Mál nr. 63/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 63/2023
Miðvikudaginn 24. maí 2023
A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með kæru, dags. 1. febrúar 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 9. janúar 2023, um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi varð fyrir vinnuslysi X. Tilkynning um slys, dags. 2. júlí 2019, barst Sjúkratryggingum Íslands sem samþykktu bótaskyldu. Með ákvörðun, dags. 28. október 2020, mat stofnunin varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 9%. Kærandi óskaði eftir endurupptöku og lagði fram matsgerð C læknis, dags. 3. desember 2020. Sjúkratryggingar Íslands endurupptóku málið og með ákvörðun, dags. 9. janúar 2023, var kæranda tilkynnt að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins hefði verið metin 10%.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 3. febrúar 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 28. febrúar 2023, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. mars 2023. Engar athugasemdir bárust.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um varanlega læknisfræðilega örorku verði endurskoðuð og að tekið verði mið af matsgerð C læknis við mat á læknisfræðilegri örorku kæranda, þ.e. 12%.
Í kæru er greint frá því að kærandi hafi orðið fyrir slysi með þeim hætti að hann hafi verið við vinnu sína fyrir E. þann X og hafi verið að saga timbur með hjólsög þegar vinstri hönd hans hafi lent í söginni. Í slysinu hafi kærandi orðið fyrir meiðslum.
Slysið hafi verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda samþykkt. Með bréfi frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 28. október 2020, hafi kæranda verið tilkynnt sú ákvörðun stofnunarinnar að ekki yrði um greiðslu örorkubóta að ræða í tilviki kæranda þar sem örorka hans vegna slyssins hafi verið metin minni en 10%, eða 9%. Meðfylgjandi hafi verið matsniðurstaða D, tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands. Þá hafi einnig legið fyrir matsgerð C læknis, sem aflað hafi verið gagnvart tryggingafélagi, en þar hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 12%. Því hafi verið óskað eftir endurupptöku á ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands og að mat C læknis yrði lagt til grundvallar nýrri ákvörðun með tölvupósti, dags. 7. desember 2020.
Með bréfi frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 9. janúar 2023, hafi verið tilkynnt sú ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að varanlega örorka kæranda væri hæfilega ákveðin 10%. Sú ákvörðun stofnunarinnar hafi verið rökstudd á þann veg að forsendum örorkumats væri rétt lýst í báðum matsgerðum þótt getið væri um heldur meiri truflun á skyni í matsgerð C en í matsgerð D, meðal annars að slysið hefði haft áhrif á báðar skyntaugar baugfingurs kæranda.
Kærandi geti á engan hátt sætt sig við framangreinda niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands og telji afleiðingar slyssins hafa verið of lágt metnar af Sjúkratryggingum Íslands.
Kærandi hafi upphaflega gengist undir örorkumat vegna slysatryggingar en með matsgerð C læknis, dags. 3. desember 2020, hafi kærandi verið metinn með 12% varanlega læknisfræðilega örorku. Um sé að ræða ítarlega og vel rökstudda matsgerð þar sem meðal annars sé tekið mið af því að hámarks varanleg læknisfræðileg örorka fyrir áverka á löngutöng og baugfingur sé 17%. Við matið hafi verið lagt til grundvallar að kærandi hafi hlotið eftirtalin einkenni sem séu:
- Veruleg kulvísi í fingrum vinstri handar.
- Verkir og stífleiki í fingrum vinstri handar.
- Mikil viðkvæmni í stúfenda löngutangar vinstri handar.
- Engin hreyfigeta í fjærkjúkulið baugfingurs vinstri handar.
- Verulega skert gripgeta vinstri handar.
- Slæm áhrif á andlega heilsu.
Með matsgerð D tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands, dags. 18. september 2020, hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda hins vegar aðeins verið metin 9%. Lýst sé eftirtöldum einkennum sem séu:
- Mikil viðkvæmni í baugfingri vinstri handar.
- Dofi og verkir í baugfingri vinstri handar.
- Veruleg kulvísi í öllum fingrum vinstri handar.
- Viðkvæmur stúfendi litlafingurs og þumals vinstri handar.
Kærandi telji ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands ranga og byggi á því að læknisfræðileg örorka hans hafi verið of lágt metin í matsgerð tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands. Miða beri við þær forsendur og niðurstöður sem fram komi í matsgerð C læknis. Þau meiðsli sem kærandi hafi verið greindur með strax eftir slysið, hafi verið að bein væri nánast allt farið úr fjarkjúku löngutangar og að stytta þyrfti þann fingur. Mat læknis Sjúkratrygginga Íslands taki hins vegar mið af því að kærandi sé rétthentur en ólíkt C virðist ekki tekið mið af því að afleiðingar áverkanna séu allar bundnar við sömu hönd og þess að afleiðingar hvers áverka um sig magni upp áhrif afleiðinga annarra áverka. Hafi hann því látið hjá líða að meta kæranda læknisfræðilega örorku vegna annarra einkenna, svo sem áhrif á báðar skyntaugar baugfingurs.
Með vísan til framangreinds telji kærandi óforsvaranlegt að leggja til grundvallar niðurstöðu örorkumats tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands um að varanleg læknisfræðileg örorka kæranda sé hæfilega ákveðin 10% þegar litið sé til þess að viðbætt áhrif á báðar skyntaugar baugfingurs hafi einungis numið 1%. Einnig bendi kærandi á það að allir þeir áverkar sem um ræði séu á sömu hönd og því sé engan veginn hægt að leggja saman á hefðbundinn hátt afleiðingar áverkanna líkt og tekið sé sérstaklega fram í matsgerð C. Einnig verði að telja afleiðingar áverkanna meiri fyrir kæranda en marga aðra þegar horft sé til þess að hann starfi sem smiður. Frekar skuli taka mið af matsgerð C læknis við mat á læknisfræðilegri örorku kæranda, þ.e. 12%. Matsgerð C sé mun betur rökstudd.
Með vísan til þessa sem og gagna málsins kæri kærandi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um varanlega læknisfræðilega örorku hans samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga og krefjist þess að tekið verði mið af matsgerð C læknis við mat á læknisfræðilegri örorku hans, þ.e. 12%.
III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands
Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að með ákvörðun, dags. 17. júlí 2019, hafi stofnunin samþykkt umsókn kæranda um slysabætur. Með ákvörðun, dags. 28. október 2020, hafi kærandi verið metinn til 9% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku vegna þess slyss sem hann hafi orðið fyrir þann X. Sjúkratryggingar Íslands hafi sent kæranda bréf, dags. 30. október 2020, þar sem tilkynnt hafi verið að ekki yrði um greiðslu örorkubóta að ræða þar sem samanlögð örorka vegna eins eða fleiri slysa, sem bótaskyld væru hjá Sjúkratryggingum Íslands, næði ekki 10%, sbr. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 45/2015. Þann 7. desember 2020 hafi kærandi óskað eftir endurupptöku og lagt fram matsgerð C læknis sem aflað hafi verið í tengslum við uppgjör gagnvart tryggingafélagi. Þann 9. janúar 2023 hafi málið verið endurupptekið og kæranda send ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands þar sem varanleg læknisfræðileg örorka samkvæmt 12. gr. laga nr. 45/2015 vegna slyssins hafi verið ákvörðuð 10%. Sú ákvörðun sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að Sjúkratryggingum Íslands hafi borist matsgerð Magnúsar Páls Albertssonar læknis vegna slyssins, dags. 3. desember 2020, ásamt beiðni um endurupptöku. Tryggingalæknir Sjúkratrygginga Íslands hafi yfirfarið matsgerð Magnúsar Páls með hliðsjón af öðrum fyrirliggjandi gögnum, þar með talið tillögu Guðna Arinbjarnar læknis, dags. 18. september 2020. Það sé niðurstaða stofnunarinnar að í matsgerð Magnúsar og tillögu Guðna sé forsendum örorkumats rétt lýst. Þó sé getið um heldur meiri truflun á skyni í matsgerð Magnúsar en komi fram í tillögu Guðna, meðal annars áhrif á báðar skyntaugar baugfingurs. Með hliðsjón af fyrri ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að viðbættum áhrifum á báðar skyntaugar baugfingurs, sbr. VII.A.e.3.4.1. í miskatöflum örorkunefndar hafi málið því verið endurupptekið. Sjúkratryggingar Íslands byggi ákvörðun sína um læknisfræðilega örorku samkvæmt 12. gr. laga nr. 45/2015 vegna slyssins á framangreindu.
Með vísan til framangreinds sé það mat Sjúkratrygginga Íslands að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins teljist hæfilega ákveðin 10%.
Ekki hafi verið lögð fram ný gögn fyrir nefndina sem taka þurfi afstöðu til. Að öllu virtu beri því að staðfesta þá afstöðu Sjúkratrygginga Íslands, sem gerð hafi verið grein fyrir hér að framan, og staðfesta hina kærðu ákvörðun um 10% varanlega læknisfræðilega örorku.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X. Með ákvörðun, dags. 9. janúar 2023, mátu Sjúkratryggingar Íslands varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 10%.
Í bráðamótttökuskrá frá X, segir um slysið:
„Saga
A er X ára gamall karlmaður sem kemur á SBD í dag. Hann var að vinna við […] þegar hann missti hjólsögina þannig að hún sló til baka og fer yfir löngutöng og baugfingur vinstri handar. Hann kemur hér í beinu framhaldi.
Skoðun
Hann er með opinn liðáverka, dorsalt yfir DIP-lið löngutangar en húðflipi er nokkuð lífvænlegur en nögl er farin af. Maður sér og skolar niður í liðinn sjálfan.
Djúpur skurðáverki sem nær meira ulnart og volart á miðkjúku baugfingurs distalt en þó ekki þvert yfir volart. Sennilega ekki flexor sinaskaði. Spurning um extention sin og skaða þar. Ekki áverkar á öðrum fingrum.
Rannsóknir
RTG hönd/fingur, vinstri
The distal phalang of the middle finger has been shattered. No fracture demonstrated in the middle finger middle phalang.
There is also a comminuted intraauricular fracture distally in the middle phalang of the ring finger.
There is a non-displaced spiral compononent to this fracture with fizzure lines reaching to the medial proximal metaphysis.
No other fractures demonstrated.
There is a radiodense, rectangular particle in the soft tissue of the ring finger laterally adjacent to the fracture site. Most likely a foreign body.
Álit og áætlun
Meðferð:
Blokkdeyfing í löngutöng ogh baugfingur með 5% Marcain.
Hann fær sýklalyf 2 gr. Ekvacillin iv og stífkrampaprautu
Við fáum röntgenmynd eftir að hann er staðdeyfður með Lidocain í löngutöng og baugfingur. Búið er um þetta til bráðabirgða með sáragrisjum fram yfir röntgenmyndatöku eftir skol með saltvatnssprautun.
Send er beiðni til handarskurðlækna til meðferðar og ætla þeir að taka hann til aðgerðar á skurðstofu seinna í dag. Verður fastandi.“
Í tillögu D læknis að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku vegna slyss, dags. 18. september 2020, segir svo um skoðun á kæranda 17. september 2020:
„A kveðst vera rétthentur. Það er ekki að sjá aflaganir á höndum aðrar en þær að það er um að ræða stúfhögg á löngutöng vinstri handar um fjærkjúkuliðinn og það er um að ræða stórt ör handarbaksmegin á miðkjúku baugfingurs, skekkju á fjærkjúkuliðnum þar sem opinn vinkill er til ölnar og aukinn fyrirferð á liðnum þar. Lófabungur eru að sjá eðlilegar og engar rýrnanir á lófabungum hvorki litla fingurs eða þumalsfingurs hægri eða vinstri handar. Styrkur handa við lófatak er góður. Hægri hendi er eðlileg að öllu leyti. Þegar A er beðinn um að hnýta hnefa nær hann öllum fingrum vinstri handar inn í lófa nema löngutöng þar sem vantar fjærkjúkunar. Það eru eymsli við þreifingu yfir örina á miðkjúku baugfingursins. Það eru eymsli við bank á stúfenda löngutangar. Það er greinilega dofi á ölnar tauginni á baugfingri en eðlilegt skyn á löngutöng allri nema í bláendann á stúfnum. Háræðafylling er góð í baugfingri.
Nú eru mældir hreyfiferlar og er hægri hendi notuð sem samanburður og mældir eru hreyfiferlar allra liða baugfingurs og löngutangar hægri og vinstri handar.
|
Hægri |
Vinstri |
||
Langatöng |
Baugfingur |
Langatöng |
Baufingur |
|
Fjærkjúkuliður (DIP) |
|
|
|
|
Rétta |
0 |
0 |
- |
+10 |
Beygja |
50 |
70 |
- |
+20 |
Nærkjúkuliður (PIP) |
|
|
|
|
Rétta |
0 |
0 |
0 |
0 |
Beygja |
100 |
110 |
100 |
110 |
Grunnliður (MCP) |
|
|
|
|
Rétta |
-30 |
-20 |
-30 |
-20 |
Beygja |
100 |
100 |
100 |
100 |
Við beygju mót álagi koma fram verkir í öllum baugfingrinum en ekki í löngutöng.
Skoðun gefur því til kynna rétthentan einstakling með stúfhöggsáverka á vinstri hendi þar sem vantar fjærkjúku löngutangar. Það er þokkalega góður stúfendi og góður styrkur í fingrinum og þá er um að ræða fullstífaðan nánast fjærkjúkulið á baugfingri og dofa á ölnar hluta fingursins.“
Í útskýringu örorkumatstillögunnar segir svo:
„Varðandi löngutöngina er tilvísun beint í töflur Örorkunefndar kafli VII Ad, stúfhögg á löngutöng fjærkjúku 5%. Þetta fellur beint undir töflur.
Hvað varðar baugfingurinn vísast í töflurnar VII Ad, stífun á fjærkjúkulið baug- eða litla fingurs 2% og svo liður E, taugáverki á baugfingur önnur taugin 2% og því er áverki á baugfingur metinn til 4%.
Heildarmiski því eðlilega metinn til 9%.“
Í örorkumatsgerð C bæklunar- og handarskurðlæknis, dags. 3. desember 2020, segir svo um skoðun á kæranda 2. september 2020:
„Eðli áverka og kvartana samkvæmt, einskorðast líkamsskoðun við hendur tjónþola.
Hann kemur vel fyrir á matsfundi, er rólegur og yfirvegaður og gefur greinargóð svör við spurningum sem fyrir hann eru lagðar. Geðslag virðist eðlilegt.
Skoðun á úlnliðum er innan eðlilegra marka.
Skoðun á hægri hendi er innan eðlilegra marka og sömuleiðis skoðun á þumli, vísifingri og litlafingri í vinstri hendi.
Vinstri langatöng: Fingurinn styttri vegna stúfhöggs um fjærkjúkulið. Það eru óregluleg ör í stúfenda og fingurinn er aðeins þrútinn. Það eru þreifieymsli í stúfenda, sérstaklega tveir punktar, sveifarlægt og ölnarlægt. Það er klár tilhneiging til yfirréttu í nærkjúkulið vinstri löngutangar en hann beygir ágætlega um þann lið. Í stúfenda greinir tjónþoli á milli hvassra og sljórra áreita en tveggja punkta aðgreining er þar aukin eða 8 mm. Þar er viðkvæmni við snertingu.
Vinstri baugfingur: Þroti er um fjærkjúkulið fingursins og það er ör sem liggur frá miðri miðkjúku baklægt, fram fingurinn og niður ölnarlæga hlið fingursins inn á lófalæga hlið. Það eru þreifieymsli um fjærkjúkuliðinn og einnig í örinu, sérstaklega lófalægt. Fjærkjúkuliður er í beinni stöðu og þar er engin virk hreyfigeta en örlítil óvirk slík. Hreyfigeta um nærkjúkuliðinn er eðlileg. Við prófun á snertiskyni skilur tjónþoli eðlilega á milli hvassra og sljórra áreita sveifarlægt í gómfyllu fingursins en alls ekki ölnarlægt í gómfyllunni. Tveggja punkta aðgreining er 6 mm sveifarlægt í gómfyllunni en >15 mm ölnarlægt.
Þegar tjónþoli kreppir vinstri hnefa þá vantar 2,5 cm á að toppur löngutangar nái að húð í lófa og 2 cm á að gómur baugfingurs nái þannig á eðlilegan hátt í húð í lófa.
Gripkraftar handa, mældir með JAMAR(3), eru 66 kg hægra megin en 30 kg vinstra megin og breytir þar engu hvort mælt er á hefðbundinn hátt eða hvort mælt með afvegaleiðingu í ákveðnum takti.“
Í forsendum og niðurstöðum örorkumatsins segir meðal annars svo:
„Tjónþoli, sem er rétthentur, var X ára þegar hann lenti í umræddu slysi þann X. Hann var þá við vinnu sína er hann lenti með tvo fingur vinstri handar, löngutöng og baugfingur, í hjólsög þannig að alvarlegir áverkar hlutust af en hann hlaut enga aðra áverka við slysið.
Áverkum tjónþola er ítarlega lýst hér að framan og einnig meðferð. Í stuttu máli þurfti að gera stúfhögg um fjærkjúkulið vinstri löngutangar og kurlað brot í fjærhluta miðkjúku vinstri baugfingurs var rétt eftir föngum og fest með stálpinna. Tjónþoli var síðan með umbúðir með gipsspelku í nokkrar vikur en síðan með minni spelku um baugfingur. Hann stundaði sjálfsæfingar.
Tjónþoli ber umtalsverð merki um þessa áverka sem eru stúfhögg í fjærkjúkulið vinstri löngutangar og viðkvæmni í stúfendann. Þá er fjærkjúkuliður vinstri baugfingurs eiginlega fastur í beinni stöðu og þar eru umtalsverðar líkur á þróun slitgigtar, jafnvel í þeim mæli að grípa þurfi til frekari aðgerða svo sem staurliðsaðgerðar. Það er einnig verulegur dofi í gómfyllu vinstri baugfingurs og má segja að snertiskyn sé upphafið ölnarlægt í gómnum en skert sveifarlægt. Eins og fram kemur í fyrirliggjandi dagnótu aðgerðarlæknis er ekki loku fyrir það skotið að síðar muni þróast taugahnoð í stúfenda löngutangar og eymslastaðir við skoðun á matsfundi geta bent til þess að slík séu þegar í þróun þar. Taugahnoð og meðfylgjandi eymsli eru vissulega eðlileg viðbrögð taugar þegar hún fer í sundur en oft verður það að vandamáli sem meðhöndla þarf frekar og sú meðferð getur verið erfið og engan vegin hægt að fullyrða að hún leiði alltaf til betra ástands.
Ekkert hefur komið fram sem bent getur til þess að aðrir áverkar eða fyrra ástand eigi nokkurn þátt í ástandinu eins og það er í dag. Einkenni tjónþola eru ekki líkleg til að breytast neitt að ráði hér þannig að rakið verði til slyssins með þeim fyrirvara þó sem gerður er hér að framan varðandi slitgigt í fjærkjúkulið vinstri baugfingurs og hættu á myndun meðferðarkrefjandi taugahnoða í stúfenda vinstri löngutangar. Að virtum þessum fyrirvörum lít ég á einkennin sem varanleg og tel tímabært að meta afleiðingar slyssins. Fyrirliggjandi gögn gefa ekki tilefni til að líta svo á að andlegar afleiðingar séu slíkar að þær leiði sjálfstætt til mats á varanlegri læknisfræðilegri örorku.
Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku er stuðst við miskatöflur Örorkunefndar (janúar 2020). Varðandi áverka tjónþola má líta til liða VII.A.d.1.11 (missir á fjærkjúku löngutangar), VII.A.d.3.2.10 (staurliður í fjærkjúkulið baugfingurs í 10-40°) og hafa til hliðsjónar töflu varðandi mat á skerðingu á hreyfigetu á bls. 11 í miskatöflunum. Þá lít ég einnig til liðar VII.A.e.3.4.2 varðandi upphafið snertiskyn ölnarlægt í gómi baugfingurs og hef í huga að snertiskyn er skert sveifarlægt í fingrinum þótt það sé ekki upphafið. Tölur þessara liða er engan veginn hægt að leggja saman á hefðbundinn hátt og um þá samlagningu gildir heldur ekki hlutfallsreglan. Er þetta vegna þess að afleiðingar þessara aðgreindu áverka eru allar bundnar við sömu hönd og afleiðingar hvers áverka um sig magna upp áhrif afleiðinga annarra áverka. Matið verður því talsvert „að álitum“ en þó með hliðsjón af nefndum liðum og eins með það í huga að stúfhöggsgildi löngutangar er 10% og stúfhöggsgildi baugfingurs er 7%. Þessar tölur marka efri mörk matsins nema aðstæður séu mjög sérstakar.
Að öllu virtu tel ég varanlega læknisfræðilega örorku vegna afleiðinga umrædds slyss í heildina hæfilega metna 12% (tólf af hundraði).“
Ákvörðun slysaörorku samkvæmt þágildandi ákvæðum laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/ miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2020 og/eða eftir atvikum hliðsjónarrit taflnanna þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Fyrir liggur að kærandi fékk áverka á vinstri hönd og hlaut stúfhögg á löngutöng fjærkjúku. Þá er nánast stífun í fjærkjúkulið á baugfingri og dofi á ölnarhluta fingursins. Við skoðun er gripkraftur mældur 66 kg hægra megin en 30 kg vinstra megin. Ljóst er að áverkanir sem eru á sömu hönd magna upp skaðann. Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku er horft til liðar VII.A.d.1.11. í miskatöflunum vegna stúfhöggs á löngutöng fjærkjúku sem leiðir til 5% örorku. Vegna stífunar á fjærkjúkulið baugfingurs metur nefndin örorku kæranda með hliðsjón af lið VII.A.d.3.2.10. í miskatöflunum en samkvæmt þeim lið leiðir stífun fjærkjúkuliðar baug- eða litlafingurs í 10-40° til 2% örorku. Þá metur nefndin örorku vegna taugaáverka á ölnartaug 2% með vísan til liðar VII.A.e.3.4.2. Þá er horft með almennum sjónarmiðum á samlegðaráhrif með minnkuðum gripstyrk og þau metin til 3% örorku. Varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins í heild er því metin 12%.
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 10% varanlega læknisfræðilega örorku kæranda er því felld úr gildi. Varanleg læknisfræðileg örorka er ákvörðuð 12%.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 10% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem A, varð fyrir X, er felld úr gildi og varanleg læknisfræðileg örorka ákvörðuð 12%.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson