25 milljónir til neyðar- og mannúðaraðstoðar í Sýrlandi
Utanríkisráðherra hefur ákveðið að veita tæplega 25 milljónum íslenskra króna til neyðar- og mannúðaraðstoðar á vegum Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi en blóðugt borgarastríð geisar nú í landinu sem talið er hafa kostað sextíu þúsund manns lífið. Þá er Ísland meðal 57 ríkja sem sameiginlega hafa ritað öryggisráði Sameinuðu þjóðanna bréf þar sem formlega er hvatt til þess að ráðið vísi málefnum Sýrlands til Alþjóðasakamáladómstólsins á þeirri forsendu að kerfisbundin mannréttindabrot, sem framin hafi verið í landinu undanfarin tvö ár, kunni að reynast glæpir gegn mannkyni.
Sérstök rannsóknarnefnd á vegum mannréttindaráðs S.þ. fjallaði á síðasta ári um ástandið í Sýrlandi og lýsti þá aftökum án dóms og laga, óréttmætum handtökum, mannshvörfum og pyntingum, þ.m.t. pyntingum sem fólu í sér kynferðisofbeldi, sem og ofbeldi gegn börnum. Meginábyrgð var í skýrslu rannsóknarnefndarinnar lýst á hendur ríkisstjórn Bashars al-Assads og vopnuðum hópum hliðhollum forsetanum en þó var einnig komist að þeirri niðurstöðu að stjórnarandstöðufylkingar hafi gerst sekar um voðaverk.
Í bréfi til öryggisráðsins, sem Sviss skrifar undir fyrir hönd fimmtíu og sjö aðildarríkja S.þ. þ.m.t. Íslands, er lögð áhersla á að draga verði til ábyrgðar þá sem bera ábyrgð á hugsanlegum glæpum gegn mannkyni í Sýrlandi, hvort sem þar sé um að ræða fylgismenn Assads forseta eða stjórnarandstæðinga. Alþjóðasamfélagið í formi öryggisráðsins verði hið minnsta að senda sýrlenskum stjórnvöldum, sem og öðrum stríðandi fylkingum, skýr skilaboð um að halda beri í heiðri þær reglur skv. alþjóðlegum mannúðarrétti sem gildi um framgöngu stríðsaðila í vopnuðum átökum.
Gríðarlegur fjöldi fólks líður nú skort vegna ástandsins í Sýrlandi og jafnframt hafa hundruð þúsunda Sýrlendinga flosnað upp frá heimilum sínum, en þar af hafa margir flúið til nærliggjandi landa, einkum Tyrklands, Líbanons og Jórdaníu. Hjálparstofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa nýverið kallað eftir frekari stuðningi en erfiðlega hefur gengið að brauðfæða þá sem eiga um sárt að binda og þá hefur mikið kuldakast í Mið-Austurlöndum haft slæm áhrif á aðstæður flóttafólks.
Utanríkisráðherra hefur með þetta í huga ákveðið að leggja 11,6 m.kr. til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) til stuðnings sýrlenskum börnum á landamærum Sýrlands og Jórdaníu; auk þess sem 6,5 milljónir renna til Flóttamannahjálpar S.þ. (UNHCR) til aðstoðar þeim sem eru á vergangi innan Sýrlands. Þá verður 6,5 m.kr. varið til að styrkja Palestínuflóttamannaaðstoð S.þ. (UNRWA) í Líbanon sem nú veitir palestínskum flóttabörnum frá Sýrlandi ýmsa nauðsynlega grunnþjónustu.