Hoppa yfir valmynd
25. maí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Breytt fyrirkomulag við mat á þörf fólks fyrir dvalar- eða hjúkrunarrými

Fyllt inn í umsókn
Fyllt inn í umsókn

Þann 1. júní næstkomandi tekur gildi breytt fyrirkomulag við mat á þörf fólks fyrir dvalar- eða hjúkrunarrými. Vistunarmatsnefndir dvalar- og hjúkrunarrýma verða sameinaðar og í þeirra stað verður ein nefnd í hverju heilbrigðisumdæmi; færni- og heilsumatsnefnd, sem metur þörf fólks fyrir þessi úrræði.  

Sameining nefndanna er gerð í samræmi við breytingu á lögum um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu sem Alþingi samþykkti 20. mars síðastliðinn. Markmið breytinganna er að auðvelda fólki að sækja um búsetu á dvalar- eða hjúkrunarheimili og jafnframt að einfalda stjórnsýsluna, enda fækkar þar með nefndum úr fjórtán í sjö. Breytingin felur einnig í sér að framvegis þarf að sækja um tímabundna hvíldarinnlögn til færni- og heilsumatsnefndar.

Nauðsynlegur undirbúningur að breyttu fyrirkomulagi er á lokastigi í velferðarráðuneytinu, meðal annars smíði reglugerðar um störf færni- og heilsumatsnefndanna sem taka til starfa um næstu mánaðamót. Við undirbúning breytinganna hefur ráðuneytið haft samráð við formenn fráfarandi vistunarmatsnefnda, Landspítala og fleiri hagsmunaaðila.

Embætti landlæknis fer með faglegt eftirlit með störfum matsnefndanna og hefur umsjón með rekstri, viðhaldi og þróun rafrænnar skrár um búsetu í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

Velferðarráðherra skipar færni- og heilsumatsnefnd í hverju heilbrigðisumdæmi. Nefndin skal skipuð lækni með sérmenntun í öldrunar- eða heimilislækningum eða langvinnum sjúkdómum, hjúkrunarfræðingi með þekkingu á öldrunarþjónustu eða hjúkrun langveikra og félagsráðgjafa, sálfræðingi eða öldrunarfræðingi með þekkingu á félagsþjónustu við aldraða eða langveikt fólk. Í fjölmennum heilbrigðisumdæmum er þó heimilt að skipa sex manns í færni- og heilsumatsnefnd, enda uppfylli nefndarmenn sömu menntunarskilyrði og í þriggja manna nefnd og jafnvægi milli sérþekkingarinnar sé það sama. Skipa skal varamenn sem uppfylla sömu menntunarskilyrði og aðalmenn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta