Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2013 Utanríkisráðuneytið

Samkomulag um afmörkun landgrunns vestan Reykjaneshryggjar milli Íslands og Grænlands

Samkomulag um afmörkun landgrunns utan 200 sjómílna vestan Reykjaneshryggjar milli Íslands og Grænlands var undirritað í Reykjavík og Kaupmannahöfn í dag af Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra, Villy Søvndal, utanríkisráðherra Danmerkur, og Kuupik Kleist, formanni landsstjórnar Grænlands. Samkomulagið er niðurstaða jákvæðra samningaviðræðna þessara nágrannalanda undanfarna mánuði og er til marks um náið og gott samstarf þeirra.  

Ísland skilaði 29. apríl 2009 hlutagreinargerð til landgrunnsnefndar S.þ. um ytri mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna í Ægisdjúpi í suðurhluta Síldarsmugunnar og á vestur- og suðurhluta Reykjaneshryggjar. Greinargerðin náði ekki til hins umdeilda Hatton Rockall-svæðis í suðri, sem er hluti af íslenska landgrunninu en Bretland, Írland og Danmörk f.h. Færeyja gera einnig tilkall til, né austurhluta Reykjaneshryggjar sem skarast við það svæði.

Dönsk stjórnvöld upplýstu utanríkisráðuneytið um það sl. vetur að við undirbúning greinargerðar Danmerkur til landgrunnsnefndarinnar um ytri mörk landgrunnsins suður af Grænlandi utan 200 sjómílna, sem skilað var 14. júní 2012, hefði komið í ljós lítils háttar skörun við landgrunn Íslands vestan Reykjaneshryggjar. Í framhaldi af því var efnt til viðræðna landanna með það fyrir augum að leysa málið og kom þá í ljós að skörunarsvæðið nam um 22.000 km². Til samanburðar er það landgrunn sem Ísland gerir tilkall til utan 200 sjómílna í heild um 1.400.000 km² að stærð.

Samkomulagið milli Íslands og Danmerkur/Grænlands er byggt á sama grunni og samkomulag milli Íslands, Danmerkur/Færeyja og Noregs um skiptingu landgrunns utan 200 sjómílna í suðurhluta Síldarsmugunnar frá árinu 2006. Afmörkun umrædds svæðis vestur af Reykjaneshrygg er með fyrirvara um að aðilum takist hvorum um sig með greinargerð til landgrunnsnefndarinnar að sýna fram á tilkall til síns hluta samkvæmt samkomulaginu. Gert er ráð fyrir að aðilar skuli svo fljótt sem verða má, og seinast þremur mánuðum eftir að málsmeðferð þeirra gagnvart landgrunnsnefndinni er lokið, ganga frá formlegum tvíhliða samningi þar sem kveðið verði endanlega á um afmörkun landgrunnsins þeirra á milli. Aðilar hafa þegar komið sér saman um fyrirmynd að tvíhliða samningnum og fylgir hún samkomulaginu.

Samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna eiga strandríki sjálfkrafa landgrunn að 200 sjómílum sem eru jafnframt ytri mörk efnahagslögsögunnar. Mörg ríki, þ.á m. Ísland, eiga hins vegar víðáttumeira landgrunn samkvæmt ákvæðum hafréttarsamningsins. Viðkomandi ríki skulu senda landgrunnsnefndinni ítarlega greinargerð um mörk landgrunnsins utan 200 sjómílna og yfirfer nefndin greinargerðina, leggur tæknilegt mat á hana og gerir tillögur um ytri mörk landgrunnsins. Á grundvelli tillagna nefndarinnar getur strandríkið ákveðið á endanlegan og bindandi hátt mörk landgrunnsins gagnvart alþjóðlega hafsbotnssvæðinu sem liggur þar fyrir utan.

Ísland mun í lok þessa mánaðar kynna greinargerð sína fyrir landgrunnsnefnd S.þ. í New York og í framhaldi af því eiga fundi með sérstakri undirnefnd sem nýlega var skipuð til að yfirfara greinargerð Íslands. Brýnt var að ganga áður frá samkomulaginu við Danmörku/Grænland enda er landgrunnsnefndin ekki bær til að fjalla um greinargerðir einstakra ríkja er lúta að umdeildum landgrunnssvæðum.  

 Samkomulagið, sem hefur m.a. að geyma myndir af umræddu svæði, má finna hér. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta