Hoppa yfir valmynd
12. október 2022 Utanríkisráðuneytið

Haustfundur hnattræna jafnréttissjóðsins í Reykjavík

Hópmynd af þátttakendum á haustfundinum. - mynd

Haustfundur hnattræna jafnréttissjóðsins, Global Equality Fund (GEF), fór fram í Safnahúsinu á Hverfisgötu í Reykjavík í síðustu viku. Fundinn sóttu mannréttindafrömuðir í málefnum hinsegin fólks víðs vegar að í heiminum ásamt fulltrúum sjóðsins, annarra framlagsríkja, og fulltrúum frjálsra félagasamtaka, bæði íslenskra og erlendra.

Þetta er í fyrsta sinn sem fundur á vegum sjóðsins fer fram á Íslandi og jafnframt fyrsti fundur sjóðsins í raunheimum eftir heimsfaraldur kórónuveirunnar.

Sjóðurinn beinir stuðningi sínum að mannréttindum hinsegin fólks. Að honum standa bæði einkaaðilar og opinberir aðilar sem eiga það sameiginlegt að vilja leggja sitt af mörkum til þessa málaflokks um heim allan. Ísland hefur styrkt sjóðinn frá árinu 2020 og ákveðið var að tvöfalda árleg framlög til sjóðsins fyrr á þessu ári með skuldbindingu um stuðning sem nemur um 26 milljónum króna fram til ársins 2025.

„Verkefnin sem sjóðurinn styður við eru meira áríðandi nú en nokkurn tímann áður vegna síaukinna árása á mannréttindi og síminnkandi athafnafrelsis frjálsra félagasamtaka um heim allan. Mismunun, ofbeldi og áreiti einkennir enn reynsluheim hinsegin fólks,“ sagði Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri. "Staðreyndin er sú að meira en þriðjungur af löndum heims glæpavæða sambönd samkynhneigðra en það er mikilvæg áminning um það að reisn, öryggi og frelsi eru ekki sjálfgefin gildi og krefjast því stöðugrar vöktunar,“ bætir hann við.

Ísland hefur á undanförnum árum lagt sérstaka áherslu á réttindi hinsegin fólks á vettvangi alþjóðastofnana, sérstaklega á þeim vettvangi þar sem Ísland hefur átt sæti, til dæmis í framkvæmdastjórn UNESCO og mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta