Fastaskrifstofa Norðurskautsráðsins stofnuð í Tromsø
Í dag undirrituðu Espen Barth Eide utanríkisráðherra Noregs og Magnús Jóhannesson, nýr framkvæmdastjóri fastaskrifstofu Norðurskautsráðsins, samkomulag um stofnun fastaskrifstofunnar í Tromsø , Noregi, við hátíðlega athöfn. Norðurlöndin ásamt Bandaríkjunum, Kanada og Rússlandi eru aðilar að Norðurskautsráðinu sem var stofnað 1996.
Skrifstofan mun sinna upplýsingagjöf, skipulagningu funda og samhæfingu fyrir ráðið og vísindalega starfshópa þess. Stofnun skrifstofunnar er mikilvægur liður í að styrkja vægi ráðsins í alþjóðlegri umræðu og ákvarðanatöku í málefnum norðurslóða, sem er forgangsmál í norðurslóðastefnu Íslands.
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, var viðstaddur undirskriftina í tengslum við alþjóðlega ráðstefnu um norðurslóðir, Arctic Frontier, þar sem hann flytur erindi um málefni hafsins á morgun.