forsenda fyrir rannsóknir, greiningu gagna og stefnumótun, jafnt í ferðaþjónustu sem öðrum lykilatvinnugreinum þjóðarinnar. Mikilvægt er að efla þessa þætti og styrkja samstarf við Hagstofuna á þessu sviði," segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Samningurinn er til þriggja ára og næstu þrjú árin, eða til ársloka 2025, verður unnið að því að birta allar töflur ferðaþjónustureikninga, bæta og nýta tiltækar upplýsingar og tiltæk gagnasöfn, til að styrkja undirstöður reikninganna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta